Viðmið við skráningu firmaheita

Þessi umfjöllun er til að varpa ljósi á það hvaða viðmið eru höfð til grundvallar við mat á skráningarhæfi firmaheita og hvaða sjónarmið eru höfð í huga þegar metið er hvort firmaheiti sem sótt er um til skráningar, stangist á við annað sambærilegt firmaheiti og/eða skráð vörumerki. Einnig er haft hliðsjón af lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Fyrirtækjaskrá telur sig aðeins leiðbeinandi aðila í málum er varða firmaheiti.

Ákvarðanir fyrirtækjaskrár er hægt að kæra til menningar- og viðskiptaráðuneytisins en endanleg ákvörðun liggur ávallt hjá dómstólum landsins.

Almennt um viðmið við skráningu firmaheita

Fyrirtækjaskrá hefur tekið saman eftirfarandi samantekt um þau viðmið er skráin hefur til hliðsjónar varðandi firmanöfn. Lög um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 (lög um firmaskrá) er grundvallarlagaramminn sem starfað er eftir varðandi firmaheiti. Þar sem þessi málaflokkur er í stöðugri þróun, ekki síst með hliðsjón af stærra markaðssvæði sem helgast af auknum samskiptum milli landshluta og þjóða, auk þess sem tækninýjungar hafa haft veruleg áhrif á þetta réttarsvið, hafa viðmið fyrirtækjaskrár þróast og breyst nokkuð hin síðari ár eða áratug þrátt fyrir að lagaramminn sé sá sami. Hefur sú þróun verið samhliða öðrum lagabreytingum, t.d. varðandi fyrirtækjaskrá, vörumerki og neytendamál og með hliðsjón af dómum, úrskurðum og ákvörðunum er fallið hafa um firmaheiti, vörumerki og neytendamál.

Meðal breytinga sem átt hafa sér stað síðustu ár án þess að lögum um firmaskrá sé breytt er að núna er litið á Ísland sem eitt skráningarsvæði. Hér áður fyrr voru öll félög skráð í firmaskrá sýslumanna og voru firmaskrár sýslumanna ekki samkeyrðar. Kom því fyrir að sama firmaheitið væri skráð í mörgum sýslum. Eftir að skráning félaga færðist að mestu leyti á einn stað hjá fyrirtækjaskrá er litið á Ísland sem eitt skráningarsvæði enda er aðeins um eitt skráningarkerfi að ræða og er það í samræmi við lagabreytingar þar sem tekið er fram að halda eigi eina skrá og í samræmi við breytingu á viðskiptaháttum enda mun auðveldara að eiga viðskipti um allt land nú en áður. Með aukinni notkun tækninnar er landið orðið að einu umdæmi sem það var ekki áður fyrr, og því auðveldara að tryggja að sama firmaheiti eða of lík séu ekki skráð. Í því tilliti skiptir ekki máli hvert rekstrarform félags sé (ehf., hf., sf. o.s.frv.) heldur eingöngu nafn firmans.

Vert er að taka fram að viðmið sem þessi eru aðeins, líkt og orðið gefur til kynna, viðmið, en þau geta á engan hátt gripið öll þau tilvik sem komið geta upp varðandi firmaheiti. Það verður ávallt að meta firmaheiti einnig út frá starfsemi félaganna og hugsanlegri ruglingshættu við önnur firmanöfn og skiptir þá t.d. máli hvort félögin starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði eða hver tilgangur þeirra sé.

Meginregla um skráningu firmaheita

Firmanöfn skal greina skilmerkilega hvert frá öðru. Firmanafn félags má ekki fela í sér ættarnafn, firmanafn, sérnafn á fasteign eða vörumerki sem ekki tilheyrir félaginu, eða neitt það, sem valdið getur ruglingshættu í þessu sambandi. Firmanafn má ekki vera til þess fallið að gefa rangar upplýsingar eða villa um fyrir mönnum. Það má ekki gefa til kynna starfsemi, sem ekki er í tilgangi félagsins. Félag, sem í firmanafni sínu gefur til kynna ákveðna starfsemi, verður að breyta firmanafni sínu þegar það breytir tilgangi sínum og snýr sér að annarri starfsemi en þeirri sem firmanafnið ótvírætt bendir til. Firmanafn atvinnufyrirtækis má ekki hafa að geyma orð eða skammstöfun sem gefur til kynna annað form rekstrar en starfsemin hefur.

Skráningarstjóra, þ.e. fyrirtækjaskrá, ber að tryggja firmanöfnum sem besta réttarvernd, en í því felst ekki aðeins það, að óheimilt er að skrá sömu nöfn og þegar eru skráð, heldur skal einnig forðast að skrá firmanöfn sem eru svo lík áður skráðum firmanöfnum að sennilegt megi teljast að þau geti valdið ruglingshættu að mati skráningarstjóra.

Ef firmanafn verður til þannig að ekki verður séð að það sé sótt í hinn almenna orðaforða tungunnar, er litið á það sem uppfinningu þess sem skráir og öðlast þá slíkt nafn ríkari vernd gegn skráningu annarra og verður ekki skráð með neinum viðauka.

Almennt heiti

Í upphafi er skoðað hvort orð í firmaheiti séu almenn eða ekki. Teljist heiti vera almennt heiti er það grundvallarregla hjá fyrirtækjaskrá að ekki er unnt að banna öðrum notkun þess, svo framarlega að við það sé bætt einhverju heiti til aðgreiningar frá því sem þegar hefur verið skráð í skránna. Almennt heiti er svo dæmi sé tekið, verktaki, málari, arkitekt, kaffi, síld, fiskur, bíll, öll fuglanöfn, almenn staðarheiti, götuheiti, blómanöfn og almennt öll þau heiti sem finna má sem uppflettiorð í íslenskri orðabók. Íslenska orðabókin er því notuð sem viðmið um hvaða orð séu almenn enda eru það sérfræðingar um íslenska málnotkun sem setja saman íslensku orðabókina.

Hefur fyrirtækjaskrá í vafatilvikum leitað aðstoðar stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við skilgreiningu á almennu heiti. Gott dæmi um það sem telst vera almennt heiti í dag, en hefði verið talið sértækt heiti fyrir einum eða tveim áratugum síðan, er t.d. “gagnaveita”. Þannig heimilaði t.d. fyrirtækjaskrá skráningu á Gagnaveitu Skagafjarðar ehf. og síðar Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., en áður hafði Gagnaveitan ehf., verið til sem skráð firmaheiti eitt og sér.

Ef firmanafn verður til þannig að ekki verður séð að það sé sótt í hinn almenna orðaforða tungunnar, er litið á það sem uppfinningu þess sem skráir og öðlast þá slíkt nafn ríkari vernd gegn skráningu annarra og verður ekki skráð með neinum viðauka.

Í máli Umboðsmanns Alþingis nr. 3235/2001, var fjallað um heitið “pósthús”. Þar staðfestir Umboðsmaður Alþingis að hlutafélagaskrá er ekki stætt á að hafna skráningu félags á þeim forsendum að um almennt heiti sé að ræða sem skorti þá eiginleika að veita firmaeigandanum einkarétt til nafnsins. Í kjölfar þessa álits Umboðsmanns fór fyrirtækjaskrá að heimila skráningu slíkra almennra heita einna og sér, þannig að í dag er þannig leyft að skrá firmaheiti eins og Verktaki ehf., Fiskvinnsla ehf., Kjöt ehf. eða Stóll ehf., sem ekki var heimilað áður.

Samsetning almennra heita

Sá sem fengið hefur skráð firma sem myndað er úr tveimur almennum heitum, verður talinn hafa öðlast lögverndaðan rétt yfir þeirri samsetningu. Dæmi: Síld og Fiskur ehf. Ekki væri talið heimilt að snúa orðunum við og skrá “fiskur og síld”. Þetta er meginreglan. Þó verður ávallt að meta þetta einnig út frá starfsemi félaganna og hugsanlegri ruglingshættu og skiptir þá t.d. máli hvort félögin starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði

Nafn annars manns

Við mat á því hvort unnt sé að skrá firmaheiti í fyrirtækjaskrá þannig að ekki gangi gegn betri rétti annarra til nafnsins, ber ávallt að hafa í huga hina gullnu reglu sem er að finna í 1. mgr. 10. gr. firmalaga nr. 42/1903, sem segir að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þá segir einnig að ekki megi í firma nefna fyrirtæki er ekki standa í sambandi við atvinnuna.

Það hvað sé “nafn annars manns” er síðan túlkað út frá fyrirliggjandi dómum á þessu sviði, úrskurðum svo og öðrum lögskýringargögnum, þ.á.m. áliti Umboðsmanns Alþingis. Auk þess að fylgja firmalögum er höfð hliðsjón af lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, sérstaklega 12. gr. og lögum nr. 45/1997 um vörumerki, sérstaklega 4. gr. þeirra laga.

Það er skilgreiningaratriði að heiti verði talið hafa til að bera einhver þau sérkenni að veiti eiganda sínum einkarétt á notkun þess heitis.

Nöfn borga, kaupstaða, sveitarfélaga

Ekki er heimilt að skrá sem firmanafn, nafn á borg, kaupstað eða sveitarfélagi á Íslandi eitt og sér, t.d. Kópavogur ehf. eða Ólafsvík ehf., eða þekkt skammstöfun eins og RVK, þar sem bæjarfélögin teljast hafa einkarétt á notkun þessara heita, en heimilt er að nota þessi heiti með viðhengi í firmaheiti eins og t.d. Verkfræðistofa Akureyrar ehf.

Þó hefur ekki verið lagt bann við því að nota sem firmaheiti t.d. nafn á erlendum borgum, þar sem það verður ekki talið valda ruglingshættu þar sem um íslenskt fyrirtæki er að ræða, sem dæmi, Berlín ehf. Það kann þó að horfa öðruvísi við ef ætlunin er að félagið hafi aðalstarfsemi sína erlendis.

Íslensk og erlend heiti

Fyrirtækjaskrá leggur ekki lengur bann við því að menn noti erlend heiti í firmanafni sínu, en ekki er gengið eins langt í skilgreiningu á því hvað teljist vera almennt heiti í erlendu máli eins og íslensku. Þ.e. ef augljóst er að heiti er almennt t.d. í enskri tungu, sem dæmi “aviation”, “ice” o.fl. þá er öðrum heimilt að nota það heiti í sínu firmanafni með einhverri aðgreiningu. Þó er ekki lagt upp í eins mikla vinnu af hálfu fyrirtækjaskrár við að athuga hvort erlent heiti teljist almennt eða ekki.

Erlent aukheiti

Heimilt er að skrá erlent aukheiti, eins og það er orðað í hlutafélagalögum, hjá félagi. Oft er talað um hjáheiti félags, en á grundvelli laganna þarf hjáheiti að vera erlent heiti. Ekki er heimilt að skrá firma með erlendu heiti og íslensku hjáheiti. Heimildinni er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að félag noti óeðlilega þýðingu á heiti sínu sem getur bitnað á öðru félagi.

Erlent aukheiti skal vera sem beinust þýðing á íslenska nafni félagsins og getur félag einungis fengið skráð eitt firmanafn og eitt erlent aukheiti. Segja má að um þetta gildi svipuð hugsun og um samhengi tilgangs félags við firmaheiti þess, þ.e.a.s. að erlenda aukheitið má ekki gefa til kynna gerólíka starfsemi né firmaheiti félags.

Heiti þarf að samrýmast íslensku málkerfi

Samkvæmt 8. gr. firmalaganna, skal fyrirtæki bera nafn er samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara. Þetta gildir að sjálfsögðu að breyttu breytanda um erlend heiti, enda lögin komin til ára sinna, en fyrirtækjaskrá getur samkvæmt þessu ákvæði neitað skráningu á firmaheiti sem bersýnilega gengur gegn íslensku málkerfi, s.s. stafsetningu, orð- eða setningarfræði.

Fyrirtækjaskrá hefur á sl. árum og áratugum hins vegar verið að draga úr kröfum að þessu leiti, sérstaklega með hliðsjón af því að ekki eru lengur aðeins skráð íslensk firmaheiti í skránna. Það kemur þó alltaf upp öðru hvoru að neitað er um skráningu á heiti þar sem það verður talið brjóta það sterklega gegn íslensku málkerfi að ekki er talið unnt að heimila skráningu þess í opinberar skrár. Þannig má firmanafn ekki vera orðskrípi t.d. samsett úr mörgum samhljóðum eða sérhljóðum þannig að ekki sé hægt að bera það fram. Sem dæmi, Slkvk ehf., Móiivv ehf.

Skilgreining heita, eintala/fleirtala, með/án greini o.s.frv.

Heiti er talið það sama hvort sem það er í eintölu eða fleirtölu, með eða án greini. Þó getur fleirtala firmanafns eða beyging orðsins talist nýtt nafn ef það er mjög ólíkt að mati fyrirtækjaskrár bæði hljómfræðilega og sjónfræðilega, t.d. Önd ehf.- Endur ehf., Örk ehf.- Arkir ehf.

Á því hefur borið í auknum mæli í seinni tíð að menn freisti þess að finna aðrar orðmyndir af firmaheitum sem til eru skráð í nafnhætti, til að nefna firma sitt, þ.e.a.s. orð notuð sem nafnorð/sagnorð/lýsingarorð. Þetta þarf að metast í hverju tilviki, en oftast er það svo að heitin eru of lík og ruglingshætta of mikil til að unnt verði að leyfa skráningu sama heitis í annarri mynd. Dæmi um þetta er Flokkun ehf. og Flokka ehf.

Group” og “.is” og “.com” í heitum félaga

Fyrirtækjaskrá heimilar ekki lengur skráningu á firmaheitum sem hafa endinguna “group” nema sýnt sé að um samstæðufélag sé að ræða sem fari með eignarhald í öðrum dótturfélögum. Heitið “group” á eingöngu við sé um slíkt félag að ræða, eins og fram kemur um notkun heitisins í enskri þýðingu hlutafélagalaganna og því ekki heimilt að nota þetta heiti í firmaheiti félags sem ekki er þess eðlis.

Þá hefur fyrirtækjaskrá einnig tekið fyrir að skráð sé “.is” eða “.com”, o.s.frv., ending á firmaheiti, þar sem það er mat skrárinnar að þessi heiti gefa til kynna að um sé að ræða skráningu á léni, á sama hátt og t.d. viðhengið “ehf.” gefur til kynna að um einkahlutafélag sé að ræða. Þar sem aðrir aðilar sjá um skráningu léna telur fyrirtækjaskrá að slík heiti sé eigi unnt að skrá í fyrirtækjaskrá. Það getur og leitt til verulegs óhagræðis fyrir viðskiptalífið ef einn aðili er með skráð sama nafn á firma sínu sem annar aðili hefur áður fengið skráð sem lén og öfugt.

Starfsemi/tilgangur félags

Eins og segir í 1. mgr. 10. gr. firmalaga nr. 42/1903, má eigi halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefir verið gerð á henni. Þannig má nafn félags heldur ekki við stofnun þess, gefa til kynna starfsemi sem ekki stendur í neinu sambandi við fyrirtækið. Sem dæmi má nefna að fyrirtæki sem hefur fjárfestingar að meginstarfsemi mætti ekki nota heiti eins og “póstþjónusta” í firma sínu.

Við mat á ruglingshættu milli félaga, skiptir starfsemi eða tilgangur félags einnig mjög miklu máli við mat á því hvort heimila skuli skráningu tiltekins firmaheitis. Sérstaklega ef erfitt reynist að meta það út frá firmaheitinu einu saman.

Virðist það vera tilhneiging við úrlausn mála hjá öðrum opinberum stofnunum er fjalla um réttindi yfir firmaheiti eða vörumerki, eins og Neytendastofu, að líta æ meira til þjónustulíkingar félaga, þ.e. að meta ruglingshættu út frá starfsemi félaganna heldur en að horfa afmarkað á heitið eitt og sér.

Þegar metið er hvort tilgangur félags sé í samræmi við firmaheiti þess er meðal annars notast við íslensku orðabókina þar sem almenn orð eru skilgreind. T.d. er orðið veitingahús skilgreint sem „staður þar sem veitingar eru seldar og þeirra neytt (oftast með borðhaldi)“ – væri því ekki hægt að nota orðið veitingahús í firmaheiti félags ef tilgangur þess væri að starfrækja vefþjónustu.

Ekki er hægt að skrá tvö eins firmaheiti

Til að koma í veg fyrir ruglingshættu milli fyrirtækja og til að auka skýrleika í skráningu og þar af leiðandi öryggi gagnvart viðskiptalífinu, hinu opinbera og almenningi, er það nú óundanþæg regla hjá fyrirtækjaskrá að skrá ekki tvö nákvæmlega eins firmaheiti í skránna, jafnvel þótt eigandi firmans óskar eftir því. Hann þyrfti alltaf að bæta einhverju viðhengi við firmaheiti sitt til aðgreiningar frá því sem þegar hefur verið skráð. Rekstrarform félags (ehf., hf., sf. o.s.frv.) skiptir hér ekki máli, eingöngu nafn firmans.

Hliðsjón höfð af skráðum vörumerkjum

Fyrirtækjaskrá hefur hliðsjón af skráðum vörumerkjum líkt og Einkaleyfastofa hefur hliðsjón af skráðum firmaheitum. Vörumerkjaskrá greinist í marga flokka eftir starfsemi eða vöru og því getur sama vörumerki verið skráð á mismunandi eigendur eftir flokkum. Fyrirtækjaskrá er hins vegar bara ein skrá og verður sama firmaheiti bara skráð einu sinni í þá skrá. Meginreglur vörumerkis eru þær að eigandi vörumerkis njóti eingöngu verndar ef notkunin tekur til svipaðrar vöru eða þjónustu og er sama viðmið notað við skráningu í firmaskrá. Það þýðir að ef óskað er eftir skráningu firmaheitis sem ekki er til á firmaskrá, en er til í vörumerkjaskrá, þá eru skráningu aðeins hafnað ef tilgangur félagsins sé í samræmi við þann vörumerkjaflokk er merkið er skráð í. Sé flokkurinn mjög ólíkur tilgangi félagsins er skráning heimiluð.

Markaðsfesta fyrirtækis – almennt heiti

Jafnvel þótt heiti kunni að teljast almennt í íslensku máli, eða jafnvel erlendu, þá kann fyrirtæki þó að hafa aflað sér slíkrar markaðsfestu að öðrum verði ekki talið heimil notkun þess heitis í sínu firma. Þó verður að telja að firmaheitið þurfi að hafa í sér fólgin nægileg sérkenni þótt um almennt heiti yrði að öðru leyti talið að ræða. Hér mætti t.d. nefna Vífilfell hf. Þótt til væri örnefni með þessu nafni, og fyrirtæki væri með starfsemi við það fell, mætti það ekki kenna atvinnustarfsemi sína við það nafn. Það gæti leitt til ruglingshættu og yrði talið ganga gegn rétti eiganda firmaheitisins Vífilfell.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum