Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 279/2014

17.10.2014

Birna Hrólfsdóttir og Einar Sveinsson gegn íslenska ríkinu

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 16. október 2014 var sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 staðfestur.

Í málinu var deilt um hvort áfrýjendur hefðu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga þannig að heimilt hefði verið að færa sölutap af hlutareign í erlendum lögaðila á móti söluhagnaði sem myndast hafði vegna sölu á hlutabréfum í íslenskum lögaðila.

Tilvitnað ákvæði tekjuskattslaga hefur að geyma fjögur skilyrði sem uppfylla þarf svo að nefndur frádráttur sé heimill

  1. að um sölu hafi verið að ræða
  2. að um sams konar eignir hafi verið að ræða
  3. að um tap hafi verið að ráða
  4. ráðstafanir hafi átt sér stað á sama ári.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hlutabréfaviðskipti séu í eðli sínu áhættufjárfesting og geti þannig haft í för með sér hagnað og tap hjá fjárfestinum og að viðskipti áfrýjenda með hlutabréfin í íslenska lögaðilanum hafi fallið undir að vera hlutabréfaviðskipti. Þeim bréfum hafi fylgt öll hefðbundin réttindi hluthafa í hlutafélagi.  Þau viðskipti sem áfrýjendur áttu með hlutabréf í erlenda lögaðilanum hafi ekki verið því marki brennd.

Samkvæmt skilmálum arðgreiðsluáætlunar erlenda félagsins. Þau bréf voru ekki skráð í kauphöll og ekki hæf til viðskipta nema að mjög takmörkuðu leyti. Áfrýjendur öðluðust kröfu á hendur félaginu til fyrirfram ákveðinnar arðgreiðslu í eitt skipti og voru bréfin sem slík verðlaus eftir arðgreiðsluna. Kaup áfrýjenda á umræddum bréfum fólu því ekki í sér hefðbundin hlutabréfaviðskipti með þeirri áhættu sem slíkum viðskiptum fylgir.

Var þannig fallist á það með stefnda að áfrýjendur hafi ekki í skilningi 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga keypt og selt sams konar eign og hlutabréfin í íslenska lögaðilanum voru. Þannig hafi skilyrði tilvitnaðs ákvæðis tekjuskattslaga ekki verið uppfyllt og niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum