Takmörkuð skattskylda

Almennt

Menn sem búsettir eru erlendis en fá tekjur frá Íslandi eða eiga hér eignir geta borið takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Í því felst skylda til að greiða skatt af tekjum sem uppruna eiga hér á landi, án tillits til þeirra tekna sem þeir kunna að afla annars staðar á sama tíma eða sama almanaksári. Takmörkuð skattskylda byggir þannig á tengslum tekna og eigna við Ísland. Skattskyldan nær til ákveðinna tekna svo sem launa fyrir starf, hvers konar lífeyrisgreiðslna, tekna af sjálfstæðu starfi eða atvinnurekstri og eignatekna, þ.m.t. söluhagnaðar fasteigna.

Í tvísköttunarsamningum sem gerðir hafa verið við önnur ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna er að finna ýmis ákvæði sem valda því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattskyldar hér á landi, eru það ekki. Á það einnig við um tekjur sem eiga uppruna sinn hér á landi og kæmu samkvæmt almennum reglum landsréttar til skattlagningar hér. Því er mikilvægt að skoða viðeigandi tvísköttunarsamninga áður er ákvarðað er hvort umræddar tekjur komi til skattlagningar á Íslandi.

Sækja þarf um undanþágu til ríkisskattstjóra frá íslenskum skatti kveði tvísköttunarsamningur á um að erlenda ríkið eigi skattlagningarréttinn (RSK 5.42). Hægt er að sækja um endurgreiðslu á ofteknum skatti. Í þeim tilvikum ber að fylla út eyðublað RSK 5.43, auk RSK 5.42.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Takmörkuð skattskylda – 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattprósentur – 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Eyðublöð

Umsókn um undanþágu frá skattlagningu - RSK 5.42

Umsókn um endurgreiðslu á ofteknum skatti - RSK 5.43

Annað

Tvísköttunarsamningar

Spurt og svarað

Hvernig hefur það áhrif á skattana mína ef ég bý í Svíþjóð og er launþegi þar, en tek að mér minniháttar „freelance“ verkefni hér á Íslandi?

Ef þú býrð í ríki sem hefur tvísköttunarsamning við Ísland koma þessar tekjur ekki til skattlagningar hér á landi. Ef tekjur þínar hér á landi stafa eingöngu af sjálfstæðri starfsemi þinni hérlendis á ekki að standa skil á skattframtali.

Sækja þarf um undanþágu á eyðublaði RSK 5.42 og til hægðarauka er gott að skila inn umsókn tímanlega áður en vinna hefst. Að öðrum kosti á verkkaupi að halda eftir sköttum þegar greiðsla fer fram. Í þeim tilvikum yrði að sækja um undanþágu á eyðublaði RSK 5.42 og endurgreiðslu með eyðublaði RSK 5.43.

Eyðublöð

Á ég að borga útsvar á Íslandi ef ég bý erlendis og starfa eingöngu í stuttan tíma á Íslandi?

Já. Þeir sem eru heimilisfastir erlendis en starfa tímabundið á Íslandi eiga að greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna á tekjuárinu.

Ítarefni:

Skylda til greiðslu útsvars (takmörkuð skattskylda) – 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum