Vistun í heimahúsi

Sérstakar reglur gilda um tekjur fyrir vistun í heimahúsum og frádrátt frá þeim. Reglur þessar eru ákvarðaðar árlega í skattmati ríkisskattstjóra.  Hér er aðallega átt við vistun hjá dagforeldrum, sumardvöl barna í sveit, fósturbörn, stuðningsfjölskyldur fatlaðra barna og vistun aldraðra eða öryrkja.

Í sumum þessum tilvikum er um að ræða atvinnurekstur og ber þá að gera grein fyrir starfseminni á þann hátt en í öðrum tilvikum er svo ekki. Þá er að hluta gerð sú undantekning að í stað sannanlegs kostnaðar er heimilt að færa matsfjárhæðir til frádráttar, samkvæmt skattmati hverju sinni.

Dagvistun barna

Greiðslur fyrir dagvistun barna á að gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa sannanlegan kostnað af starfseminni. Í stað þess að sundurliða kostnað í rekstrarreikningi er heimilt að færa hámarksfrádrátt samkvæmt mati ríkisskattstjóra.

Sumardvöl barna

Greiðslur vegna sumardvalar barna á að gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa sannanlegan kostnað af starfseminni. Í stað þess að sundurliða kostnað í rekstrarreikningi er heimilt að færa hámarksfrádrátt samkvæmt mati ríkisskattstjóra.  

Fósturbörn

Tekjur af reglubundinni starfsemi sem felst í að taka börn í fóstur frá barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum skal gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa sannanlegan kostnað af starfseminni.

Ef ekki er um rekstur að ræða ber að færa greiðslur vegna fósturbarna til tekna og heimilt er að færa til frádráttar sannanlegan kostnað sem beint tengist tekjunum. Í stað sannanlegs kostnaðar má í þessu tilviki færa frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris vegna hvers barns, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Fjárhæð barnalífeyris kemur fram í skattmati ríkisskattstjóra.

Stuðningsfjölskyldur

Greiðslur til stuðningsfjölskyldna barna teljast að fullu til skattskyldra tekna, en á móti má færa til frádráttar beinan sannanlegan kostnað vegna umönnunar og dvalar barnanna. Í stað þess að sundurliða sannanlegan kostnað er heimilt að færa hámarksfrádrátt samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. 

Vistun aldraðra eða öryrkja

Tekjur af reglubundinni starfsemi sem felst í vistun aldraðra og öryrkja skal gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa sannanlegan kostnað af starfseminni.

Greiðslur vegna vistunar aldraðra eða öryrkja í heimahúsum teljast að fullu til skattskyldra tekna, en á móti er heimilt að færa sannanlegan kostnað sem af vistuninni leiðir. Þegar ekki er um að ræða atvinnurekstur má í stað sannanlegs kostnaðar færa frádrátt sem svarar til tvöfalds grunnellilífeyris, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Fjárhæð ellilífeyris kemur fram í skattmati ríkisskattstjóra.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skattmat

Annað

Að hefja rekstur


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum