Erlendir sérfræðingar
Hinn 1. janúar 2017 tók gildi sérstök regla um skattlagningu erlendra sérfræðinga sem koma til starfa hingað til lands. Samkvæmt henni eru 25% af launum þeirra felld undan skattlagningu fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Sérstök nefnd, sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið skipar, metur hvort skilyrðin séu uppfyllt.
Frá samþykkt umsóknar er staðgreiðslu opinberra gjalda haldið eftir af 75% tekna sem starfsmaður nýtur sem erlendur sérfræðingur. Launatengd gjöld ásamt barnabótum og vaxtabótum tekur mið af heildarlaunum.
Sækja má um leiðréttingu á staðgreiðslu sem haldið hefur verið eftir að heildartekjum fram að samþykkt umsóknar á eyðublaði RSK 5.17.
Starfsmaður telst erlendur sérfræðingur séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
-
Hann hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó þannig að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljast ekki með
- Hann búi yfir þekkingu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli.
Þá gildir reglan einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:
- er ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sá aðili greiði honum laun sem sérfræðingi; og
- er ráðinn til að sinna verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
- hann starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna; eða
- hann sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.
Upplýsingar um umsóknir og form þeirra veitir Rannsóknarmiðstöð Íslands.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Erlendur sérfræðingur - 1. gr. reglugerðar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga nr. 1202/2016
Frádráttarheimild frá tekjum - 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Nefndarskipan – 4. gr. reglugerðar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga nr. 1202/2016
Skilyrði frádráttar – 1. gr. reglugerðar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga nr. 1202/2016
Umsókn um frádrátt – 2. og 3. gr. reglugerðar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga nr. 1202/2016
Eyðublöð
Umsókn um endurgreiðslu á staðgreiðslu af launum – RSK 5.17
Application for a refund of taxes withheld on wages and salaries – RSK 5.17