2016

Dómur Hæstaréttar Íslands, 3. mars 2016, í máli nr. 398/2015

14.4.2016

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Magnúsi Haukssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Bókhald. Skilorð.

M var sakfelldur fyrir brot gegn skattalögum með því að hafa í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti á nánar tilgreindum tímabilum. Þá var hann sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Voru brotin talin meiri háttar og varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var M gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga vegna hluta brotanna. Auk þess var tekið tillit til brotaferils M en hann hafði þrívegis áður hlotið dóma fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga og ýmsum ákvæðum skattalaga. Var refsing M ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var B gert að greiða 56.500.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi eins árs fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

 

Dómur Hæstaréttar 

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 28. maí 2015 og krefst þess að refsing kærða verði þyngd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði hefur þrívegis hlotið dóma fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmsum ákvæðum skattalaga, þar með talið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fyrsta dóminn hlaut ákærði 30. september 1998 fyrir brot framin á árunum 1994 og 1995, en með honum var ákærða gert að greiða 2.000.000 krónur í fésekt. Næst hlaut ákærði dóm 30. nóvember 2005 og loks 10. desember 2008. Með dóminum frá árinu 2005 var ákærði sakfelldur fyrir brot framin á árunum 2001 og 2002 og var refsing hans ákveðin sex mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Með dóminum frá árinu 2008 var ákærði sakfelldur fyrir brot framin á árunum 2002 og 2003. Í þeim dómi var honum gerður hegningarauki við dóminn frá árinu 2005 og var refsing hans ákveðin tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Auk skattalagabrota var hann með tveimur síðastnefndu dómunum sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

Samkvæmt hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn skatta- og bókhaldslögum vegna áranna 2006 til og með 2011, sem eru meiri háttar og varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Svo sem greinir í héraðsdómi ber að ákveða sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga refsingu vegna brota sem framin voru fyrir uppkvaðningu áðurgreinds dóms 10. desember 2008. Að því er varðar brot framin eftir það á skilorðstíma dómsins er þess að gæta að rannsókn vegna þeirra hófst ekki fyrr en að skilorðstíma liðnum. Verður skilorðsþáttur dómsins því ekki tekinn upp, sbr. gagnályktun frá 60. gr. almennra hegningarlaga. Þá getur dómurinn heldur ekki haft ítrekunaráhrif hvað varðar þá refsingu sem féll niður, sbr. 61. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ber aftur á móti að taka tillit til brotaferils ákærða sem hér hefur verið rakinn og spannar langt tímabil.

Fallist verður á þá niðurstöðu héraðsdóms að engu breyti um refsingu ákærða þótt ekki liggi fyrir gögn um hvað hann greiddi í virðisaukaskatt vegna starfsemi sinnar, en þann innskatt mátti að réttu lagi draga frá skattinum sem hann innheimti og stóð ekki skil á. Er þess þá að gæta að ákærði sjálfur hélt ekki þessum gögnum til haga, en sú vanræksla hans er liður í því bókhaldsbroti sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Þá getur heldur engu breytt um refsinguna þótt dregist hafi úr hömlu að ljúka gjaldþrotaskiptum á búi ákærða, en þau hófust með úrskurði 21. febrúar 1996 og lauk ekki fyrr en 18. maí 2006.

Samkvæmt öllu framansögðu og þegar litið er til þess að brot ákærða eru stórfelld þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af þeirri refsingu svo sem í dómsorði greinir. Jafnframt verður ákærða eftir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, með síðari breytingum, gert að greiða fésekt sem vegna eðlis brotanna og sakaferils hans verður ákveðin hærri en nemur lögbundnu lágmarki fésektar. Að öllu gættu er sektin hæfilega ákveðin 56.500.000 krónur til greiðslu innan fjögurra vikna frá dómsuppsögu en ella sæti hann vararefsingu eins og í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Ákærði, Magnús Hauksson, sæti fangelsi í níu mánuði. Fullnustu sex mánaða af refsingunni skal fresta og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Ákærði greiði 56.500.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 521.053 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.   

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum