Samlagshlutafélög
Samlagshlutafélag er sú tegund samlagsfélaga þar sem einn eða fleiri félagsmenn (ábyrgðaraðilar) bera beina og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir félagsmenn (hluthafar), einn eða fleiri, bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli framlaga sem mynda hlutafé í félaginu. Ábyrgðaraðilar geta verið hluthafar en það er ekki skylt.
Við stofnun samlagshlutafélags gilda almennt sömu reglur og við stofnun hlutafélags, t.d. að lágmarkshlutafé sé 4.000.000 kr. og að stofnendur verði að vera tveir eða fleiri. Samþykktir samlagshlutafélaga eru þó frábrugðnar samþykktum almennra hlutafélaga því eftirfarandi atriði þurfa að koma fram í samþykktum samlagshlutafélaga:
- Nafn, kennitala, staða og heimilisfang ábyrgðaraðila,
- hvort ábyrgðaraðila sé skylt að leggja fram hlutafé og, ef svo er, hversu mikið,
- reglur um áhrif ábyrgðaraðila í málefnum félagsins og þátt hans í skiptingu hagnaðar og taps,
- hvort einhver félagsmanna njóti sérstakra réttinda eða skyldna í félaginu.
Samlagshlutafélög sem stunda fjárfestingarstarfsemi er einnig heimilt að ákveða að ábyrgðaraðili, einn eða fleiri sameiginlega, geti gegnt hlutverki stjórnar sé hún ekki kosin, svo og störfum framkvæmdastjóra eða falið öðrum það, og ritað firma félagsins.
Sé ábyrgðaraðili lögaðili kemur tiltekinn einstaklingur fram fyrir hönd hans. Því er mikilvægt að það komi fram í stofngögnum hver sé forsvarsmaður ábyrgðaraðila sé hann lögaðili.
Sé stjórn kosin skal ábyrgðaraðili ávallt eiga sæti í stjórn, sé ábyrgðaraðili lögaðili þarf hann að tilnefna einstakling í sinn stað.
Tilkynning um stofnun samlagshlutafélags
Fylgigögn með tilkynningu
- Samþykktir
- Stofnfundargerð
- Stofnsamningur
- Tilkynning um raunverulega eigendur - RSK 17.27 - Undirrituð af stjórnarmanni, framkvæmdastjóra eða prókúruhafa.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Sjá nánar um samlagshlutafélög í XX. kafla hlutafélagalaga