Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-529/2014

4.5.2015

Ágúst Jensson og Hrund Kristjánsdóttir gegn íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 20. apríl 2015 var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnenda. 

Í málinu var deilt um hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að endurákvarða opinber gjöld stefnenda vegna ársins 2008.  Stefnendur áttu einkahlutafélag sem þau ákváðu að skipta upp í tvö félög.  Áður en skiptin fóru fram seldu þau óstofnaða félagið og þá eign sem átti að tilheyra því félagi.  Ríkisskattstjóri taldi að skipting félagsins væri til málamynda, gengið hefði verið á svig við gagngjaldsskilyrði 52. gr. tekjuskattslaga og að samningur stefnenda við kaupendur félagsins hefði verið verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Embættið skattlagði því einkahlutafélagið um söluhagnað vegna hinnar seldu fasteignar og leit á þá afhendingu fjármuna sem runnu til hluthafanna sem þátt í arðgreiðslum til þeirra, sbr. 1. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga. Þar sem sú fjárhæð sem um ræddi rúmaðist ekki innan arðsúthlutunarheimilda þá var verulegur hluti andvirði eignarinnar skattlagður sem óheimilaður arður, sbr. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að stefnendur seldu allt hlutafé í því félagi sem þau höfðu í hyggju að stofna áður en skiptin hófust. Kaupendur félagsins höfðu áður en félagið var stofnað greitt um helming kaupverðsins.  Samningur aðilanna var þannig frekar samningur um kaup og sölu á fasteign en kaup og sölu á hlutabréfum.  Orðrétt segir í dóminum: „Hafi stefnendur, sem hluthafar í skipta félaginu, fengið afhent hlutabréf í viðtökufélaginu, Suðurlandsbraut 22 ehf., verður ekki annað séð en að það hafi aðeins verið að nafninu til enda átti Lyfjaver ehf. að hafa greitt kaupverð Suðurlandsbrautar 22 ehf. að fullu þegar það félag, og þar með hlutafé þess, var afhent Lyfjaveri.“

Þá kemst dómstóllinn að því að ekki skipti máli hvort það hafi verið einhver tengsl á milli einkahlutafélags stefnenda og kaupanda félagsins enda kaupandinn í raun „aukaleikari“ í skattamálinu.  Tengsl stefnenda og einkahlutafélags þeirra aftur á móti eru slík að 1. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga taka til þeirra.  Í dóminum kemur fram að tilgangurinn með skiptingu Línunnar ehf. í tvö félög hafi eingöngu verið til þess að klæða sölu fasteignar þess félags í þann búning að stefnendur væru að selja félag í sinni eigu. 

Í dómnum kom m.a. fram hvað varðar rökstuðning fyrir því að telja að um óheimilaðan arð hafi verið að ræða: „Þegar skiptingu Línunnar hafði, í skattaréttarlegu tilliti, verið vikið til hliðar leit ríkisskattstjóri svo á að stefnendur hefðu fengið í sínar hendur andvirði fasteignar Línunnar þegar samningurinn við Lyfjaver var gerður, 28. apríl 2007, sem var áður en hafist var handa við að skipta félaginu en því var ekki lokið fyrr en 30. júní 2007. Þar sem endurgjald fyrir fasteignina hafi verið afhent áður en hlutaféð var lækkað hafi ekki komið til greina að fara með hluta fjárins sem lækkun hlutafjár.   Með þessum rökum ríkisskattstjóra er fallist á það að ekki hafi verið forsendur til þess, í skattaréttarlegu tilliti, að fara með hluta þess fjár sem stefnendur fengu fyrir sölu á fasteigninni og var umfram lögmæta arðsúthlutun sem lækkun á hlutafé þótt hlutafé í Línunni hafi með skiptingu félagsins verið lækkað í reynd.“ 

Öllum málsástæðum stefnenda var hafnað og íslenska ríkið sýknað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum