Skattframtöl
Skattframtali er hægt að skila rafrænt bæði á skattur.is og með skeytasendingum úr framtalsforriti sem notað er af endurskoðendum, bókurum og öðrum þeim sem atvinnu hafa af framtalsgerð.
Ríkisskattstjóri býður upp á rafræn skil á fjórum tegundum skattframtala, sem eru:
- RSK 1.01 Skattframtal einstaklinga
- RSK 1.02 Skattframtal barns
- RSK 1.04 Skattframtal rekstraraðila (lögaðila)
- RSK 1.06 Framtal óskattskyldra lögaðila
Öllum framtalsskyldum einstaklingum og lögaðilum hefur verið úthlutað aðalveflykli og skilalykli. Ætlast er til að þeir sem telja fram sjálfir noti aðalveflykilinn, en láti þeir annan sjá um framtalsgerð afhendi þeir honum skilalykilinn.
Þegar talið er fram fyrir hjón dugir veflykill annars hjóna til að opna framtalið og skila því. Sama gildir um par í staðfestri samvist og fólk í óvígðri sambúð sem telur fram saman. Telji þau ekki fram saman þarf hvort að nota sinn veflykil.
Ef skila þarf skattframtali fyrir barn yngra en 16 ára er veflykill framfæranda barnsins notaður. Framfærandi barns telst sá sem hafði barnið hjá sér í lok tekjuárs, samkvæmt þjóðskrá. Á þjónustusíðunni, undir flipanum Framtal, er sérstakt innskráningarsvæði til að opna skattframtal barns.
Innifalið í rafrænum skilum
Nokkur eyðublöð eru „innifalin“ í rafrænum skilum á rekstrarblöðum, þótt þau birtist ekki þar sem sjálfstæðar einingar.
- RSK 1.05 Launaframtal er innbyggt í samræmingarblað (4.05) hjá einstaklingum og er hluti af skattframtali rekstraraðila (1.04). Það er einnig hluti af framtali óskattskyldra lögaðila (1.06).
- RSK 1.07 Greinargerð um fjármagnstekjur er hluti af skattframtali óskattskyldra lögaðila (1.06). Það er ekki notað af öðrum framteljendum.
- RSK 1.09 Framtal vegna búnaðargjalds. Stofn til búnaðargjalds kemur fram á landbúnaðarskýrslu sem fylgir framtali í rafrænum skilum, bæði hjá lögaðilum (4.07) og einstaklingum (4.08).
- RSK 1.11 Framtal vegna jöfnunargjalds alþjónustu. Stofn til jöfnunargjalds alþjónustu er talinn fram á forsíðu skattframtals lögaðila (1.04) í rafrænum skilum.
Öll þessi eyðublöð eru til á pappír vegna þeirra sem ekki skila framtali sínu rafrænt. Frá og með framtalsári 2016 er gert ráð fyrir að skattframtölum sé almennt skilað rafrænt. Þessi eldri pappírseyðublöð verða því ekki aðgengileg á skatturinn.is eftir þann tíma.
Ekki til rafrænt
RSK 1.03 Skattframtal dánarbús er notað ef telja þarf fram fyrir dánarbú á öðru ári eftir andlát eða síðar.
RSK 1.02 Skattframtal barns – vegna sérskattlagningar barns sem misst hefur foreldri og ekki verið ættleitt.
RSK 1.12 Erfðafjárskýrsla. Hægt er að sækja hana á pdf-formi á skatturinn.is, en skýrslunni er skilað til sýslumanns.