Bindandi álit

Heimilt er að óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra varðandi ráðstafanir sem einstakir gjaldendur hafa í huga. Niðurstaða ríkisskattstjóra er bindandi fyrir skattyfirvöld, en álitsbeiðandi getur valið um hvort hann tekur mið af álitinu eða ekki.

Bindandi álit sem birt hafa verið 

 

Ósk um bindandi álit

Heimilt er að óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra ef:

  • Málið varðar hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar.
  • Málið verður að varða verulega hagsmuni.
  • Málið verður að varða ráðstöfun sem ekki hefur þegar verið ráðist í.
  • Málið verður að varða álitamál sem snertir skatta og gjöld sem eru á valdsviði ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar.

Kröfur 

Gerðar eru þær kröfur til beiðna um bindandi álit að þær uppfylli eftirfarandi skilyrði:

  • Leggja skal ákveðna spurningu fyrir ríkisskattstjóra, þ.e. leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort hann vill staðfesta tiltekna niðurstöðu.
  • Beiðnin skal vera skrifleg. Gera skal nákvæmlega grein fyrir hver skattaðilinn er, nafn og kennitala. Ef um lögaðila er að ræða ber að gera grein fyrir helstu eignaraðilum. Beiðnin skal vera nákvæmlega afmörkuð varðandi þau atvik og álitaefni sem um er spurt og henni skulu fylgja allar upplýsingar og gögn sem þýðingu hafa og álitsbeiðandi hefur yfir að ráða.
  • Álitsbeiðandi skal rökstyðja ítarlega þá niðurstöðu sem hann telur rétta og í því sambandi vísa til viðeigandi lagaákvæða.

Bindandi álit ekki veitt

Bindandi álit verður ekki veitt ef:

  • Álitið varðar ekki álitsbeiðanda sjálfan.
  • Fyrirspurnin er of almenns eðlis, þ.e. í raun túlkun á skattalögum án tengsla við fyrirhugaða ráðstöfun.
  • Ljóst þykir að ríkisskattstjóra er ætlað að vega og meta mögulega valkosti svo álitsbeiðandi geti fundið út hvað honum er hagstæðast.
  • Nauðsynlegar upplýsingar hafa ekki verið veittar þrátt fyrir áskorun ríkisskattstjóra þar um.
  • Álitsbeiðandi hefst handa við þá ráðstöfun sem álitið varðar áður en ríkisskattstjóri hefur lokið vinnu sinni.

Gjaldtaka

  • Grunngjald vegna bindandi álita er kr. 150.000. Grunngjaldið skal greiða um leið og beiðnin er send ríkisskattstjóra. Málið telst ekki móttekið fyrr en grunngjaldið hefur verið greitt.
  • Fari vinna við gerð álits fram yfir 10 vinnustundir er heimilt að krefja álitsbeiðanda um viðbótargjald sem nemur kr. 15.000 fyrir hverja vinnustund.  Sé gerð krafa um viðbótargjald skal það greitt áður en ríkisskattstjóri lætur álitið uppi.
  • Álitsbeiðandi á rétt á að fá grunngjaldið endurgreitt ef beiðni um bindandi álit er dregin til baka áður en ríkisskattstjóri byrjar að vinna að álitinu.
  • Greiðslu er unnt að inna af hendi hjá ríkisskattstjóra. Þá er einnig hægt að greiða gjaldið inn á reikning embættisins nr. 0338-26-175.

Kæruréttur

  • Álitsbeiðandi getur kært bindandi álit ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningu álitsins.
  • Álitsbeiðanda er heimilt að bera úrskurð yfirskattanefndar undir dómstóla, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp.

Umboðsmenn

  • Þeir sem koma fram í umboði tiltekins skattaðila gagnvart ríkisskattstjóra skulu styðja það með skriflegri yfirlýsingu skattaðilans. Þessi regla á þó ekki við í tilviki lögmanna og löggiltra endurskoðenda.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Bindandi álit ríkisskattstjóra – Lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum

Gjaldskrá – Gjaldskrá nr. 556/2019, vegna kostnaðar við gerð bindandi álits í skattamálum 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum