Styrkir

Meginreglan er að allir styrkir til einstaklinga teljast til skattskyldra tekna þeirra hvaðan sem styrkjanna er aflað. Styrkir eru skattlagðir eins og launatekjur og bera tekjuskatt og útsvar. Heimilt getur verið að telja kostnað til frádráttar. Persónulegur kostnaður leyfist þó aldrei til frádráttar. Frádráttur verður aldrei hærri en styrkfjárhæð og ef kostnaður er lægri en styrkurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna.

Séu styrkir veittir fyrir fleiri en eitt ár er heimilt að skipta þeim á þau ár sem þeir varða. Hafi slíkur styrkur verið greiddur á að eignfæra það sem ónotað er í árslok og tekjufæra á næsta ári.

Alveg sambærileg sjónarmið eiga við um styrki og frádrátt á móti þeim, hver sem greiðandi styrksins er.

Styrkir til eignakaupa teljast til tekna og leyfist ekki frádráttur á móti þeim. Undantekning frá þessu geta þó verið styrkir sem veittir eru frá ríki eða sveitarfélögum vegna örorku og byggjast á lögum þar um. Í slíkum tilvikum færist stofnverð eigna til frádráttar á móti styrkfjárhæð. 

Skattskyldir styrkir

Hér að neðan eru talin upp nokkur dæmi um skattskylda styrki. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. Fjallað er um styrki sem greiddir eru af stéttarfélögum undir sér lið. Í einhverjum tilvikum getur verið heimilt að færa kostnað til frádráttar, annað hvort að öllu leyti eða að ákveðnu hámarki.

Námskeiðsstyrkir

Námskeiðsstyrkir eru skattskyldar tekjur. Heimilt getur verið að færa kostnað til frádráttar ef um er að ræða styrki til að sækja námskeið eða endurmenntun sem tengist starfi styrkþega. Ef um er að ræða námskeið sem er ótengt starfinu, t.d. vegna tómstundagamans, er frádráttur óheimill.

Íþróttaiðkun

Hlunnindi (styrkir) vegna greiðslu launagreiðenda/stéttarfélaga á kostnaði vegna íþróttaiðkunar teljast ekki til tekna launþega að tilteknu hámarki sem ákvarðað er árlega í skattmati. Greiðslur sem fara samanlagt umfram fjárhæð í skattmati teljast til skattskyldra styrkja. Skiptir ekki máli þótt greiðslur komi frá fleiri en einum aðila undanþegin fjárhæð getur aldrei orðið hærri en fjárhæð samkvæmt skattmati. Skilyrði er að lagðir hafi verið fram fullgildir reikningar til stéttarfélags eða launagreiðanda fyrir greiðslu á kostnaði vegna aðgangs að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, golfvöllum, skíðasvæðum, kostnað vegna þátttöku í íþróttanámskeiðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba og hestamannafélög, sem og þátttökugjalda vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti, þ.m.t. vegna einkaþjálfunar hvort sem hún er stunduð innan- eða utandyra eða í gegnum fjarþjálfun. Einnig fellur hér undir kostnaður við aðgang að annarri heilsurækt eins og t.d. jóga og annar sambærilegur kostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna endurhæfingar sem er sambærileg og önnur íþróttaiðkun. Þá fellur hér undir kostnaður vegna skipulegra gönguferða.

Óheimilt er að telja kostnað vegna kaupa á hvers konar búnaði til íþróttaiðkunar eða heilsuræktar, s.s. gönguskó, göngustafi, hvers kyns fatnað, reiðhjól o.þ.h. til frádráttar á móti íþróttastyrk. Sama á við um áskrift að almennu efni um líkamsrækt í gegnum netþjónustu þar sem efnið er ekki sérstaklega sniðið að þörfum viðkomandi einstaklings, líkt og á við um fjarþjálfun sem byggð er upp fyrir hvern og einn þátttakanda.

Gera þarf grein fyrir fengnum greiðslum vegna íþróttaiðkunar í skattframtali sem og undanþeginni fjárhæð. Sé greiðsla hærri en hámarksfjárhæð sem undanþegin er samkvæmt skattmati telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Séu greiðslur lægri fjárhæð en undanþegin er teljast þær ekki til skattskyldra tekna launamanns en gera þarf grein fyrir þeim í skattframtali.

Samgöngustyrkir - samgöngugreiðslur

Samgöngustyrkir, eða samgöngugreiðslur, sem launagreiðandi greiðir launamanni vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar samkvæmt sérstökum samningu um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum samgöngumáta teljast ekki til skattskyldra tekna upp að ákveðnu hámarki á mánuði og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Lögfest er að gera þurfi samning milli launagreiðanda og launamanns um þennan samgöngumáta en í skattmati er nánar kveðið á um fjárhæðir og önnur skilyrði.


Nám, rannsóknir og vísindastörf

Styrkir til náms, rannsókna og vísindastarfa eru skattskyldar tekjur. Á móti námsstyrk er heimilt að færa til frádráttar beinan kostnað við námið, s.s. skólagjöld, en ekki kostnað við framfærslu sem telst vera persónulegur kostnaður. Óheimilt er að færa kostnað vegna kaupa á eignum til frádráttar á móti þessum styrkjum.

Á móti styrkjum til rannsókna og vísindastarfa er heimilt að færa beinan kostnað við hvert verkefni. Oft er um að ræða styrki vegna tiltekinna lengri og umsvifameiri verkefna sem eru þá gerð upp eins og rekstur.

Styrkir til orlofsdvalar

Styrkir frá launagreiðanda sem ætlað er að standa straum af kostnaði við leigu launamanns á orlofshúsnæði eða orlofsdvöl telst til tekna ef fjárhæðin er umfram hámarksfjárhæð sem ákvörðuð er í skattmati árlega. Skilyrði er að lagðir hafi verið fram fullgildir reikningar fyrir greiðslu á kostnaði vegna orlofsdvalarinnar. Þótt stéttarfélag taki einnig þátt í kostnaði við orlofsdvölina gildir sama hámark um undanþegna fjárhæð.

Ættleiðingarstyrkir

Ættleiðingarstyrkir eru skattskyldar tekjur. Ef styrkirnir eru greiddir úr ættleiðingarsjóði samkvæmt lögum er heimilt að færa frádrátt á móti. Frádráttur getur aldrei verið hærri fjárhæð en nemur styrknum úr ættleiðingarsjóði. Engin heimild er til frádráttar ef styrkurinn er greiddur af öðrum en ættleiðingarsjóði.

Undantekningar frá skattskyldu styrkja

Nokkrar tegundir styrkja teljast ekki til skattskyldra tekna, en það heyrir til undantekninga.

Bifreiðakaupastyrkur

Bifreiðakaupastyrkir sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega eru ekki skattskyldar tekjur, heldur færast til lækkunar á stofnverði bifreiðarinnar.

Jöfnun á námskostnaði

Dvalar- og ferðastyrkir sem ætlaðir eru til jöfnunar á námskostnaði eru skattfrjálsar greiðslur.

Samskotafé

Sam­skota­fé og styrkir vegna veik­inda eða slysa teljast ekki til skattskyldra tekna, enda gangi þeir beint til þeirra sem safnað er fyrir.

Endurhæfing fatlaðra

Um getur verið að ræða bæði styrki til greiðslu á námskostnaði og námsgögnum og má þá færa til frádráttar útgjöld vegna sama. Um styrki vegna verkfæra- eða tækjakaupa gildir að stofnverð eignanna færist til frádráttar.

Styrkir frá Umhyggju

Styrkir til foreldra frá Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, eru skattfrjálsar greiðslur.

Tækjakaup fatlaðra

Styrkir sem ríki eða sveitarfélög greiða til tækjakaupa fyrir fatlaða teljast ekki skattskyldir, en á móti þeim á að færa stofnverð eignanna. Þetta á einungis við um styrki sem greiddir eru samkvæmt lögum og reglum um aðstoð við fatlaða, en ekki almennt um styrki til eignakaupa.

Húsafriðunarsjóður

Styrkir úr húsafriðunarsjóði eru undanþegnir tekjuskatti. Við ákvörðun á stofnverði eigna skal færa styrkinn til frádráttar.

Styrkir frá stéttarfélögum

Almenna reglan er að allir styrkir frá stéttarfélögum teljast til skattskyldra tekna móttakanda. Skiptir ekki máli hvort þeir eru greiddir úr styrktar- eða sjúkrasjóðum, starfsmenntunar- eða endurmenntunarsjóðum félaganna.

Styrkir frá stéttarfélögum geta verið af ýmsum toga. Í sérstökum tilvikum getur verið heimilt að færa kostnað til frádráttar á móti styrk. Ekki kemur til greina frádráttur vegna persónulegra útgjalda, s.s. vegna kaupa á gleraugum, heyrnartækjum, tannviðgerða, sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, krabbameinsskoðunar, glasafrjóvgunar, dvalar á heilsustofnunum og vegna útfarar. Kostnað vegna kaupa á eignum er óheimilt að færa til frádráttar á móti styrkjum.

Frá styrkjum úr starfsmenntunarsjóðum og endurmenntunarsjóðum stéttarfélaga er heimilt að draga kostnað vegna námskeiða sem tengjast starfi viðkomandi styrkþega, en ekki ef um er að ræða námskeið sem telst vera tómstundagaman og þar með persónulegur kostnaður. Frádráttur verður aldrei hærri en styrkfjárhæð.

Íþróttaiðkun

Styrkir til íþróttaiðkunar frá stéttarfélögum eru skattskyldir, en þó þannig að ekki skal telja til tekna greiðslu að hámarki fjárhæð sem ákvörðuð er árlega í skattmati. Undanþegin fjárhæð getur aldrei orðið hærri en sú fjárhæð samkvæmt skattmati, þótt styrkir séu greiddir af fleiri aðilum af sama tilefni. Skilyrði er að lagðir hafi verið fram fullgildir reikningar fyrir greiðslu á kostnaði vegna aðgangs að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba, sem og þátttökugjalda vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti.

Námskeiðsstyrkir

Námskeiðsstyrkir eru skattskyldir, en heimilt að færa kostnað til frádráttar ef námskeiðið tengist starfi styrkþega. Óheimilt er að færa frádrátt á móti styrkjum vegna námskeiða sem varða tómstundagaman eða annað það sem telst eingöngu persónulegur kostnaður.

Styrkir til bókakaupa

Styrkir til bókakaupa eru skattskyldar tekjur, en á móti er heimilt að færa kostnað vegna kaupa á bókum sem tengjast því fagi eða starfi sem viðkomandi sinnir. Getur bæði komið til frádráttar vegna kaupa á námsbókum og síðan almennt fagbókum.

Styrkir til eignakaupa

Styrkir til eignakaupa teljast til tekna og leyfist ekki frádráttur á móti þeim.

Styrkir til orlofsdvalar

Styrkir frá stéttarfélögum sem ætlað er að standa straum af kostnaði við leigu launamanns á orlofshúsnæði eða orlofsdvöl telst til tekna ef fjárhæðin er umfram hámarksfjárhæð sem ákvörðuð er í skattmati árlega. Skilyrði er að lagðir hafi verið fram fullgildir reikningar fyrir greiðslu á kostnaði vegna orlofsdvalarinnar. Þótt launagreiðandi taki einnig þátt í kostnaði við orlofsdvölina gildir sama hámark um undanþegna fjárhæð.

Styrkir til tölvukaupa

Styrkir til tölvukaupa eru skattskyldir og ekki er heimilt að færa frádrátt á móti þeim.

Ættleiðing barns

Styrkir sem stéttarfélag greiðir til ættleiðingar barns telst til skattskyldra tekna og óheimilt er að færa kostnað til frádráttar.

Námsferðir

Styrkir til námsferða eru skattskyldar tekjur, en heimilt er að færa kostnað vegna ferðarinnar til frádráttar á móti.

Útfararstyrkir

Styrkir sem sjúkrasjóðir stéttarfélaga veita til greiðslu á útfararkostnaði eru skattskyldar tekjur og færast eftir aðstæðum hjá eftirlifandi maka eða hjá dánarbúinu. Ekki er heimill neinn frádráttur á móti. Sama gildir um útfararstyrki sem greiddir eru af öðrum, t.d. vinnuveitendum.

Verkfallsstyrkir

Verkfallsstyrkir frá stéttarfélögum eru skattskyldar tekjur og eru skattlagðir samkvæmt almennum reglum.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Frádráttur frá tekjum utan atvinnurekstrar - 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Húsafriðunarsjóður - 43. gr. laga nr. 80/2012, um menningarminjar

Skattskyldar tekjur – 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Ættleiðingarstyrkir – lög nr. 152/2006, um ættleiðingarstyrki


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum