Fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á eignatekjur, þ.e. vexti, arð, söluhagnað og leigutekjur. Á lögaðila sem stunda atvinnurekstur er ekki lagður sérstakur fjármagnstekjuskattur heldur greiða þeir skatt af fjármagnstekjum eftir sömu reglum og gilda um aðrar rekstrartekjur. Sama á við um einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur, þ.e. þeir greiða ekki sérstakan fjármagnstekjuskatt vegna fjármagnstekna sem tilheyra atvinnurekstri. Af þeim er þó dregin staðgreiðsla af vöxtum og arði. Arðgreiðslur milli tiltekinna lögaðila með takmarkaða ábyrgð eru undanþegnar staðgreiðslu.

Aðilar sem eru undanþegnir tekjuskattsskyldu ber þrátt fyrir það að greiða fjármagnstekjuskatt, af tilteknum fjármagnstekjum. Undanþegnir þeirri skyldu eru þó:

  • Lögaðilar sem staðfest er að verji hagnaði sínum eingöngu til almannaheilla.
  • Félög, sjóðir og stofnanir sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins
  • Aðilar sem eru sérstaklega undanþegnir skattskyldu skv. lögum, s.s. Menntasjóður námsmanna, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir, Framkvæmdasjóður fatlaðra og Framkvæmdasjóður aldraðra.

Innheimta í staðgreiðslu

Allar vaxtatekjur og arðstekjur sæta staðgreiðslu skatta óháð því hvernig skattlagningu þeirra er háttað í álagningu. Arðgreiðslur milli einkahlutafélaga, hlutafélaga og samlagshlutafélaga eru þó undanþegnar staðgreiðslu ásamt arðgreiðslum milli lögaðila. Greiðsluskyldan nær þannig bæði til einstaklinga og allra lögaðila, þar með talin félög og félagssamtök, sjóðir og stofnanir sem undanþegnir eru greiðslu tekjuskatts. Staðgreiðsla þessi er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts, nema annað sé tekið fram í lögunum.

Við endanlega álagningu er skattur á fjármagnstekjur einungis lagður á þær tekjur sem ekki stafa af atvinnurekstri. Það eru því í raun aðeins einstaklingar sem greiða fjármagnstekjuskattinn, svo og þau félög og félagasamtök, sjóðir og stofnanir sem undanþegnar eru tekjuskattsskyldu.

Hjá lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skal réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla af fjármagnstekjum, sem verða til í atvinnurekstri þeirra, vera bráðabirgðagreiðsla upp í væntanlegan álagðan tekjuskatt eða önnur opinber gjöld sem lögð verða á slíka rekstraraðila.

Þetta þýðir að þær fjármagnstekjur sem stafa af atvinnurekstri einstaklinga, sem og allar fjármagnstekjur lögaðila, sem tengjast rekstrinum, falla í raun undir venjulegt tekjuskattshlutfall slíkra aðila. Sú fjárhæð sem greidd hefur verið í staðgreiðslu af slíkum tekjum er því fyrirframgreiðsla tekjuskatts. Ef skattur er oftekinn í staðgreiðslu er það sem oftekið var endurgreitt við álagningu. Sem dæmi má nefna þegar tap er á rekstri lögaðila.

Arðstekjur skráðra sameignarfélaga o.fl.

Þeir lögaðilar sem upp eru taldir í 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. sameignarfélög sem skráð eru sem sjálfstæðir skattaðilar, sem og ýmis önnur félög, sjóðir og stofnanir, t.d. sjálfseignarstofnanir og dánarbú, greiða fjármagnstekjuskatt af arðstekjum sínum. Hér er því um að ræða undantekningu frá því almenna ákvæði skattalaga að arðstekjur lögaðila skattleggist í hinu almenna skattþrepi þeirra. 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Aðilar undanþegnir greiðslu fjármagnstekjuskatts – 5. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Aðilar undanþegnir tekjuskattsskyldu sem greiða fjármagnstekjuskatt – 1., 2., 4., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Arðgreiðslur milli samskattaðra lögaðila – 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Arðstekjur skráðra sameignarfélaga o.fl. – 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla – lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum