Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4048/2014

19.4.2016

Db. Ragnhildar Skeoch gegn íslenska ríkinu.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 15. apríl 2016 var íslenska ríkið sýknað af kröfu stefnanda um ógildingu á ákvörðunum ríkisskattstjóra um álagningu viðbótarauðlegðarskatts tekjuárin 2010, 2011 og 2012.

Í málinu var deilt um hvort ákvæði laga um auðlegðarskatt færu í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að löggjafinn hafi verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði ráði skattlagningu, jafnvel þó slík ákvörðun feli í sér eignaskerðingu.  Skattlagning þurfi þó ávallt að vera byggð á almennum mælikvörðum og jafnræði.  Þá taldi dómurinn að það eitt að stefnandi hafi þurft að ráðstafa stórum hluta tekna sinna eins og þær voru á umræddum tekjuárum til greiðslu álagðra opinberra gjalda, þ.e. fjármagnstekjuskatts, auðlegðarskatts og viðbótarauðlegðarskatts leiði ekki eitt og sér til þess að lögin um auðlegðarskatt teljist fara í bága við 72., 76. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 726/2013, Guðrún Helga Lárusdóttir gegn íslenska ríkinu frá 10. apríl 2014.  Þá telur dómurinn að heildarskattbyrði beri að miða við sérhvert álagningarár og því hafi skattbyrði stefnanda verið nokkuð lægri en stefnandi heldur fram. 

Ennfremur kemur fram í dóminum að að teknu tilliti til markmiðs laganna um auðlegðarskatts, þ.e. að afla ríkinu tekna og til þess að draga úr fjárlagahalla, sem og þess að skatturinn  var tímabundinn og með háu fríeignarmarki verði ekki talið að álagningin brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Hlekkur á dóminn:
https://www.rsk.is/fagadilar/domar/domur-heradsdoms-reykjavikur-i-mali-nr-e-40-2015?CacheRefresh=1

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum