Aðgerðir vegna heimsfaraldurs COVID-19

Í ljósi heimsfaraldurs kórónuveiru hratt ríkisstjórn Íslands af stað ýmsum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Upplýsingum um þessar aðgerðir er skipt upp í þrjá flipa eftir því hvort þær tóku til einstaklinga, atvinnurekstrar eða innheimtu- og tollamála. Undir hverjum flipa eru síðan taldar upp hinar ýmsu ráðstafanir og hægt að kynna sér nánar efni hverrar þeirra. Allar þessar aðgerðir hafa nú þegar, eða eru, að renna sitt skeið þótt afgreiðslu einhverra styrkumsókna og endurgreiðslubeiðna sé ólokið. Textinn í flipunum vísar því að miklu leyti við aðstæður sem eru liðnar.  

Einstaklingar

Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Endurgreiðsla virðisaukaskatts hækkar úr 60% í 100% tímabundið vegna vinnu sem innt er á tímabilinu og nær m.a. til frístundahúsnæðis, hönnunar og eftirlits við byggingu, heimilisaðstoð og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis, bílaviðgerða og mannvirkja félagasamtaka.

Lesa nánar um tímabundna hækkun endurgreiðslu

Lesa nánar um endurgreiðslur virðisaukaskatts til einstaklinga

Sérstakur barnabótaauki

Við álagningu 2021 var greiddur sérstakur barnabótaauki vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru.

Greiddar voru 30.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar voru tekjutengdar barnabætur til framfærenda.

Fjárhæð barnabótaauka skiptist jafnt milli hjóna og sambúðarfólks.

Nánar um sérstakan barnabótaauka

Úttekt séreignarsparnaðar

Á tímabilinu 1. apríl til og með 31. desember 2021 er heimilt að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar allt að 12 milljónum króna miðað við stöðu samanlagðs sparnaðar þann 1. apríl 2021 óháð dreifingu á vörsluaðila. Sótt er um þetta hjá vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Úttekt greindrar fjárhæðar dreifist á 15 mánuði frá því að beiðni er lögð fram hjá vörsluaðila. Sé ráðstafað lægri fjárhæð en 12 milljónum styttist útgreiðslutími hlutfallslega. Við útborgun skal haldið eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt þessari heimild hefur ekki áhrif á önnur úrræði sem heimiluð hafa verið um úttekt og ráðstöfun séreignasparnaðar. Þá hefur útgreiðsla séreignasparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hvorki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð né greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur eða greiðslu barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

Atvinnurekstur

Veitingastyrkur

Einstaklingar og lögaðilar sem stunda veitingarekstur af því tagi sem um ræðir og sem hófst fyrir 1. desember 2021 þurfa að hafa orðið fyrir a.m.k. 20% tekjufalli sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru til þess að eiga rétt á veitingastyrk. Uppfylla þarf ýmis skilyrði, sbr. nánar á eftir. Veitingastyrkur er greiddur vegna rekstrar á tímabilinu nóvember 2021 til og með mars 2022.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar með umsókn

Viðspyrnustyrkir

Viðspyrnustyrkir eru til að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Um þá gilda lög 160/2020, um viðspyrnustyrki. Markmið þeirra er að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar með umsókn

Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

Markmið þessa úrræðis er að tryggja réttindi launafólks og tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast. Til þess að atvinnurekendur geti óskað eftir umræddum stuðningi úr ríkissjóði þurfa þeir að uppfylla tiltekin skilyrði, m.a. um að rekstrartekjur hafi lækkað a.m.k. um 75% á ákveðnu tímabili með hliðsjón af tekjum á fyrri tímabilum.

Umsókn um stuðning skal skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. 

Opna umsókn á þjónustuvef


Að gefnu tilefni er rétt að benda á að umræddur stuðningur breytir engu um skyldur atvinnurekanda til greiðslu launa, staðgreiðslu launamanna og launatengdra gjalda. Stuðningurinn verður ekki ákvarðaður fyrr en staðin hafa verið skil á staðgreiðsluskilagrein og staðgreiðslu launamanna vegna þess mánaðar sem sótt er um fyrir. Frestur á greiðslum samkvæmt lögum nr. 25/2020, um breytingu á lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, teljast fullnægjandi skil á staðgreiðslu.  

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar með umsókn

Tekjufallsstyrkir

Tekjufallsstyrkir eru til að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Um þá gilda lög 118/2020 um tekjufallsstyrki. Markmið þeirra er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum.

Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. apríl 2020 og hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli, sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru, eiga rétt á tekjufallsstyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum.

Nánari upplýsingar

Lokunarstyrkir

Alþingi hefur samþykkt lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar er m.a. kveðið á um að rekstraraðilar sem uppfylla tiltekin skilyrði geti átt rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði.

Lesa nánar um lokunarstyrk 1 og 2
Lesa nánar um lokunarstyrk 3
Lesa nánar um lokunarstyrk 4, 5, 6 og 7

Laun í sóttkví og minnkað starfshlutfall sjálfstætt starfandi manna

Nýlega voru samþykktar heimildir til að greiða laun í sóttkví og atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi manna vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Lesa nánar

Heimild til niðurfellingar álags á virðisaukaskatt

Á árinu 2020 var Skattinum heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag á virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Í 27. gr. laga um virðisaukaskatt kemur fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skuli aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Álag samkvæmt þessu ákvæði skal vera 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%. Á grundvelli framangreindrar heimildar hefur verið ákveðið að falla frá álagi samkvæmt 27. gr. laganna vegna virðisaukaskattsskila 6. apríl 2020. 

Lesa nánar

Gistináttaskattur er felldur niður tímabundið

Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er gistináttaskattur felldur niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2023 vegna þeirrar gistiþjónustu sem er veitt og nýtt innan framangreinds tímabils.

Nánar um gistináttaskatt

Lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki (bankaskatts)

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki lækkar. Þessi skattur átti að lækka í þrepum í fjórum áföngum á árunum 2021-2024 þannig að gjaldhlutfallið yrði 0,145% frá og með álagningarárinu 2024 en hefur nú verið flýtt þannig að strax á árinu 2021 verður gjaldhlutfallið fært niður í 0,145% á skattstofn vegna skulda í árslok 2020.

Fyrirframgreiðsla upp í tekjuskatt lækkar eða fellur niður tímabundið

Samkvæmt 5. gr. nýsettra laga var ráðherra heimilað að setja reglugerð um lækkun eða niðurfellingu fyrirframgreiðslu lögaðila upp í tekjuskatt sem álagður verður á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019, eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í tekjuskattslögum, nr. 90/2003. Ráðherra hefur þegar sett reglugerð númer 283/2020 þar sem fram kemur að lögaðilar hafi val um hvort þeir greiði fyrirframgreiðslu tekjuskatts á gjalddögunum 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2020. 

Frestun hefur verið framlengd og tekur nú einnig til gjalddaga í júlí, ágúst og september 2020.

Frestunin tekur ekki til sérstaks fjársýsluskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eða jöfnunargjalds alþjónustu sem greiða skal á auglýstum gjalddögum samkvæmt reglugerð nr. 1227/2019. Á þjónustusíðu lögaðila er skattheimtuseðill þar sem fram kemur skipting á fyrirframgreiðsluskyldu eftir gjöldum og gjalddögum. Þar er því unnt að sjá hvernig heildarfjárhæð fyrirframgreiðsla skiptist upp eftir gjaldtegundum. Greiðsluskylda á mánuði eftir umræddar breytingar er samkvæmt framansögðu óbreytt, 8,5% af heildarfjárhæð síðusta álagningar annarra gjalda en tekjuskatts, þ.m.t. á hverjum gjalddaganna 1. apríl, 1. maí og 1. júní.

Innheimta og tollar

Greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds

Launagreiðendum, sem fengu frest hjá Skattinum til skila á afdreginni staðgreiðslu og tryggingagjaldi af launum vegna ársins 2021 til 15. dags janúar 2022 (eindagi bar upp á 17. janúar) geta sótt um að þeirri greiðslu verði dreift á sex jafnháar mánaðarlegar greiðslur þar sem fyrsta greiðsla er 1. september 2022 og mánaðarlega eftir það.

Sækja þarf um greiðsludreifingu á þjónustusíðu Skattsins í síðasta lagi þann 31. janúar 2022.

Nánar um úrræðið

Frestun á greiðslu álagðs tekjuskatts 2020

Þeim lögaðilum sem skattskyldir eru samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga og eiga að greiða tekjuskatt samkvæmt niðurstöðu álagningar á árinu 2020 er heimilt að fresta greiðslu allt að 20 milljóna kr. um eitt ár. Um þetta gilda ákveðnar reglur og skilyrði.

Sækja þarf um fyrir 10. nóvember 2020.

Nánar um úrræðið og leiðbeiningar með umsókn

Opna þjónustuvef Skattsins

Greiðslufrestur vegna aðflutningsgjalda (tolla, virðisaukaskatts o.fl.)

Gjalddagi aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020 verður 5. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Af þessu leiðir svo dæmi sé tekið að gjalddagi vegna alls uppgjörstímabilsins mars og apríl færist til 5. júní næstkomandi. Breytingin hefur einnig í för með sér að innflytjendum er veittur 20 daga aukinn frestur til að skila virðisaukaskatti í tolli (tollkrít) vegna innflutnings.

Frestun gjalddaga staðgreiðslu og tryggingagjalds

Launagreiðendur sem stunda að meginstarfsemi rekstur gististaðs með áfengisveitingum eða áfengisveitingastaði, sbr. 3. og 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og hafa þurft að sæta takmörkun á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana, er heimilt að fresta allt að tveimur gjalddögum staðgreiðslu af launum og tryggingagjaldi sem eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. 

Umsókn um frestun gjalddaga á þjónustusíðu Skattsins (opnar fljótlega) 

Nánar um úrræðið og leiðbeiningar með umsókn

Breyting á skuldfærslu vörugjalds af ökutækjum

Breytingin tekur til innflytjenda sem stunda innflutning á ökutækjum í atvinnuskyni og hafa gert upp vörugjald á ökutækjum miðað við eins mánaðar uppgjörstímabil, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Þeir munu frá 1. mars 2020 fá að fresta greiðslu vörugjalds fram að nýskráningu ökutækis, þó ekki lengur en í 12 mánuði frá tollafgreiðsludegi. Þessi breyting, sem er ætlað að létta undir og koma til móts við innflytjendur ökutækja í atvinnuskyni á tímum Covid-19, verður gerð með breytingu á 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar og mun hún taka gildi föstudaginn 17. apríl.

Lesa nánar

Niðurfelling álags vegna gjalddaga sérstakra mánaðarskila í virðisaukaskatti

Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið mars 2020 hjá þeim aðilum sem gera upp mismun út- og innskatts mánaðarlega eftir að hafa verið afskráðir af virðisaukaskattsskrá vegna áætlana en verið skráðir að nýju er 15. apríl 2020.

Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins hefur Skatturinn, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, ákveðið að nýta heimild sína til að beita ekki álagi á vangreiddan virðisaukaskatt sem er á ofangreindum gjalddaga.

Af þeim sökum er svigrúm til greiðslu virðisaukaskatts aukið til muna eða í allt að mánuð. Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga leggjast þó á dráttarvextir frá gjalddaga.

Skipting gjalddaga í staðgreiðslu launagreiðenda og tryggingagjalds 1. mars 2020

Samkvæmt lögum nr. 17/2020 var helmingi þeirrar staðgreiðslu af launum sem var á gjalddaga 1. mars ásamt helmingi staðgreiðslu tryggingagjalds á sama gjalddaga frestað til 1. apríl 2020 með eindaga 14 dögum síðar. Gjalddaginn 1. apríl 2020 á framangreindum greiðslum var síðan fluttur til 1. janúar 2021 og eindagi 14 dögum síðar samkvæmt lögum sem samþykkt voru 29. mars 2020. Gjalddaganum er frestað sjálfkrafa og því ekki þörf á sérstakri umsókn um það. Fyrri helmingur greiðslunnar var aftur á móti á gjalddaga 1. mars 2020 og eindaga 16. sama mánaðar.

Tollafgreiðslugjald fellur niður tímabundið

Tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu flugvéla og skipa utan almenns afgreiðslutíma fellur niður frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021.

English - Polski

Upplýsingar um nokkur úrræði hafa verið þýdd á ensku og pólsku.

English:

Loss of income subsidies (tekjufallsstyrkur)

Postponement of due dates for withholding tax and payroll tax

Relief Grants (viðspyrnustyrkur)

Polski

Rekompensata obniżonych dochodów (tekjufallsstyrkur)

Świadczenia antykryzysowe (viðspyrnustyrkur)

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum