Aðrar skrár
Til viðbótar við skrár vegna skila á staðgreiðslu og virðisaukaskatti getur framteljandi þurft að tilkynna sig inn á skrár vegna annarra gjalda eða skatta. Fyrir sum gjöld þarf ekki að tilkynna sig inn á sérstaka skrá, aðeins skila viðeigandi gögnum með skattframtali. Það á t.d. við um búnaðargjald, tryggingagjald og markaðsgjald.
Fjármagnstekjuskattur
Þeir sem skyldir eru til að halda eftir og skila staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum þurfa að senda tilkynningu þar um til ríkisskattstjóra, sem halda skal skrá um skilaskylda aðila í fjármagnstekjuskatti.
Skylda til að skila staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum hvílir á lánastofnunum, verðbréfafyrirtækjum, verðbréfamiðlurum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum fjármálastofnunum, lögmönnum, löggiltum endurskoðendum og öðrum fjárvörsluaðilum sem hafa atvinnu af fjárvörslu, milligöngu eða innheimtu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra. Sjá nánar um fjármagnstekjur.
Ekki þarf að tilkynna félag inn á skrá vegna staðgreiðslu af arði þar sem skilaskyldan hvílir á öllum hlutafélögum og öðrum félögum með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna. Stofn til staðgreiðslu af arði er sú fjárhæð sem félag greiðir eða úthlutar í arð.
Gistináttaskattur
Allir þeir sem selja gistináttaeiningar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst. Skráningin er rafræn og gerð á þjónustusíðunni skattur.is. Formið er að finna í flipanum Samskipti, undir Allar umsóknir.
Við tilkynningu inn á stofnskrá gistináttaskatts skal skrá fjölda gistirýma sem í boði eru, sundurliðað eftir flokkum, svo sem fjölda húsa í útleigu eða fjölda herbergja í útleigu.
Við tilkynningu inn á stofnskrá skal gera grein fyrir hvenær gistináttaskattsskyld starfsemi hefst og tímabil starfseminnar innan ársins.
Orðsendingar
Þeir sem stunda atvinnurekstur og eru rétt skráðir hjá ríkisskattstjóra fá sendar orðsendingar í tölvupósti. Efni þeirra er einnig birt hér á vefnum. Dæmi um orðsendingar:
Launagreiðendur fá orðsendingar RSK 6.01. Þær hafa að geyma upplýsingar um skattkort og nýtingu persónuafsláttar, skattmat í staðgreiðslu, mat á hlunnindum, útfyllingu launamiða og ýmsa frádráttarliði.
Virðisaukaskattsskyldir aðilar fá orðsendingar RSK 11.14 um virðisaukaskatt. Þar er fjallað um lagabreytingar, skýrsluskil í tengslum við skattframtal og fleira.
Ítarefni
Annað
Bifreiðaskrá - Skattmat í staðgreiðslu - RSK 6.03
Leiðbeiningar og dæmi um skattframtali og einstök framtalseyðublöð - RSK 8.00
Reiknað endurgjald - Almennar skýringar og viðmiðunarreglur í staðgreiðslu - RSK 6.02
Virðisaukaskattur - leiðbeiningar og dæmi - RSK 11.19
Virðisaukaskattur - til minnis um ársskil - RSK 11.23