Innheimta
Innheimta skatta og gjalda
Ríkisskattstjóri innheimtir, frá og með 1. maí 2019, skatta og gjöld fyrir ríkissjóð í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog. Sýslumenn utan umdæmis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu annast innheimtu opinberra gjalda fyrir ríkissjóð.
Upplýsingar um innheimtu í kjölfar álagningar einstaklinga
Mismunandi reglur gilda um gjalddaga, eindaga, álag og dráttarvexti á vangreiðslur eftir því um hvaða skatta og gjöld er að ræða. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Seðlabanka Íslands, að því er varðar dráttarvexti eins og þeir eru ákvarðaðir hverju sinni. Þá er í ítarefni neðst á síðunni hægt að skoða þau lagaákvæði sem gilda í þessum efnum.
Staðgreiðsla opinberra gjalda
Þeir sem eru á launagreiðendaskrá skulu mánaðarlega skila skilagrein og greiða staðgreiðslu sem dregin hefur verið af greiddum launum og reiknuðu endurgjaldi. Það sama á við um tryggingagjald. Gjalddagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds er 1. hvers mánaðar, vegna launagreiðslna næst liðins mánaðar, og eindagi 14 dögum síðar, eða 15. hvers mánaðar.
Ef misbrestur verður á að fullnægjandi skilagrein sé skilað er viðkomandi aðila áætluð fjárhæð til greiðslu og skilaskylda miðuð við hana. Viðurlög eru við vanskilum, sbr. það sem rakið er í þremur liðum hér á eftir. Einnig má loka og innsigla starfsstöðvar þeirra sem ekki standa í skilum.
Launagreiðandi sem skilar staðgreiðslu með rafrænum hætti fær sendan tölvupóst 2-3 dögum fyrir eindaga þar sem minnt er á skil. Hjá þeim sem skila rafrænt stofnast krafa í vefbanka en aðrir þurfa að gera skil hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Sé krafa ekki greidd á eindaga fellur hún brott úr heimabankanum og ný eftirstöðvakrafa/kröfur stofnast með vanskilaviðurlögum sem eru mismunandi eftir tegund kröfunnar. Stofnist krafa ekki í heimabanka þarf að greiða með millifærslu eða með OCR-rönd.
Ef skil á staðgreiðslu opinberra gjalda/tryggingagjaldi/fjársýsluskatti hafa ekki verið rétt getur komið til endurákvörðunar á skilaskyldri fjárhæð. Ef skilaskyld fjárhæð er of lág leggjast við hana álag og dráttarvextir eins og rakið er á eftir.
Vangreidd staðgreiðsla opinberra gjalda
Ef staðgreiðsla er ekki greidd á eindaga, sem er 15. hvers mánaðar, skal beita álagi. Álagið er annars vegar 1% af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en 10%. Hins vegar álag sem er það sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður hverju sinni, af fjárhæð vanskilafjár frá og með gjalddaga hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga.
Vangreitt staðgreiðsla tryggingagjalds
Ef tryggingagjald og tengd gjöld eru ekki innt af hendi á eindaga, sem er 15. hvers mánaðar, skal greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga sem er 1. hvers mánaðar. Dráttarvextir eru ákvarðaðir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Vangreidd staðgreiðsla fjársýsluskatts
Greiðslutímabil fjársýsluskatts er hver almanaksmánuður nema annað sé tekið fram í lögum. Gjalddagi fjársýsluskatts er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi er 14 dögum síðar, eða 15. hvers mánaðar. Hafi skattskyldur aðili ekki greitt á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Dráttarvextir eru ákvarðaðir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Endurákvarðanir
Þegar skattar og gjöld eru endurákvörðuð frá upphaflegri álagningu gilda mismunandi reglur um gjalddaga/eindaga og vaxtaútreikninga eftir því um hvaða skatt er að ræða. Eins eru mismunandi gjalddagar og eindagar eftir því hvort um er að ræða einstaklinga eða lögaðila en sömu reglur gilda hjá öllum einstaklingum, hvort sem þeir stunda atvinnurekstur eða ekki.
Lögaðilar
Breyting á tryggingagjaldi
a) Tryggingagjald sem hefði átt að skila í staðgreiðslu
Ef tryggingagjald hefur ekki verið greitt á staðgreiðsluári þannig að til endurákvörðunar komi þá eru lagðir dráttarvextir á vangreitt tryggingagjald. Reiknast vextirnir frá gjalddaga, sem er 1. hvers mánaðar vegna launagreiðslna í næstliðnum mánuði og eru þeir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
b) Tryggingagjald utan staðgreiðslu
Á tryggingagjald vegna launa og hlunninda sem undanþegin eru staðgreiðslu þá reiknast dráttarvextir frá og með gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Gjalddagi er 1. nóvember hjá lögaðilum og eindagi mánuði síðar, sbr. 6. mgr. 12. gr. laganna. Dráttarvextir eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Breyting á fjársýsluskatti
Gjalddagi fjársýsluskatts er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Ef ekki er greitt á eindaga skal greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Dráttarvextir eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Gjalddagi fjársýsluskatts sem undanþeginn er staðgreiðslu er 1. nóvember hjá lögaðilum og eindagi mánuði síðar. Dragist greiðsla eru dráttarvextir reiknaðir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Breyting á tekjuskatti og öðrum sköttum
Krafa vegna hækkunar á tekjuskatti/öðrum sköttum í kjölfarið á endurákvörðun fellur í gjalddaga 10 dögum frá dagsetningu úrskurðar um málið. Sé krafan ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Dráttarvextir eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Einstaklingar
Breyting á tryggingagjaldi:
a) Tryggingagjald sem hefði átt að skila í staðgreiðslu
Ef tryggingagjald af launagreiðslum og reiknuðu endurgjaldi hefur ekki verið greitt á staðgreiðsluári þannig að til endurákvörðunar komi þá eru lagðir dráttarvextir á vangreitt tryggingagjald í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni. Reiknast vextirnir frá gjalddaga, sem er 1. hvers mánaðar vegna launagreiðslna í næstliðnum mánuði.
b) Tryggingagjald utan staðgreiðslu
Á tryggingagjald vegna launa og hlunninda sem undanþegin eru staðgreiðslu, þar með talin laun ársmanna, reiknast dráttarvextir frá og með gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Gjalddagi er 1. júlí hjá mönnum og eindagi mánuði síðar. Dráttarvextir reiknast í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Breyting á fjársýsluskatti
Gjalddagi fjársýsluskatts er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Ef ekki er greitt á eindaga skal greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Dráttarvextir eru reiknaðir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Gjalddagi fjársýsluskatts sem undanþeginn er staðgreiðslu er 1. júlí hjá mönnum og eindagi mánuði síðar. Dragist greiðsla reiknast dráttarvextir í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Breyting á tekjuskatti, öðrum sköttum, gjöldum og bótum
Krafa vegna hækkunar á sköttum og gjöldum, eða lækkunar á vaxta- eða barnabótum, í kjölfar endurákvörðunar fellur í gjalddaga 10 dögum frá dagsetningu úrskurðar um málið. Sé krafan ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Dráttarvextir eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands hverju sinni.
Ríkisskattstjóra eða sýslumanni er heimilt að hefja innheimtu um leið og úrskurður um endurákvörðun hefur verið kveðinn upp m.a. með því að krefja vinnuveitanda um að halda eftir allt að 75% af heildarlaunagreiðslum til launamanns hverju sinni.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar
Álag á vangreidda staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjalds og fjársýsluskatts - 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, 1. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt
Áætlun á staðgreiðslu opinberra gjalda/fjársýsluskatts og tryggingagjalds - 21. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald
Dráttarvextir - lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu
Fjársýsluskattur - lög nr. 165/2011, um fjársýsluskatt
Gjalddagi endurákvarðana - 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003
Launaafdráttur - 11. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda og reglugerð nr. 124/2001, um launaafdrátt
Launagreiðendaskrá - 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Mánaðarleg skil - 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, 3. mgr. 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt
Staðgreiðsla opinberra gjalda - lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda
Tryggingagjald - lög nr. 113/1990, um tryggingagjald