Skil á ársreikningum

Skila ber ársreikningi hvers reikningsárs til Ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Ekki skiptir máli hvort starfsemi hafi verið í félaginu eða ekki. Einnig skal skila inn samstæðureikningi ef við á.

Þau félög sem eru skilaskyld eru samkvæmt lögum um ársreikninga eru:

 • hlutafélög
 • einkahlutafélög
 • samlagshlutafélög
 • samvinnufélög
 • samvinnusambönd
 • sparisjóðir
 • skráð útibú erlendra félaga
 • sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Þá þurfa félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum einnig að skila ársreikningi.

Sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaða ábyrgð félagsaðila, svo sem samlagsfélög, þurfa einnig að skila ársreikningi ef:

 1. Félagsaðilar eru eingöngu félög sem talin eru upp hér að ofan eða ef ábyrgðaraðili er félag sem er talið upp hér að ofan.
 2. Sameignarfélög og samlagsfélög eru skráð í firmaskrá og teljast vera meðalstór eða stór samkvæmt lögunum.

Ársreikningum er skilað í gegnum þjónustuvef Skattsins

Öllum ársreikningum, og eftir atvikum samstæðureikningum, skal skila í gegnum þjónustuvef Skattsins. Ekki er tekið á móti ársreikningum á pappír eða í tölvupósti.

Opna þjónustuvef Skattsins

Skilafrestur er í síðasta lagi til 31. ágúst

Skila skal ársreikningi til ársreikningaskrár eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt hans á aðalfundi. Lokafrestur til að halda aðalfund og skila ársreikningi til opinberrar birtingar er átta mánuðir frá lokum reikningsárs.

Félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum

Félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eins og Evrópusambandið hefur staðfest skulu þó skila ársreikningi til ársreikningaskrár þegar í stað eftir lok aðalfundar. Þessi félög hafa aðeins fjóra mánuði frá lokum reikningsárs til að halda aðalfund.

Hnappurinn – ársreikningur fyrir örfélög

Örfélög sem nýta sér rafræna lausn Skattsins til að skila ársreikningi byggðum á skattframtali (Hnappurinn) er heimilt að skila slíkum reikningi innan þess frests sem ríkisskattstjóri veitir skattaðilum til að skila framtölum sínum samanber ákvæði tekjuskattslaga.

Samstæðureikningar

Félög sem ber að semja samstæðureikning samkvæmt ákvæðum ársreikningalaga ber að skila samstæðureikningum á sama tíma og ársreikningi móðurfélagsins.

Tungumál ársreiknings

Heimilt er að semja ársreikning á enska tungu og staðfesta þannig á aðalfundi. Sé ársreikningur saminn á ensku skal skila ensku frumriti ásamt íslenskri þýðingu til ársreikningaskrár.

Afrit af ársreikningum

Rafræn afrit af ársreikningum og samstæðureikningum sem sótt eru á vef Skattsins eru gjaldfrjáls. 

Leita að ársreikningi

Gjald er tekið fyrir endurrit úr ársreikningaskrá sem ekki eru sótt á vef Skattsins. Gjaldið er samkvæmt gjaldskrá.

Opna gjaldskrá

Form ársreikninga

Ársreikningurinn á að vera þannig upp settur að hann myndi eina heild. Á forsíðu ársreiknings, og samstæðureiknings ef við á, skal eftirfarandi koma fram:

 • nafn félags
 • félagsform
 • kennitölu félags
 • heimilisfang
 • reikningsár
 • hvort um sé að ræða ársreikning eða samstæðureikning samstæðunnar.

Ársreikningur og samstæðureikningur skal jafnframt innihalda:

 • skýrslu stjórnar
 • áritun endurskoðanda eða staðfestingu skoðunarmanns
 • rekstrarreikning
 • efnahagsreikning
 • sjóðstreymi (ef við á)
 • skýringar með reikningsyfirlitum.

Með ársreikningum og samstæðureikningum skal fylgja skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra og hundraðshluta hlutafjár í árslok.

Ítarefni

Hvar eru reglurnar?

Lög nr. 3/2006 um ársreikninga.

Reglugerð nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga.

Reglugerð nr. 696/2019, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga.

Reglur nr. 786/2023, um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum