Skattfrjálsar tekjur

Nokkrar undantekningar eru frá þeirri meginreglu að allar tekjur, hlunnindi og fríðindi séu skattskyldar tekjur. Er sérstaklega kveðið á um þær undantekningar í lögum. Ef það er ekki gert er meginreglan sú að um skattskyldar greiðslur sé að ræða í hvaða formi sem þær eru.

Barnabætur, vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og húsaleigubætur teljast ekki til skattskyldra tekna þeirra sem fá slíkar greiðslur. Þá telst ákvarðaður persónuafsláttur og sjómannaafsláttur ekki til skattskyldra tekna.

Skattfrjálsar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingum Íslands

Nokkrar tegundir greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingum Íslands teljast ekki til skattskyldra tekna. Er þar fyrst og fremst um að ræða greiðslur sem ætlað er að mæta sérstökum kostnaði, sem er umfram venjulegan kostnað einstaklinga, og greiðslur vegna andláts maka eða framfæranda.  

Barnalífeyrir

Barnalífeyrir sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins ef ann­að hvort for­eldri barns, eða bæði, eru lát­in telst ekki skattskyldar tekjur. Sama gild­ir um barna­líf­eyri sem greidd­ur er vegna ófeðr­aðs barns eða barns for­eldr­is sem sæt­ir gæslu- eða refsi­vist.

Um barna­líf­eyr­i frá Tryggingastofnun ríkisins vegna náms (menntunarbarnalífeyri) gilda reglur um menntunarmeðlag, þ.e. ekki er um skattskyldar greiðslur að ræða ef fjárhæð er ekki umfram barnalífeyri.

Barnsmeðlag

Barnsmeðlög sem greidd eru frá Tryggingastofnun ríkisins eru skattfrjálsar tekjur ef þau eru ekki umfram fjárhæð barnalífeyris. Sama gildir um menntunarmeðlag sem greitt er til ungmenna á aldrinum 18-20 ára ef það uppfyllir að öðru leyti skilyrði um meðlagsgreiðslur, þ.e.a.s. að úrskurður sýslumanns eða samkomulag staðfest af sýslumanni sé til staðar milli foreldris og barns.

Bifreiðakaupastyrkur

Bif­reiða­kaupa­styrk­ur sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins telst ekki til skattskyldra tekna. Fjár­hæð styrksins er færð til lækk­un­ar á stofn­verði (kaup­verði) bif­reið­ar­inn­ar.

Dánarbætur vegna slysa

Dánarbætur sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna slyss teljast ekki til skattskyldra tekna. Bætur þessar eru greiddar ekkju/ekkli sem var í samvistum við hinn látna eða á framfæri hans. Greitt er mánaðarlega í átta ár frá dánardegi hins látna. 

Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni undir 18 ára aldri sem var á framfæri hins látna og telst sú greiðsla ekki heldur til skattskyldra tekna.  

Styrkir til kaupa á sérfæði

Styrkir sem Sjúkratryggingar Íslands greiða eftir mat læknis og/eða næringarfræðings á þörf til kaupa á sér­fæði og næringarefnum vegna haml­aðr­ar líkamsstarfsemi teljast ekki  til skatt­skyld­ra tekna.

Styrkir til tækjakaupa fatlaðra

Styrkir sem Sjúkratryggingar Íslands veita fötluðum til tækjakaupa teljast ekki til skatt­skyldra tekna, en eiga að færast til lækk­un­ar á stofn­verði hinn­ar keyptu eign­ar.

Umönnunargreiðslur

Umönnunargreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna fjárhagslegrar aðstoðar til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi teljast ekki til skattskyldra tekna. Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður fyrir foreldra.

Uppbætur á lífeyri

Uppbætur á lífeyri vegna framfærslubyrðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og uppbót vegna reksturs bifreiðar teljast ekki til skattskyldra tekna frá 1. janúar 2019.

Örorkubætur vegna varanlegrar örorku

Örorkubætur sem eru ákveðnar í einu lagi til greiðslu vegna varanlegrar örorku í kjölfar slysa teljast ekki til skattskyldra tekna. Örorkubætur sem greiddar eru mánaðarlega eru skattskyldar.

Skattfrjálsar greiðslur frá sveitarfélögum

Í einstaka tilvikum eru greiðslur frá sveitarfélögum sem ganga beint til einstaklinga ekki skattskyldar tekjur. Almenna reglan er sú að greiði sveitarfélag beint til einstaklings þá er um skattskylda greiðslu að ræða, þ.m.t. vegna fjárhagsaðstoðar.

Dag­vist­un­ar­greiðsl­ur

End­ur­greiðsla til for­eldra vegna vist­un­ar barna hjá dagforeldri telst ekki til tekna hjá foreldrunum. Hins veg­ar telj­ast greiðsl­ur frá sveit­ar­fé­lög­um til dag­foreldris vegna þeirra eig­­in barna skatt­skyld­ar tekj­ur í rekstrinum.

Heimagreiðslur

Styrkir til foreldra/forráðamanna frá sveitarfélögum til að annast barn heima frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að barnið hefur leikskólavistun eða grunnskólanám teljast ekki til skattskyldra tekna. Greiðslur þessar hafa verið nefndar heimagreiðslur og koma í stað niðurgreiðslna sveitarfélaga á kostnaði við dagvistun.

Skattfrelsið nær einungis til foreldris eða forráðamanna. Sé öðrum aðila greitt vegna umönnunar barnsins teljast slíkar greiðslur skattskyldar í hendi móttakanda.  

Húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur

Húsnæðisbætur sem greiddar eru af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samkvæmt lögum og reglum þar um teljast ekki til skattskyldra tekna. Það sama á við um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga.

Vinningar, verðlaun og gjafir

Í undantekningartilvikum er heimilt að halda vinningum, verðlaunum og gjöfum utan skattlagningar, en almenna reglan er að um skattskyldar tekjur er að ræða. Undantekningin nær til verðlítilla vinninga í almennum happdrættum og keppnum og tækifærisgjafa að verðmæti sem almennt gerist um slíkar gjafir. Jafnframt nær undantekning frá skattskyldu til vinninga úr happdrættum sem hafa fengið sérstaka heimild þar til bærra yfirvalda (sýslumaðurinn á Suðurlandi) til að greiða skattfrjálsa vinninga og staðfestingu ríkisskattstjóra þar á. 

Hvaða vinningar eru skattfrjálsir?

Listi yfir happdrætti sem hafa fengið heimild til að greiða skattfrjálsa vinninga er birtur árlega í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra. Tekjuárið 2022 náði heimildin til eftirtalinna happdrætta: 

  • Happdrætti DAS
  • Happdrætti Háskóla Íslands
  • Íslensk getspá
  • Íslenskar getraunir
  • Vöruhappdrætti S.Í.B.S.
  • Happdrætti Blindrafélagsins
  • Happdrætti Félags heyrnarlausra
  • Happdrætti Gigtarfélags Íslands
  • Happdrætti Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins
  • Happdrætti Lionsklúbbs Njarðvíkur
  • Happdrætti Sjálfsbjargar, landsamband hreyfihamlaðra
  • Happdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

Vinningur á Evrópska efnahagssvæðinu

Happdrættisvinningar á Evrópska efnahagssvæðinu geta verið skattfrjálsir á sama hátt og í þeim íslensku happdrættum sem sú regla gildir um. Til að svo sé þarf að leggja fram fullnægjandi gögn og upplýsingar varðandi happdrættið, en gerðar eru sömu kröfur til erlendra happdrætta og íslenskra til að vinningar geti talist skattfrjálsir.

Aðrar skattfrjálsar tekjur

Nokkrar tegundir tekna sem bæði stafa frá hinu opinbera og öðrum eru ekki skattskyldar og er sérstaklega kveðið á um það í lögum og reglum í hverju tilviki fyrir sig.

Dánarbætur

Dánarbætur tryggingafélaga og sjúkrasjóða stéttarfélaga sem ákveðnar eru og greiddar í einu lagi teljast ekki til skattskyldra tekna.

Dvalar- og ferðastyrkir til jöfnunar á námskostnaði

Dvalar- og ferðastyrkir sem greiddir eru af hinu opinbera til jöfnunar á námskostnaði stundum nefnt „dreifbýlisstyrkir“ teljast ekki til skattskyldra tekna hjá námsmanni.

Eig­in auka­vinna við íbúð­ar­hús­næði

Eigin aukavinna við íbúðarhúsnæði til eigin afnota telst ekki til skattskyldra tekna að uppfylltum þeim skilyrðum að viðkomandi hafi unnið fullan vinnutíma við eiginlegt starf sitt og hafi skilað eðlilegum árstekjum af því. Gera þarf grein fyrir þessari vinnu í húsbyggingarskýrslu með skattframtali (RSK 3.03), sbr. ítarefni neðst á þessari síðu, ef um er að ræða íbúðarhúsnæði í smíðum eða endurbótum. Ef húsnæðið er selt telst skattfrjáls eigin aukavinna ekki með í stofnverði þess við ákvörðun á söluhagnaði.  

Eigin vinna – á dagvinnutíma og við annað en íbúðarhúsnæði

Athugið að vinnu við byggingu og endurbætur á íbúðarhúsnæði til eigin nota sem unnin er í venjulegum vinnutíma skal meta til tekna samkvæmt viðmiðunarfjárhæðum sem settar eru árlega og birtar í húsbyggingarskýrslu. Sama á við um eigin vinnu við byggingu eigin sumarbústaða og þess háttar húsnæðis.

Framfærslulífeyrir frá fyrrverandi maka

Fram­færslu­líf­eyr­ir frá fyrr­ver­andi maka er skattfrjáls að því leyti sem greiðslur takmarkast við sömu fjárhæð og lág­marks­elli­líf­eyr­is (grunn­líf­eyr­is) frá Tryggingastofnun ríkisins.

Heiðurslaun - heiðursverðlaun

Bókmennta-, tónlistar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs ásamt norrænu leikskáldaverðlaununum eru undanþegin skattskyldu.

Iðgjald í lífeyrissjóð

Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um starfstengda eftirlaunasjóði telst ekki til skattskyldra tekna fyrr en við útborgun lífeyris. Fari framlag launagreiðanda fram úr 12% af iðgjaldsstofni auk 2.000.000 kr. á ári telst þó vera um að ræða skattskyldar launatekjur þegar iðgjaldið er greitt í lífeyrissjóðinn.

Ef samið er um iðgjald í lífeyrissjóð í kjarasamningum eða það er bundið í lögum telst það þó aldrei til skattskyldra tekna fyrr en við greiðslu lífeyris.

Með­lags­greiðsl­ur með börn­um

Meðlagsgreiðslur með börnum sem eru úrskurðaðar eða staðfestar eru af sýslumanni teljast ekki til skattskyldra tekna að hámarki fjárhæð sem nemur tvöföldum barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef greiðslur nema hærri fjárhæð telst mismunurinn til skattskyldra tekna móttakanda.

Miskabætur og skaðabætur

Miskabætur og bætur vegna varanlegrar örorku sem ákveðnar eru í einu lagi til greiðslu teljast ekki til skattskyldra tekna. Sama á við um skaðabætur og vátryggingabætur sem greiddar eru vegna tjóns á eignum sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri.

Skaðabætur vegna sjúkdóma, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur teljast á hinn bóginn til skattskyldra tekna. Sama á við um skaða­bæt­ur sem koma í stað vinnu­launa.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Frádráttur frá tekjum utan atvinnurekstrar - 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Hvað ekki telst til tekna - 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattfrjáls húsnæðisstuðningur sveitarfélaga - 2. og 3. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga

Skattfrjálsar tryggingabætur, meðlög og styrkir - A-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Veiting happdrættisleyfa - reglugerð nr. 1124/2006, um veitingu happdrættisleyfa

Eyðublöð

Húsbyggingarskýrsla, fylgiskjal með skattframtali - RSK 3.03

Annað

Sýslumaðurinn á Suðurlandi


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum