Lækkun (ívilnun)

Við tilteknar aðstæður er heimilt að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga. Óska þarf eftir lækkun (ívilnun) í skattframtali og fylla út þar til gerða umsókn (RSK 3.05).  Gera þarf grein fyrir aðstæðum og sýna fram á útlagðan kostnað. Sé umsókn ófullnægjandi eða nauðsynleg gögn fylgja ekki er umsókninni hafnað.

Heimild til lækkunar á einkum við vegna sérstakra áfalla, svo sem slysa eða veikinda, sérstakra útgjalda vegna þungrar framfærslu, en einnig ef maður verður fyrir verulegu óbættu eignatjóni eða tapar kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri.

Veikindi, slys, ellihrörleiki

Lækkun kemur til álita ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát hafa í för með sér verulega skert gjaldþol hjá einstaklingi. Fyrst og fremst er litið til þess að til hafi fallið kostnaður sem einstaklingurinn hefur greitt sjálfur og er umfram það sem telst venjulegur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar.

Gögn með umsókn

  1. Útgjöld umfram venjulegan kostnað og í hverju fólgin. Gögn um kostnað fylgi.
  2. Málsatvik varðandi veikindi eða slys og hve lengi má ætla að afleiðingar þeirra vari. 
  3. Áætlaðar tekjur, bætur og styrkir umsækjanda á tekjuári. 
  4. Læknisvottorð fylgi.

Veikindi/fötlun barns

Lækkun kemur til álita ef maður hefur á framfæri sínu barn sem haldið er langvinnum sjúkdómi eða fötlun sem hefur í för með sér veruleg útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað sem greidd eru af framfærendum.

Framfærsla vandamanna

Lækkun kemur til álita ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn á framfæri sínu, enda geti þeir ekki sjálfir staðið undir framfærslu sinni. Við mat á ívilnun vegna framfærslu ungmennis á aldrinum 16-21 árs sem ekki stundar nám, en vegna atvinnuleysis eða af öðrum ástæðum er það tekjulágt að það getur ekki staðið undir eigin framfærslu, er miðað við tiltekna hámarksívilnun sem er sú sama og veitt er vegna ungmenna í námi. Hafi ungmennið tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum þess. Fjárhæð hámarksívilnunar er birt árlega í framtalsleiðbeiningum einstaklinga.

Ungmenni í námi

Framfærandi sem hefur á sínu framfæri ungmenni sem er í námi getur átt rétt á lækkun. Með námi í þessu sambandi er átt við nám sem ekki veitir rétt til námslána. Þá er fyrst og fremst átt við ungmenni á aldrinum 16-21 árs. Hámark ívilnunar er ákvarðað árlega og birt í framtalsleiðbeiningum einstaklinga. Við útreikninga á lækkun er jafnframt tekið mið af tekjum ungmennisins og ívilnun skert sem nemur þriðjungi af tekjum þess.

Eignatjón

Lækkun kemur til álita hafi maður orðið fyrir verulegu eignatjóni sem hann hefur ekki fengið bætt. Með verulegu eignatjóni er hér átt við að fjárhagslegar afleiðingar tjóns sem verður á eignum manns skerði gjaldþol hans. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fá tjónið bætt úr hendi annars aðila, t.d. tryggingarfélags.

Tapaðar kröfur

Lækkun kemur til álita hafi gjaldþol manns skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki tengjast atvinnurekstri hans. Þetta gildir m.a. um ábyrgðir sem fallið hafa á mann til greiðslu án möguleika á endurkröfu.

Viðmiðunarreglur: Hvernig lækkun er ákveðin

Ríkisskattstjóri hefur sett viðmiðunarreglur um lækkun á tekjuskattsstofni, þ.e. ívilnun samkvæmt ákvæðum í 65. grein tekjuskattslaganna.  Í reglunum koma fram fjárhæðir kostnaðar og önnur atriði sem að jafnaði skuli horfa til við mat á umsókn og ákvörðun um lækkun.

Þær eru birtar á upplýsingavef ríkisskattstjóra á skatturinn.is/reglur

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni - 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Auglýsing nr. 495/2017 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2018

Auglýsing nr. 1145/2018 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2019

Auglýsing nr. 1212/2019 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2020

Auglýsing nr. 1434/2020 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2021

Auglýsing nr. 1505/2021 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2022

Auglýsing nr. 1530/2022 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda á árinu 2023

Auglýsing nr. 1578/2023 um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024

Eyðublöð

Umsókn um lækkun - RSK 3.05


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum