Endurgreiðslur

Í virðisaukaskattslögum er að finna ýmis sérákvæði um sérstakar endurgreiðslur virðisaukaskatts. Með sérstökum endurgreiðslum virðisaukaskatts er átt við aðrar endurgreiðslur skattsins en þær sem skattaðilar geta fengið ef innskattur þeirra er hærri en útskattur á tilteknu tímabili.

Ekki er hægt að sækja um sérstakar endurgreiðslur lengra aftur í tímann en sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist.

Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis

Allir vinna

Eigendum íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem þeir greiða af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Endurgreiðsluhlutfall er 60% en hefur tímabundið verið hækkað og heimild til endurgreiðslu útvíkkað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af efni eða vinnu stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá.

Nánari upplýsingar um endurgreiðslu VSK vegna íbúðarhúsnæðis
Upplýsingar um tímabundna hækkun endurgreiðslu VSK vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Verksmiðjuframleidd íbúðarhús

Þeim sem flytja inn verksmiðjuframleidd íbúðarhús eða framleiða þau í verksmiðju hér á landi er einnig endurgreiddur ákveðinn hluti virðisaukaskatts, allt eftir því á hvaða stigi húsið er afhent.

Endurgreiðslubeiðni vegna verksmiðjuframleiddra húsa skal senda ríkisskattstjóra á þar til gerðu eyðublaði (RSK 10.16).

Endurgreiðslur til byggingaraðila og VSK-skyldra

Þegar um virðisaukaskattsskyldan byggingaraðila er að ræða og hann byggir íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu má aðeins endurgreiða honum virðisaukaskatt vegna byggingarinnar hafi hann staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir sama tímabil og endurgreiðslubeiðni hans tekur til og skal endurgreiðslunni skuldajafnað á móti álögðum virðisaukaskatti sama tímabils.

Þeir sem rétt eiga á endurgreiðslu vegna íbúðarhúsnæðis, aðrir en byggingaraðilar sem eru virðisaukaskattsskyldir, skulu senda ríkisskattstjóra endurgreiðslubeiðni á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðu sína http://www.skattur.is/ og í kjölfarið skal senda ríkisskattstjóra frumrit þeirra reikninga sem sótt er um endurgreiðslu fyrir og greiðslustaðfestingar vegna þeirra. Vanti umsækjanda upplýsingar um veflykil til að komast inn á þjónustusíðuna er hægt að óska eftir að fá lykilinn sendan í heimabanka (eingöngu einstaklingar) eða á lögheimilisfang umsækjanda.

Endurgreiðslubeiðnir byggingaraðila vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði skal senda ríkisskattstjóra á þar til gerðu eyðublaði (RSK 10.17).

Endurgreiðslur til opinberra aðila

Ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau greiða af tilteknum aðföngum, svo sem sorphreinsun, ræstingu, snjómokstri, björgunarstörfum og öryggisgæslu, samræmdri neyðarsímsvörun og sérfræðiþjónustu.

Sótt er um endurgreiðslur á þar til gerðu eyðublaði (RSK 10.23).

Endurgreiðslur til erlendra fyrirtækja

Erlend fyrirtæki geta fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi við kaup á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar eða innflutning á vörum, þó ekki vörum og þjónustu til endursölu og endanlegrar neyslu hér á landi. Helstu skilyrði fyrir endurgreiðslu eru að:

  1. virðisaukaskattur varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis,
  2. starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi,
  3. um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum laga um virðisaukaskatt, og
  4. hið erlenda fyrirtæki hafi ekki haft með höndum skráða eða skráningarskylda starfsemi hér á landi á því tímabili sem beiðni tekur til.

Umsækjendur skulu sækja um endurgreiðslur á þar til gerðum eyðublöðum (RSK 10.29 og RSK 10.36).

Endurgreiðslur til erlendis búsettra

Aðilar búsettir erlendis geta fengið endurgreiddan hluta virðisaukaskatts af varningi sem þeir festa kaup á hér á landi. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni er að kaupandinn fari með varninginn úr landi innan þriggja mánaða frá kaupdegi og honum sé framvísað ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum hjá endurgreiðslufyrirtæki eða eftir atvikum tollyfirvöldum við brottför. Kaupverð vörunnar verður þó að vera minnst 6.000 kr. Aðilar, sem til þess hafa hlotið leyfi fjármálaráðuneytis, annast endurgreiðslur þessar, en tollstjóri annast svo uppgjör við endurgreiðsluaðilann.

Aðrar endurgreiðslur

Norræni fjárfestingabankinn, Evrópska einkaleyfastofan og Undirbúningsnefnd Stofnunar samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn geta fengið þann virðisaukaskatt endurgreiddan sem stofnanirnar hafa greitt vegna kaupa á vörum og þjónustu vegna starfsemi þeirra hér á landi. Sama gildir um virðisaukaskatt sem Landhelgisgæsla Íslands greiðir vegna kaupa á vörum og þjónustu fyrir öryggis- og varnarsvæði samkvæmt lögum nr. 34/2008. Þá er og endurgreiddur virðisaukaskattur vegna kaupa á varmadælum til upphitunar á íbúðarhúsnæði.

Fleiri sérstakar endurgreiðslutegundir eru til, en yfirleitt eru þær afgreiddar af öðrum en skattyfirvöldum og þess vegna ekki fjallað um þær hér. Sem dæmi má nefna endurgreiðslur til sendimanna erlendra ríkja, endurgreiðslur til rekstraraðila hópferðabifreiða vegna kaupa eða leigu á nýjum hópferðabifreiðum og vegna sölu hópferðabifreiða úr landi. Einnig má nefna endurgreiðslur vegna kaupa á tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarfélög fá að gjöf eða kaupa fyrir styrktarfé, endurgreiðslur til björgunarsveita vegna kaupa eða innflutnings á ökutækjum fyrir starfsemi þeirra og endurgreiðslur til sveitarfélaga og stofnana þeirra vegna tækja og búnaðar til brunavarna og mengunarvarna.

Ítarefni:

Hvar finn ég reglurnar?

Erlendis búsettir, endurgreiðslur – 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Erlendis búsettir, endurgreiðslur – reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis

Erlend fyrirtæki - endurgreiðslur – 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Erlend fyrirtæki - endurgreiðslur – reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja

Evrópska einkaleyfastofan, endurgreiðslur – reglur nr. 409/2009

Íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur – 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur – XV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur – reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði

Íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur – reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga

Norræni fjárfestingabankinn, endurgreiðslur – reglur nr. 165/2001

Rekstraraðilar hópferðabifreiða vegna kaupa eða leigu, endurgreiðslur – reglugerð nr. 686/2005, um tímabundna endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða

Rekstraraðilar hópferðabifreiða vegna sölu hópferðabifreiða úr landi, endurgreiðslur – reglugerð nr. 541/2001, um endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi

Sendimenn erlendra ríkja, endurgreiðslur – reglugerð nr. 470/1991, um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna húsnæðis – 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna húsnæðis – XV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna húsnæðis – reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna þjónustu – reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila

Undirbúningsnefnd Stofnunar samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, endurgreiðslur – reglur nr. 759/2011

Verksmiðjuframleidd íbúðarhús – III. kafli reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði

Eyðublöð

Erlend fyrirtæki - endurgreiðslur, umsókn - RSK 10.29

Erlend fyrirtæki - endurgreiðslur, umboð – RSK 10.36

Íbúðarhúsnæði, endurgreiðslur til byggingaraðila (sem skráður er á vsk-skrá) – RSK 10.17

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna húsnæðis, endurbætur og viðhald -  RSK 10.15

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna húsnæðis, nýbyggingar - RSK 10.14

Sveitarfélög, endurgreiðslur vegna þjónustu - RSK 10.23

Verksmiðjuframleidd íbúðarhús, endurgreiðslur - RSK 10.16  

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum