Fréttir og tilkynningar


Minnkað starfshlutfall og laun í sóttkví

Sjálfstætt starfandi einstaklingar

23.3.2020

Nýlega voru samþykkt á Alþingi tvö mál til að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga í tengslum við Covid-19 faraldurinn sem nú geisar.

Annars vegar er það mál nr. 667, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, og hins vegar mál nr. 664, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall). Mál þessi eru þegar orðin að lögum frá Alþingi en hafa ekki fengið númer sem slík.

Sá hluti sem snýr að sjálfstætt starfandi einstaklingum í rekstri lítur svona út:

Laun í sóttkví

Samþykkt hefur verið á Alþingi að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingum launatap vegna þess að viðkomandi hafi orðið að sæta sóttkví  sbr. 7. gr. laganna. Sótt er um slíka greiðslu til Vinnumálastofnunar og er greiðslan ákvörðuð miðað við meðaltal reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af á tekjuárinu 2019, samkvæmt nánari reglum þar um, sbr. 8. gr. laganna.

Minnkað starfshlutfall – atvinnuleysisbætur

Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Heimildin er til staðar frá 15. mars til 1. júní 2020. Ekki þarf að stöðva reksturinn til þess að eiga rétt á umræddum bótum heldur þarf að tilkynna Skattinum um skerta starfsemi. Rekstraraðilar eru því enn skráðir bæði á launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsskrá ef eingöngu er um að ræða tímabundnar breytingar.

Sótt er um þessar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun en áður þurfa sjálfstætt starfandi einstaklingar að gera ákveðnar ráðstafanir gagnvart Skattinum.

Til þess að þetta gangi snurðulaust fyrir sig þurfa þeir sem starfa sjálfstætt á eigin kennitölu (ekki þeir sem starfa hjá eigin lögaðila eins og einkahlutafélagi) að gefa eftirfarandi upplýsingar í eyðublaði RSK 5.02 :

  • Fylla þarf út hluta af eyðublaðinu
  • Fyrst þarf að gefa ákveðnar upplýsingar í kafla A.Myndi af fjórum reitum á eyðublaði 5.02

  • Fyllt er út í reitinn “Breyting frá og með”; þ.e. þar á að setja dagsetninguna sem farið er í minnkað starfshlutfall en það getur fyrst orðið 15. mars 2020.
  • Og einnig reitinn “Breyting vegna atvinnuleysisbóta”; þar á að setja Covid-19.
  • Fyllt er út í kafla B þar sem almennar upplýsingar um umsækjanda koma fram.

  • Eftir að búið er að fylla eyðublaðið út samkvæmt framangreindu þarf að undirrita það og senda annað hvort skannað á skatturinn@skatturinn.is eða í pósti til Skattsins, Laugavegi 166, Reykjavík.

Engar breytingar á virðisaukaskatti

Athugið að engar breytingar eru gerðar á skráningu á virðisaukaskattsskrá vegna þessa tímabundna ástands heldur eiga rekstraraðilar að skila inn virðisaukaskattsskýrslum samkvæmt almennum reglum þar um. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum