Spurt og svarað
Hér hefur verið safnað saman helstu spurningum og svörum vegna FATCA. Á vefsíðu bandarískra skattyfirvalda má einnig finna svör við helstu spurningum um FATCA.
Eru eignarhaldsfélög og fjárfestingafélög fjármálastofnanir samkvæmt FATCA?
Ef verðbréfafyrirtæki, lögmenn eða aðrir sérfræðingar hafa umboð til að taka fjárfestingarákvarðanir fyrir hönd hlutafélaga/einkahlutafélaga (t.d. eignarhaldsfélaga/fjárfestingafélaga) gæti viðkomandi hlutafélag/einkahlutafélag talist vera fjármálastofnun í skilningi FATCA til viðbótar við þann aðila sem veitir fjárfestingaþjónustuna. Almennt teljast eignarhaldsfélög og fjárfestingafélög ekki til fjármálastofnana samkvæmt FATCA ef þau eru ekki undir virkri fjárfestingarstýringu.
Hvenær er umsjónaraðili eignarhaldsfélags fjármálastofnun skv. FATCA
„Umsjónaraðili“ telst vera fjármálastofnun samkvæmt FATCA ef að starfsemi hans felst aðallega í veita þjónustu til viðskiptavina sem felst í:- sölu á peningamarkaðsbréfum (t.d. tékkum, víxlum, hlutdeildarskírteinum, afleiðum), erlendum gjaldmiðlum, hlutabréfum og framvirkum hrávörusamningum
- eignastýringu fyrir einstaklinga eða hóp einstaklinga
- annars konar fjárfestingu eða stýringu á fjármunum fyrir hönd annarra.
Starfsemi telst aðallega felast í ofangreindu ef brúttótekjur af ofangreindri þjónustu nema 50% eða meira af heildartekjum. Miða skal við síðustu þrjú ár eða frá því að starfsemi hófst ef starfsemi hefur ekki varað í þrjú ár. Lögaðilar sem bjóða upp á verðbréfamiðlun, fjárfestingaráðgjöf og umboðsþjónustu falla almennt hér undir. Slíkir aðilar falla ætíð undir lög um aðgerðir gegn pengingaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nú lög nr. 64/2006.
Hvenær er eignarhaldsfélag / fjárfestingafélag fjármálastofnun skv. FATCA?
Ef eignarhaldsfélagi eða fjárfestingafélagi er stjórnað af umsjónaraðila sem aðallega starfar við að veita þá þjónustu sem talin var upp hér að framan þá telst eignarhaldsfélagið / fjárfestingafélagið vera fjármálastofnun skv. FATCA. Þetta á við ef umsjónaraðilinn, beint eða óbeint framkvæmir eitthvað af ofantöldu fyrir eignarhaldsfélagið / fjárfestingafélagið og tekjur félagsins eru aðallega tengdar fjárfestingu, endurfjárfestingu eða viðskiptum með fjármunaeignir. Ef ekki er veitt umboð til að taka ákvarðanir um fjárfestingar telst eignarhaldsfélagið / fjárfestingafélagið ekki vera í umsjón.Eignarhaldsfélag / fjárfestingafélag telst ekki vera fjármálastofnun skv. FATCA
Ef íslenskt eignarhaldsfélag / fjárfestingafélag telst ekki vera fjármálastofnun skv. FATCA flokkast félagið sem lögaðili sem er ekki fjármálastofnun (NFFE = Non-Financial Foreign Entity) skv. FATCA. Félagið telst vera virkt NFFE (active NFFE) ef minna en 50% af heildartekjum þess á síðasta reikningsári eru óbeinar tekjur (vextir, arður, söluhagnaður o.þ.h.) og minna en 50% af eignum félagsins á síðasta reikningsári eru eignir sem mynda óbeinar tekjur. Þau félög sem ekki teljast vera virk NFFE teljast vera óvirk NFFE. Þegar reikningshafi er óvirkur NFFE skal íslenska tilkynnandi fjármálastofnunin afla upplýsinga um raunverulega eigendur félagsins og kanna hvort þeir teljist vera bandarískir aðilar. Sé svo þarf að afla upplýsinga um bandarískar skattkennitölur þeirra.Eignarhaldsfélag / fjárfestingafélag telst vera fjármálastofnun skv. FATCA
Eignarhaldfélag / fjárfestingafélag sem telst vera fjármálastofnun skv. FATCA verður að uppfylla þær skyldur sem FATCA samningurinn leggur á herðar fjármálastofnana. Það þýðir að félagið verður að skrá sig hjá bandarískum skattyfirvöldum og fá svokallað GII-númer (GIIN) Upplýsi eignarhaldsfélagið / fjárfestingafélagið sinn umsjónaraðili ekki um GII-númerið eða ef félagið hefur ekki skráð sig þarf umsjónaraðilinn að meðhöndla félagið sem fjármálastofnun sem ekki er þátttakandi í FATCA (Non-Participating Financial Institution).Hvað þýðir FATCA samningurinn fyrir íslenskar fjármálastofnanir?
FATCA samningurinn leggur ákveðnar skyldur á íslenskar fjármálastofnanir eins og þær eru skilgreindar í samningnum. Meðal annars má nefna:
- skyldu til að veita upplýsingar um fjárhagsreikninga þar sem reikningshafar eru bandarískir aðilar
- skyldu til að skrá sig hjá bandarískum skattyfirvöldum, fá GII-númer og fara á lista yfir þátttakandi fjármálastofnanir
- skyldu til að miðla upplýsingum til annarra fjármálastofnana þegar þær annast milligöngu á greiðslum sem eiga uppruna í Bandaríkjunum
- skyldu til að veita upplýsingar um greiðslur til fjármálastofnana sem ekki eru þátttakendur í FATCA (Non-Participating Financial Institution)
Hverjir falla undir hugtakið fjármálastofnun samkvæmt FATCA?
Samkvæmt FATCA samningnum teljast eftirtaldir aðilar fjármálastofnanir:
- Lögaðilar sem taka við innborgunum sem lið í venjulegri bankastarfsemi
- Lögaðilar sem í verulegum mæli varðveita fjármuni fyrir reikning annarra – ef 20% af tekjum lögaðilans stafa af vörslu fjármuna síðustu þrjú ár fellur aðilinn hér undir
- Lögaðilar sem hafa það að starfsemi að stunda viðskipti með peningamarkaðsafurðir, fara með eignastýringu eða annars konar fjárstýringu fyrir hönd viðskiptavina sinna. Sama á við um lögaðila sem eru undir stjórn annars lögaðila sem hefur það að starfsemi að stunda viðskipti með peningamarkaðsafurðir, sjá um fjár- eða eignastýringu fyrir aðra.
- Lögaðilar sem eru vátryggingafélög (eða eignarhaldsfélög vátryggingafélaga) sem er skylt að inna af hendi greiðslur í tengslum við tiltekinn vátryggingaatburð
Hugtakið fjármálastofnun tekur m.a. til banka, innlánsstofnana, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, verðbréfasjóða og annarra fjárfestingasjóða og tryggingafélaga
Eru einhverjar fjármálastofnanir undanþegnar?
Eftirfarandi aðilar teljast ekki vera tilkynningarskyldar fjármálastofnanir samkvæmt FATCA:
- Opinberir aðilar
- Seðlabanki Íslands
- Nasdaq verðbréfamiðstöð hf.
- Lífeyrissjóðir sem starfræktir eru skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
- Litlar fjármálastofnanir sem hafa staðbundinn viðskiptamannahóp
- Greiðslukortafyrirtæki að tilteknum skilyrðum uppfylltum
- Fjármálastofnanir sem ekki hafa reikninga að hærra verðmæti en USD 50.000
Hvað er GIIN?
GIIN stendur fyrir Global Intermediary Identification Number og er einkvæmt númer sem bandarísk skattyfirvöld gefa út. Íslenskar fjármálastofnanir þurfa að skrá sig hjá bandarískum skattyfirvöldum og fá útgefið GIIN sem notað er til auðkenningar þegar upplýsingum um viðskiptavini er skilað. Sjá nánar: http://www.irs.gov/Businesses/Corporations/Foreign-Account-Tax-Compliance-Act-FATCA
Til hvaða reikninga taka FATCA reglurnar?
Upplýsingaskylda samkvæmt FATCA tekur m.a. til:
- Innlánsreikninga
- Vörslureikninga
- Hlutdeildar í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum
- Líftryggingasamninga
Hvaða upplýsingar þarf að senda til Skattsins?
Tekjuárið 2014:
- Einstaklingar = nafn, heimilisfang og TIN (Tax Identification Number9 hjá þeim sem teljast vera bandarískir aðilar
- Lögaðilar = ef áreiðanleikakönnun leiðir í ljós að ráðandi aðili/aðilar í lögaðilunum (þ.e. 25% bein eða óbein eignaraðild) er bandarískur aðili skal upplýsa um nafn, heimilisfang og TIN lögaðilans auk allra þeirra bandarísku aðila sem eiga ráðandi hlut í lögaðilanum.
- Reikningsnúmer viðkomandi reikninga
- Nafn og GIIN hjá þeirri fjármálastofnun sem sendir upplýsingar
- Stöðu reiknings í árslok eða þegar reikningi var lokað.
Tekjuárið 2015: Til viðbótar við ofangreint skal einnig veita upplýsingar um:
- Vörslusafn – heildarfjárhæð vaxta, arðs og annarra tekna sem myndast hafa á vörslusafni viðkomandi reikningshafa. Halda skal utan um hverja færslu á safninu á almanaksárinu.
- Innlánsreikningar – heildarfjárhæð vaxta sem tekjufærðir eru á reikninginn á almanaksárinu
- Aðrir reikningar – fjárhæðir greiddar inn á reikninginn, þar á meðal samandregna fjárhæð af öllum innlausnargreiðslum til reikningshafa á almanaksárinu
Tekjuárið 2016: Til viðbótar við ofangreint skal einnig veita upplýsingar um:
- Vörslusafn – söluhagnað eða innlausn af öllum eignum á vörslusafni á almanaksárinu.
Gilda sérstakar reglur um upplýsingagjöf vegna reikninga barna og ungmenna?
Engar sérstakar reglur gilda um upplýsingagjöf til ríkisskattstjóra vegna fjárhagsreikninga barna og ungmenna. Slíkir reikningshafar skulu skila yfirlýsingu til fjármálastofnana líkt og aðrir reikningshafar.
Fjármálastofnunum ber skylda til að afla bandarískra skattkennitala hjá börnum og ungmennum sem eru reikningshafar. Upplýsingar um forsjáraðila barnsins eða ungmennisins skulu ekki sendast nema viðkomandi forsjáraðili sé bandarískur aðili og hafi umráð yfir reikningnum.
Hvaða einstaklingar teljast vera bandarískir aðilar samkvæmt FATCA?
Samkvæmt FATCA samningnum teljast bandarískir ríkisborgarar vera bandarískir aðilar samkvæmt FATCA. Sama á við um einstaklinga sem teljast vera skattalega heimilisfastir í Bandaríkjunum samkvæmt þarlendum skattalögum.
Hvernig á að aðgreina fjárhagsreikninga þegar reikningshafinn er einstaklingur?
Ólíkar reglur gilda um aðgreiningu og auðkenningu reikninga allt eftir því hvort reikningur var stofnaður / opnaður fyrir eða eftir 30. nóvember 2014.
Í stuttu máli má segja að ef reikningur er opnaður 30. nóvember 2014 eða síðar þarf fjármálastofnun að óska eftir yfirlýsingu frá reikningshafa þar sem fram kemur hvort reikningshafinn sé bandarískur ríkisborgari eða með skattalega heimilisfesti í Bandaríkjunum.
Vegna reikninga sem opnaðir voru fyrir 30. nóvember 2014 getur fjármálastofnunin valið um að óska eftir yfirlýsingum frá reikningshöfum eða gert leit eftir bandarískum vísbendingum í þeim upplýsingum og skrám sem til eru (bæði rafræn leit og leit í pappírsgögnum). Komi í ljós bandarískar vísbendingar skal merkja reikningshafann og reikninginn með bandarískum landakóða (US) og upplýsingar sendar til ríkisskattstjóra. Þetta á þó ekki við sýni reikningshafinn fram á að hann sé ekki bandarískur aðili.
Er nauðsynlegt að kalla eftir nýjum upplýsingum frá viðskiptavini sem stofnar nýjan reikning hjá fjármálastofnun þar sem hann hefur þegar reikning fyrir?
Ef viðskiptavinur sem nú þegar á reikning hjá fjármálastofnun stofnar / opnar nýjan reikning hjá sömu fjármálastofnun þarf ekki að afla nýrra upplýsinga um stöðu hans ef:
- eldri reikningar viðkomandi reikningshafa hafa verið skoðaðir og metnir eftir þeim reglum sem gilda skv. FATCA
- samanlögð fjárhæð reikninga er undir USD 50.000
Komi í ljós við stofnun á nýjum reikningi að nýrri upplýsingar séu í mótsögn við eldri fyrirliggjandi upplýsingar þarf að skoða reikninginn og reikningshafann upp á nýtt.
Hvaða þýðingu hafa bráðabirgðareglurnar sem IRS birti með „Notice 2014-33“ fyrir íslenskar fjármálastofnanir?
Bandarísk skattyfirvöld birtu tilkynningu þann 2. maí 2014 (Notice 2014-33) þar sem fram kemur að litið verði á 2014 og 2015 sem undirbúningstímabil og að tilteknar bráðabirgðareglur gildi um skoðun og auðkenningu á reikningum.
Bráðabirgðareglurnar fela í sér að fjármálastofnanir geta frestað skoðun á reikningum lögaðila sem opnaðir voru á tímabilinu 30. nóvember – 31. desember 2014. Sama á ekki við um reikninga sem opnaðir eru af einstaklingum.
Þá fela bráðabirgðareglurnar í sér að fjármálastofnanir þurfa að hafa lokið skoðun á lögaðilareikningum fyrir 30. júní 2016 og að auðkenning skuli fara eftir sömu reglum og gilda um reikninga sem stofnaðir voru fyrir 30. nóvember 2014. Fjárhæðarmörkin, USD 250.000, eiga þó ekki við. Jafnframt hefur þetta í för með sér að skoða þarf alla nýja reikninga.
Hvernig á að fylla út eyðublöðin W-8BEN-E og önnur eyðublöð frá IRS?
RSK getur því miður ekki veitt upplýsingar um hvernig fylla eigi út eyðublöð frá erlendum skattyfirvöldum. Á heimasíðu IRS www.irs.gov má finna frekari leiðbeiningar.
Er hægt að sækja um frest til að skila upplýsingum til RSK?
Frestur til að skila upplýsingum til RSK vegna tekjuársins 2014 er til 15. ágúst 2015. Ekki er hægt að framlengja frestinn. RSK áframsendir svo upplýsingarnar til Bandaríkjanna í september 2015.
Hafi einhver fjármálastofnun ekki tök á að skila upplýsingum innan framangreinds frests bendir RSK á að tilkynna skriflega um slíkt til RSK og skýra frá ástæðum þess að ekki sé hægt að skila.
Ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvenær skilafrestur verður á árinu 2016 vegna tekjuársins 2015.
Hvernig á íslensk fjármálastofnun að upplýsa RSK um að ekki hafi verið unnt að afla TIN (skattkennitala)?
Í FATCA samningi Íslands og Bandaríkjanna er gerður greinarmunur á skyldu íslenskra fjármálastofnana til að upplýsa skattyfirvöld um bandarískar skattkennitölur allt eftir því hvort um er að ræða eldri reikninga eða nýja reikninga.
Ef um eldri reikning er að ræða og bandarísk skattkennitala viðkomandi reikningshafa er ekki þekkt skal íslensk fjármálastofnun tilkynna skattyfirvöldum um fæðingardag reikningshafa, ef þær upplýsingar eru til hjá viðkomandi fjármálastofnun. Vakin er þó athygli á því að samkvæmt FATCA samningnum verður þess krafist að íslenskum fjármálastofnunum beri skylda til að afla bandarískra skattkennitalna fyrir eldri reikninga þannig að upplýsingar um TIN vegna eldri reikninga liggi fyrir 2018 vegna upplýsingaskila 2017.
Við stofnun nýrra reikningar ber reikningshafa að upplýsa fjármálastofnunina um bandaríska skattkennitölu. Íslenskar fjármálastofnanir þurfa því að ganga eftir því við viðkomandi reikningshafa að slík kennitala sé gefin upp við stofnun reiknings.
Vakin er athygli á að ef reikningshafi lætur fjármálastofnun ekki í té nauðsynlegar upplýsingar m.a. um skattkennitölu þarf fjármálastofnun að meðhöndla viðkomandi reikningshafa sem tilkynningarskyldan.
Setja á 0 í viðeigandi reit í XML skema ef upplýsingar um TIN eru ekki fyrir hendi.
Bandarísk skattyfirvöld hafa gefið út leiðbeiningar til tilkynningarskyldra fjármálastofnana ef TIN upplýsingar vantar á eldri reikninga. Hér má sjá leiðbeiningarnar
Reikningshafi upplýsir að hann sé fæddur í Bandaríkjunum, en hann hefur ekki bandaríska skattkennitölu og upplýsir jafnframt að hann sé ekki skattskyldur í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu til fjármálastofnunar hefur hann ekki upplýst um ríkisborgararétt. Á að fara með viðskiptavininn sem hann væri bandarískur aðili?
Gerð er sú krafa til yfirlýsinga sem viðskiptavinur veitir fjármálastofnunum að upplýst sé um ríkisborgararétt. Í því dæmi sem hér er til umfjöllunar hefur það ekki verið gert en upplýst er að viðkomandi viðskiptavinur er fæddur í Bandaríkjunum og telur sig ekki skattskyldan þar. Líklegt er að viðskiptavinurinn sé bandarískur ríkisborgari þar sem hann er fæddur þar. Íslenskar fjármálastofnanir eiga í þessum tilvikum að merka reikninga viðkomandi viðskiptavinar með landakóða Bandaríkjanna.
Í þessu tilfelli er ekki hægt að útiloka að viðkomandi teljist vera bandarískur aðili í skilningi FATCA. Bandaríkin veita öllum börnum sem fæðast þar í landi ríkisborgararétt og því má ganga út frá því sem meginreglu að allir sem eru fæddir þar séu bandarískir ríkisborgarar.
Hafi viðskiptavinur sem fæddur er í Bandaríkjunum lagt fram eftirfarandi gögn skal ekki merkja hann sem bandarískan aðila:
- yfirlýsingu viðskiptavinar þar sem skýrlega kemur fram að viðkomandi sé hvorki bandarískur ríkisborgari eða skattskyldur þar, og
- vegabréf eða önnur opinber persónuskilríki sýna að reikningshafi er ríkisborgari í öðru landi en Bandaríkjunum, og
- afrit af staðfestingu viðskiptavinar um afsal á bandarískum ríkisborgararétti. Liggi slík staðfesting ekki fyrir þarf góðar skýringar á því af hverju viðkomandi viðskiptavinur fékk ekki bandarískan ríkisborgararétt við fæðingu.