Leiðréttingarkvöð

Virðisaukaskattsskyldur aðili á rétt á innskatti vegna fjárfestinga í varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem mannvirkjum, vélum, tækjum, áhöldum, innréttingum og öðrum lausafjármunum. Forsenda fyrir þeim innskatti er að eignirnar séu nauðsynlegar vegna sölu á vörum og virðisaukaskattsskyldri vinnu og þjónustu. Innskattur vegna varanlegra rekstrarfjármuna er bundinn þeirri kvöð að breyting á notkun eignanna sem hefur í för með sér að skattaðilinn á minni eða engan frádráttarrétt innskatts leiðir til þess að aðilinn á að leiðrétta/bakfæra fenginn innskatt eftir ákveðnum reglum. Við þá leiðréttingu er tekið mið af verðbreytingum frá því færsla innskatts átti sér stað til þess tíma er breyting varð á notkun eignarinnar. Þessi leiðrétting er óháð því hvort um skyldubundna eða valkvæða skráningu á virðisaukaskattsskrá er að ræða.

Skattaðilum ber að halda utan um fjárhæð og eftirstöðvar leiðréttingarkvaðar og færa þá fjárhæð í ársreikninga.

Mannvirki

Leiðréttingarskylda innskatts kemur til ef síðari notkun virðisaukaskattsskylds aðila á mannvirki verður ekki talin varða sölu hans á vörum eða skattskyldri þjónustu á sama hátt og þegar frádráttur fór fram. Sala eignar, útleiga án virðisaukaskatts og notkun fyrir starfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld eru dæmi um aðstæður þar sem leiðrétta þarf innskatt.

Leiðréttingarskyldan tekur til innskatts af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endurbyggingar og endurbóta, svo og vegna viðgerða og viðhalds, enda sé samtals verðmæti þessara framkvæmda a.m.k. 500.000 kr. (án VSK) eftir að verðmætið hefur verið framreiknað samkvæmt byggingarvísitölu.

Kaupandi mannvirkis getur yfirtekið leiðréttingarkvöð með formlegum hætti, t.d. í kaupsamningi, ef hann er til þess bær. Seljanda ber að upplýsa ríkisskattstjóra um slíka yfirtöku.

Vélar, tæki o.fl.

Leiðréttingarskyldan tekur til véla, tækja, áhalda, innréttinga og annarra lausafjármuna sem rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, enda nemi kaupverð (stofnverð) einstakrar eignar eða eignasamstæðu a.m.k. kr. 250.000 (án VSK) eftir að stofnverð hefur verið framreiknað samkvæmt byggingarvísitölu. Breytt notkun slíkra tækja getur t.d. verið þegar eignir eru teknar til persónulegra nota.

VSK-bílar

Virðisaukaskattsskyldum aðila er heimilt að færa sem innskatt virðisaukaskatt af kaupum á ökutækjum til nota í starfseminni, öðrum en fólksbifreiðum sem ekki eru jafnframt torfærubifreiðar, þ.m.t. jeppum og skutbifreiðum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sé t.d. ætlunin að innskatta kaup á bifreið sem er undir 5 tonnum að þyngd þarf hún þar að auki að uppfylla önnur tiltekin skilyrði, þ.m.t. að bifreiðin sé eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og að hún sé á rauð/hvítum skráningarnúmerum.

Breyting á innskattsprósentu

Skattaðila er heimilt að leiðrétta til hækkunar innskatt vegna öflunar véla, tækja, áhalda, innréttinga og annarra lausafjármuna sem notaðir eru við blandaða starfsemi, ef hlutfall skattskyldra nota af heildarnotkun eykst um 10% eða meira frá því ári þegar eignarinnar var aflað. Ef hlutfall skattskyldrar notkunar lækkar um 10% eða meira frá því ári er eignarinnar var aflað skal aftur á móti leiðrétta innskatt til lækkunar.

Niðurfelling skyldu til leiðréttingar

Í vissum tilvikum fellur leiðréttingarskyldan niður, þ.e. þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna telst til skattskyldrar veltu, þegar eign er seld eða afhent vegna nauðungarsamninga eða þegar fasteign er leigð út og leigusali er skráður frjálsri skráningu. Ákvæði um leiðréttingarskyldu taka aftur gildi að loknum gildistíma frjálsrar skráningar.

Yfirtaka á leiðréttingarskyldu

Við kaup fasteignar getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðvar leiðréttingartímabils (sbr. næsta kafla) að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar. Seljanda ber að leiðrétta innskatt að því leyti sem frádráttarréttur kaupanda er minni en seljanda. Að öðru leyti fellur leiðréttingarskylda seljenda niður. Þegar um eigendaskipti fyrirtækis eða hluta þess er að ræða og eignaryfirfærslu á fasteign, vélum eða rekstrarfjármunum í því sambandi, getur kaupandi sem hefur minnst sama frádráttarrétt vegna rekstrarfjármunanna og seljandi hafði við öflun þeirra, yfirtekið alla leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva leiðréttingartímans. Sé frádráttarréttur kaupanda minni en seljanda, getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskylduna hlutfallslega. Skal seljandi þá standa skil á þeirri fjárhæð sem eftir verður.

Seljandi skal tilkynna ríkisskattstjóra um yfirtöku kaupanda á leiðréttingarskyldu með framlagningu yfirlýsingar kaupanda.

Leiðréttingartími og hlutfall leiðréttingar

Leiðrétta skal innskatt vegna öflunar lausafjármuna verði breyting á forsendum frádráttar á næstu fimm árum talið frá og með því ári þegar eignanna var aflað. Leiðrétta skal innskatt vegna framkvæmda við mannvirki verði breyting á forsendum frádráttar á næstu tuttugu árum talið frá og með því ári þegar framkvæmd fór fram. Hafi húsnæði í útleigu verið skráð frjálsri skráningu en hlé orðið á útleigu og eign staðið ónotuð í sex mánuði eða lengur telst sá tími ekki með þegar leiðréttingartíminn er reiknaður út.

Breytist notkun eignar í sama mánuði og frádráttur innskatts fer fram nær leiðréttingarskylda til allrar fjárhæðarinnar sem dregin var frá sem innskattur. Breytist notkun síðar skal framreikna frádreginn innskatt samkvæmt byggingarvísitölu.

Leiðrétta ber framreiknaðan innskatt á eftirfarandi hátt:

  • Vegna lausafjármuna er leiðréttingarskyldan 80% á næsta ári eftir því ári þegar innskattsfrádráttur fór fram, 60% á þar næsta ári og lækkar síðan um 20% árlega.

    Verði forsendubreyting á fyrsta almanaksári, um 96,67% á næsta tveggja mánaða almenna uppgjörstímabili eftir að eignar var aflað, um 93,34% á þarnæsta almenna uppgjörstímabili og lækkar síðan um 3,33% fyrir hvert almennt tveggja mánaða uppgjörstímabil til loka almanaksársins.

  • Vegna mannvirkja er leiðréttingarskyldan 95% á næsta ári eftir því ári þegar innskattsfrádráttur fór fram, 90% á þar næsta ári og lækkar síðan um 5% árlega. Verði forsendubreyting á fyrsta almanaksári, um 99,17% á næsta tveggja mánaða almenna uppgjörstímabili eftir að eignar var aflað, um 98,34% á þarnæsta almenna uppgjörstímabili og lækkar síðan um 0,83% fyrir hvert almennt tveggja mánaða uppgjörstímabil til loka almanaksársins.

Leiðréttingarfjárhæðina skal færa sem neikvæðan innskatt á innskattsreikning á því tímabili þegar leiðrétting á sér stað. Standa skal skil á leiðréttingunni á því uppgjörstímabili sem breyting á forsendum frádráttar verður.

Dæmi um útreikning á leiðréttingu innskatts

Skattaðili keypti virðisaukaskattsbifreið í mars 2014 og var kaupverð kr. 2.510.000, þar af var virðisaukaskattur kr. 510.000 sem færður var til innskatts í bókhaldi og á virðisaukaskattsskýrslu. Í janúar 2017 breytti eigandi notkun bifreiðarinnar þannig að hún var frá þeim tíma aðeins notuð að hluta í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Breytt not höfðu í för með sér að leiðrétta/bakfæra varð þann virðisaukaskatt sem áður hafði verið endurgreiddur úr ríkissjóði í formi innskatts á þeirri forsendu að bifreiðin yrði eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Framreikna varð færða innskattsfjárhæð miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá apríl 2014 (lok þess uppgjörstímabils þegar innskattur var færður) til febrúar 2017 (lok þess uppgjörstímabils þegar forsendubreyting varð). Miðað er við grunn byggingarvísitölu frá 2010:

Framreiknaður frádreginn innskattur reiknaðist á eftirfarandi hátt:
510.000 (frádreginn innskattur) * (130,3 (byggvtala febrúar 17) / 120,0 (byggvtala apríl. 14)) = 553.775

Leiðréttingarskyldan nam 40% af framreiknuðum frádregnum innskatti, þ.e. 20% fyrir hvort ár sem eftir var af 5 ára leiðréttingartímabilinu. Leiðréttingarfjárhæðin var því reiknuð á eftirfarandi hátt:
553.775 * 40% = 221.510

Hefði bifreiðin hins vegar verið keypt og innskattur færður í janúar 2016 og forsendubreyting orðið í maí sama ár þá hefði leiðréttingarhlutfallið verið 93,34% (100% - 2 x 3,33%) því verði forsendubreyting þegar á fyrsta ári lækkar leiðréttingarskyldan um 3,33% fyrir hvert tveggja mánaða uppgjörstímabil sem liðið er af árinu talið frá og með því tímabili er eignar var aflað fram til þess tveggja mánaða uppgjörstímabils þegar forsendubreyting verður; þ.e. janúar - febrúar og mars - apríl í þessu dæmi.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Breyting á innskattsprósentu – 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Mannvirki, leiðréttingarkvöð – 12.-15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Leiðréttingarskylda – 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Leiðréttingarskylda – IV. kafli reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Niðurfelling skyldu til leiðréttingar – 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Vélar, tæki o.fl., leiðréttingarkvöð – 12.-15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Yfirtaka á leiðréttingarskyldu – 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt

Annað

Mannvirki, leiðréttingarkvöð - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 30-31

VSK-bílar, leiðréttingarkvöð - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt, RSK 11.19, bls. 30

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum