Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3418/2015

29.12.2016

Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. gegn íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 20. desember 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda.

Stefnandi krafðist aðallega ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar nr. 103/2015 og úrskurði ríkisskattstjóra dags. 20. desember 2013 um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012.  Til vara krafðist stefnandi að framangreindum úrskurðum yrði breytt þannig að frádráttarbær fjármagnskostnaður yrði hækkaður.

Í úrskurði ríkisskattstjóra var komist að þeirri niðurstöðu að lækka frádráttarbæran fjármagnskostnað stefnanda þar sem ekki hafi verið um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað.  Umræddur fjármagnskostnaður var tilkomin vegna kaupa Límonaðis ehf. á m.a. hlutabréfum í stefnanda (öfugur samruni).

Til stuðnings kröfum sínum vísaði stefnandi til þess að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfir til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess, þá hafi ríkisskattstjóri sýnt af sér tómlæti og réttmætar væntingar stefnanda eigi að leiða til þess að ógilda beri bæði úrskurð ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar.  Þá byggði stefnandi á því að tímafrestir til endurákvörðunar hafi verið liðnir, þ.e. vegna tekjuársins 2008.  Efnislega vísaði stefnandi til þess að samruni hans við Límonaði ehf. og fleiri félög hafi verið grundvallaður á rekstrarlegum ástæðum en ekki á grundvelli skattalegra sjónarmiða.

Stefndi, íslenska ríkið krafðist sýknu.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að ekki verði séð að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í máli stefnanda beri með einhverjum hætti merki um hlutdrægni.  Þá var ekki fallist á að ríkisskattstjóri hafi sýnt af sér tómlæti.  

Orðrétt segir svo í dóminum:

„Óumdeilt er að lán Límonaðis ehf. voru tekin í þágu eigenda þess félags til þess að greiða þáverandi eigendum stefnanda og Daníels Ólafssonar ehf. kaupverð hlutafjár í þeim félögum.  Verður því ekki talið að lántakan hafi varðað rekstur stefnanda eftir samruna hans við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf. og teljast vextir vegna hennar því ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar stefnanda ... “


Íslenska ríkið var samkvæmt framansögðu sýknað af kröfum stefnanda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum