Endurgreiðsla virðisaukaskatts til erlendra aðila

Erlend fyrirtæki geta fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi við kaup á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar eða innflutning á vörum. 

Ekki er þó endurgreitt vegna kaupa á vöru og þjónustu til endursölu og/eða endanlegrar neyslu hér á landi.

Endur­greiðslu virðisaukaskatts er hvorki ætlað að leiða til tvískattlagningar né engrar skattlagningar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Skilgreining á erlendum aðila

Erlent fyrirtæki telst vera aðili sem stundar atvinnurekstur og hefur hvorki búsetu eða heimilisfesti né starfsstöð á Íslandi. Þó geta sum erlend fyrirtæki með starfsstöð hér á landi átt rétt til endurgreiðslu hafi starfsemi starfsstöðvarinnar ekki í för með sér skráningarskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Einnig geta erlend fyrirtæki sem skráð eru einfaldri skráningu (VOES) átt rétt á endurgreiðslu.

Umsókn

Sótt er um endurgreiðslur á eyðublaði RSK 10.29 og skal þeirri umsókn skilað með tölvupósti á tölvupóstfangið skatturinn@skatturinn.is

Skilyrði fyrir endurgreiðslu

  1. Virðisaukaskattur verður að vera vegna kaupa á vöru eða þjónustu hér á landi eða innflutnings á vörum hingað til lands. Þar með talin þjónusta í tengslum við innflutning á vöru til nota í atvinnustarfsemi sem erlent fyrirtæki hefur með höndum erlendis.
  2. Virðisaukaskattur má ekki vera vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem ætluð er til endursölu og endanlegrar neyslu hér á landi.
    Endurgreiðsla er þó heimil vegna kaupa erlends fyrirtækis á þjónustu undirverktaka hér á landi að því gefnu að virðisaukaskattur hafi verið greiddur í einu lagi af hinni skattskyldu vöru og þjónustu við tollafgreiðslu vörunnar.
    Dæmi: Kaup ferðaskrifstofu með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis á vöru eða þjónustu til endursölu og endanlegrar neyslu hér á landi.
  3. Hið erlenda fyrirtæki hafi ekki haft með höndum skráða eða skráningarskylda starfsemi hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt á því tímabili sem beiðni tekur til.
  4. Starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi.
  5. Um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum laga um virðisaukaskatt
  6. Seljandi vöru eða þjónustu hér á landi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.
  7. Fjárhæð virðisaukaskatts sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni, skal nema a.m.k. 75.000 kr. vegna hvers tveggja mánaða endurgreiðslutímabils. Þó er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt að fjárhæð 15.000 kr. eða meira ef umsókn varðar heilt almanaksár eða eftirstöðvar almanaksárs. Þessar fjárhæðir taka mið af vísitölu neysluverðs ársins 2019, þ.e. 473,3 stig.

Ekki er endurgreitt vegna:

  • Kaupa á matvöru
  • Hlunninda til eigenda eða starfsmanna
  • Risnu og gjafa
  • Kaup, leigu og reksturs fólksbifreiða. Á einnig við um skutbifreiðar (station), jeppa og sendi- og vörubifreiðar með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna sem ekki uppfylla ákvæði reglugerðar um innskatt.

Dæmi um starfsemi undanþegna virðisaukaskatti

  • Sjúkrahús
  • Menntastofnanir
  • Íþróttastarfsemi
  • Tryggingastarfsemi og fjármálastarfsemi.

Sjá nánar í lögum um virðisaukaskatt.

Gögn með umsókn

  1. Afrit sölureikninga, afrit annarra tekjuskráningargagna eða greiðsluskjala frá tollyfirvöldum þar sem fram kemur sá virðisaukaskattur sem umsækjandi hefur greitt.
    Athugið að gögn sem lögð eru til grundvallar umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatt skulu uppfylla öll skilyrði um form og efni samkvæmt ákvæðum reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu.
  2. Vottorð frá þar til bærum yfirvöldum í heimalandi umsækjanda þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum. Vottorð af þessu tagi gildir í eitt ár frá útgáfudegi og þarf ekki að senda nýtt vottorð við síðari umsókn innan gildistíma þess.
  3. Eftir atvikum önnur þau gögn sem ríkisskattstjóri telur nauðsynleg til að sannreyna fjárhæðir á endurgreiðslubeiðni.

Endurgreiðslutímabil og afgreiðsla umsókna

Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir; janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember. Endurgreiðslutímabil getur þó tekið til heils almanaksárs eða eftirstöðva almanaksárs.

Umsókn skal berast ríkisskattstjóra í síðasta lagi 15. dag næsta mánaðar eftir að endurgreiðslutímabili lýkur, sjá töflu:

TímabilSkiladagur umsóknar og gagnaAfgreiðslutími
janúar- febrúar15. mars31. maí
mars -apríl15. maí31. júlí
maí -júní15. júlí30. september
júlí - ágúst15. september30. nóvember
september - október15. nóvember31. janúar
nóvember - desember15. janúar31. mars
Almanaksárið15. janúar31. mars


Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests eru afgreiddar með umsóknum næsta endurgreiðslutímabils. Réttur til endurgreiðslu fellur niður ef beiðni um endurgreiðslu berst ríkisskattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

Umboð

Erlendu fyrirtæki er heimilt að fela umboðsmanni sínum að sækja um og veita viðtöku fyrir sína hönd endurgreiðslu virðisaukaskatts enda liggi fyrir að fyrirtækið hafi með ótvíræðum hætti veitt umboðsmanni sínum skriflegt umboð þar um.

Sé umboð veitt aðila búsettum erlendis, skal senda eyðublað RSK 10.36

Meðfylgjandi eyðublaðinu skal fylgja afrit vegabréfa eða annarra persónuskilríkja þess aðila.

Aðrar upplýsingar

Endurgreiðsla skal fara fram í íslenskum krónum. Ef fram kemur í umsókn ósk frá erlendu fyrirtæki um að endurgreiðsla verði færð á bankareikning í erlendum gjaldeyri skal sá dagur sem færslan er framkvæmd ráða viðmiðunargengi greiðslunnar. Áfallinn kostnaður vegna færslunnar skal dreginn frá endurgreiðslufjárhæð. Sé færsla framkvæmd í erlendum gjaldmiðli skal tilgreina á umsókn erlendan bankareikning, IBAN-númer, SWIFT-númer, eða önnur sambærileg auðkenni, og nafn og heimilisfang hinnar erlendu bankastofnunar.

Komi í ljós að endurgreiðsla hafi verið of há skal ríkisskattstjóri endurákvarða fjárhæð hennar.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Endurgreiðslur til erlendra aðila – 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Reglugerð um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. – reglugerð 194/1990.

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatt til erlendra fyrirtækja – reglugerð nr. 1243/2019

II. kafli reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila – reglugerð nr. 50/1993

9. gr. reglugerðar um innskatt, nr. 192/1993 - Reglugerð nr. 192/1993


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum