Bifreiðagjald

Reiknivél

Bifreiðagjald er skattur sem leggst á öll vélknúin ökutæki sem skráð eru hér á landi að uppfylltum skilyrðum sem listuð eru upp hér neðar (sjá Gjaldskylda og greiðsla bifreiðagjalds). Orkugjafi ökutækis skiptir ekki máli.

Eigendaskipti

Við eigendaskipti að bifreið er bifreiðagjald endurgreitt til seljanda í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu og flyst gjaldskylda jafnframt frá þeim tíma yfir á kaupanda vegna þess sem eftir er af gjaldtímabilinu, með eindaga 15 dögum síðar. Miðað er við skráða dagsetningu eigendaskipta í ökutækjaskrá Samgöngustofu.

Óheimilt er að skrá eigendaskipti að bifreið nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi verið greitt. Ef tilkynnt er um eigendaskipti án greiðslu bifreiðagjalds fara eigendaskipti í bið.

Með því að skrá inn dagsetningu eigendaskipta í reiknivél bifreiðagjalds er hægt að sjá skiptingu gjaldsins milli seljanda og kaupanda.

Gjaldskylda og greiðsla bifreiðagjalds

Greiða skal bifreiðagjald af vélknúnum ökutækjum sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Ökutækjum sem ætluð eru til fólks- eða vöruflutninga, á þremur hjólum og fleirum, eru a.m.k. 400 kg að eigin þyngd og hönnuð til hraðari aksturs en 30 km/klst.
 2. Ökutækjum sem draga önnur ökutæki og hönnuð eru til hraðari aksturs en 30 km/klst.
 3. Ökutækjum sem ætluð eru til fólks- eða vöruflutninga eða til að draga annað ökutæki og eru búin beltum og/eða stýrimeiðum/stýrihjólum og a.m.k. 400 kg að eigin þyngd.
 4. Bifhjólum sem hvorki telst bifreið né torfærutæki, eru aðallega ætlað til fólks- eða vöruflutninga, eru á tveimur hjólum eða fleiri, með eða án hliðarvagns og eru a.m.k. 400 kg að eigin þyngd.

Sá sem er skráður eigandi á gjalddaga ber ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Bifreiðagjald er greitt í hlutfalli við skráningartíma, en gjald fyrir nýskráða bifreið fellur í eindaga 15 dögum eftir nýskráningu.

Fjárhæð bifreiðagjalds

Bifreiðagjald miðast við skráða losun koltvísýrings (CO2) ökutækis, en hún er mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Tveir staðlar eru fyrir mælingu á losun koltvísýrings, annars vegar evrópska aksturslotan (NEDC) og hins vegar samræmda prófunaraðferðin (WLTP). Bifreiðagjald ökutækis, að eigin þyngd 3.500 kg. eða minna, skal vera 7.540 kr. á hverju gjaldtímabili. Fyrir ökutæki sem eru eingöngu með skráða losun koltvísýrings samkvæmt evrópsku aksturslotunni bætast við 158 kr. fyrir hvert gramm af skráðri losun koltvísýrings umfram 121 gr/km. Hafi koltvísýringslosunin verið skráð bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni bætast 130 kr. við fyrir hvert gramm af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni umfram 146 gr/km. Hafi koltvísýringslosunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni bætast 130 kr. við fyrir hvert gramm af skráðri koltvísýringslosun ökutækis samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni umfram 146 gr/km. Liggi upplýsingar um skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis ekki fyrir skal losun ökutækis samkvæmt evrópsku aksturslotunni ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi.

Bifreiðagjald ökutækis, að eigin þyngd meira en 3.500 kg, á hverju gjaldtímabili er 62.280 kr. að viðbættum 2,61 kr. fyrir hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækis umfram 3.500 kg. Bifreiðagjald ökutækis, að eigin þyngd meira en 3.500 kg, skal þó ekki vera hærra en 97.445 kr. á hverju gjaldtímabili.

Undanþágur frá greiðslu bifreiðagjalds

Bifreiðir sem uppfylla neðangreind skilyrði skulu undanþegnar bifreiðagjaldi:

 1. Bifreiðir í eigu þeirra sem njóta örorkubóta eða umönnunarbóta vegna örorku barna (þó einungis ein bifreið fyrir hvern rétthafa).
 2. Bifreiðir í eigu björgunarsveita.
 3. Bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.
 4. Bifreiðir sem eru með skráningarnúmer í innlögn hjá skráningaraðila og er bifreiðagjald fellt niður í hlutfalli við þann tíma sem númer eru í innlögn svo og ónýtar bifreiðir, sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.
 5. Bifreiðir sem tímabundið hafa verið fluttar úr landi. Framvísa ber útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi.
 6. Ökutæki sem framleidd eru og skráð með metan eða metanól sem aðalorkugjafa eða hefur verið breytt þannig að þau geti nýtt metan og breytingin hlotið vottun skoðunarstöðvar skulu greiða lágmarks bifreiðagjald.
 7. Ökutæki sem samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga eru knúin vetni eða rafhreyfli að öllu leyti skulu greiða lágmarks bifreiðagjald.

Gjaldtímabil, gjalddagar og eindagar

Gjaldtímabil eru tvö, 1. janúar til 30. júní og 1. júlí til 31. desember. Gjalddagi vegna fyrra tímabils er 1. janúar en 1. júlí vegna seinna tímabilsins. Eindagar eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert.

Álagning, innheimta og endurgreiðslur

Álagning og innheimta er í höndum Skattsins og annast hann jafnframt allar beiðnir um endurgreiðslur og leiðréttingar. Þeim sem njóta örorkubóta/umönnunarbóta og telja sig eiga rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds er bent á að fylla út eyðublað RSK 15.23. Eyðublaðið má senda útfyllt á netfangið trukkur@skatturinn.is eða koma með það útfyllt í næstu afgreiðslu Skattsins.

Kæruleið

Greiðanda bifreiðagjalds er heimilt að kæra til ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds innan 30 daga frá því að gjaldið var ákvarðað. Úrskurðir ríkisskattstjóra eru kæranlegir til yfirskattanefndar.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt um bifreiðagjald - lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald

Annað

 

Sýslumenn

Tryggingastofnun

Eyðublað RSK 15.23

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum