2016

Dómur Hæstaréttar Íslands, 3. október 2016, í máli nr. 670/2016

3.10.2016

Mál nr. 670/2016

Héraðssaksóknari (Ásmunda B. Baldursdóttir settur saksóknari)

gegn

X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila um haldlagningu inneignar á nánar tilgreindum bankareikningi í hennar eigu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila um haldlagningu inneignar á nánar tilgreindum bankareikningi. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind haldlagning verði felld úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af hálfu sóknaraðila hefur því verið lýst yfir að fyrirhugað sé að taka ákvörðun um útgáfu ákæru innan mánaðar frá því skýrslutökum og rannsókn málsins lauk 23. september 2016. Að þessu gættu eru ekki næg efni til að fella úr gildi framangreinda haldlagningu þótt rannsókn málsins hafi tekið langan tíma. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur. 

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum