Dánarbú
Framtalsskylda
Framtalsskylda dánarbús hvílir á erfingjunum. Vegna reglna um ábyrgð á greiðslu skattskulda er það erfingjum hagsmunamál að framtalsskil hins látna séu í góðu lagi.
Við andlát manns lýkur skattskyldu hans og við tekur skattskylda dánarbús hans ef hann lætur ekki eftir sig maka sem hefur heimild til að sitja í óskiptu búi. Upplýsingar um persónuafslátt og framtöl.
Skuldir - inneignir
Mjög mikilvægt er fyrir erfingja sem skipta dánarbúi einkaskiptum að huga vel að framtalsskilum og skuldastöðu hins látna því þeir eru persónulega ábyrgir fyrir öllum skuldbindingum hans, þar á meðal skattskuldum. Í því felst að kröfuhafar, þar á meðal innheimtumenn ríkissjóðs, geta gengið að hverjum þeirra fyrir sig og krafið um fulla greiðslu. Ef skattframtali er ekki skilað er skattstofninn almennt áætlaður. Skattáætlun er innheimt með sama hætti og um skattálagningu samkvæmt framtali væri að ræða. Hafi erfingjar ekki frumkvæði að því að greiða skatta fer málið í vanskilainnheimtu hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Erfingjar fá ekki sérstakar tilkynningar um skattskuldir eða skattálagningu heldur verða að leita eftir þeim upplýsingum sjálfir.
Fari skattar í vanskil leggjast á dráttarvextir. Ekki er til staðar lagaheimild til að fella niður dráttarvexti sem lagðir hafa verið á skatta dánarbús.
Inneign getur myndast hjá hinum látna. Erfingjarnir eiga lögmæta kröfu til hennar, sé ekki um að ræða önnur ógreidd opinber gjöld hins látna. Ríkisskattstjóri sendir út tilkynningar um inneignir til þeirra erfingja sem koma fram á erfðafjárskýrslu. Ríkisskattstjóri greiðir inneignina á reikning dánarbúsins. Eftir að skiptum á dánarbúi er lokið þarf sá aðili sem tekur við inneigninni fyrir hönd erfingja að hafa nýtt umboð frá lögerfingjum. Það er á ábyrgð erfingjanna að sækja inneignina og deila henni á milli sín.
Hvað er dánarbú og hvaða þýðingu hefur það?
Við andlát einstaklings verður til sjálfstæð lögpersóna, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna. Frá því tímamarki ber dánarbúið sjálft skattskyldu sem sérstakur lögaðili. Skattskyldu dánarbúsins lýkur þegar eitthvert eftirtalinna á sér stað:
- Skiptum dánarbúsins lýkur hjá sýslumanni vegna eignaleysis búsins
- Dánarbúi hefur verið skipt einkaskiptum eða opinberum skiptum
- Eftirlifandi maka er veitt leyfi til setu í óskiptu búi
Einkaskipti
Erfingjar geta sótt um leyfi til einkaskipta hjá sýslumanni í því umdæmi sem búi er skipt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frekari upplýsingar um skipti dánarbúa er að finna á Ísland.is.
Frá því að sýslumaður veitir leyfið og þar til skiptum er lokið fara erfingjarnir með forræði búsins. Þeir einir eru bærir til að ráðstafa eignum og verðmætum búsins og svara fyrir skyldur þess. Eitt skilyrða leyfis til einkaskipta er að erfingjarnir gangist undir óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins. Þetta þýðir að ef dánarbúið skuldar skatta er hægt að hefja innheimtuaðgerðir á hendur hvaða erfingja sem er. Endurkröfuréttur getur þá stofnast á hendur samerfingjum. Erfingjum ber einnig skylda til að telja fram til skatts fyrir hönd búsins.
Ítarefni
Nánari upplýsingar
Upplýsingar um dánarbú, tilkynningu andláts, dánarbússkipti, greiðslu erfðafjárskatts og fleira eru á vefnum Ísland.is.
Eyðublað: Umboð vegna greiðslu á inneign dánarbús
Hægrismellið og vistið eyðublaðið á tölvuna. Notið Adobe Reader forritið til að fylla það út.