Tollmiðlarar
Starfsemi tollmiðlara
Tollmiðlara er heimilt að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda.
Starfsemi tollmiðlara er leyfisskyld. Í lögunum er gerður áskilnaður um hvaða skilyrði tollmiðlari þarf að uppfylla til að fá starfsleyfi. Ríkar kröfur eru gerðar til stjórnarmanna tollmiðlarafélags og daglegs stjórnanda, svo sem að þeir hafi óflekkað mannorð, séu búsettir á Íslandi eða í EES landi og hafi ekki hlotið dóm vegna brota á tollalögum o.fl.
Þjónusta tollmiðlara getur verið frá því að veita ráðgjöf um einföld atriði í tengslum við gerð tollskýrslna til þess að koma fram fyrir hönd inn - eða útflytjenda gagnvart tollyfirvöldum við tollskýrslugerð og greiðslu aðflutningsgjalda.
Tollmiðlara er heimilt að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda og hafa með höndum eftirtalda þjónustu í tengslum við tollafgreiðslu vöru:
- Ráðgjöf við gerð tollskjala, svo sem tollflokkun og útreikning aðflutningsgjalda.
- Tollskýrslugerð vegna inn- og útflutnings.
- Beiðni um tollafgreiðslu vöru.
- Greiðslu aðflutningsgjalda fyrir hönd innflytjanda.
Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis
Tollstjóri veitir starfsleyfi til tollmiðlunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:
- Umsækjandi skal vera lögaðili.
- Stjórnarmenn lögaðilans skulu vera a.m.k. tveir. Þeir skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þá mega stjórnarmenn ekki hafa gengist undir sátt eða hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða hlotið dóm fyrir fíkniefnabrot. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í ríki sem er aðili að öðrum hvorum áðurnefndra samninga. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem eru búsettir í öðrum ríkjum sömu undanþágu.
- Daglegur stjórnandi tollmiðlunar skal fullnægja skilyrðum sem nefnd eru hér að framan.
- Starfsmenn tollmiðlara, sem annast gerð tollskýrslna og samskipti við tollyfirvöld vegna þeirra, skulu hafa sótt sérstakt námskeið hjá Tollskóla ríkisins til þess að öðlast fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð vara, þar á meðal tollflokkun, tollskýrslugerð, meðferð ótollafgreiddra vara, ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda og upplýsingum sem veittar eru tollyfirvöldum, og reglum um greiðslufrest aðflutningsgjalda.
- Umsækjandi skal sýna fram á að stjórnun, innra eftirlit, bókhald og varsla gagna vegna starfseminnar verði með traustum hætti.
- Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg.
Tollstjóri heldur skrá yfir tollmiðlara.
Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja tollmiðlun, kalla sig tollmiðlara eða með öðrum hætti gefa til kynna að þau hafi hlotið viðurkenningu til að starfa sem tollmiðlari.
Tollstjóri vekur athygli á því að inn- og útflytjendum vöru er ekki skylt skv. tollalögum að nota þjónustu tollmiðlara. Hins vegar eru tollmiðliðar þjónustufyrirtæki með starfsleyfi til tollmiðlunar sem sérhæfa sig í tollafgreiðslu vörusendinga. Þjónusta tollmiðlara getur þar af leiðandi aukið skilvirkni tollafgreiðslu, aukið áreiðanleika gagna og hagkvæmni fyrir viðskiptavini tollmiðlara.
Eftirlit með tollmiðlurum
Tollmiðlarar lúta eftirliti Tollstjóra sem ber að tilkynna ráðherra um ætluð brot tollmiðlara á lögum þessum eða öðrum lögum sem varða tollmeðferð vöru.
Tollstjóri getur afturkallað starfsleyfi til tollmiðlunar uppfylli tollmiðlari ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar.
Skyldur tollmiðlara
Starfsmenn tollmiðlara skulu rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og halda lög og reglur sem lúta að starfi þeirra.
Verði tollmiðlari þess var að umbjóðandi hans leggi vísvitandi fyrir hann röng eða ófullnægjandi gögn skal hann þegar í stað tilkynna um það til tollstjóra.
Í tollalögum númer 88/2005 með síðari breytingum er hægt lesa nánar um ábyrgð, upplýsingaskyldu, gerð og varðveislu aðflutningsskjala, skyldu tollmiðlara til að aðstoða tollgæslu og fleira.
Leyfishafar
Eftirtaldir aðilar hafa leyfi til að starfrækja tollmiðlun:
Leyfishafi | Heimilisfang | Póstnúmer | Vefur |
---|---|---|---|
Blue Water Shipping A/S | Fellsmúli 26 | 108 Reykjavík | www.bws.net |
Cargo Express ehf | Köllunarklettsvegi 2 | 104 Reykjavík | www.cargoexpress.is |
DB Schenker AB, Útibú á Íslandi | Ármúla 8 | 108 Reykjavík | www.dbschenker.com |
DHL Express Iceland ehf | Skútuvogi 1d | 104 Reykjavík | www.dhl.is |
Eimskipafélag Íslands hf | Korngörðum 2 | 104 Reykjavík | www.eimskip.is |
Express ehf (UPS) | Byggingu 10 | 235 Reykjanesbær | www.express.is |
Flugfélag Íslands | Reykjavíkurflugvelli | 101 Reykjavík | www.flugfelag.is |
Flugleiðir-Frakt | Brautarholti 10-14 | 105 Reykjavík | www.icelandaircargo.is |
Fraktmiðlun ehf | Stórhöfða 32 | 110 Reykjavík | www.frakt.is |
Gámaþjónustan hf. | Berghellu 1 | 221 Hafnarfirði | www.gamar.is |
Global Cargo ehf | Fornubúðum 5 | 222 Hafnarfjörður | |
Iceco ehf | Keflavíkurflugvelli | 235 Keflavíkurflugvöllur | |
Icelandic Group | Borgartúni 27 | 105 Reykjavík | www.icelandic.is |
Icelogic | Borgartúni 25 | 105 Reykjavík | http://www.icelogic.is |
Icetransport ehf | Selhella 9 | 221 Hafnarfirði | www.icetransport.is |
Íslandspóstur hf Flutningsmiðlun TNT hraðsendingar | Stórhöfða 32/Norðurtanga 3 | 150 Reykjavík/Akureyri | www.postur.is |
Jónar Transport hf | Kjalarvogi 7-15 | 104 Reykjavík | www.jonar.is |
Samskip hf | Kjalarvogi 7-15 | 104 Reykjavík | www.samskip.is |
Smyril Line Ísland ehf. | Kletthálsi 1 | 108 Reykjavík | https://www.smyrilline.is |
Thor-Shipping | Selhella 13 | 221 Hafnarfjörður | www.thorship.is |
TVG-Zimsen | Korngörðum 2 | 104 Reykjavík | www.tvg.is |
Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi tollmiðlun ekki veitt þjónustu sem henni er heimilt samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.