Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Eigendur íbúðarhúsnæðis geta sótt um 35% (gildir frá 1. júlí 2023) endurgreiðslu af greiddum virðisaukaskatti af vinnu á verkstað, vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds.

Umsókn vegna eldri tímabila

Áfram er hægt að sækja um 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda sem féllu til á tímabilinu 1. september 2022 til 30. júní 2023, næstu sex ár frá því endurgreiðsluréttur stofnaðist.

Eins er áfram hægt að sækja um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda sem féllu til á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. ágúst 2022 í allt að sex ár frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist.

Endurgreiðslan nær til vinnu á byggingarstað íbúðarhúsnæðis vegna:

 • nýbygginga
 • endurbóta
 • viðhalds

Almennt fellur undir ákvæðið öll sú vinna sem fram fer á staðnum, þó ekki sú vinna sem alla jafna er unnin á verkstæði eða vinna stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla sem eru skráningarskyldar í vinnuvélaskrá.

Hægt er að sækja um endurgreiðslur í sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist. 

Sækja um endurgreiðslu

Opna umsókn

Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds og endurbóta íbúðarhúsnæðis.

Opna umsókn

Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbyggingar íbúðarhúsnæðis.

Skoða leiðbeiningar með umsókn

Gögn með umsókn

 • Fullgildir reikningar frá seljanda þjónustunnar.
 • Staðfesting á greiðslu reiknings (s.s. útprentun úr heimabanka vegna millifærslu).

Seljandi þjónustunnar verður að vera skráður á virðisaukaskattsskrá (vera með opið VSK-númer) á þeim tíma sem vinnan er innt af hendi. Gott er að kanna áður en reikningur er greiddur að þetta skilyrði sé uppfyllt.
Athuga hvort seljandi sé með opið VSK-númer

Hleðslustöðvar fyrir bifreiðar

Sækja má um endurgreiðslu virðisaukaskattur vegna vinnu við uppsetningu hleðslustöðva í eða við íbúðarhúsnæði. Um þá endurgreiðslu gilda sömu skilyrði og gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við byggingu, endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis. 

Enn hægt að sækja um endurgreiðslu vegna eldri tímabila

Áfram verður hægt að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa og uppsetningar á hleðslustöðvum á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023. Endurgreiðsla vegna þess tímabils verður áfram 100%.

Sótt er um á þjónustuvef Skattsins.

Spurt og svarað

Áður en sótt er um

Hvar sæki ég um?

Sótt er um inn á þjónustuvefnum á skattur.is

 • Innskráning með rafrænum skilríkjum eða aðalveflykli ef um félag er að ræða.
 • Velja samskipti, umsóknir og síðan virðisaukaskattur. 
 • Velja 10.18 og opna umsókn fyrir endurbætur og viðhald, en 10.19 fyrir nýbyggingar.

Hvar get ég fengið aðstoð við útfyllingu á RSK 10.18?

Best er að byrja að skoða leiðbeiningar við útfyllingu á umsókn.

Hvernig fæ ég veflykil fyrir húsfélag til að geta sótt um endurgreiðslu?

Sækja skal um veflykil á þjónustuvefnum skattur.is / innskráning. Skrá skal kennitölu húsfélagsins, veflykil verður sendur í framhaldi í bréfi á lögheimili. Nauðsynlegt er að húsfélagið sé með merktan póstkassa.

Hversu langt aftur í tímann er hægt að sækja um endurgreiðslu á RSK 10.18 og 10.19?

Hægt er að sækja um endurgreiðslu sex ár aftur í tímann.

Get ég sótt um endurgreiðslu af vinnu manna við frístundahúsnæði?

Heimilt er að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað, við frístundahúsnæði á tímabilinu 1. mars 2020 til 1. júlí 2022, en þá féll sú heimild niður. Hægt er að sækja um endurgreiðslur sem mynduðust á þessu tímabili í sex ár.

Umsóknarferlið

Á að setja inn heildarfjárhæð reikninga í skrefi þrjú á umsókn RSK 10.18 og 10.19?

Já, setja á heildar fjárhæð reiknings í skrefi þrjú þrátt fyrir að ekki sé sótt um endurgreiðslu á öllum hluta hans.

Hvar get ég séð stöðuna á umsókninni minni eða hvort hún hafi skilað sér?

Ekki er hægt að sjá stöðu á umsókn en hægt er að sjá dagsetningu hvenær umsókn var skilað með því að skrá sig inn á þjónustuvefinn á skatturinn.is með rafrænum skilríkjum eða aðalveflykli ef um félag er að ræða, velja samskipti, virðisaukaskattur. Þegar umsókn hefur verið afgreidd kemur einnig tilkynning um það á sama stað.

Get ég opnað umsókn sem ég var að vinna í en ekki búin að senda?

Já, fara þarf inn á þjónustuvef og þar undir samskipti, umsóknir og ósendar umsóknir.

Umsóknin mín er röng hvernig tek ég hana til baka?

Ekki er hægt að afturkalla umsókn rafrænt. Það þarf að senda tölvupóst á endurgreidslur@skatturinn.is með umsóknarnúmeri í efnislínu og óska eftir því að umsókn sé gerð ógild.

Get ég sótt um marga reikninga í einu?

Já, ef þeir eru á sama tímabili.

Það kemur villa að umsóknin þurfi að innihalda reikning en ég er búin að setja reikninginn

Það þarf að skrá upplýsingarnar af reikningnum þ.e. kennitölu útgefandans, dagsetningu, virðisaukaskattsnúmer og númer reikningsins.

Ég er ekki með VSK-nr. Hvað á að setja inn í reitinn VSK-nr.?

Það þarf að skrá virðisaukaskattsnúmer af reikningum frá seljanda þjónustunnar sem liggja til grundvallar umsókninni.

Af hverju er búið að afgreiða eina umsóknina okkar en ekki aðra?

Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Margir starfsmenn sjái um að afgreiða þessar beiðnir og því getur orðið röskun á því að beiðnir séu afgreiddar í réttri röð.

Hverjir geta sótt um?

Getur húsfélag sótt um eða er betra að hver og einn sæki um fyrir sig?

Já, húsfélag getur sótt um en reikningurinn þarf á vera á kennitölu þess.

Geta félög sótt um endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis?

Já, ef þau eru skráðir eigendur þess.

Get ég sótt um á svæði maka þó að reikningurinn sé skráður á mig?

Já, ef þið eruð samsköttuð.

Af hvaða vinnu er endurgreitt og hvað ekki?

Er endurgreitt af öllu bæði vinnu og efni?

Nei það er bara endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu á verkstað. Ekki er endurgreitt vegna efniskaupa, akstri, vinnu á verkstæði, vélavinnu eða stjórnenda þeirra

Er jarðvegsvinna endurgreidd?

Nei, ekki er endurgreitt vegna jarðvegsvinnu.

Er endurgreitt vegna vinnu veitufyrirtækja við lagnir til og frá húsi?

Nei, ekki er endurgreitt vegna vinnu veitufyrirtækja við lagnir til og frá húsi.

Er endurgreitt vegna vinnu stjórnenda vinnuvéla?

Nei, ekki er endurgreitt vegna vinnu stjórnenda vinnuvéla, né leigu.

Er endurgreitt vegna vinnu sem unnin er á verkstæði?

Nei, einungis er endurgreitt vegna vinnu á verkstað.

Er endurgreitt vegna vinnu sérfræðiþjónustu s.s. verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta?

Nei, ekki er endurgreitt vegna hvers konar sérfræðiþjónustu, svo sem þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta.

Er endurgreitt vegna vinnu við ræstingu, heimilisþrif eða heimilisaðstoðar?

Nei, endurgreiðslur vegna reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis féll niður frá og með 1. júlí 2022. Hægt er að sækja um endurgreiðslu vegna reikninga gefna út á tímabilinu 1. mars 2020 til 1. júlí 2022 í sex ár.

Er endurgreitt vegna vinnu við garðslátt eða aðra garðvinnu?

Nei, endurgreiðslur vegna reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis féll niður frá og með 1. júlí 2022. Hægt er að sækja um endurgreiðslu vegna reikninga gefna út á tímabilinu 1. mars 2020 til 1. júlí 2022 í sex ár.

Endurgreiðsluhlutfall

Hvað er endurgreitt mikið?

Frá 1. júlí 2023 er endurgreitt 35% af virðisaukaskatti af vinnu á verkstað.

Vegna framkvæmda sem féllu til á tímabilinu 1. september 2022 til 30. júní 2023 er endurgreiðsluhlutfallið 60%.

Vegna framkvæmda sem féllu til á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. ágúst 2022 er endurgreiðsluhlutfallið 100%.

Hvenær lækkaði endurgreiðslan niður í 60%

Endurgreiðslan lækkaði niður í 60% 1. september 2022.

Hvenær lækkaðu endurgreiðslan niður í 35%

Endurgreiðslan lækkaði niður í 35% 1. júlí 2023.

Fylgigögn

Af hverju þurfa greiðslukvittanir að fylgja með?

Þetta er skilyrði fyrir endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 449/1990,

Hvernig finn ég greiðslukvittun?

Hafi reikningurinn verið greiddur í heimabanka er hægt að finna greiðslukvittun þar. Þar er hægt að prenta hana út eða vista hana sem .pdf og hengja hana við umsóknina sem viðhengi.

Ég gleymdi að setja inn fylgigögn, hvernig bæti ég þeim við?

Það er ekki hægt að hengja við gögn eftir að umsókn hefur verið skilað rafrænt. Það þarf að senda gögnin í tölvupósti á endurgreidslur@skatturinn.is og setja í efnislínu gögn með 10.18/10.19 og umsóknarnúmer.

Afgreiðsla

Hver er afgreiðslutíminn á RSK 10.18 (umsóknir vegna viðhalds og endurbóta)

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna 10.18 er 30 dagar frá móttöku umsóknar. Því miður vegna fjölda umsókna hefur afgreiðslutími umsókna dregist og er nú um tveir mánuðir.

Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Margir starfsmenn sjái um að afgreiða þessar beiðnir og því getur orðið röskun á því að beiðnir séu afgreiddar í réttri röð.

Hver er afgreiðslutíminn á RSK 10.19 (umsóknir vegna nýbygginga)

Endurgreiðslur vegna nýbygginga 10.19 fara fram á tveggja mánaða fresti.

Afgreiðsludagur Umsókn berst
5. apríl Umsóknir sem berast í janúar og febrúar
5. júní Umsóknir sem berast í mars og apríl
5. ágúst Umsóknir sem berast í maí og júní
5. október Umsóknir sem berast í júlí og ágúst
5. desember Umsóknir sem berast í september og október
5. febrúar Umsóknir sem berast í nóvember og desember

Það stendur að það sé búið að afgreiða umsóknina en ég finn ekki greiðsluna?

Það getur verið að ekki sé skráður bankareikningur. Hægt er að skoða það inn á þjónustuvefnum undir stillingar. Ef ekki er skráður bankareikningur er hægt að skrá hann þar inn.

Skilyrði endurgreiðslu

Hvaða skilyrði þarf reikningur að uppfylla?

Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts skal byggja á löglegum reikningum.
Á reikningum skal vera að finna:

 • nafn og kennitala kaupanda og seljanda
 • skráningarnúmer (virðisaukaskattsnúmer) seljanda,
 • lýsingu á hinu selda, magn, einingarverð og heildarverð.
 • dagsetning reiknings
 • fjárhæð virðisaukaskatts eða hlutfall hans af heildarverði, sé hann innifalinn í heildarverði.

Gott er að kanna áður en reikningur er greiddur hvort þessi skilyrði séu uppfyllt og að seljandi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á þeim tíma sem vinnan var innt af hendi.
Hægt er að fletta seljanda upp

Get ég sótt um þó ég sé ekki búin að greiða reikninginn.

Hægt er að sækja um endurgreiðslu, hins vegar þarf greiðslukvittun að fylgja umsókn til þess að hún sé afgreidd.

Þarf ég að búa í eigninni til að geta sótt um á 10.18?

Nei, það er ekki skilyrði.

Varmadælur

Er endurgreitt vegna kaupa á varmadælu og efni vegna uppsetningu hennar?

Já, heimilt er að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Heimildin gildir hins vegar ekki um tækjabúnað vegna breytinga á hitakerfum íbúðarhúsnæðis innan dyra.

Hleðslustöðvar rafbifreiða

Er virðisaukaskattur endurgreiddur vegna kaupa á hleðslustöð?

Já, á árunum 2020-2023 er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði.

Er virðisaukaskattur endurgreiddur vegna vinnu við uppsetningu hleðslustöðvar?

Já, á árunum 2020-2023 er heimilt að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við uppsetningu hleðslustöðvar í eða við íbúðarhúsnæði.

Er virðisaukaskattur endurgreiddur vegna kaupa á öðru efni eða vinnu?

Virðisaukaskattur er einungis endurgreiddur vegna kaupa á hleðslustöðinni sjálfri og vinnu manna við uppsetningu hennar í eða við íbúðarhúsnæði, en ekki vegna annars kostnaðar. 

Aðrar endurgreiðslur virðisaukaskatts

Endurgreiðslur skv. bráðabirgðaúrræði v. Covid-19
Endurgreiðslur vegna erlendra fyrirtækja
Endurgreiðslur til sveitarfélaga og opinberra aðila
Endurgreiðslur til almannaheillafélaga
Endurgreiðslur til byggingaraðila
Endurgreiðslur vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa
Endurgreiðslur vegna bifreiða
Endurgreiðslur vegna frístundahúsnæðis, heimilisaðstoðar og regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis
Endurgreiðslur vegna virðisaukaskatti til björgunarsveita, slökkviliða og gjafa til líknarmála
Endurgreiðslur til erlendis búsettra (Tax Free)

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis – reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði

Endurgreiðslur vegna kaupa og vinnu við uppsetningu hleðslustöðvar - Ákvæði til bráðabirgða nr. XXXII við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Einu sinni var…

Í upphafi

Endurgreiðslan var 100% af vinnu sem innt var af hendi á árunum 1990-1996 en lækkaði þá í 60% í tengslum við niðurfellingu vörugjalds af m.a. byggingarefnum. 

Eftir efnahagshrun

Hinn 1. mars 2009 hækkaði endurgreiðsluhlutfallið tímabundið í 100% og endurgreiðslan jafnframt látin taka til vinnu manna á byggingarstað frístundahúsnæðis og af sérfræðiþjónustu, þ.e. vegna þjónustu verkfræðinga og arkitekta vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðar- eða frístundahúsnæðis. Sú endurgreiðsla féll niður hinn til 1. janúar 2015 og endurgreiðsluhlutfallið lækkað á ný í 60%.

Í Covid

Meðal þeirra ráðstafana sem gripið var til í því skyni að bregðast við efnahagsástandinu af völdum kórónuveirunnar var tímabundin hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, úr 60% í 100%. Heimild til endurgreiðslu var jafnframt víðtækari á tímabili. Breytingar giltu frá 1.3.2020 en féllu niður á mismunandi tímum.

 • Endurgreiðsluhlutfall vegna viðhalds, endurbóta og byggingar íbúðarhúsnæðis lækkaði aftur niður í 60% frá og með 1.9.2022.
 • Endurgreiðsla vegna bílaviðgerða féll niður frá og með 1.1.2022.
 • Endurgreiðsla vegna frístundahúsnæðis, heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis féll niður frá og með 1.7.2022.
 • Endurgreiðsla vegna hönnunar og eftirlits við byggingu, endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis féll niður frá og með 1.7.2022.

Lesa nánar

Annað

Leiðbeiningar um virðisaukaskatt

Umsókn um nýjan veflykil

Upplýsingar um rafræn skilríki


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum