Ferðaþjónusta

Reglur frá 1. janúar 2016

Almennt

Ferðaþjónusta og önnur ferðatengd þjónusta er almennt virðisaukaskattsskyld í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts, 24%, eða í lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts, 11%. Í einstaka tilvikum er ferðatengd þjónusta undanþegin virðisaukaskatti, svo sem sala á veiðileyfum í ár og vötn, sala á aðgangi að íþróttaviðburðum og að tónleikum. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir virðisaukaskatti af starfsemi sem tengist ferðaþjónustu en tekið skal fram að umfjöllunin er ekki tæmandi.

Sala á gistiþjónustu

Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er í lægra skatthlutfalli sem og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. 

Önnur gistiþjónusta

Önnur gistiþjónusta en útleiga hótel- og gistiherbergja og tjaldstæða er skattskyld í 11% skatthlutfalli þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Hér má nefna gistingu á einkaheimilum (þ.m.t. sveitabæjum) veiðihúsum, í sumarbústöðum, sumarbúðum og gistiskálum hvers konar. 

Hafi aðili að einhverju leyti með höndum sölu á gistingu til skemmri tíma en eins mánaðar, ber honum að innheimta 11% virðisaukaskatt af starfsemi sinni, enda sé hún í atvinnuskyni gerð. 

Hafi aðili hins vegar eingöngu með höndum leigu á húsnæði til lengri tíma en eins mánaðar, telst starfsemi hans til fasteignaleigu sem er undanþegin virðisaukaskatti, enda séu almenn skilyrði fasteignaleigu uppfyllt. Í þessu sambandi ber að nefna að aðstöðuleiga er virðisaukaskattsskyld þjónusta í 24% skatthlutfalli.

Sala á gistiþjónustu í blandaðri starfsemi

Almenna reglan er sú að hafi aðili að einhverju leyti með höndum sölu á annarri gistingu en hótel- og gistiherbergi eða tjaldstæði, til skemmri tíma en eins mánaðar, ber honum að innheimta 11% virðisaukaskatt af starfsemi sinni, enda sé hún í atvinnuskyni gerð. Aðili sem hefur með höndum fasteignaleigu í að minnsta sjö mánuði á tólf mánaða tímabili, en skattskylda gistiþjónustu í fimm mánuði eða skemur, getur haldið fasteignaleigunni utan við skattskyldusviðið, enda hafi hann ekki með höndum á sama tíma sölu á skattskyldri gistiþjónustu. Þannig geta t.d. eigendur einkaheimila, skóla og verbúða, sem selja skattskylda gistiþjónustu á sumrin, leigt út herbergi á veturna til lengri tíma en eins mánaðar án virðisaukaskatts enda hafi þeir ekki með höndum sölu á skattskyldri gistiþjónustu á sama tíma. 

Tjaldstæði

Útleiga tjaldstæða ber 11% virðisaukaskatt hvort sem leigt er til skemmri eða lengri tíma en eins mánaðar. Aðgangur að rafmagni, snyrtingu og sturtum á tjaldstæði telst hluti af gistiþjónustunni og því skattskyldur í sama skatthlutfalli, hvort sem sú þjónusta er innifalin í aðgangseyri að tjaldsvæði eða seld sérstaklega til gesta tjaldsvæðisins. Ef aðgangur að rafmagni, snyrtingu og sturtu er ekki í neinum tengslum við sölu á gistingu þá ber sú þjónusta 24,0% virðisaukaskatt.

Innskattur vegna gistiþjónustu

Almennar reglur gilda um frádrátt innskatts í virðisaukaskattsskyldri gistiþjónustu.

Selji aðili skattskylda gistiþjónustu í blandaðri starfsemi getur hann nýtt sér innskatt í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) er af heildarveltu ársins. Ef húsnæði er notað að hluta fyrir gistiþjónustu en að hluta til annarra nota þar sem engum frádráttarrétti er til að dreifa er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna aðkeyptrar vinnu við endurbætur, viðgerðir og viðhald að því leyti sem þessi vinna varðar beinlínis þann hluta húsnæðisins sem notaður er fyrir skattskyldan rekstur. Skilyrði er að seljandi vinnu eða þjónustu taki fram á sölureikningi sínum við hvaða hluta húsnæðisins hafi verið unnið. Ef slík vinna varðar ekki beinlínis ákveðinn hluta húsnæðisins er heimilt að reikna virðisaukaskatt til innskatts í sama hlutfalli og flatarmál þess hluta eignar sem notuð er vegna skattskyldrar starfsemi er af heildarflatarmáli eignarinnar.

Sá sem rekur gistiþjónustu í heimahúsi getur ekki talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varðar öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis nema að því er varðar sérgreindan hluta húsnæðisins þar sem starfsemin fer fram og ef það er notað að öllu leyti fyrir starfsemina. Ef aðili á engan innskattsrétt, eða einungis að hluta, getur hann sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað. Hins vegar getur hann talið til innskatts þau aðföng er sannarlega varða gistiþjónustu s.s. rúm, dýnur, sængurver o.fl.

Ef atvinnuhúsnæði (til gistiþjónustu) og íbúðarhúsnæði er í sömu byggingu verður skipting í þessa tvo flokka húsnæðis að liggja fyrir á formlegan hátt með skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands ef telja á aðföng vegna húsnæðisins til innskatts. Liggi slík skráning fyrir er skráðum aðila heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af byggingarframkvæmdum o.s.frv. við atvinnuhúsnæðið, enda noti hann það einungis fyrir skattskylda starfsemi sína og ekki á neinn hátt til íbúðar.

Verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna skattskyldrar starfsemi, t.d. ef aðili hættir með virðisaukaskattsskylda gististarfsemi, ber að leiðrétta áður fenginn innskatt af varanlegum rekstrarfjármunum eftir nánari reglum sem fram koma í reglugerð um innskatt.

Veitingaþjónusta – sala á matvörum

Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis, eins og skilgreint er í viðauka við lög um virðisaukaskatt, ber virðisaukaskatt í 11% skatthlutfalli. Sala veitingahúsa á tilreiddum mat og veisluþjónusta er einnig skattskyld í 11% skatthlutfalli, þ.m.t. sala áfengis og áfengra drykkja.

Aðstöðuleiga, t.d. fyrir veitingar og samkomur, er aftur á móti skattskyld í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts, 24%, og sama gildir um aðgangseyri að dansleik.

Innskattur vegna fæðissölu á einkaheimilum

Þeir sem selja gistingu á einkaheimilum (þ.á m. ferðaþjónustubændur) hafa að öllu jöfnu ekki með höndum sérstakt mötuneyti fyrir viðskiptavini sína heldur snæða þeir með heimilisfólkinu. Fæðissalan ber 11% virðisaukaskatt, útskatt, en í þessu sambandi gilda sérstakar reglur um innskattsfrádrátt þar sem miðað er við að hlutur aðfanga í hverri máltíð nemi 40% af útsöluverði máltíðar, án virðisaukaskatts. Með aðföngum er hér átt við keypt hráefni til matargerðar að viðbættum ýmsum rekstrarvörum í eldhúsi svo og öðrum kostnaði við matargerð, s.s. orku og húsnæðiskostnaði.  

Ef verð vöru eða þjónustu, sem fellur undir 11% skatthlutfallið, er gefið upp með virðisaukaskatti er virðisaukaskatturinn 9,91% af því verði sem kaupandi greiðir. Til að finna verð án virðisaukaskatts, þegar heildarverð er gefið upp, þarf því að margfalda fjárhæðina með 90,09%.

Dæmi:  Miðað er við að hver máltíð sé seld á 1.500 kr. með virðisaukaskatti og að 20 máltíðir séu seldar á tímabilinu.  

            Virðisaukaskattsskyld velta :

                        20 x 1.500 kr. = 30.000 kr. (með VSK.)

                        30.000 x 90,09% = 27.027 kr. (án VSK)

            Útskattur:

                        27.027 x 11% = 2.973 kr.

            Innskattur:

                        27.027 x 40% = 10.810 kr. (aðföng án VSK.)

                        10.810 x 11%= 1.189 kr.

            Skil:

                        2.973 kr. – 1.189 kr. = 1.784 kr.

 

Fólksflutningar innanlands

Almenningssamgöngur eru undanþegnar virðisaukaskatti. Undanþágan nær einnig til skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks, skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra, skipulagðs flutnings skólabarna, sjúkraflutninga og aksturs leigubifreiða. Að því leyti sem fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti nær undanþágan einnig til farangurs farþega og flutnings ökutækja sem er í beinum tengslum við flutning farþega. Til farangurs í þessu sambandi teljast m.a. reiðhjól og hjólastólar.

Aðrir fólksflutningar en að framan greinir eru skattskyldir í lægra skatthlutfalli, þ.m.t. ýmiss konar skipulagðar hópferðir undir leiðsögn í afþreyingarskyni, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fjórhjólaferðir, hvalaskoðunarferðir, sjóstangaveiðiferðir og útsýnisferðir.

Skattskyldan í hinu lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts gildir einnig um farangur farþega og afnot af búnaði sem skipuleggjandi ferðar leggur farþegum til í ýmiss konar skipulagðar hópferðir undir leiðsögn í afþreyingarskyni. Það telst aftur á móti til skattsskyldrar lausafjárleigu í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts ef annar en skipuleggjandi farar leggur farþega til búnað og fararskjóta í ferðina og ef afnotarétturinn takmarkast ekki að öllu leyti við hana.

Fólksflutningar milli landa

Þegar um er að ræða fólksflutninga milli landa er veltan vegna þeirra fólksflutninga undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. veltan er sérstaklega undanþegin þótt þjónustan sem slík falli ekki undir framangreinda undanþágu. Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af slíkum fólksflutningum. Í þeim tilvikum nýtur söluaðili engu að síður frádráttarréttar í formi innskatts af aðföngum sínum ólíkt því sem á við um almenningssamgöngur.

Þjónusta leiðsögumanna

Ferðaleiðsögn er í lægra skatthlutfalli 11%, þ.m.t. þjónusta sjálfstæðra leiðsögumanna í atvinnuskyni og skiptir ekki máli hvort þeir selji þjónustu sína til aðila sem hafa með höndum starfsemi undanþegna virðisaukaskatti eða til aðila sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

Þjónusta bifreiðastjóra

Virðisaukaskattsskyld þjónusta bifreiðastjóra getur ýmist fallið undir 11% eða 24% skatthlutfall. Þjónustan getur á hinn bóginn einnig talist til undanþeginnar starfsemi.

Bifreiðastjóri á eigin bifreið

Selji bifreiðastjóri fólksflutninga á eigin bifreið til ferðaþjónustufyrirtækis í virðisaukaskattsskyldum fólksflutningum ber þjónusta hans 11% virðisaukaskatt.Selji bifreiðastjóri fólksflutninga á eigin bifreið til aðila í undanþegnum almenningssamgöngum ber þjónusta hans ekki virðisaukaskatt. Í þeim tilfellum sem aðili selur fólksflutninga hvorutveggja sem skattskylda og undanþegna telst hann vera í blandaðri starfsemi. Sjá hér neðar upplýsingar um blandaða sölu.

Bifreiðastjóri án eigin bifreiðar

Bifreiðastjóri án eigin bifreiðar telst selja akstursþjónustu sem ávallt ber 24% virðisaukaskatt. Ekki skiptir í því tilfelli máli hvort um sé að ræða virðisaukaskattsskylda eða undanþegna fólksflutninga í almenningssamgöngum.

Þjónusta leiðsögumanns og bifreiðastjóra hjá sama aðila

Selji aðili fólksflutninga og þjónustu leiðsögumanns á sama tíma fellur hvor þjónustan fyrir sig í 11% skatthlutfall og þarf því ekki sundurliðun á reikningi. Selji aðili á hinn bóginn samtímis akstursþjónustu, þ.e. þjónusta bifreiðastjóra án eigin bifreiðar sem fellur í 24% skatthlutfall virðisaukaskatts, og leiðsöguþjónustu, sem fellur í 11% skatthlutfall virðisaukaskatts, ber honum að sundurliða hvora þjónustuna fyrir sig á reikningi vilji hann halda leiðsöguþjónustunni í 11% skatthlutfalli. Komi engin sundurliðun fram á reikningnum ber aðilanum að leggja 24% virðisaukaskatt á alla þjónustuna.

Leiga lausafjármuna og bílaleiga

Bílaleiga er virðisaukaskattsskyld í hærra skatthlutfalli. Einnig er önnur leiga lausafjár í atvinnuskyni virðisaukaskattsskyld í sama hlutfalli, þ.m.t. hestaleiga, vélsleðaleiga og leiga á fjórhjólum þegar ekki er um að ræða leigu í tengslum við skipulagða ferð undir leiðsögn fararstjóra. 

Starfsemi ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga

Þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda er virðisaukaskattsskyld, þ.m.t. vegna milligöngu um viðskipti hér á landi, umboðs- og umsýsluviðskipta og til endursölu á vörum eða þjónustu hér á landi. Þá nær skattskyldan einnig til þóknunar ferðaskrifstofu vegna skipulagningar ferðar ferðamanns og fyrir að útvega honum t.d. farmiða, gistingu, mat og aðra ferðaþjónustu.

Skattskyldan tekur á sama hátt einnig til ferðafélaga vegna starfsemi sem þau hafa með höndum á starfssviði ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda, en starfsemi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda er leyfisskyld skv. lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.

Eingöngu sú þjónusta sem nýtt er innanlands er skattskyld og er skattskyldan óháð því hvort seljandi er innlendur eða erlendur aðili. Sala á þjónustu íslenskra ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda sem nýtt er utan Íslands telst til undanþeginnar veltu. Af slíkri sölu ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt, en heimilt er að færa virðisaukaskatt vegna kaupa á aðföngum sem innskatt.

Að því leyti sem þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda varðar fólksflutninga milli landa og vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands er um að ræða veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Þannig telst t.a.m. sala ferðaskrifstofu eða milliganga um sölu í hefðbundnar sólarlandaferðir til undanþeginnar veltu, þ.e. að ekki er innheimtur virðisaukaskattur af þjónustunni en ferðaskrifstofan nýtur engu að síður frádráttarréttar í formi innskatts af aðföngum vegna sölunnar. Aftur á móti getur ferðaskrifstofan ekki talið til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu þann virðisaukaskatt sem hún kann að greiða af kostnaði við aðföng sem fellur til erlendis.

Skattskyld velta í almennu skatthlutfalli (24%)

Þóknun ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga fellur undir hærra skatthlutfallið að því leyti sem hún er um milli­göngu viðskipta sem tilheyra því skatthlutfalli. Þannig fellur t.d. þóknun fyrir milli­göngu um leigu lausafjármuna án stjórnanda, svo sem bílaleigubíla, vélsleða og fjórhjóla, undir hærra skatthlutfallið. Sama gildir um umboðs- og umsýslusölu og endursölu á vöru og þjónustu sem fellur undir almenna skatthlutfallið. Rétt er að vekja athygli á að þegar um umboðs- eða umsýsluviðskipti er að ræða reiknast virðisaukaskattur af heildarandvirði hins selda.

Skattskyld velta í lægra skatthlutfalli (11%)

Þóknun ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga fyrir milligöngu um sölu eða afhendingu á vörum og þjónustu sem fellur undir lægra skatthlutfall virðisaukaskatts ber virðisaukaskatt í sama hlutfalli. Á það t.d. við um milligöngu um sölu eða afhendingu á gistiþjónustu, veitingum, fólksflutningum og þjónustu baðstaða. Sama gildir um umboðs- og umsýslusölu og endursölu þessara aðila á vöru og þjónustu sem fellur undir hið lægra skatthlutfall. Gagnvart virðisaukaskatti skiptir því ekki máli hvort ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og ferðafélög kaupa og endurselja vöru eða þjónustu sem fellur undir lægra skatthlutfallið eða taka þóknun fyrir að koma á viðskiptum með slíka vöru eða þjónustu.

Þóknun fyrir milli­göngu um sölu á þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, t.d. um sölu veiðileyfa í ár og vötn og sölu að­göngumiða að íþróttakappleik eða að tónleikum, fellur einnig undir lægra skatthlutfallið. Er litið svo á að milliganga um kaup hinnar undanþegnu þjónustu geti ekki talist liður í þeirri þjónustu. Þar sem þjónusta ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga felst fyrst og fremst í milli­göngu um þjónustu sem fellur undir lægra skatthlutfallið er milliganga um þjónustu af þessum toga einnig felld undir sama skatthlutfall.

Endursala á undanþeginni þjónustu

Endursala ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda á þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti og umboðs- og umsýslusala þeirra á slíkri þjónustu er jafnframt undanþegin virðisaukaskatti og telst því hvorki til skattskyldrar veltu þeirra né til undanþeginnar veltu.  Aftur á móti er þóknun þeirra fyrir umboðs- og umsýslusölu undanþeginnar þjónustu skattskyld í lægra skatthlutfalli eins og að framan greinir. Ekki er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við aðföng sem varða sölu undanþeginnar þjónustu.

Baðhús, baðstaðir og gufuböð

Sala á aðgangi að baðstöðum, baðhúsum, gufubaðstofum og heilsulindum, sem falla ekki undir íþróttastarfsemi, er virðisaukaskattsskyld í lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts líkt og gildir um flestar atvinnugreinar sem teljast ríkur þáttur í ferðaþjónustu á Íslandi. Ef önnur virðisaukaskattsskyld starfsemi, sem fellur undir hið almenna skatthlutfall virðisaukaskatts, fer fram samhliða aðgangi að baðstað, svo sem hvers kyns snyrting, hefur það ekki þau áhrif að sala á snyrtingunni færist í lægra hlutfall virðisaukaskatts.

Aðgangur að baðaðstöðu í hefðbundnum íþróttamannvirkjum, svo sem í sundlaugum og í líkamsræktarstöðvum er aftur á móti undanþeginn virðisaukaskatti.

Skráning á virðisaukaskattsskrá

Sérhver skattskyldur aðili skal tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína eða atvinnurekstur til skráningar á virðisaukaskattsskrá, eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst. Hafi erlent fyrirtæki, t.d. ferðaskrifstofa eða fólksflutningafyrirtæki, sem rekur hér skattskylda starfsemi ekki fasta starfsstöð hérlendis ber því að fela umboðsmanni með heimilisfesti hér á landi að vera í fyrirsvari fyrir sig, þ.m.t. að tilkynna um starfsemina til ríkisskattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af starfseminni og skila í ríkissjóð.

Ríkisskattstjóri færir aðila á virðisaukaskattsskrá, úthlutar skráningarnúmeri (VSK-númeri) og gefur út staðfestingu á að skráning hafi átt sér stað. Breytingar sem verða á starfsemi fyrirtækis eftir skráningu skal tilkynna til ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum eftir breytinguna.

Nánari upplýsingar um skráningu á VSK-skrá

Annað

Gistináttaskattur

Greiða skal í ríkissjóð gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu. Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt.  Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldsvæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.

Gistináttaskattur er 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu (hækkaði úr 100 kr. í 300 kr. hinn 1. september 2017).  Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts.

Ekki skal leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Staðgreiðsla/reiknað endurgjald

Þeir sem hefja atvinnurekstur skulu tilkynna um það til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Launagreiðendum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum eigin launum og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi.

Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja.  

Nánar er fjallað um þetta í kafla um atvinnurekstur/staðgreiðslu og reiknað endurgjald.

Bókhald og tekjuskráning

Öllum bókhaldsskyldum aðilum ber að færa bókhald og haga færslum, bókhaldsbókum og reikningaskipan í samræmi við bókhaldslög.

Tekjuskráning bókhaldsskyldra aðila skal byggjast á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Öruggt kerfi í þessu sambandi teljast m.a. reikningar, afreikningar og gíróseðlar, enda séu þessi gögn í öruggu skipulegu númerakerfi, og sjóðvélar sem notaðar eru við sölu á vörum og þjónustu í smásölu, svo og önnur sambærileg og örugg kerfi til tekjuskráningar, enda sé ekki öðruvísi fyrir mælt í öðrum lögum.

Nánari umfjöllun er að finna í kaflanum um bókhald og tekjuskráningu fyrir þá sem eru að hefja rekstur

Blönduð sala - aðgreining á sölureikningum

Við sölu á vöru eða þjónustu sem er að hluta skattskyld og að hluta undanþegin virðisaukaskatti skal halda viðskiptum sem eru skattskyld greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum. Samkvæmt sömu ákvæðum skal jafnframt aðgreina á reikningi skattskylda sölu eftir skatthlutföllum þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisaukaskatti komi fram vegna hvors skatthlutfalls. Ef þessa er ekki gætt ber öll salan virðisaukaskatt í hinu almenna skatthlutfalli.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt um bókhald - lög nr. 145/1994, um bókhald

Almenningssamgöngur – 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. c-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Endurgreiðsla vegna vinnu manna á byggingarstað - reglugerð nr. 449/1990

Ferðaskrifstofur (skattskyldusvið) - 4. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. f-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Ferðaskrifstofur (undanþegin velta) – 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. g-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Ferðaskrifstofur (velta í 11% skatthlutfalli) – 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. k-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Fólksflutningar innanlands – (undanþegnir) - 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. c-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Fólksflutningar innanlands – (skattskyldir) - 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. j-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Fólksflutningar milli landa – 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (sbr. h-lið 1. gr. breytingalaga nr. 124/2014)

Gistináttaskattur - lög nr. 87/2011, um gistináttaskatt

Gistiþjónusta (skatthlutfall) - 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

Innskattur - 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskattur

Innskattur - reglugerð nr. 192/1993, um innskatt

Reiknað endurgjald - yfirlit yfir reglur um reiknað endurgjald

Skatthlutfall (almennt) - 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skatthlutfall (lægra) – 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Staðgreiðsla opinberra gjalda - lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda

Annað

Bókhald og tekjuskráning

Gistináttaskattur

Leiðbeiningar um virðisaukaskatt

Reiknað endurgjald

Skráning á VSK-skrá

Staðgreiðsla

Reglur fyrir 1. janúar 2016

Almennt

Ferðaþjónusta og önnur ferðatengd þjónusta er almennt virðisaukaskattsskyld. Í ákveðnum tilvikum er velta þó undanþegin virðisaukaskatti. Þjónustan getur verið skattskyld í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts, 24%, í lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts, 11%. Ef velta er undanþegin virðisaukaskatti ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu þjónustunnar en heimilt er að færa virðisaukaskatt vegna aðfanga til frádráttar sem innskatt.

Reglur eftir 1. janúar 2016.

Sala á gistiþjónustu

Innheimta ber 11% virðisaukaskatt á útleigu hótel- og gistiherbergja og útleigu tjaldstæða. Önnur gistiþjónusta er einnig virðisaukaskattsskyld og ber 11% virðisaukaskatt þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. 

Önnur gistiþjónusta

Önnur gistiþjónusta en útleiga hótel- og gistiherbergja og tjaldstæða er skattskyld þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Hér má nefna gistingu á einkaheimilum (þ.m.t. sveitabæjum) veiðihúsum, í sumarbústöðum, sumarbúðum og gistiskálum hvers konar. 

Hafi aðili að einhverju leyti með höndum sölu á gistingu til skemmri tíma en eins mánaðar, ber honum að innheimta 11% virðisaukaskatt af starfsemi sinni, enda sé hún í atvinnuskyni gerð. 

Hafi aðili hins vegar eingöngu með höndum leigu á húsnæði til lengri tíma en eins mánaðar, telst starfsemi hans til fasteignaleigu sem er undanþegin virðisaukaskatti, enda séu almenn skilyrði fasteignaleigu uppfyllt. Í þessu sambandi ber að nefna að aðstöðuleiga er virðisaukaskattsskyld þjónusta í 24% skatthlutfalli.

Sala á gistiþjónustu í blandaðri starfsemi

Almenna reglan er sú að hafi aðili að einhverju leyti með höndum sölu á annarri gistingu en hótel- og gistiherbergi eða tjaldstæði, til skemmri tíma en eins mánaðar, ber honum að innheimta 11% virðisaukaskatt af starfsemi sinni, enda sé hún í atvinnuskyni gerð. Aðili sem hefur með höndum fasteignaleigu í að minnsta sjö mánuði á tólf mánaða tímabili, en skattskylda gistiþjónustu í fimm mánuði eða skemur, getur haldið fasteignaleigunni utan við skattskyldusviðið, enda hafi hann ekki með höndum á sama tíma sölu á skattskyldri gistiþjónustu. Þannig geta t.d. eigendur einkaheimila, skóla og verbúða, sem selja skattskylda gistiþjónustu á sumrin, leigt út herbergi á veturna til lengri tíma en eins mánaðar án virðisaukaskatts enda hafi þeir ekki með höndum sölu á skattskyldri gistiþjónustu á sama tíma. 

Tjaldstæði

Útleiga tjaldstæða ber 11% virðisaukaskatt hvort sem leigt er til skemmri eða lengri tíma en eins mánaðar. Aðgangur að rafmagni, snyrtingu og sturtum á tjaldstæði telst hluti af gistiþjónustunni og því skattskyldur í sama skatthlutfalli, hvort sem sú þjónusta er innifalin í aðgangseyri að tjaldsvæði eða seld sérstaklega til gesta tjaldsvæðisins. Ef aðgangur að rafmagni, snyrtingu og sturtu er ekki í neinum tengslum við sölu á gistingu þá ber sú þjónusta 24,0% virðisaukaskatt.

Innskattur vegna gistiþjónustu

Almennar reglur virðisaukaskattslaga og reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, gilda um frádrátt innskatts í virðisaukaskattsskyldri gistiþjónustu.

Selji aðili skattskylda gistiþjónustu í blandaðri starfsemi þá getur hann nýtt sér innskatt í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) er af heildarveltu ársins. Ef húsnæði er notað að hluta fyrir gistiþjónustu en að hluta til annarra nota þar sem engum frádráttarrétti er til að dreifa er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna aðkeyptrar vinnu við endurbætur, viðgerðir og viðhald að því leyti sem þessi vinna varðar beinlínis þann hluta húsnæðisins sem notaður er fyrir skattskyldan rekstur. Skilyrði er að seljandi vinnu eða þjónustu taki fram á sölureikningi sínum við hvaða hluta húsnæðisins hafi verið unnið. Ef slík vinna varðar ekki beinlínis ákveðinn hluta húsnæðisins er heimilt að reikna virðisaukaskatt til innskatts í sama hlutfalli og flatarmál þess hluta eignar sem notuð er vegna skattskyldrar starfsemi er af heildarflatarmáli eignarinnar.

Sá sem rekur gistiþjónustu í heimahúsi getur ekki talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varðar öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis. Hins vegar getur hann talið til innskatts þau aðföng er sannarlega varða gistiþjónustu s.s. rúm, dýnur, sængurver o.fl.

Ef atvinnuhúsnæði (til gistiþjónustu) og íbúðarhúsnæði er í sömu byggingu verður skipting í þessa tvo flokka húsnæðis að liggja fyrir á formlegan hátt með skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands ef telja á aðföng vegna húsnæðisins til innskatts. Liggi slík skráning fyrir er skráðum aðila heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af byggingarframkvæmdum o.s.frv. við atvinnuhúsnæðið, enda noti hann það einungis fyrir skattskylda starfsemi sína og ekki á neinn hátt til íbúðar.

Verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna skattskyldrar starfsemi, t.d. ef aðili hættir með virðisaukaskattsskylda gististarfsemi, ber að leiðrétta áður fenginn innskatt af varanlegum rekstrarfjármunum eftir nánari reglum sem fram koma í reglugerð nr. 192/1993 um innskatt.

Innskattur vegna fæðissölu á einkaheimilum

Sá sem rekur gistiþjónustu í heimahúsi getur ekki talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varðar öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis nema að því er varðar sérgreindan hluta húsnæðisins þar sem starfsemin fer fram og ef það er notað að öllu leyti fyrir starfsemina. Ef aðili á engan innskattsrétt, eða einungis að hluta, getur hann sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað samkvæmt reglugerð nr. 449/1990. Aftur á móti getur hann talið til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er sannarlega verða gistiþjónustu, s.s. rúm, dýnur, sængurver o.fl. 

Verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna skattskyldrar starfsemi, t.d. ef aðili hættir með virðisaukaskattsskylda gististarfsemi, ber að leiðrétta áður fenginn innskatt af varanlegum rekstrarfjármunum eftir nánari reglum sem fram koma í reglugerð nr. 192/1993, um innskatt.

Þeir sem selja gistingu á einkaheimilum (þ.á.m. ferðaþjónustubændur) hafa að öllu jöfnu ekki með höndum sérstakt mötuneyti fyrir viðskiptavini sína heldur snæða þeir með heimilisfólkinu. Fæðissalan ber 11% virðisaukaskatt, útskatt, en í þessu sambandi gilda sérstakar reglur um innskattsfrádrátt þar sem miðað er við að hlutur aðfanga í hverri máltíð nemi 40% af útsöluverði máltíðar, án virðisaukaskatts. Með aðföngum er hér átt við keypt hráefni til matargerðar að viðbættum ýmsum rekstrarvörum í eldhúsi, svo og öðrum kostnaði við matargerð s.s. orku og húsnæðiskostnaði.  

Ef verð vöru eða þjónustu, sem fellur undir 11% skatthlutfallið, er gefið upp með virðisaukaskatti er virðisaukaskatturinn 9,91% af því verði sem kaupandi greiðir. Til að finna verð án virðisaukaskatts, þegar heildarverð er gefið upp, þarf því að margfalda fjárhæðina með 90,09%.

Dæmi:  Miðað er við að hver máltíð sé seld á 1.500 kr. með virðisaukaskatti og að 20 máltíðir séu seldar á tímabilinu.  

            Virðisaukaskattsskyld velta :

                        20 x 1.500 kr. = 30.000 kr. (með VSK.)

                        30.000 x 90,09% = 27.027 kr. (án VSK)

            Útskattur:

                        27.027 x 11% = 2.973 kr.

            Innskattur:

                        27.027 x 40% = 10.810 kr. (aðföng án VSK.)

                        10.810 x 11%= 1.189 kr.

            Skil:

                        2.973 kr. – 1.189 kr. = 1.784 kr.

Fólksflutningar

Fólksflutningar og flutningar á ökutækjum með ferjum, sem eru í beinum tengslum við fólksflutninga eru undanþegnir virðisaukaskatti. Til fólksflutninga telst m.a. ferð með leigubifreið og fólksflutningabifreið, svo og útsýnisflug, skipulögð hópferð til sjóstangaveiði og hvalaskoðun, skipulögð hestaferð með leiðsögn, skipulögð vélsleðaferð með leiðsögn o.fl.

Undanþágan nær aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.  Þannig ber t.d.  fólksflutningafyrirtækjum að greiða virðisaukaskatt af verktakavinnu bifreiðastjóra, hópbifreiða sem annarra bifreiða, sem vinna fyrir þau við akstur þar sem slík vinna telst til aðfanga fólksflutningafyrirtækja í skilningi 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988.  Sjálfstætt  starfandi bifreiðastjórum ber því að innheimta og skila virðisaukaskatti af vinnu sinni fyrir þessi fyrirtæki. Sama gildir um sjálfstætt starfandi leiðsögumenn.

Þjónusta leiðsögumanna

Þjónusta sjálfstæðra leiðsögumanna í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld í 24,0% skatthlutfalli og skiptir ekki máli hvort þeir selji þjónustu sína til aðila sem hafa með höndum starfsemi undanþegna virðisaukaskatti eða til aðila sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

Leiga lausafjármuna og bílaleiga

Bílaleiga er virðisaukaskattsskyld í 24,0% skatthlutfalli. Einnig er önnur leiga lausafjár í atvinnuskyni virðisaukaskattsskyld í sama hlutfalli, þ.m.t. hestaleiga, vélsleðaleiga og leiga á fjórhjólum þegar ekki er um að ræða leigu í tengslum við skipulagða ferð undir leiðsögn fararstjóra.

Ferðaskrifstofur

Milliganga ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda um ferðaþjónustu er undanþegin virðisaukaskatti.

Önnur ferðatengd þjónusta

Frá og með 1. janúar 2016 verður aðgangseyrir að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum, sem falla ekki undir íþróttastarfsemi, virðisaukaskattsskyld í 11% skatthlutfalli.

Annað

Gistináttaskattur

Greiða skal í ríkissjóð gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu. Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt.  Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldsvæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.

Gistináttaskattur er 100 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu.  Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts.

Ekki skal leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt.

Staðgreiðsla/reiknað endurgjald

Þeir sem hefja atvinnurekstur skulu tilkynna um það til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Launagreiðendum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum eigin launum og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi.

Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja.  

Nánar er fjallað um þetta í kafla um atvinnurekstur/staðgreiðslu og reiknað endurgjald.

Bókhald og tekjuskráning

Öllum bókhaldsskyldum aðilum ber að færa bókhald og haga færslum, bókhaldsbókum og reikningaskipan í samræmi við bókhaldslög.

Tekjuskráning bókhaldsskyldra aðila skal byggjast á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Öruggt kerfi í þessu sambandi teljast m.a. reikningar, afreikningar og gíróseðlar, enda séu þessi gögn í öruggu skipulegu númerakerfi, og sjóðvélar sem notaðar eru við sölu á vörum og þjónustu í smásölu, svo og önnur sambærileg og örugg kerfi til tekjuskráningar, enda sé ekki öðruvísi fyrir mælt í öðrum lögum.

Nánari umfjöllun er að finna í kaflanum um bókhald og tekjuskráningu fyrir þá sem eru að hefja rekstur

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Almennt um bókhald - lög nr. 145/1994, um bókhald

Ferðaskrifstofur - 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Fólksflutningar - 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Gistináttaskattur - lög nr. 87/2011, um gistináttaskatt

Innskattur - 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskattur

Innskattur - reglugerð nr. 192/1993, um innskatt

Reiknað endurgjald - yfirlit yfir reglur um reiknað endurgjald

Skatthlutfall (almennt) - 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skatthlutfall gistiþjónustu - 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

Staðgreiðsla opinberra gjalda - lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda

Annað

Bókhald og tekjuskráning

Gistináttaskattur

Leiðbeiningar um virðisaukaskatt

Reiknað endurgjald

Staðgreiðsla


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum