Nýir í rekstri

Almennt

Eftirfarandi er almennt yfirlit yfir helstu atriðin sem þeir sem stunda atvinnurekstur þurfa að kunna skil á, ásamt tenglum á ítarefni. Rétt er að vekja athygli á því að í lok flestra kafla á vef ríkisskattstjóra er sérstakt ítarefni með tenglum á viðeigandi laga- og reglugerðarákvæði, eyðublöð og annað sem tengist umfjöllunarefni.

Umfjöllunin er fyrst og fremst miðuð við einstaklinga í eigin atvinnurekstri þó að vissulega eiga oftast sömu reglur við um atvinnurekstur í formi félaga. Mun víðtækari kröfur og formreglur gilda um atvinnurekstur í formi félaga og meiri kostnaður er við stofnun til slíks rekstrar.

Ríkisskattstjóri býður reglulega upp á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim sem eru að hefja atvinnurekstur. Farið er yfir hagnýt atriði sem varða skattskil í rekstri. Má þar nefna skyldur launagreiðanda í staðgreiðslu, tekjuskráningu og reikningaútgáfu, rekstrarkostnað og skattframtalið. Auk þess er fjallað um virðisaukaskatt: útskatt og innskatt, skattskyldu, undanþágur, skattverð og fleira.

Námskeið í boði

Verktaka

Atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Taki hann að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir annan aðila, verkkaupa, og ábyrgist árangur verksins telst hann verktaki. Verktakar geta bæði verið félög og menn. Atvinnurekandi (verktaki) sem hefur fólk í vinnu (starfsmenn/launamenn) kallast einnig vinnuveitandi og ber tilteknar skyldur sem slíkur eins og nánar er rakið hér á eftir.

Ekki eru alltaf skýr mörk á milli þess hverjir teljast vera launamenn og hverjir verktakar. Hjá einstaklingi sem vinnur aðeins fyrir einn eða fáa ræðst það af eðli starfssambandsins við þann sem unnið er fyrir hvort hann telst vera verktaki eða starfsmaður/launamaður. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um það í skattalegu tilliti. Þannig getur ríkisskattstjóri til dæmis hafnað umsókn um virðisaukaskattsnúmer með vísan til þess að umsækjandi teljist starfsmaður þrátt fyrir samning um verktakagreiðslur. Einnig getur hann metið starfssambandið eftir á og fært skattskil úr skilum rekstraraðila í skil launamanns með tilheyrandi endurákvörðun skatta auk viðurlaga.

Munurinn á verktaka og starfsmanni/launamanni

Verktakar taka að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð fyrir verkkaupa. Þeir vinna verk á eigin ábyrgð. Starfsmenn/launamenn eru ráðnir til starfa hjá vinnuveitanda þar sem þeir vinna undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu launa.

Réttindi, skyldur og ábyrgð verktaka og starfsmanna eru ólík. Hér er umfjöllun afmörkuð við skyldur gagnvart skattyfirvöldum.

Skoðum hvernig þetta lítur út þegar maður ræður sig til starfa hjá öðrum aðila, þ.e. er starfsmaður/launamaður.

Skattar og gjöld sem starfsmaður greiðir (í gegnum staðgreiðsluskil sem vinnuveitandi annast):

 • Tekjuskattur.
 • Útsvar.
 • Iðgjald í lífeyrissjóð.

Gjöld sem vinnuveitandi greiðir vegna starfsmanna (launatengd gjöld):

 • Tryggingagjald.
 • Mótframlag í lífeyrissjóð.
 • (Fjársýsluskattur – eftir atvikum)

Ábyrgð vinnuveitanda:

 • Að halda eftir og standa skil á framangreindum sköttum og gjöldum í staðgreiðsluskilum sem starfsmanni ber að greiða.
 • Að standa skil á launatengdum gjöldum.

Dæmi um annað sem vinnuveitandi ber ábyrgð á:

 • Að færa bókhald.
 • Að gæta þess að tekjuskráning sé fullnægjandi – útgáfa sölureikninga eða nota sjóðvél.
 • Að gera upp reksturinn og skila niðurstöðum með skattframtali og til þess gerðum fylgiskjölum.
 • Að skila launa- og verktakamiðum að loknu rekstrarári/staðgreiðsluári hafi laun verið greidd eða verktakagreiðslur inntar af hendi.
 • Að greiða tekjuskatt af rekstrarhagnaði.
 • Að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti ef starfsemin er virðisaukaskattsskyld.
 • Að innheimta og standa skil á gistináttaskatti ef starfsemin er gistináttaskattsskyld.

Vinnuveitendur þurfa að tilkynna sig inn á skrá hjá ríkisskattstjóra:

 • Launagreiðendaskrá: Vegna staðgreiðslu af tekjum starfsmanns ásamt tryggingagjaldi (og eftir atvikum fjársýsluskatti) og skil á launamiðum og launaframtali.
 • Virðisaukaskattsskrá: Ef starfsemi er virðisaukaskattsskyld.
 • Stofnskrá gistináttaskatts: Ef starfsemi er gistináttaskattsskyld.


Einstaklingur í sjálfstæðri starfsemi (verktaki) ber að reikna sér laun vegna þeirrar vinnu sem hann innir af hendi í rekstrinum. Sérstakar reglur gilda um þau lágmarkslaun sem honum ber að reikna sér. Reglurnar eru gefnar út á hverju ári þar sem fjárhæðir eru uppfærðar. Þar sem hann á að reikna sér laun ber honum að skrá sig á launagreiðendaskrá. Fer það svo eftir atvikum hvort hann eigi að skrá sig á aðrar skrár hjá ríkisskattstjóra.

Einstaklingur í sjálfstæðri starfsemi (verktaki) er að vissu leyti bæði í hlutverki vinnuveitanda og starfsmanns í skattalegu tilliti. Á það við óháð því hvort hann starfi einn í rekstrinum eða ekki. Þannig ber honum að greiða skatta af eigin launum, auk þess sem honum ber að greiða launatengd gjöld. Annað sem vinnuveitendur bera ábyrgð á samkvæmt yfirlitinu hér að framan er jafnframt á hans ábyrgð. Starfi aðrir við rekstur verktakans ber hann einnig að standa skil á áðurnefndum sköttum og gjöldum vegna launa þeirra.

Framangreindar reglur um laun í eigin rekstri eiga einnig við um einstakling sem starfar við atvinnurekstur sjálfstæðs félags (einkahlutafélags, sameignarfélags o.þ.h.) þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Nákvæmlega hvaða kröfur eru gerðar til verktaka hverju sinni ræðst af umfangi og eðli starfseminnar. Til dæmis hvort um er að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi og hvort standa beri skil á sköttum og gjöldum vegna reiknaðra launa í staðgreiðslu eða að tekjuári loknu.

Gerviverktaka

Það er grundvallarmunur á sambandi starfsmanna og vinnuveitenda annars vegar og verktaka og verkkaupa hins vegar. Réttindi, skyldur og ábyrgð verktaka og starfsmanna eru mismunandi og skattaleg meðferð tekna er að mörgu leyti ólík.

Það hvort samningur milli aðila er nefndur verktakasamningur eða vinnusamningur hefur ekki úrslitaáhrif um það hvort samningurinn feli í sér verktakasamning eða vinnusamning í raun. Hvað felst í samningi aðila ræðst af heildarmati á aðstæðum öllum. Ef nánari skoðun á samningi aðila og framkvæmd hans leiðir í ljós að í raun sé um að ræða vinnusamning þótt hann sé kallaður verktakasamningur er um gerviverktöku að ræða.

Ýmis atriði koma til skoðunar við mat á því um hvers konar samningssamband sé að ræða. Þau atriði hafa þó mismikið vægi. Samband aðila er skoðað með hliðsjón af samningnum og öllum kringumstæðum, m.a. framkvæmd samningsins. Hvert mál er því skoðað heildstætt þar sem sumt kann að benda til þess að um verktakasamband sé að ræða en annað til þess að um sé að ræða samband vinnuveitanda og starfsmanna/launamanna. Eftirfarandi eru dæmu um þau atriði sem skoðuð eru:

 • Innir viðkomandi verk af hendi fyrir einn aðila eða fleiri? – Verktakar taka að sér að vinna verk af tilteknum toga og bjóða almennt fram þjónustu sína á almennum markaði. Ef maður vinnur fyrir einn eða fáa bendir það frekar til þess að um vinnusamband sé að ræða en ekki verktakasamband.
 • Hver leggur til aðstöðu, verkfæri, efni? – Ef kaupandi þjónustu leggur til aðstöðu, verkfæri og efni, eru meiri líkur á því að um vinnusamning sé að ræða.
 • Er viðkomandi skyldur til að inna verk af hendi persónulega? – Verktakar taka að sér að inna ákveðið verk af hendi, en eru almennt ekki skyldugir til að inna verk af hendi persónulega þótt einhverjar undantekningar kunni að vera á því. Starfsmenn eru hins vegar skyldugir til að inna verk af hendi persónulega.
 • Hver ábyrgist árangur verks? – Verktakar ábyrgjast árangur þeirra verka sem þeir taka að sér. Vinnuveitendur ábyrgjast árangur verka sem starfsmenn þeirra inna af hendi.
 • Hver ber ábyrgð á tjóni? – Verktakar bera skaðabótaábyrgð valdi þeir tjóni við vinnu sína. Vinnuveitandi ber svokallaða vinnuveitandaábyrgð sem felur í sér að hann ber ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með saknæmum eða ólögmætum hætti á vinnutíma.
 • Hver hefur stjórnunarrétt, s.s. ákveður hvar, hvernig og hvenær vinnan er unnin? – Verktakar hafa mun meira sjálfdæmi um það en starfsmenn hvar, hvernig og hvenær verk er unnið.
 • Miðast greiðsla við árangur verks eða miðast greiðsla við tímaeiningu? – Almennt miðast greiðsla til verktaka við árangur verks en við tímaeiningu sé um launamann að ræða.

Í ýmsum úrskurðum yfirskattanefndar er fjallað um þau atriði sem koma til skoðunar þegar mat er lagt á það hvort samningur aðila teljist vinnusamningur eða verktakasamningur. Þar er að finna vísbendingar um vægi einstakra þátta sem nefnd eru hér að framan. Sem dæmi má nefna úrskurði nefndarinnar nr. 43/2016, 223/2013 og 41/2012.

Vefur yfirskattanefndar

Skattar manna í einstaklingsrekstri

Verktakar geta bæði verið félög (lögaðilar) og menn. Þegar menn eru verktakar er ýmist sagt að þeir séu í rekstri á eigin kennitölu, í einstaklingsrekstri, í eigin atvinnurekstri eða að þeir séu í sjálfstæðri starfsemi. Tekjur manna af sjálfstæðri starfsemi, þ.e. þegar reksturinn er ekki í félagi, eru skattlagðar með almennri skattprósentu á tekjur manna. Því er um að ræða sömu skatt- og útsvarsprósentu og vegna launa.

Reiknað endurgjald

Þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur, þ.á m. verktakar, eiga að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Mikilvægt er að kunna skil á því hvaða reglur gilda og hvernig framkvæmd er háttað. 

Nánar um reiknað endurgjald

Rekstrarkostnaður

Þegar skattstofn er reiknaður er heimilt að færa rekstrarkostnað til frádráttar rekstrartekjum. Til rekstrarkostnaðar teljast bein útgjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það á einnig við um það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum sem bera arð í rekstrinum.

Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær. Tilfallandi afnot af persónulegum munum skapar almennt ekki heimild til gjaldfærslu í rekstri. Sem dæmi má nefna að almennt er ekki fallist á gjaldfærslu kostnaðar vegna fatakaupa, enda hafa menn yfirleitt full persónuleg afnot af þeim. Á því eru þó undantekningar, t.d. vegna nauðsynlegs öryggis- og hlífðarfatnaðar.

Í fjölmörgum úrskurðum yfirskattanefndar er tekið á ýmsum álitaefnum varðandi rekstrarkostnað, þ.e. hvaða kostnað heimilt er að gjaldfæra og hvaða kostnað er ekki heimilt að gjaldfæra.

Af úrskurðum nefndarinnar er unnt að lesa hvaða sjónarmið almennt eru lögð til grundvallar mati á því hvort gjaldfærsla kostnaðar er heimil.

Vefur yfirskattanefndar

Tilkynningar til ríkisskattstjóra

Áður en rekstur hefst þarf að tilkynna um reksturinn til ríkisskattstjóra óháð því hvort hann er rekinn í félagi eða á kennitölu einstaklings (einstaklingsrekstur). Einnig þarf að tilkynna breytingar á rekstrinum eftir því sem við á sem og lok rekstrar.

Áður en rekstur hefst

Þeir sem eru að hefja atvinnurekstur verða, eftir atvikum, að skrá sig á eftirfarandi skrár hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst:

 • Launagreiðendaskrá: Rekstraraðilum er skylt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi) ásamt tryggingagjaldi og eftir atvikum fjársýsluskatti.
 • Virðisaukaskattsskrá: Eingöngu þeir sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi eiga að tilkynna sig til skráningar.

Aðrar skrár:

 • Gistináttaskattsskrá: Þeir sem selja gistináttaeiningar eiga að tilkynna um starfsemi sína áður en hún hefst. Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Ekki á að leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt.
 • Fjármagnstekjuskattsskrá: Þeir sem eru skyldir til að halda eftir og skila staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum þurfa að senda tilkynningu um það til ríkisskattstjóra. Félög með takmarkaða ábyrgð félagsmanna ber öllum að halda eftir og skila staðgreiðslu af arði og því ekki þörf á að tilkynna sig sérstaklega á skrá vegna arðgreiðslna. Ríkisskattstjóri setur félög á skrá við stofnun þeirra.

Rétt er að geta þess að þeir sem stunda atvinnurekstur og reikna sér laun eða greiða laun til starfsmanna/launamanna þurfa sjálfir að tilkynna starfsemina til viðeigandi lífeyrissjóðs og annast greiðslur.

Nánar um launagreiðendaskrá
Nánar um virðisaukaskattsskrá
Nánar um aðrar skrár
Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár (RSK 5.02)

Ef til stendur að reka starfsemina í félagi t.d. einkahlutafélagi þarf að stofna félagið hjá fyrirtækjaskrá. Hægt er að ganga frá nýskráningu einkahlutafélaga rafrænt.

Leiðbeiningar um nýskráningu einkahlutafélaga og breytingar á skráningu

Unnt er að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag. Sérstakar reglur gilda þegar einkahlutafélag er stofnað með yfirtöku einstaklingsreksturs. Færa verður einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélag á fyrstu fjórum mánuðum ársins svo yfirfærslan hafi ekki í för með sér skattalegar afleiðingar.

Verklagsreglur um stofnun einkahlutafélags með yfirtöku einstaklingsreksturs

Á meðan á rekstri stendur

Tilkynna skal um breytingar á rekstri innan 8 daga frá því að breyting var gerð. Ef breytingar eru gerðar á virðisaukaskattsskyldri starfsemi eða hætt er við hana skal tilkynna um það til ríkisskattstjóra. Einnig ber að tilkynna breytingar á fjárhæð reiknaðra launa (reiknaðs endurgjalds) til launagreiðendaskrár. Sama eyðublað er notað og þegar aðilar tilkynna sig inn á launagreiðenda- og/eða virðisaukaskattsskrá.

Tilkynning til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár (RSK 5.02)

Þegar starfsemi er í einkahlutafélagi ber að tilkynna ýmsar breytingar til fyrirtækjaskrár. Sem dæmi má nefna breytingar á nafni, lögheimili, stjórn, tilgangi, prókúruhafa og framkvæmdastjóra. Tilkynna verður um breytingar innan mánaðar frá ákvörðun. Sérstakar reglur gilda um hlutafjárhækkanir.

Leiðbeiningar um breytingar á skráningu einkahlutafélags

Í lok rekstrar

Tilkynna ber lok rekstrar til launagreiðendaskrár og eftir atvikum grunnskrá virðisaukaskatts innan 8 daga frá lokum rekstrar.

Tilkynning um lok starfsemi (RSK 5.04)

Ef starfsemin er rekin í einkahlutafélagi þarf einnig að tilkynna um slit á félaginu til fyrirtækjaskrár. Skuldlausum einkahlutafélögum er unnt að slíta á einfaldan hátt en í öðrum tilvikum þarf aðkomu skilanefnda. Vakin er athygli á því að auk upplýsinga í kafla um slit á einkahlutafélagi, sbr. tengil hér fyrir neðan, eru skilyrði þess að slit fari fram með einföldum hætti einnig rakin á bakhlið tilkynningar um slit á einkahlutafélagi (RSK 17.52).

Almennt um slit á einkahlutafélagi
Tilkynning um slit á einkahlutafélagi (RSK 17.52)

Haldið utan um fjármálin í rekstrinum

Færa skal bókhald reglulega og í samræmi við ákvæði laga um bókhald og virðisaukaskatt. Halda verður utan um allar upplýsingar um tekjur og gjöld. Tekjur skulu skráðar jafnóðum og þær verða til. Gefa skal út sölureikning við sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu þó greiðsla hafi ekki borist eða skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram. Fullfrágengið og fullnægjandi bókhald skal liggja til grundvallar framtalsskilum.

Eftir lok rekstrarárs eiga félög að útbúa og skila ársreikningi á grundvelli bókhaldsins. Einstaklingar þurfa að skila ársreikningum ásamt sérstöku rekstrarframtali með skattframtali sínu ef velta rekstrarársins fer yfir 20.000.000 kr.

Nánar um bókhald og tekjuskráningu
Hnappurinn (eingöngu fyrir örfélög)

Gagna- og framtalsskil og greiðsla skatts

Á yfirstandandi rekstrarári ber þeim sem stunda atvinnurekstur að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum. Sem dæmi má nefna virðisaukaskatt, staðgreiðslu skatts (útsvars- og tekjuskatts) og staðgreiðslu tryggingagjalds af launum og reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi) og staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslna. Misjafnt er eftir tegund og umfangi starfsemi hverju á að skila og hversu oft.

Að liðnu rekstrarári ber að skila inn tilteknum gögnum vegna framtalsgerðar. Reksturinn er gerður upp með skilum á sérstakri rekstrarskýrslu með persónuframtali þeirra sem eru í einstaklingsrekstri og skattframtali lögaðila ef starfsemin er rekin í félagi.

Staðgreiðsla tekjuskatts og tryggingagjald

Þeir sem greiða laun til starfsmanna og reikna sér laun í rekstri (reiknað endurgjald) ber almennt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu tekjuskatts og tryggingagjalds. Launatímabil er að hámarki einn mánuður. Gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar á eftir launamánuði og eindagi 15. hvers mánaðar.

Ef endurgjald sem maður ber að reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína er ekki hærra en 450.000 kr. miðað við heilt ár þarf ekki að skila staðgreiðslu. Þá ber ekki að halda eftir staðgreiðslu af reiknuðum launum barna launagreiðandans sem vinna við reksturinn. Gera skal grein fyrir umræddum launum á launaframtali, sem er hluti rekstrarskýrslu, og telja þau fram á skattframtali. Tekjuskattur og útsvar leggjast á við álagningu.

Séu launagreiðslur og reiknað endurgjald samanlagt ekki umfram 504.000 kr. á ári (að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð) er heimilt að skila staðgreiðslu tryggingagjalds einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember sé að ræða.

Mikilvægt er að skila skilagrein staðgreiðslu mánaðarlega þó að launagreiðslur liggi niðri tímabundið (núllskýrsla - setja “X“ í viðeigandi reit) því annars er ríkisskattstjóra skylt að áætla staðgreiðsluna.

Hægt er að standa skil á staðgreiðslu með rafrænum hætti.

Nánar um staðgreiðslu
Nánar um reiknuð laun (reiknað endurgjald)
Um rafræn skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi
Leiðbeiningar um rafræn skil á staðgreiðslu
Nánar um tryggingagjald, m.a. greiðslutímabil tryggingagjalds

Hafa ber í huga að halda ber eftir og standa skil á iðgjaldi í lífeyrissjóð af launum starfsmanna og reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi). Þá ber að standa skil á mótframlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð. Nánari upplýsingar um skil veita viðeigandi lífeyrissjóðir.

Skattadagatal

Uppgjör virðisaukaskatts

Þeim sem eru í virðisaukaskattsskyldum rekstri ber að skrá sig á grunnskrá virðisaukaskatts. Þá ber þeim eftir hvert uppgjörstímabil að gera upp virðisaukaskattinn með rafrænni virðisaukaskattsskýrslu ásamt greiðslu virðisaukaskatts. Standa ber skil á virðisaukaskattsskýrslum þótt innheimtur virðisaukaskattur sé 0 kr. (núllskýrsla).

Undanþegnir skattskyldu eru þó þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst. Athugið að undanþágan felur í sér undanþágu frá skyldunni til að skrá sig á virðisaukaskattsskrá. Aðilar eru ekki undanþegnir virðisaukaskattsskyldu ef þeir kjósa að skrá sig, þrátt fyrir að velta þeirra sé lægri en 2.000.000 kr.

Almenn uppgjörstímabil virðisaukaskatts eru tveir mánuðir. Önnur uppgjörstímabil eru ársskil, sérstök mánaðarskil, tímabundin uppgjörstímabil, auk þess sem sérreglur gilda um landbúnað. Sérstakar reglur gilda um hvert uppgjörstímabil fyrir sig.

Aðilum er almennt við skráningu á virðisaukaskattsskrá gert að skila virðisaukaskatti á almennum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts.

Aðili, sem selur virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á heilu almanaksári, getur þó óskað eftir því við ríkisskattstjóra að nota almanaksár sem uppgjörstímabil á næsta almanaksári. Sækja skal um breytt uppgjörstímabil til ríkisskattstjóra fyrir 15. febrúar vegna yfirstandandi almanaksárs, sem ársskilum er ætlað að ná til.

Aðilar í ársskilum sem fara yfir framangreind veltumörk, 4.000.000 kr. innan almanaksárs, ber að breyta skilamáta sínum í almenn tveggja mánaða uppgjörstímabil virðisaukaskatts. Er það gert með því að skila skýrslu með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins. Þaðan í frá skal aðilinn gera upp og skila virðisaukaskattsskýrslum á tveggja mánaða fresti.

Leiðréttingar á fjárhæðum í virðisaukaskattsskilum einstakra uppgjörstímabila eru gerðar rafrænt á þjónustuvef skattsins fram að skilum skattframtals vegna viðkomandi rekstrarárs. Við skil á skattframtali er auk þess hægt að leiðrétta virðisaukaskatt með RSK 10.26, leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts sem er fylgiblað framtals.

Nánari upplýsingar um uppgjör og skil
Leiðbeiningar um rafræn skil á virðisaukaskattsskýrslu og greiðslu virðisaukaskatts
Skattadagatal

Uppgjör gistináttaskatts

Uppgjörstímabil gistináttaskatts eru þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts og skilin eru með sambærilegum hætti og skil á virðisaukaskatti.

Nánar um skil á gistináttaskatti
Skattadagatal

Uppgjör fjármagnstekjuskatts

Unnt er að standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts með rafrænum hætti vegna arðs og vaxtatekna.

Nánar um skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts
Skattadagatal

Framtalsskil og gagnaskil vegna framtalsgerðar

Gera þarf upp atvinnureksturinn að rekstrarári liðnu. Ef um einstaklingsrekstur er að ræða er sérstöku rekstraryfirliti eða rekstrarskýrslu skilað með persónuframtali. Reksturinn er ekki skattlagður sérstaklega, heldur eru niðurstöðutölur af rekstrarblöðum færðar á persónuframtalið og tekjur skattlagðar með öðrum tekjum viðkomandi.

 • Rekstraryfirlit RSK 4.10 - rekstrartekjur einstaklings undir 1.000.000 kr. (Nánari skilyrði hér fyrir neðan)
 • Rekstrarskýrsla RSK 4.11 - rekstrartekjur einstaklings á bilinu 1.000.000 kr. til 20.000.000 kr.
 • Skattframtal rekstraraðila RSK 1.04 - öll félög og einstaklingar með rekstrartekjur yfir 20.000.000 kr. 
 • Landbúnaðarskýrsla RSK 4.08 - skil bænda óháð fjárhæð rekstrartekna

Rekstraryfirlit 4.10 er eingöngu notað um mjög einfaldan rekstur. Eftirfarandi skilyrði verða að vera uppfyllt svo heimilt sé að skila rekstraryfirliti 4.10:

 • Rekstrartekjur fara ekki yfir 1.000.000 kr. á ári.
 • Ekki er um að ræða virðisaukaskattsskil.
 • Laun eru ekki greidd til annarra.
 • Aksturskostnaður er ekki gjaldfærður.
 • Fyrnanlegar eignir eru ekki notaðar í rekstrinum.

Auk þess að gera reksturinn upp sérstaklega ber að standa skil á ýmsum öðrum gögnum og upplýsingum til ríkisskattstjóra vegna framtalsgerðar á hverju ári. Þannig eiga þeir sem greiða laun að skila inn launamiðum og launaframtalshluta rekstrarskýrslu. Á launamiða er einnig gerð grein fyrir greiðslum til verktaka.

Til viðbótar framangreindu ber einkahlutafélögum að skila hlutafjármiðum yfir hluthafa félagsins.

Hægt er að skila launamiðum og hlutafjármiðum rafrænt á þjónustusíðu viðkomandi.

Nánar um framtalsskil
Gagnasöfn vegna skattframtals (RSK 2.XX)

Skil á ársreikningum

Einstaklingar þurfa að skila ársreikningum ásamt sérstöku rekstrarframtali með skattframtali sínu ef velta rekstrarársins fer yfir 20.000.000 kr.

Félög, s.s. einkahlutafélög, eiga að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar til ársreikningaskrár. Athygli er vakin á því að auk þess að skila ársreikningi til ársreikningaskrár skal einnig skila ársreikningi með skattframtali. Í stað framanritaðs geta örfélög sem skilað hafa skattframtali valið að nota „hnappinn“ við skil á ársreikningi. Sé sú leið valin útbýr ríkisskattstjóri ársreikning félagsins sem byggir á innsendu skattframtali. Tiltekin skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo sú leið sé fær.

Nánar um skil á ársreikningum
Nánar um rafræn skil á ársreikningum örfélaga (Hnappurinn)

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög nr. 3/2006 um ársreikninga

Lög nr. 145/1994 um bókhald

Lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög

Lög nr. 165/2011 um fjársýsluskatt

Lög nr. 87/2011 um gistináttaskatt 

Reglur um reiknað endurgjald

Skattprósenta einkahlutafélaga – 1. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattprósenta einkahlutafélaga - „Helstu tölur“ á skatturinn.is

Skattprósenta manna (einstaklingsrekstur) – 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattprósenta manna (einstaklingsrekstur) - „Helstu tölur“ á skatturinn.is

VSK. - Skilyrði skráningar á virðisaukaskattsskrá – 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt 

VSK. - Undanþága ef velta undir fjárhæðarmörkum – 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Undanþegin starfsemi – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Undanþegin velta – 12. og 12. gr. A laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Uppgjörstímabil virðisaukaskatts – 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

VSK. - Virðisaukaskattsskyld starfsemi – 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Tryggingagjaldi skilað einu sinni á ári – 15. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald

Undanþága frá staðgreiðslu vegna reiknaðra launa – 8. tölul. 2.gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

Undanþága frá staðgreiðslu vegna reiknaðra launa barna – 9. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu

Yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag – 56. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Eyðublöð

Tilkynning til launagreiðendaskrár og virðisaukaskattsskrár - RSK 5.02
Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá og/eða virðisaukaskattsskrá - RSK 5.04

Annað

Framtalsleiðbeiningar – skattframtal einstaklinga

Framtalsleiðbeiningar – skattframtal lögaðila

Námskeið í boði

Orðsendingar

Rafræn skráning einkahlutafélaga

Skattadagatal

Vefur yfirskattanefndar

Virðisaukaskattur – leiðbeiningar RSK 11.19

Spurt og svarað

Ýmis hugtök og skilgreiningar

Hvað telst vera atvinnurekstur?

Almennt hefur verið horft til þess hvort um sjálfstæða starfsemi er að ræða sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Þetta er þó ekki einhlítt og getur þurft að taka tillit til fleiri atriða við þetta mat.

Sjálfstæður og ósjálfstæður skattaðili – hvað þýðir það?

Sameignarfélög, samlagsfélög og samlagshlutafélög geta verið sjálfstæðir skattaðilar sé þess óskað við skráningu og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í því felst að félögin bera beint skattskylduna sjálf af starfsemi sinni en ekki eigendur þeirra. Meðal skilyrða þess að félög séu sjálfstæðir skattaðilar eru þau að sótt er um það við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og þess einnig getið í félagssamningi.

Um er að ræða samning tveggja eða fleiri aðila (einstaklinga eða félaga). Hjón ein og sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað sameignarfélag, samlagsfélag eða samlagshlutafélag sem er sjálfstæður skattaðili.

Þegar um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Einungis tryggingagjald, fjársýsluskatt og virðisaukaskatt er unnt að skattleggja á kennitölu ósjálfstæðs skattaðila þó einnig komi til greina að skil fyrir umrædda aðila séu á kennitölum eigenda.

Uppgjöri félags sem er ósjálfstæður skattaðili þ.e. skattframtali rekstraraðila og ársreikningi er skilað á kennitölu þess en samhliða skilum á skattframtölum eigenda þess.

Reiknuð laun / reiknað endurgjald – hvað þýðir það?

Reiknuð laun / reiknað endurgjald eru hugtök sem eru notuð um vinnulaun þess sem starfar í eigin atvinnurekstri. Sambærilegt og vinnulaun annarra almennra launþega.

Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja.

Nánar um reiknað endurgjald
Viðmiðunarfjárhæðir

Hvernig skal gera grein fyrir tekjum og reiknuðu endurgjaldi í eigin atvinnurekstri á rekstrarskýrslu RSK 4.11 og persónuframtali?

Á rekstrarskýrslu RSK 4.11 færast heildarrekstrartekjur (velta) í eigin atvinnurekstri (á kennitölu einstaklings) til tekna í reiti 1017 til 1060. Eigin laun rekstraraðila þ.e. reiknað endurgjald er fært til gjalda (frádráttar) á skýrslunni í reit 3080.

Á persónuframtali færast þetta sama reiknaða endurgjald til tekna í reit 24. Einnig færist 4% iðgjald í reit 162 til frádráttar og eftir atvikum iðgjald í séreignarsjóð í reit 160 (að hámarki 4%).

Mótframlag (vinnuveitanda) í lífeyrissjóð færist til gjalda (frádráttar) í reit 3085 á rekstrarskýrslu RSK 4.11.

Mótframlagið færist einnig í kafla A á samræmingarblaði RSK 4.05 í reitinn „Mótframlag sem greitt var í lífeyrissjóð af eigin reiknuðu endurgjaldi“. Reiknað endurgjald að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð myndar stofn til tryggingagjalds.

Heimilt er að færa tryggingagjald til frádráttar rekstrartekjum með færslu þess til frádráttar í reit 3090 á rekstrarskýrslu RSK 4.11.

Eyðublöð 

Hvað er staðgreiðsla?

Meginreglan er sú að allar tekjur eru skattskyldar nema þær séu sérstaklega undanþegnar. Árið sem tekjurnar verða til nefnist tekjuár (rekstrarár verði tekjurnar til í atvinnurekstri). Á næsta ári eftir lok tekjuársins/rekstrarársins er árið gert upp, þ.e. skattframtali er skilað og ríkisskattstjóri leggur skatta á skattskyldar tekjur viðkomandi (álagning skatta). Það ár nefnist álagningarár.

Á tekjuárinu/rekstrarárinu er haldin eftir staðgreiðsla skatta af tilteknum tekjum, s.s. reiknuðum launum, launum starfsmanna, sem er í raun bráðabirgðagreiðsla upp í álagningu skatta. Því má segja að um sé að ræða fyrirframgreiðslu skatts áður en eiginleg álagning fer fram. Þannig halda launagreiðendur eftir staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna sinna jafnóðum og þeir greiða út launin og standa skil á skattinum til ríkissjóðs. Þeir sem reikna sér laun vegna eigin starfsemi ber jafnframt almennt að standa skil á staðgreiðslu skatta vegna þeirra launa. Við álagningu skatta er tekið tillit til þess skatts sem haldið var eftir í staðgreiðslu. Þar sem staðgreiðslu er haldið eftir á tekjuárinu/rekstrarárinu er oft talað um staðgreiðsluár.

Staðgreiðsla dregin af launum

Upphaf og lok atvinnurekstrar

Hvaða form á atvinnurekstri er best?

Ríkisskattstjóri tekur ekki afstöðu til slíks. Bent skal á að kostnaður og formskilyrði eru mismunandi eftir rekstrarformi.

Einstaklingsrekstur er ódýrasta og einfaldasta rekstrarformið, rekið á kennitölu viðkomandi einstaklings og ber hann ábyrgð á rekstrinum með öllum eigum sínum. Ekkert skráningargjald. Ekkert lágmarks stofn fé. Tekjuskattshlutfall af eigin launum í einkarekstrinum og hagnaði er hið sama og af launatekjum einstaklinga.

Helstu félagaform sem til greina koma eru:

Einkahlutafélag – ehf. Helstu einkenni eru að það er a.m.k. einn stofnandi. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 500.000.

Hlutafélag – hf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000.

Samlagshlutafélag – slhf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Sameignarfélag – sf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Allir eigendur með ótakmarkaða ábyrgð – einn fyrir alla og allir fyrir einn. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað sameignarfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Samlagsfélag – slf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað samlagsfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Þarf að skrá atvinnureksturinn í upphafi rekstrar?

Hjá skattyfirvöldum þurfa einstaklingar í atvinnurekstri og félög að skrá sig/starfsemina á launagreiðendaskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Þó þarf einstaklingur ekki að skrá sig á launagreiðendaskrá ef reiknað endurgjald hans fer ekki yfir 450.000 kr. miðað við heilt ár. Ef um virðisaukaskattsskylda starfsemi er að ræða þarf einnig að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst.

Sé velta í starfseminni lægri en tiltekin fjárhæðamörk (2.000.000 kr. án VSK þegar þetta er ritað – 2019) á sérhverju tólf mánaða tímabili þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt og þar að leiðandi ekki að skrá sig og sækja um virðisaukaskattsnúmer.

Ítarefni:

Launagreiðendaskrá

Virðisaukaskattsskrá

Fjárhæðamörk – 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Hvernig veit ég hvort ég eigi að innheimta virðisaukaskatt?

Meginreglan er sú að innheimta skuli virðisaukaskatt af öllum viðskiptum innan lands og af innflutningi vöru og þjónustu. Á því eru tilteknar undantekningar. Undantekningarnar eru af ýmsum toga:

 • Tiltekin starfsemi kann að vera undanþegin virðisaukaskatti. Þar sem starfsemin sjálf er undanþegin ber ekki að skrá sig á virðisaukaskattsskrá. Virðisaukaskattur (útskattur) er ekki innheimtur og ekki er hægt að fá virðisaukaskatt (innskatt) vegna kaupa á vörum og þjónustu endurgreiddan.
 • Ákveðin velta virðisaukaskattsskyldra aðila kann að vera undanþegin, þá helst þegar vara eða þjónusta er seld úr landi. Þar sem starfsemin er virðisaukaskattsskyld ber almennt að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá. Virðisaukaskattur er innheimtur vegna viðskipta innanlands og skilað í ríkissjóð (útskattur). Innskattur vegna kaupa á vöru og þjónustu er færður á móti útskatti.
 • Ef heildartekjur af starfseminni á hverju 12 mánaða tímabili er undir tilteknum fjárhæðarmörkum er starfsemin undanþegin. Hægt er að sækja um að fara á virðisaukaskattsskrá þótt veltan sé undir fjárhæðarmörkum. Aðili er hins vegar ekki skráður á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Þó á viðkomandi rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari tímabilum.

Oft er kostnaður hærri en tekjur í nýjum atvinnurekstri þannig að oft er skilyrði skráningar ekki uppfyllt. Samkvæmt framansögðu kann viðkomandi samt sem áður að eiga rétt á skráningu, þ.e. ef sýnt er fram á að líkur standi til þess að skilyrði skráningar verði uppfyllt á síðari tímabilum.

Almennt um VSK

Hvernig er staðið að lokum atvinnurekstrar?

Við lok einkarekstrar þarf að tilkynna launagreiðendaskrá og eftir atvikum virðisaukaskattsskrá um rekstrarlok með eyðublaðinu RSK5.04. Rétt er að taka fram að söluhagnaður vegna sölu atvinnurekstrareigna eftir lok einkarekstrar skattleggst áfram sem tekjur af atvinnurekstri.

Þegar félög hætta starfsemi þarf einnig að tilkynna það launagreiðendaskrá og eftir atvikum virðisaukaskattsskrá með eyðublaðinu RSK5.04. Jafnframt þarf að gera sérstaka grein fyrir lok starfsemi og slit á félagi til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra.

Breytingar og slit

Rétt er að benda á að hafi félögum ekki verið slitið en starfsemi liggur niðri þá þarf samt sem áður að skila skattframtölum og ársreikningum.

Hvernig er einkahlutafélagi slitið og framtalsgerð við lok þess?

Meginreglan við slit á einkahlutafélögum er að fara þá leið að kjósa sérstaka skilanefnd sem birtir auglýsingu um félagsslitin ásamt áskorun til lánadrottna um að þeir lýsi kröfum sínum á hendur félaginu til skilanefndar innan tiltekins tíma o.þ.h.

Sérstakri lagaheimild var bætt við lög um einkahlutafélög til að einfalda ferli við slit á félögum og þá fyrst og fremst vegna slita á félögum sem höfðu verið hætt rekstri um skeið, voru eignalítil og skuldlaus. Í þessari heimild felst að hluthafar í skuldlausu einkahlutafélagi geta afhent hlutafélagaskrá skriflega yfirlýsingu um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félagsins hafi verið greiddar og félaginu slitið. Yfirlýsingin skal vera undirrituð með nafni, kennitölu og heimilisfangi allra hluthafa félagsins. Með yfirlýsingu skal fylgja vottorð frá toll- og skattyfirvöldum um að félagið skuldi ekki opinber gjöld. Má hlutafélagaskrá einungis skrá slit félagsins ef yfirlýsing hluthafanna berst skránni innan tveggja vikna frá undirskrift yfirlýsingarinnar.

Eftir slit bera hluthafar beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum einkahlutafélagsins, hvort sem þær eru gjaldfallnar, ógjaldfallnar eða umdeildar, frá þeim tíma er yfirlýsingin um slit félagsins var gefin.

Rétt er að taka fram að einkahlutafélagið þarf að telja fram fyrir tímabilið fram að slitum. Álagning opinberra gjalda einkahlutafélaga sem og annarra skattskyldra félaga fer fram einu sinni á ári. Af þessum ástæðum og vegna ákvæða um skuldleysi einkahlutafélags sem til stendur að slíta er best að slíta félögum eftir þessari leið í kjölfar álagningar sem hefur verið greidd.

Slit einkahlutafélags 

Bókhald og reikningar

Hvaða reglur gilda um varðveislu bókhaldsgagna?

Meginreglan er að sölureikningar, kostnaðarreikningar sem og önnur skjöl sem varða bókhald, þar með talin gögn sem varðveitt eru á rafrænu formi, skulu varðveitt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Ársreikninga skal varðveita í 25 ár.

Hvaða reglur gilda um útgáfu rafrænna reikninga?

Rekstraraðilum/viðskiptaaðilum er heimilt að senda og móttaka sölureikninga og önnur skjöl er varða bókhaldið með rafrænum hætti (pappírslaust) sín á milli ef viðkomandi aðilar sem eiga í viðskiptum hafa rafrænt bókhaldskerfi sem uppfyllir ákvæði reglugerðar um rafrænt bókhald og gögn eru skráð á milli kerfanna að meginhluta með sjálfvirkum hætti.

Hins vegar skal bent á að þegar seljandi, sem er með rafrænt bókhaldskerfi, á viðskipti við kaupanda, sem ekki er með slíkt kerfi, þá verður seljandinn að prenta eintak rafræna reikningsins fyrir kaupandann og senda honum. Nægilegt er að prentað eintak rafræns reiknings sé í einriti og reikningsnúmerið þarf ekki að vera fyrirfram áprentað á reikningseyðublöð. Hins vegar þarf reikningurinn við prentun hans að bera með sér reikningsnúmerið sem rafræna bókhaldskerfið gaf honum. Jafnframt þarf reikningur að bera með sér að hann sé frumrit og eigi uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi.

Ljósmynd af reikningi eða skannað eintak reiknings telst ekki fullnægjandi bókhaldsgagn í þessu sambandi.

Rekstrartekjur, rekstrargjöld

Er velta í atvinnurekstri undir 2.000.000 kr. skattfrjáls?

Nei. Algengt er að rugla saman viðmiðunarfjárhæð í virðisaukaskatti varðandi það hvort viðkomandi rekstraraðili er með veltu/rekstrartekjur það háar að viðkomandi eigi að skrá sig á virðisaukaskattsskrá að því gefnu að um virðisaukaskattsskylda starfsemi sé að ræða.

Umrædd viðmiðunarfjárhæð nær aðeins til virðisaukaskatts, þ.e. sé velta umfram 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili ber aðila að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og skila virðisaukaskatti af veltunni. Hins vegar eru allar rekstrartekjur alltaf skattskyldar til tekjuskatts frá fyrstu krónu. 

Er svokölluð undanþegin velta skattfrjáls?

Nei. Með undanþeginni veltu er átt við söluveltu í starfsemi sem er í eðli sínu virðisaukaskattsskyld en við ákveðnar aðstæður verður veltan undanþegin virðisaukaskatti, t.d. við útflutning. Undanþágan nær ekki til tekjuskatts. Sjá einnig:

Almennt um virðisaukaskatt

Á að skrá rekstrartekjur og rekstrargjöld með virðisaukaskatti eða án hans?

Rekstraraðilar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi með opið virðisaukaskattsnúmer eiga að færa fjárhæðir inn á rekstrarskýrslu RSK4.11 og rekstrarframtal RSK1.04 án virðisaukaskatts.

Á ég að færa sölu til tekna þó ég hafi ekki fengið söluna greidda?

Tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi ber að jafnaði að telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.

Meginreglan um tímamark tekjuskráningar byggir á svokallaðri kröfustofnunarreglu. Þannig ber að jafnaði að telja tekjur til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.

Við innborgun (án útgáfu sölureiknings) fyrir afhendingu hefur ekki myndast krafa hjá seljanda heldur er um nokkurs konar lán að ræða frá kaupanda til seljanda. Fyrir þessari greiðslu þarf að gefa út kvittun og innborgunina ber að skuldfæra í efnahagsreikningi sem fyrirfram innheimtar tekjur. Frestast þá tekjufærslan þar til verkinu er lokið og afhending hefur farið fram og/eða reikningur gefinn út.

Rétt er að taka fram að í uppgjöri til virðisaukaskatts gildir einnig svo kölluð innborgunarregla, þ.e. til skattskyldrar veltu teljast allar greiðslur / innborganir þ.e. hafi afhending ekki farið fram eða útgáfa sölureiknings, en borgað hefur verið inn á vöru/þjónustu, ber að gefa út sérstaka kvittun fyrir hverri innborgun og tekjufæra til uppgjörs í virðisaukaskatti. Misræmi getur því verið á milli veltu skv. virðisaukaskattsuppgjöri og tekjuskattsuppgjöri.

Nánar um skráningu tekna 

Er heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar eigna í atvinnurekstri?

Já, oftast koma tvær leiðir til greina vegna söluhagnaðar fyrnanlegra eigna þ.e. frestun skattlagningar söluhagnaðar og dreifing söluhagnaðar.

Áður en unnt er að fresta skattlagningu söluhagnaðar sem hefur verið færður til tekna þarf að lækka ónotað rekstrartap sem kann að vera til staðar á móti hinum tekjufærða söluhagnaði. Einnig þarf að færa aukalega fyrningu á fyrnanlegar eignir í atvinnurekstrinum á móti eftirstöðvum hins tekjufærða söluhagnaðar. Þann söluhagnað sem eftir stendur er heimilt að fresta tekjufærslu á um tvenn áramót enda afli skattaðili eigna sem hægt er að fyrna innan þess tíma. Ef eigna er ekki aflað innan tilskilins tíma sem unnt er að fyrna telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því að hann myndaðist ásamt 10% álagi.

Sé hluti söluverðs greiddur með skuldaviðurkenningu til þriggja ára eða lengri tíma þá er heimilt að telja það hlutfall af söluhagnaðinum, sem svarar til hlutdeildar skuldaviðurkenningar af heildarsöluverðmætinu, til tekna hlutfallslega eftir afborgunartíma skuldaviðurkenningarinnar þó ekki á lengri tíma en sjö árum.

Hvaða kostnað má færa til frádráttar frá rekstrartekjum?

Heimilt er að draga frá rekstrartekjum kostnað til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Frádráttarheimild á aðeins við um kostnað sem fellur til við eða eftir stofnun atvinnurekstrar og fram til þess tíma sem rekstri er hætt. Almennt ber að færa kostnað á því ári þegar að til útgjaldanna er stofnað. Þarf skattaðili að geta sýnt fram á að til útgjaldanna hafi verið stofnað til öflunar atvinnurekstrartekna og sanna kostnað með framlagningu reikninga.

Hver eru mörk rekstrarkostnaðar og einkaútgjalda?

Heimilt að draga frá rekstrartekjum kostnað til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Því má ljóst vera að útgjöld sem almennt teljast vera til einkaþarfa og falla til óháð því hvort viðkomandi aðili stundar atvinnurekstur eða ekki falla ekki undir þessa frádráttarheimild. Sömuleiðis útgjöld sem nýtast fyrst og fremst til eigin nota þó um tilfallandi not í þágu rekstrar kunni að koma til. Sem dæmi um slík einkaútgjöld má nefna eigin fæðiskostnaður, eigin fatnaður, einkasími, kostnaður vegna íbúðarhúsnæðis eiganda o.s.frv.

Til greina getur komið að færa hlutdeild í kostnaði sem almennt telst til einkaútgjalda ef sýnt er fram á með rökstuddum hætti að um viðbótarkostnað sé að ræða sem á rætur að rekja til þess atvinnurekstrar sem um ræðir t.d. viðbótar símakostnað, rafmagnskostnað o.s.frv. Yfirleitt er þó um óverulega fjárhæðir að ræða í slíkum tilvikum.

Má gjaldfæra leigu vegna afnota af íbúðarhúsnæði eigenda atvinnurekstrar?

Í einstaklingsrekstri er ekki hægt að gjaldfæra leigu vegna afnota af eigin íbúðarhúsnæði við atvinnureksturinn. Hins vegar getur komið til greina að gjaldfæra þann viðbótarkostnað sem sýnt er fram á að stafi af atvinnurekstrinum.

Ef eigandi félags leigir félagi sínu afnot af íbúðarhúsnæði sínu undir atvinnureksturinn t.d. bílskúr eða herbergi, sem félagið gjaldfærir sem leigukostnað hjá sér, þá teljast slíkar leigutekjur í hendi eiganda húsnæðisins sem atvinnurekstrartekjur.

Má gjaldfæra námskostnað í atvinnurekstri?

Kostnaður vegna námskeiða starfsmanna eða sjálfstætt starfandi manna getur talist falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað, enda sé gerð rökstudd grein fyrir þeim og tengslum þeirra við tekjuöflun rekstraraðila. Hér undir falla t.a.m. námskeið sem ætluð eru til viðhalds menntunar í starfsgrein viðkomandi aðila og til þess að fylgjast með nýjungum í starfsgreininni.

Almennt er hins vegar litið svo á að útgjöld vegna undirstöðunáms og almenns menntunarkostnaðar, viðbótarnáms eða náms til öflunar starfsréttinda séu ekki frádráttarbær og teljist til persónulegra útgjalda.

Er heimilt að gjaldfæra kostnað vegna notkunar einkabifreiðar í rekstri?

Sé einkabifreið notuð í þágu atvinnurekstrar þá má gjaldfæra hlutdeild í rekstrarkostnaði hennar í samræmi við hlutdeild aksturs í þágu atvinnurekstrar af heildarakstri. Af þessu leiðir að halda þarf til haga öllum gögnum sem staðfesta bifreiðakostnað og einnig ekna kílómetra alls á árinu og ekna kílómetra í þágu atvinnurekstrar.

Er eiganda einstaklingsrekstrar heimilt að gjaldfæra kostnað á grundvelli dagpeningareglna?

Meginreglan er að dagpeningar eru ætlaðir launþegum vegna tilfallandi ferða á vegum vinnuveitanda utan venjulegs starfssvæðis. Hjá vinnuveitanda þurfa að liggja fyrir skýringar á tilefni dagpeningagreiðslna, m.a. tilgang ferðar og fjölda ferðadaga.

Manni í einstaklingsrekstri er ekki heimilt að færa til gjalda kostnað á grundvelli dagpeningareglna vegna ferða í þágu einkarekstrarins né færa á persónuframtal sitt frádrátt á grundvelli slíkra reglna nema í þeim tilvikum að um ferðir erlendis sé að ræða. Í þeim tilvikum er heimilt, í stað þess að ferðakostnaður annar en gisti- og fæðiskostnaður erlendis sé dreginn frá samkvæmt reikningi, að draga frá fasta fjárhæð, sem nemur 30% af þeim hluta dagpeninga sem er vegna annars kostnaðar en gistingar samkvæmt dagpeningareglum. Eigandi einstaklingsrekstrar ber því almennt að grundvalla gjaldfærslu kostnaðar vegna ferða fyrir atvinnureksturinn á kostnaðarreikningum.

Framtalsskil, kærur og leiðréttingar

Veflyklar – er hægt að útbúa sérstakan veflykil fyrir þá sem annast framtalsskil?

Eftir að útbúinn hefur verið varanlegur veflykill er unnt að úthluta þeim sem annast skil á virðisaukaskatti, staðgreiðslu, launamiðum, verktakamiðum o.s.frv., sérstakan skilaveflykil vegna þeirra skila. Áður en til þess kemur þarf viðkomandi aðili að vera kominn á launagreiðendaskrá og/eða virðisaukaskattsskrá.

Veflyklar – hverjir geta fengið senda veflykla?

Veflyklar eru ekki gefnir upp í síma né sendir í tölvupósti.

Einstaklingar sem ekki nota rafræn skilríki geta fengið veflykla senda í heimabanka eða á lögheimili sitt. Sami veflykill er notaður og fyrir persónuframtalið.

Félög geta einungis fengið veflykla senda á lögheimili félagsins. Hægt er að panta veflykla á þjónustusíðunni skattur.is. Hjá félögum er meginreglan að einungis má afhenda veflykil skráðum framkvæmdarstjóra félags eða prókúruhafa ef hann fer einn með prókúruna, sé veflykill sóttur á starfsstöð ríkisskattstjóra.

Gagnaskil – hverju á að skila og hvernig?

Þeir sem stunda atvinnurekstur þurfi á rekstrarári að senda inn skilagreinar vegna staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi (eigin launum) og launum annarra starfsmanna. Einnig skilagreinar vegna virðisaukaskatts séu þeir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi.

Að rekstrarári loknu þarf í upphafi framtalsárs að senda inn launamiða vegna greiddra launa á rekstrarárinu og verktakamiða (launamiða) vegna aðkeyptrar þjónustu verktaka. Fjárhæð verktakamiða á að vera heildarverð þ.e. með virðisaukaskatti sé vara og/eða þjónusta keypt af virðisaukaskattsskyldum aðila. Þá er rétt að árétta að einkahlutafélög og hlutafélög eiga að skila hlutafjármiðum.

Skattframtali einstaklinga í atvinnurekstri þarf að skila á sama tíma og skattframtali einstaklinga utan atvinnurekstrar. Undanfarin ár hefur almennur skilafrestur verið fram í miðjan mars mánuð á framtalsári en atvinnumenn hafa fengið sérstakan frest fram í miðjan apríl.

Með skattframtali einstaklinga í atvinnurekstri þarf að skila sérstakri rekstrarskýrslu sem er yfirlit yfir tekjur, gjöld, eignir og skuldir í atvinnurekstrinum. Fari rekstrartekjur í einkarekstrinum yfir kr. 20.000.000 þarf í stað rekstrarskýrslu að skila ársreikningi og skattframtali rekstraraðila sem inniheldur ítarlegri sundurliðun en rekstrarskýrsla.

Skattframtali lögaðila (félaga) hefur undanfarin ár þurft að skila í síðasta lagi 31. maí á framtalsári. Atvinnumenn hafa þó fengið aukinn frest til framtalsskila fram í september mánuð að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Félög (lögaðilar) þurfa að skila ársreikningi og skattframtali rekstraraðila. Þó er félögum sem hafa lítil umsvif og teljast örfélög heimilt notast við fjárhæðir skattframtals í stað skila á ársreikningi.

Hvaða reglur gilda um skil á ársreikningi vegna atvinnurekstrar með skattframtali?

Fari rekstrartekjur (velta) í einkarekstrinum yfir kr. 20.000.000 þarf í stað rekstrarskýrslu að skila ársreikningi og sérstöku skattframtali rekstraraðila sem inniheldur ítarlegri sundurliðun en rekstrarskýrsla.

Hvað varðar félög (lögaðila) þá er meginreglan sú að öll skattskyld félög eiga að skila ársreikningi með skattframtali sínu.

Ef félag telst örfélag þá er heimilt, í stað þess að senda inn hefðbundinn ársreikning, að útbúa sérstakan ársreikning upp úr skattframtali eftir að því hefur verið skilað.

Eftir innskráningu á þjónustuvefinn skattur.is eru valdar aðgerðirnar Vefskil – Ársreikningaskrá – Skil til Ársreikningaskrár RSK og fylgt leiðbeiningum sem þar koma fram þ.m.t. að samþykkja að nota gögn úr skattframtali til að útbúa ársreikning.

Félag telst örfélag ef það uppfyllir 2 af 3 eftirfarandi skilyrðum síðustu tvö ár (skilaár og síðasta ár):

 • Eignir félagsins þurfa að vera undir kr. 20.000.000
 • Rekstrartekjur þurfa að vera undir kr. 40.000.000
 • Fjöldi ársverka þarf að vera minni en 3

Þessu til viðbótar þurfa flest félög einnig að skila ársreikningi til Ársreikningaskrár skv. sérstökum reglum þar um. Teljist félag örfélag og útbýr ársreikning upp úr skattframtali þá gildir sá ársreikningur bæði sem ársreikningaskil með skattframtali og til Ársreikningaskrár.

Nánar um skil á ársreikningum 

Hnappurinn (eingöngu fyrir örfélög)

Hvernig á að leiðrétta skattskil?

Hafi skattframtali ekki verið skilað og skattstofnar því áætlaðir er alltaf unnt að fara inn á þjónustusíðuna skattur.is og skila skattframtali.

Ef gera þarf leiðréttingu á áður innsendu skattframtali er unnt að fara inn á þjónustusíðuna skattur.is og velja aðgerð „Beiðni um leiðréttingu“. Ef senda þarf gögn með leiðréttingarbeiðninni þarf að senda gögnin sérstaklega í tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is með tilvísun í innsenda kæru eða bréflega á starfsstöð ríkisskattstjóra.

Kæru var skilað inn í kærufresti vegna álagningar, hvenær afgreiðið þið þá kæru?

Kærufrestur er þrír mánuðir frá álagningu. Á þeim tíma er unnt að senda inn framtal í stað áætlunar, leiðréttingarbeiðni eða kæru hafi breyting verið gerð á skattframtali. Klárað er að afgreiða kærur innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests.

Skatterindi (kæru) var skilað inn eftir að kærufresti var lokið, hvenær afgreiðið þið erindið?

Meginreglan er að framtalsgerð verður ekki breytt eftir álagningu og kærufrest. Eftir að kærufresti er lokið er þó heimilt að senda inn erindi (beiðni um breytingu á skattálagningu) í allt að sex ár aftur í tímann, enda liggi verulegir hagsmunir að baki og ný gögn og upplýsingar t.d. framtal í stað áætlunar.

Ekki eru tímamörk á afgreiðslutíma slíkra erinda og er afgreiðslutími þeirra mjög mismunandi af ýmsum ástæðum. Almennt tekur afgreiðsla erinda um þrjá mánuði.

Fyrirframgreiðsla tekjuskatts félaga – hvernig reiknast hún og er hægt að fá henni breytt?

Fyrirframgreiðsla tekjuskatts félaga upp í komandi álagningu reiknast 59,5% af álagningu ársins á undan. Hafi álagning byggst á áætlun kann fyrirframgreiðslan að taka mið af því en leiðréttist sjálfkrafa verði álagning fyrra árs byggð á framtali.

Hægt er að sækja um lækkun fyrirframgreiðslu ef skattaðilar telja að komandi álagning muni lækka verulega m.v. fyrirframgreiðsluna. Beiðni um lækkun fyrirframgreiðslu og framlögð gögn s.s. skattframtal og ársreikningur, þurfa að staðfesta að álagning muni lækka um a.m.k. 25% á milli ára og álagning verði a.m.k. kr. 100.000 lægri. Frestur til að skila inn umsókn um lækkun fyrirframgreiðslu er til 31. maí á álagningarári.

Ýmsir skattar og gjöld í atvinnurekstri

Hve mikinn skatt þarf að greiða af hagnaði í einstaklingsrekstri?

Hagnaður í einstaklingsrekstri þ.e. af rekstri sem rekinn er á eigin kennitölu einstaklings, er skattlagður með sama hlutfalli og aðrar skattskyldar tekjur viðkomandi einstaklings sem mynda útsvars- og tekjuskattsstofn þ.e. með sama hlutfalli og t.d. launatekjur, styrkir og lífeyri.

Tryggingagjald - af hverju þarf ég að borga tryggingagjald af launum í atvinnurekstri?

Launagreiðenda ber að greiða tryggingagjald af greiddum vinnulaunum, reiknuðu endurgjaldi í eigin rekstri af hvers konar launum og þóknunum, ýmsum hlunnindum og mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Er tryggingagjaldinu fyrst og fremst ráðstafað til ýmissa launatengdra réttinda starfsmanna s.s. til atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs, til ábyrgðarsjóðs launa, til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóðs.

Fjársýsluskattur - hverjir þurfa að greiða fjársýsluskatt af launum í atvinnurekstri?

Félög og einstaklingar í eigin rekstri eiga að inna af hendi fjársýsluskatt af launagreiðslum og reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu við starfsemi fjármálafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og tryggingafélaga.

Útvarpsgjald - þurfa félög að greiða útvarpsgjald? – en ef rekstur liggur niðri?

Já. Gjaldskylda útvarpsgjalds hvílir m.a. á þeim lögaðilum (félögum) sem bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. tekjuskattslaga.

Útvarpsgjald er sérstakt gjald sem rennur í ríkissjóð án þess að byggja á tekjum eða starfsemi viðkomandi félags. Byggir því á því einu að félagið hafi verið skattskylt á viðkomandi ári og því óháð afkomu eða umfangi starfseminnar.

Nánar um útvarpsgjald

Annað

Ég þarf að breyta tölvupóstfangi vegna framtalsskila, hvernig geri ég það?

Með innskráningu inn á þjónustusíðuna skattur.is er hægt að breyta tölvupóstföngum undir aðgerðunum Almennt > Stillingar > Mínar stillingar.

Póstföngin hafa mismunandi tilgang. Í efstu línuna er skráð tölvupóstfang til almennra nota, þ.e. skattyfirvöld mega nota þetta tölvupóstfang til að gera notanda viðvart um hvaðeina er viðkemur skattskilum hans eða innheimtu. Í næstu línu getur notandi skráð tölvupóstfang sem hann vill að skattyfirvöld noti til að gera honum viðvart um atriði sem tengjast skattframtali, s.s. hvenær netframtalið opnar, hvenær hægt er að nálgast álagningarseðil á vefnum og annað því tengt. Í þriðju línu getur notandi skráð tölvupóstfang sem hann vill að skattyfirvöld noti til að gera honum viðvart um atriði sem tengjast gagnaskilum, s.s. fresti til að skila launamiðum o.þ.h. Í tveimur neðstu línunum koma fram tölvupóstföng sem tengjast skilum á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Skráning þeirra er framkvæmd í viðkomandi kerfi undir flipanum „Vefskil“.

Ég á inneign hjá skattyfirvöldum við álagningu sem ekki var greidd út. Hver er skýringin?

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að inneignir eru ekki greiddar út við álagningu. Algengasta ástæðan er einfaldlega sú að ekki liggja fyrir upplýsingar um bankareikning gjaldanda sem nota á.

Hægt er að skrá sig inn á þjónustusíðuna skattur.is og opna flipann Almennt > Stillingar > Bankaupplýsingar og færa þar inn upplýsingar um bankareikning sem nota á.

Ég fæ villuskilaboð við gerð framtals rekstraraðila RSK1.04 um að eigið fé stemmi ekki. Hver er skýringin? – og hvernig á að bregðast við?

Eignir alls í reit 5990 eiga undantekningalaust að vera jafnhá fjárhæð og skuldir samtals í reit 6990 að viðbættu eigið fé í reit 7000. Ef um frávik er að ræða er réttast að yfirfara viðkomandi liði efnahagsreiknings til afstemmingar. Óveruleg frávik er unnt að leiðrétta í gegnum sérstaka sundurliðunarreiti eigin fjárliða með skýringum, t.d. í gegnum sundurliðun á reit 6232 meðal reita óráðstafaðs eigin fjár.

Hvað er skilagrein?

Orðið skilagrein er notað um eyðublað, á pappír eða rafrænt, sem notað er vegna uppgjörs og greiðslu skatta. Algengustu skilagreinar eru vegna staðgreiðslu þ.e. uppgjöri á útsvari- og tekjuskatti af launagreiðslum, reiknuðu endurgjaldi, tryggingagjaldi og fjársýsluskatti (staðgreiðsluskilagreinar). Einnig vegna uppgjörs og greiðslu á virðisaukaskatti.

Hvað er örfélag?

Félag telst örfélag ef það uppfyllir 2 af 3 eftirfarandi skilyrðum síðustu tvö ár (skilaár og síðasta ár): 

 • Eignir félagsins þurfa að vera undir kr. 20.000.000
 • Rekstrartekjur þurfa að vera undir kr. 40.000.000
 • Fjöldi ársverka þarf að vera minni en 3

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum