Spurt og svarað um virðisaukaskatt

Virðisaukaskattsskrá

Hvernig veit ég hvort starfsemi mín sé virðisaukaskattsskyld?

Meginreglan er að skattskylda virðisaukaskatts nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu, sem ekki er sérstaklega undanþegin virðisaukaskattsskyldu í lögunum.

Undir flipanum „Almennt“ er kafli sem ber heitið „Hvenær á ekki að innheimta virðisaukaskatt?“. Þar er umfjöllun um undanþágur frá þeirri meginreglu að leggja beri virðisaukaskatts á sölu vöru eða þjónustu. Ef enn sé vafi um virðisaukaskattsskyldu er hægt að senda fyrirspurn á skatturinn@skatturinn.is.

Hvernig skrái ég mig/félag á virðisaukaskattsskrá?

Skila ber eyðublaði RSK 5.02 til ríkisskattstjóra „Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár“ átta dögum áður en starfsemi hefst. Skila má undirrituðu eyðublaði sem viðhengi með tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is eða afhenda það á næstu starfsstöð ríkisskattstjóra.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Get ég skráð mig á virðisaukaskattsskrá þótt ég sé með veltu undir 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili?

Hægt er að sækja um skráningu þótt veltan sé undir fjárhæðarmörkum. Allir aðilar sem selja virðisaukaskattsskyldar vörur eða þjónustu þar sem samanlagðar tekjur af slíkri sölu eru að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem bera virðisaukaskatt er heimilt að skrá sig á virðisaukaskattsskrá. Þótt þetta skilyrði fyrir skráningu sé ekki uppfyllt er hægt að fá skráningu ef sýnt er fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.

Þeir sem kjósa að skrá sig ber skylda til að innheimta og skila virðisaukaskatti í ríkissjóð frá þeim tíma sem skráningin fer fram. Einnig er réttur til að draga frá innheimtum skatti, þann virðisaukaskatt sem greiddur er vegna starfseminnar (innskatt).

Þeir sem selja fyrir meira en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili og uppfylla framangreind skilyrði um hagnaðartilgang hafa þó ekki val um skráningu. Þeim ber skylda til þess að skrá sig.

Hvað tekur langan tíma að afgreiða tilkynningu um skráningu á virðisaukaskattsskrá?

Meginreglan er sú að tilkynningar um skráningu á virðisaukaskattsskrá eru afgreiddar innan átta daga frá móttöku þeirra. Afgreiðsla getur þó dregist af ýmsum ástæðum, s.s. ef ekki koma fram allar upplýsingar sem um er beðið á tilkynningareyðublaðinu eða ef ríkisskattstjóri telur þörf á sérstakri skoðun á forsendum skráningar. Gæta skal þess að viðeigandi reitir tilkynningareyðublaðsins séu rétt útfylltir.

Athugið að skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemin hefst.

Á tilkynningunni er beðið um upplýsingar um áætlaðar tekjur og kostnað, hvers vegna?

Grundvöllur skráningar á virðisaukaskattsskrá er annars vegar að starfsemin sé virðisaukaskattsskyld og hins vegar að tekjur af starfseminni sem ber virðisaukaskatt (útskatt) séu að jafnaði umfram gjöld, þ.e. þau gjöld sem bera frádráttarbæran virðisaukaskatt (innskatt). Þess vegna ber við skráningu á virðisaukaskattsskrá að gera grein fyrir væntum tekjum og gjöldum á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar (rekstaráætlun) til staðfestingar á rétti til skráningar.

Athugið að þó áætluð gjöld séu e.t.v. umfram tekjur á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar má eftir atvikum skrá aðila svonefndri fyrirframskráningu á virðisaukaskattsskrá, þ.e. ef það þykir ljóst að kostnaður sé í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.

Ég þarf að breyta tölvupóstfangi á skrá vegna tilkynninga vegna virðisaukaskatts, hvernig geri ég það?

Það er gert á þjónustuvef Skattsins (www.skattur.is). Ef ekki er búið að sameina veflyklana þarf að skrá sig inn með veflykli fyrir virðisaukaskatt. Þegar komið er inn á síðu viðkomandi skal velja flipann „Almennt“ og fara þar í „Mínar stillingar“ til að breyta tölvupóstfanginu.

Þjónustuvefur Skattsins

Ég/félagið er hætt virðisaukaskattsskyldri starfsemi, hvar afskrái ég mig/félagið?

Skila ber tilkynningu um lok starfsemi á eyðublaði RSK 5.04. Skila má eyðublaðinu sem viðhengi með tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is, eða afhenda það á næstu starfsstöð ríkisskattstjóra. Athugið að eyðublaðið þarf að vera undirritað.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Get ég flett upp VSK-númerum hjá ykkur?

Fletta má upp virðisaukaskattsnúmerum á vefsíðu ríkisskattstjóra, undir flipanum fyrirtækjaskrá.

Fyrirtækjaskrá

Uppgjörstímabil

Hvað ræður því hvaða skilamáta ég/félagið er í?

Meginreglan er sú að virðisaukaskatti skuli skilað á tveggja mánaða fresti. Hvert uppgjörstímabil virðisaukaskatts er þá tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

Aðili, sem selur virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á heilu almanaksári, getur eftir atvikum óskað eftir því við ríkisskattstjóra að nota almanaksár sem uppgjörstímabil á næsta almanaksári (ársskil). Sækja skal um ársskil til ríkisskattstjóra fyrir 15. febrúar vegna yfirstandandi almanaksárs. 

Uppgjör og skil á virðisaukaskatti

Má breyta skilamátanum eftir því hvað hentar hverju sinni (ársskil / 2ja mánaða skil)?

Nei, það er ekki heimilt að breyta skilamáta virðisaukaskatts eftir hentugleika.

Við skráningu á virðisaukaskattsskrá eru aðilar almennt skráðir í tveggja mánaða skil virðisaukaskatts.

Ef velta næstliðins árs hjá aðila í tveggja mánaða skilum er undir 4.000.000 kr. getur hann eftir atvikum óskað eftir að nota almanaksár sem uppgjörstímabil á næsta almanaksári. Sækja þarf um ársskil til ríkisskattstjóra fyrir 15. febrúar á því ári sem ársskilamátinn á að taka gildi.

Fari velta aðila sem notar almanaksár sem uppgjörstímabil yfir framangreind fjárhæðamörk, þ.e. 4.000.000 kr., skal hann skila virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils þegar velta hans náði umræddum fjárhæðamörkum þar sem telja skal fram veltu alls ársins ásamt samsvarandi útskatti, og innskatt. 

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Innskattur

Hvernig fer um virðisaukaskatt af aðföngum til persónulegra nota, t.d. matarkaup, rekstur bifreiða og fatnað, má leggja slík innkaup til grundvallar innskatti?

Nei. Það er með öllu óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum til persónulegra nota. Til innskatts má einungis telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem varða sölu á skattskyldum vörum og skattskyldri þjónustu. Því er t.d. ekki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða íbúðarhús og orlofsheimili, kaffistofu eða mötuneyti skattaðila og hvers konar fæðiskaup, nema fæðið sé endurselt og hlunnindi til eiganda eða starfsmanna. Ekki má heldur telja til innskatts öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða nema aðili hafi með höndum sölu eða leigu slíkra bifreiða eða hafa fengið sérstakt leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu.

Skiptir máli fyrir mig þótt ég kaupi vöru eða þjónustu af einhverjum sem ekki er á virðisaukaskattsskrá við útgáfu reiknings?

Já. Skilyrði innskattsfrádráttar er að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

Ég er í ársskilum á virðisaukaskatti en með óvenju mikinn innskatt á þessu tímabili, get ég fengið innskattinn strax?

Nei. Aðili í ársskilum skal skila skýrslu í síðasta lagi 5. febrúar vegna nýliðins árs og er skýrslan því fyrst afgreidd þá að lokinni skoðun. Fari velta þó yfir ársskilamörk fyrir uppgjörstímabil nóvember-desember ber að skila inn leiðréttingarskýrslu RSK 10.26. Þó er hægt er að sækja um 2ja mánaða skil ef reiknuð laun eða greidd laun á mánuði eru 200.000 kr. eða meira.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Skýrsluskil

Af hverju tekur lengri tíma að afgreiða skýrslu ef ég á inneign samkvæmt henni?

Þar sem skýrslan kveður á um inneign ber ríkisskattstjóra að rannsaka hana sérstaklega. Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins dags frá lokum skilafrests, þ.e. gjalddaga.

Athugið að vera kann að kallað verði eftir gögnum að baki skýrslunni, hreyfingalistum úr bókhaldi og afritum af helstu reikningum sem mynda innskatt. Hægt er að leggja þau fram strax við skil með því að hengja þau við viðkomandi skýrslu á þjónustuvef Skattsins (www.skattur.is). Þau gögn liggja þá fyrir ef þörf er á nánari skoðun á skýrslunni sem styttir afgreiðslutíma.

Þjónustuvefur Skattsins

Get ég fengið frest til þess að skila virðisaukaskattsskýrslu?

Nei, það er engin lagaheimild fyrir því. Skráningarskyldir aðilar skulu í síðasta lagi á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila skýrslu og greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann sem þeim ber að standa skil á samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Má ég skila virðisaukaskattsskýrslu og beiðni um leiðréttingu á pappír?

Nei. Skila skal virðisaukaskattsskýrslu rafrænt á þjónustuvef Skattsins (www.skattur.is) hvort sem er frumskýrslu eða leiðréttingu á fyrri skilum eða áætlun, allt þar til skilað hefur verið skattframtali fyrir viðkomandi rekstrarár.

Leiðréttingar og kæruleiðir

Þjónustuvefur Skattsins

Rafræn skilríki og veflyklar

Get ég notað sama veflykilinn fyrir allar skýrslur?

Sértækir lyklar eru nýttir vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Afrita má réttindi lykla til rafrænna skila á staðgreiðslu og virðisaukaskatti á aðallykil sem gerir aðila kleift að nota einn og sama lykilinn fyrir allar skýrslur. Afritun réttinda er framkvæmd á þjónustusíðunni www.skattur.is. Til þess þarf að skrá sig inn með kennitölu og aðalveflykli og velja síðuna „Veflyklar“. Þar birtast eftir atvikum tvö eða þrjú innsláttarsvæði, eitt merkt hverjum lykli. Þeir eru slegnir inn og smellt á tengilinn „Afrita réttindi“.

Til frekari upplýsinga vísast á umfjöllun ríkisskattstjóra um rafræn skilríki og veflykla.

Þjónustuvefur ríkisskattstjóra

Rafræn skilríki og veflyklar

Ég er í ársskilum í virðisaukaskatti en er kominn yfir veltumörkin, hvernig get ég skilað skýrslunni og komist í 2ja mánaða skil á virðisaukaskatti?

Farið er inn á þjónustuvef Skattsins. Þar undir „Vefskil“ og svo „Virðisaukaskattur“ er valið að skila skýrslu. Haka þarf við sérstakan reit sem yfirlýsingu um að velta hafi náð 4.000.000 kr.

Skýrslunni skal skilað á gjalddaga þess almenna tveggja mánaða uppgjörstímabils þegar velta aðilans náði ársskilamörkunum, 4.000.000 kr.

Athugið að skila ber virðisaukaskatti vegna þess tíma sem liðinn er af almanaksárinu til og með loka þess almenna uppgjörstímabils sem veltumarkinu var náð. Skilamátinn verður þá sjálfkrafa færður í tveggja mánaða skil og ber því að gera upp virðisaukaskatt á tveggja mánaða fresti eftir það.

Sé tilgreind velta lægri en framangreind fjárhæðamörk er ekki hægt að klára að skila skýrslunni.

Þjónustuvefur Skattsins

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Ég er í ársskilum á virðisaukaskatti en er kominn yfir veltumörkin, hvenær er gjalddagi á greiðslu vegna þessa?

Það er gjalddagi þess almenna uppgjörstímabils þegar veltumarkinu er náð, þ.e. þegar skattskyld velta er orðin innan almanaksársins 4.000.000 kr.

Almennu uppgjörstímabilin eru: janúar - febrúar, mars - apríl, maí - júní, júlí - ágúst, september - október og nóvember - desember. Gjalddagi er einum mánuði og fimm dögum eftir lok viðkomandi uppgjörstímabils.

Dæmi: 

Ef salan fer yfir veltumörk í mars mánuði er gjalddagi miðaður við uppgjörstímabilið mars -apríl, þ.e. 5. júní. Er þá greitt fyrir uppgjörstímabilin janúar - febrúar og mars - apríl í einu lagi samkvæmt einni skýrslu á gjalddaga síðara tímabilsins, 5. júní. 

Hvað gerist ef ég skila virðisaukaskattsskýrslu of seint?

Berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skal ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem hefur ekki verið skilað á réttum tíma. Gjald þetta er föst fjárhæð og er lagt á óháð veltu.

Hægt er að sækja um niðurfellingu gjaldsins ef gildar ástæður eru fyrir hendi, s.s. ef síðbúin skil stafa af bilun í bankakerfi eða af öðrum utanaðkomandi eða óviðráðanlegum ástæðum sem skattaðili ber ekki einn ábyrgð á.

Leiðréttingar

Virðisaukaskattsskýrslu var ekki skilað á réttum tíma og velta því áætluð, hvernig er hægt að gera leiðréttingu?

Hafi skattframtali ekki verið skilað skal senda inn leiðréttingu rafrænt á þjónustuvef Skattsins (www.skattur.is). Velja skal „Leiðrétta skýrslu“ í fellilista virðisaukaskatts undir vefskil. Áætlun má þar finna undir viðeigandi tímabili.

Hafi skattframtali verið skilað er ekki hægt að skila inn leiðréttingarskýrslum fyrir þau ár og þau uppgjörstímabil sem framtalið tekur til án þess að einnig sé óskað leiðréttingar á skattframtali til samræmis við leiðréttingar á virðisaukaskatti. Í þeim tilfellum þarf leiðréttingarskýrsla að berast með hinu leiðrétta framtali og verður hún tekin til afgreiðslu samhliða afgreiðslu á beiðni um breytingu á skattframtali.

Þjónustuvefur Skattsins

Ég gleymdi nokkrum reikningum sem hefðu átt að fara á síðasta uppgjörstímabil, má ég setja þá á næsta tímabil?

Meginreglan er sú að færa ber reikninga til bókar miðað við útgáfudag þeirra, þ.e. á því uppgjörstímabili sem dagsetning segir til um. Senda má inn beiðni um leiðréttingu fyrri skýrslu á þjónustuvef Skattsins. Taki leiðréttingin til fyrri ára ber að senda inn beiðni um breytingu með eyðublaðinu RSK 10.26 með skilum á skattframtali.

Þó er heimilt að leiðrétta vantalinn innskatt að hámarki 100.000 kr. með skilum á virðisaukaskattsskýrslu fyrir það uppgjörstímabil þegar það uppgötvast, þó ekki síðar en með skilum á skýrslu fyrir síðasta uppgjörstímabil viðkomandi rekstrarárs. Ekki er heimilt að fresta skilum á útskatti með sama hætti.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Ég skilaði inn leiðréttri skýrslu RSK 10.26 með skattframtali, hvenær afgreiðið þið þá skýrslu?

Afgreiðslutími á leiðréttingarskýrslum af þessum toga er ekki skilgreindur í lögum um virðisaukaskatt en þær eru hins vegar afgreiddar eins fljótt og verða má samkvæmt almennum málshraðareglum stjórnsýslulaga.

Fjölmargar slíkar skýrslur eða erindi af þessum toga berast árlega með skattframtölum næstliðins árs, flestar að liðnum kærufresti vegna álagningar virðisaukaskatts. Ef farið er fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt leiðréttingarskýrslu má hengja gögn við skýrsluna á þjónustuvef embættisins, www.skattur.is, svo sem hreyfingalista innskatts, útskatts, veltu og gjalda ásamt afritum af helstu reikningum sem liggja til grundvallar fjárhæðum á skýrslunni og kann það þá að flýta fyrir afgreiðslu skýrslunnar.

Þjónustuvefur Skattsins

Ég er búin/n að leiðrétta skýrslu rafrænt en krafa vegna áætlunar er enn í heimabanka, hvenær fellur hún út? Hvað eruð þið lengi að afgreiða leiðréttingu á skýrslu?

Sjálfvirk krafa myndast við fyrstu skil á virðisaukaskatti/áætlun virðisaukaskatts. Krafan er leiðrétt þegar ríkisskattstjóri fellst á leiðrétta skýrslu vegna uppgjörstímabilsins en þangað til stendur gildandi álagning og krafa. Kærur og erindi eru afgreidd í þeirri röð sem þau berast.

Greiðsla

Ég hef ekki fengið kröfu í heimabankann, á ég að bíða með að greiða?

Nei. Sé greiðsla ekki innt af hendi á gjalddaga sætir gjaldandi álagi, sem er 1% af vangreiddri fjárhæð fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga en verður þó eigi hærra en 10%. Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.

Innheimta virðisaukaskatts og eftir atvikum útgreiðsla er í höndum innheimtumanna ríkissjóðs sem eru ríkisskattstjóri og sýslumenn utan höfuðborgarsvæðisins. Greiðslu skal inna af hendi hjá innheimtumönnum sem geta veitt frekari upplýsingar um greiðslu virðisaukaskatts og bankareikninga.

Fyrirspurnir vegna innheimtu skulu sendar á netfangið innheimta@skatturinn.is, einnig má hafa samband við innheimtusvið ríkisskattstjóra í síma 442-1950.

Bankareikningar Skattsins

Bankareikningar sýslumanna

Af hverju þurfti ég að borga álag og dráttarvexti?

Sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma er lögbundið að aðili skuli sæta álagi til viðbótar álagningu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Álagið er 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Ef ekki er búið að greiða innan mánaðar frá gjalddaga bætast dráttarvextir við.

Hægt er að sækja um niðurfellingu álags, og mögulega dráttarvaxta, ef gildar ástæður eru fyrir hendi, s.s. ef síðbúin skil stafa af bilun í bankakerfi eða af öðrum utanaðkomandi eða óviðráðanlegum ástæðum sem skattaðili ber ekki einn ábyrgð á. Erindi eða kæra vegna niðurfellingu álags og vaxta má senda með tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is. Gæta ber þess í erindi að rekja ástæður ítarlega.

Getið þið veitt mér upplýsingar um skil mín á virðisaukaskatti fyrir tiltekið tímabil?

Nálgast má upplýsingar um innsendar virðisaukaskattsskýrslur þínar á þjónustuvef ríkisskattstjóra (www.skattur.is). Valinn er valmöguleikinn „Afrit skýrslna“ undir „Virðisaukaskattur“. Viðeigandi fulltrúi (framkvæmdastjóri eða prókúruhafi) getur einnig aflað upplýsinga á starfsstöðvum ríkisskattstjóra gegn framvísun persónuskilríkja.

Þjónustuvefur Skattsins

Vánúmer

Af hverju er VSK númer mitt ennþá vánúmer þótt ég sé búin að skila öllum skýrslum vegna áætlana?

Það er ekki nóg að skila virðisaukaskattsskýrslum heldur þarf virðisaukaskatturinn einnig að vera greiddur eða að lögð sé fram trygging fyrir greiðslu í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka. Að því búnu má senda beiðni með tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is um að nafnið verði fellt af lista ríkisskattstjóra yfir vánúmer.

Athugið að ef þú/félagið stundar enn virðisaukaskattsskylda starfsemi þarf að senda inn undirritaða beiðni um skráningu á virðisaukaskattsskrá að nýju á skatturinn@skatturinn.is á eyðublaði RSK 5.02.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Hvernig á að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé?

Mögulegt er að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé. Sækja þarf sérstaklega um.

Nánari upplýsingar um skilyrði og umsókn

Get ég fengið virðisaukaskatt endurgreiddan vegna framkvæmda við íbúðina mína/húsið mitt?

Já. Eigendum íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem þeir greiða af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Endurgreiðsluhlutfall er 35%.

Endurgreiðsluhlutfall hefur verið hærra undanfarin ár. Heimilt er að sækja um endurgreiðslu sex ár aftur í tímann og þá gildir það endurgreiðsluhlutfall sem gilti þegar verkið fór fram.

Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af efni eða vinnu stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá.

Sótt er um endurgreiðslu rafrænt á þjónustuvef ríkisskattstjóra (skattur.is). Innskráning er gerð með rafrænum skilríkjum eða veflykli. Undir flipanum „Samskipti“ eru tvenns konar form fyrir umsókn um endurgreiðslu á rafrænu formi, þ.e. RSK 10.18, sem er vegna endurbóta eða viðhalds á íbúðarhúsnæði, og RSK 10.19, sem er vegna nýbyggingar. Þegar umsókn hefur verið skilað rafrænt birtist móttökustaðfesting með númeri umsóknar.

Reikningar sem grundvalla beiðni um endurgreiðslu skal skanna inn og hengja við umsókn áður en umsókn er send ríkisskattstjóra. Vanti umsækjanda upplýsingar um hvernig komast á inn á þjónustusíðuna er hægt að lesa sér til um rafræn skilríki eða óska eftir að fá veflykil sendan í heimabanka eða á lögheimilisfang umsækjanda.

Þjónustuvefur Skattsins

Hvernig á byggingaraðili að skila endurgreiðslubeiðni vegna nýbyggingar, viðhalds eða endurbóta íbúðarhúsnæðis og hvenær er hún afgreidd (RSK 10.17)?

Endurgreiðslubeiðnir byggingaraðila vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði skal senda ríkisskattstjóra á eyðublaðinu RSK 10.17. Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir (janúar - febrúar, mars - apríl, o.s.frv.). Ársskilaaðilar í virðisaukaskatti skulu þó nota almanaksárið sem endurgreiðslutímabil. Skilafrestur vegna hvers endurgreiðslutímabils er til 15. dags næsta mánaðar eftir lok tímabilsins. Umsóknir sem berast eftir skilafrest eru afgreiddar með umsóknum þess tímabils sem þær berast á.

Þegar um virðisaukaskattsskyldan byggingaraðila er að ræða sem byggir íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu má aðeins endurgreiða honum virðisaukaskatt vegna byggingarinnar hafi hann staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir sama tímabil og endurgreiðslubeiðni hans tekur til. Endurgreiðslunni er þá skuldajafnað á móti álögðum virðisaukaskatti sama tímabils.

Getur erlent félag fengið endurgreiddan virðisaukaskatt sem það greiddi íslensku félagi vegna starfsemi sinnar erlendis?

Já. Erlend fyrirtæki geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hérlendis við kaup á vörum eða þjónustu eða við innflutning á vörum, þó ekki vörum og þjónustu til endursölu og endanlegrar neyslu hér á landi. Skilyrði endurgreiðslu eru …

  • …að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis
  • …að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi
  • …að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts.

Skila skal inn umsókn á eyðublaði RSK 10.29 ásamt frumriti reikninga sem beiðnin byggir á eða greiðsluskjölum úr tolli ásamt vottorði sem staðfestir atvinnurekstur umsækjanda erlendis eins og hann er skráður af viðeigandi yfirvaldi í heimalandi hans.

Einnig þarf að fylgja með umsókninni skriflegt umboð frá hinu erlenda félagi samkvæmt eyðublaðinu RSK 10.36 svo þú megir sækja um og taka við endurgreiðslu.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Ýmislegt

Má ég setja virðisaukaskatt á reikningana mína þótt ég sé ekki á virðisaukaskattsskrá?

Nei. Þeir sem undanþegnir eru skattskyldu mega hvorki tilgreina á reikningum sínum né gefa á annan hátt til kynna á þeim að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.

Athugið að þeir sem tilgreina á einhvern hátt á reikningum sínum, þrátt fyrir að vera undanþegnir, að virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð reikningsins skulu skila skattinum í ríkissjóð. Sama gildir um skattskylda aðila sem tilgreina á reikningum sínum of háan virðisaukaskatt eða innheimta virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld. Verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda fellur skilaskylda þessi niður.

Hver er munurinn á undanþeginni starfsemi og undanþeginni veltu?

Undanþegin starfsemi er sala á tiltekinni vinnu og þjónustu sem er ekki virðisaukaskattsskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, s.s. heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, íþróttastarfsemi o.fl. Þeir sem hafa með höndum slíka starfsemi eru ekki skráðir á virðisaukaskattsskrá og eiga ekki að innheimtu virðisaukaskatt af sölu í hinni undanþegnu starfsemi. Þeir fá heldur ekki endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum til starfseminnar í formi innskatts. Þetta á t.d. við um heilbrigðisþjónustu og akstur leigubifreiða. Eðli málsins samkvæmt er velta vegna undanþeginnar starfsemi ekki skráð á virðisaukaskattsskýrslu.

Með undanþeginni veltu er átt við söluveltu í starfsemi sem er í eðli sínu virðisaukaskattsskyld en við ákveðnar aðstæður verður veltan undanþegin virðisaukaskatti, þ.e.a.s. að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af sölunni. Þetta á t.d. við um útflutning, skipaviðgerðir o.fl. Þrátt fyrir að salan sé án skatts (útskatts) hefur skattaðili heimild til færslu innskatts vegna þeirrar veltu sem telst undanþegin virðisaukaskatti. Veltan er færð á virðisaukaskattsskýrslu sem undanþegin velta en hafa ber í huga að skráðir aðilar þurfa að geta lagt fram gögn sem sýna fram á að um undanþegna veltu sé að ræða, t.d. útflutningsskýrslu.

Ef aðili stundar hvoru tveggja virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti telst hann vera í því sem kallað er blönduð starfsemi.

Hvað er „blönduð starfsemi“?

Ef aðili stundar hvoru tveggja virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti telst hann vera í því sem kallað er blönduð starfsemi. Sá sem er í blandaðri starfsemi hefur heimild til að færa að fullu innskatt virðisaukaskatt vegna aðfanga sem eingöngu varða virðisaukaskattsskylda starfsemi en hann hefur engan innskattsrétt vegna virðisaukaskatts sem greiddur er vegna aðfanga sem eingöngu varða hina undanþegnu starfsemi. Ef um sameiginleg aðföng er að ræða, þ.e. aðföng sem varða hvoru tveggja skattskylda starfsemi og undanþegna, t.d. síma, bókhaldsþjónustu o.þ.h., er heimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt af slíkum kostnaði í sama hlutfalli og sala virðisaukaskattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) hvers reikningsárs er af heildarveltu ársins. Athugið að hver starfsemi um sig þarf að vera skýrt aðgreind í bókhaldi.

Hvernig lækka ég reiknuð laun/endurgjald þegar ég hef engar eða lágar tekjur í mánuðinum?

Það er hægt með því að senda ríkisskattstjóra tilkynningu um lækkunina á eyðublaði RSK 5.02 „Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár“.

Eyðublöð í virðisaukaskatti

Á eyðublaðinu skal gera grein fyrir breytingu reiknaðra launa og gera grein fyrir því í athugasemdum á hvaða forsendum það er gert. Athugið að ekki á að fella niður reiknað endurgjald vegna sumarleyfa eða orlofs.

Greiðslutímabil reiknaðs endurgjalds er hver almanaksmánuður og laun eru jafnaðarfjárhæð sem nemur tólfta hluta árlegs reiknaðs endurgjalds sem sjálfstæður atvinnurekandi reiknar sér. Þegar reiknað endurgjald er fellt niður staka mánuði getur sjálfstæður atvinnurekandi tapað réttindum t.a.m. hjá Fæðingarorlofssjóði, Vinnumálastofnun eða Sjúkratryggingum Íslands. Séu reiknuð laun lækkuð vegna fæðingarorlofs skal orlofstímabilið koma skýrt fram og hvort það sé að fullu eða að hluta. Endurgjaldið er þá fellt niður fyrir það tímabil og staðfesting send rekstraraðila og Fæðingarorlofssjóði.

Getur ríkisskattstjóri veitt mér upplýsingar um áhvílandi leiðréttingarkvöð á fasteign?

Nei. Embættið veitir ekki upplýsingar um áhvílandi virðisaukaskattskvaðir. Gjaldendum ber að haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti haft eftirlit með því að þeir leiðrétti innskatt sinn ef breyting verður á forsendum frádráttar innskatts af öflun varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. IV. kafla reglugerðar um innskatt.

Reglugerð um innskatt

Hvernig sæki ég um virðisaukaskattsvottorð?

Beiðni um vottorð skal skila inn á forminu RSK 14.10, sem er aðgengilegt á vef ríkisskattstjóra bæði á íslensku og ensku. Vottorðið kostar 2.500 kr. og koma greiðsluupplýsingar fram á eyðublaðinu. Afgreiðslutími vottorðsbeiðna er allt að 15 virkir dagar frá móttöku beiðni. Skila skal beiðni undirritaðri sem viðhengi með tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is eða má afhenda beiðnina á næstu starfsstöð ríkisskattstjóra.

Eyðublöð í virðisaukaskatti 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum