Dómar

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4843/2010

1.11.2010

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 1. nóvember 2010 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Bjarka H. Diego sem lutu m.a. að ógildingu á úrskurði ríkisskattstjóra dags. 26. maí 2010 í máli stefnanda.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort að í samningum stefnanda, um kaup- og sölurétt á hlutabréfum sem hann gerði við vinnuveitanda sinn, fælist tiltekin útfærsla á kauprétti og að tekjur af þessum samningum bæri að skattleggja sem laun þegar söluréttur féll úr gildi.

Fram kemur í dóminum að ekki sé unnt að líta framhjá því að tilgangur þeirra samninga sem gerðir voru var sá að veita stefnanda kaupauka. Með samningunum hafi stefnandi komist í þá aðstöðu til að geta aflað sér tekna sem kynnu að myndast við mismun á verði hlutanna er sölurétturinn félli úr gildi, en áhætta hans vegna verðlækkunar var engin. Þá kemur fram í forsendum dómsins að ákvæði 1. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga eigi við um samninga stefnanda og vinnuveitanda hans. Í samningunum hafi þannig falist yfirfærsla á kauprétti sem sé sams konar þeim sem yrði til með kaupréttarsamningi. Af þeim sökum beri að skattleggja tekjurnar sem laun sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum