Áhrifavaldar

Samfélagsmiðlar eru í auknum mæli notaðir til stafrænnar markaðssetningar, s.s. TikTok, Snapchat, Facebook, Instagram og Youtube. Þannig kunna fyrirtæki að eiga í samstarfi við einstaklinga á samfélagsmiðlum – sk. áhrifavalda – um að koma vöru sinni eða þjónustu á framfæri við fylgjendur þeirra. Í einhverjum tilvikum er sérstaklega greitt fyrir með peningum, en í öðrum tilvikum kann endurgjaldið að felast í verðmætum af öðrum toga, s.s. vörum, afnotum af bifreið, góðum afsláttarkjörum, inneign í verslun eða utanlandsferðum. Einnig kunna vörur að vera afhentar áhrifavöldum án þess að samið hafi verið sérstaklega um umfjöllun eða auglýsingu. Gera verður þó ráð fyrir að tilgangurinn með afhendingunni sé von um að áhrifavaldurinn komi þeirri vöru eða þjónustu á framfæri við sína fylgjendur. Ýmis skattaleg álitaefni vakna við þessar aðstæður og fer það eftir atvikum hverju sinni hvaða skattareglur eiga við. Ætíð verður þó að hafa í huga þá meginreglu sem gildir að allar tekjur séu skattskyldar hvort sem þær eru í formi peninga eða annars konar verðmæta, nema þær séu sérstaklega undanþegnar skattskyldu í lögum.

Hvaða reglur eiga við um mig?

Almennt er gengið út frá að áhrifavaldar séu þeir sem hafa stóran hóp fylgjenda og geta haft áhrif á kauphegðun þeirra með auglýsingum og umfjöllun um vöru eða þjónustu. Það eitt hvort einstaklingur hefur stóran fylgjendahóp hefur þó ekki úrslitaáhrif á hvaða skattareglur eiga við í hverju tilviki fyrir sig. Horfa verður til fleiri atriða við ákvörðun skattlagningar. Meðal þess sem líta ber til er hvort áhrifavaldar teljist hafa atvinnurekstur með höndum og hvernig endurgjaldi fyrir þjónustu þeirra er háttað. Athuga þarf að þótt viðkomandi teljist ekki vera í atvinnurekstri þá eru tekjurnar almennt skattskyldar. Aðgreining þess hvort viðkomandi teljist vera í atvinnurekstri eða ekki ræður hins vegar úrslitum um það hvernig skattlagningu er háttað.

Mikilvægt er að þeir sem eru í atvinnurekstri kunni skil á ýmsum atriðum er varða skattlagningu atvinnurekstrartekna. Af því tilefni er rétt að vekja athygli á upplýsingum fyrir nýja í rekstri þar sem farið er yfir ýmis atriði sem einstaklingar í atvinnurekstri þurfa að kunna skil á. Á síðunni eru jafnframt fjölmargir tenglar inn á ítarefni, viðeigandi lagaákvæði o.fl.

Nýir í rekstri

Er ég í atvinnurekstri?

Gera verður ráð fyrir að almennt liggi fyrir hvort einstaklingur hafi með höndum atvinnurekstur eða ekki. Það er þó ekki án undantekninga og upp hefur komið ágreiningur um hvort starfsemi teljist til atvinnurekstrar og því nauðsynlegt að átta sig á því hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar mati á því hvort um er að ræða atvinnurekstur.

Í skattalöggjöf er ekki að finna sérstaka skilgreiningu á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi nema hvað varðar útleigu manna af íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða annars húsnæðis. Í öðrum tilvikum er horft til atriða sem lögð eru til grundvallar í dómum og úrskurðum yfirskattanefndar í málum þar sem tekist hefur verið á um það hvort starfsemi teljist vera í atvinnuskyni. Það sem horft er til er hvort um er að ræða sjálfstæða starfsemi sem er:

  • reglubundin
  • í nokkru umfangi
  • í hagnaðarskyni

Þannig er bæði horft til hlutrænna atriða (sjálfstæð, reglubundin og í nokkru umfangi) og hugrænna (hagnaðarskyn). Öll framangreind skilyrði verða að vera uppfyllt svo starfsemi teljist rekin í atvinnuskyni.

Ef um atvinnurekstur er að ræða ber að fara með allar tekjur sem tengjast starfseminni sem atvinnurekstrartekjur. Engu skiptir hvort greitt er með peningum eða annars konar verðmætum. Ef ekki er um að ræða atvinnurekstur er almenna reglan sú að tekjurnar séu skattskyldar hjá móttakanda og að um almennar tekjur sé að ræða, þ.e. ekki fjármagnstekjur.

Hvernig eru tekjurnar skattlagðar?

Endurgjald fyrir markaðssetningu á samfélagsmiðlum er af ýmsum toga. Þannig kann að vera greitt með peningum, vörum, hlunnindum ýmiss konar (s.s. afnot af húsnæði eða bifreið) o.s.frv. Þegar greitt er með peningum er reglan einföld. Tekjurnar eru skattskyldar og telja á þær fram hvort sem þeirra er aflað í atvinnurekstri eða utan rekstrar.

Sé tekna aflað í atvinnurekstri er heimilt að draga frá tekjum kostnað sem lagt er í til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Ekki er heimilt að færa persónulegan kostnað til frádráttar tekjunum. Sé teknanna aflað utan atvinnurekstrar er ekki heimilt að færa kostnað til frádráttar. Tekjurnar eru skattlagðar í almennu skattþrepi hjá einstaklingum hvort sem þeir eru í atvinnurekstri á eigin kennitölu eða utan atvinnurekstrar. Sé starfsemin stunduð af félagi fer um skattlagningu samkvæmt almennum reglum sem um þau gilda.

Þegar greitt er með öðru en peningum er meginreglan einföld líkt og gildir um  peningagreiðslur. Greiðslan er skattskyld og leggja ber markaðsverð/gangverð til grundvallar við ákvörðun tekjufjárhæðarinnar. Hér er átt við endurgjald í formi vöru eða þjónustu eða öðru formi s.s. hlunninda. Dæmi um hlunnindi eru m.a. afnot af bifreið eða húsnæði, ferðalög og hótelgisting. Ýmis frávik og undanþágur frá meginreglunni eiga þó hér við.

Afhending verðmæta samkvæmt samningi

Sé samið um endurgjald í formi vöru eða þjónustu skal það metið til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma.

Afhending verðmæta án samnings

Skattskylda vegna vöru og þjónustu sem afhentar eru áhrifavöldum án þess að samið hafi verið sérstaklega um umfjöllun eða auglýsingu fer eftir aðstæðum hverju sinni. Hafa ber í huga að almennt verður að gera ráð fyrir að tilgangurinn með afhendingu sé von um að áhrifavaldurinn komi vörunni eða þjónustunni á framfæri við sína fylgjendur og því ekki um að ræða gjöf í eiginlegum skilningi þess orðs.

Almenna reglan er sú að komi varan eða þjónustan persónulega til nota áhrifavalds, fjölskyldu, vina eða kunningja hans beri að telja hana til tekna á gangverði eða markaðsverði. Þannig kann afhending til annarra að teljast til skattskyldra tekna áhrifavaldsins.

Ýmis hlunnindi

Þegar endurgjald til áhrifavalda er í formi hlunninda, s.s. afnota af bifreið eða húsnæði skal telja hlunnindin til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra sem birt er árlega.

Skattmat

Hvað með þá sem nýta sér þjónustu áhrifavalda?

Þeir sem nýta sér þjónustu áhrifavalda ber að skila upplýsingum um greiðslur til þeirra af hvaða tagi sem er í almennum skilafresti slíkra upplýsinga í janúar ár hvert.

Nánari upplýsingar um gagnaskil eru auglýstar árlega og eru birtar í Stjórnartíðindum og á vef ríkisskattstjóra.

Auglýsingar ríkisskattstjóra

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Atvinnurekstrartekjur - B-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Endurgjald fyrir vinnu, starf eða þjónustu - A-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Frádráttur frá tekjum af atvinnurekstri - 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Annað

Nýir í rekstri
Skattmat


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum