Fyrning skulda

Um fyrningu skulda gilda lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár og falla skattkröfur þar undir. Með beitingu ýmissa innheimtuúrræða geta innheimtumenn ríkissjóðs rofið fyrningu og þannig viðhaldið réttarvernd krafna sinna. Fyrning er meðal annars rofin með móttöku fjárnámsbeiðni hjá sýslumanni, með nauðungarsölubeiðni, beiðni um gjaldþrotaskipti, kröfulýsingu í þrotabú gjaldanda og með málsókn. Einnig er fyrning kröfu rofin með viðurkenningu gjaldanda en það getur gerst með greiðslu inn á kröfuna eða með undirritun greiðsluáætlunar. Greiðslur með skuldajöfnuði og launaafdrætti rjúfa hins vegar ekki fyrningu kröfu.

Réttaráhrif fyrningar eru þau að krafa nýtur ekki lengur lögverndar, hún er fallin niður vegna fyrningar. 

Fyrning skulda eftir lok gjaldþrotaskipta

Í desember 2010 tóku gildi breytingar á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felast í því að kröfur sem skuldari ber ábyrgð á eftir lok gjaldþrotaskipta fyrnast á tveimur árum frá lokum gjaldþrotaskipta. Áður var fyrningartíminn fjögur ár og gátu lánardrottnar slitið fyrningarfresti og  viðhaldið kröfum sínum með innheimtuaðgerðum. 

Meginreglan eftir lagabreytinguna er sú að fyrningu krafna verður ekki slitið á tveggja ára tímabilinu með innheimtuaðgerðum en lánardrottinn hefur heimild til að höfða mál á hendur skuldara og fá dóm um slit á fyrningu kröfu sinnar. Byrjar þá nýr fyrningarfrestur að líða. Skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar eru þau að kröfuhafi þarf að sýna fram á sérstaka hagsmuni af því að fyrningu verði slitið og að líklegt sé að unnt verði að fullnusta kröfu hans á hinum nýja fyrningartíma.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum