Hnappurinn, rafræn skil á ársreikningum
Almennt
Hnappurinn er einföld og þægileg lausn fyrir félög til að skila ársreikningi. Félög sem falla undir skilgreiningu laga um ársreikninga um örfélög og falla ekki undir 8. mgr. 3. gr. laganna, geta nýtt sér hann.
Örfélögum er heimilt að láta semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit sem byggð eru á skattframtali þeirra í stað ársreiknings. Teljast þau gefa glögga mynd af afkomu félagsins.
Hnappsreikningi skilað í gegnum þjónustuvef Skattsins
Eftir að skattframtali örfélags hefur skilað inn er farið inn á þjónustuvef Skattsins með aðalveflykli félagsins (eða skilalykli fagaðila) og svo Vefskil > Ársreikningaskrá > Skil ársreiknings.
Þar má velja að láta Skattinn útbúa ársreikning félagsins byggðan á innkomnu skattframtali. Við skil á „hnappsreikningi“ þurfa félög að staðfesta að þau uppfylli viðbótarskilyrði í lögum um ársreikninga, þar með talið að félagið beiti kostnaðarreikningsskilum og ekki sé um fjárfestingarfélag að ræða. Upplýsa þarf um eignarhald og stjórnendur og svara þarf spurningum um hvort til staðar séu skuldbindingar utan efnahagsreiknings, hvort eigendur eða stjórnendur hafi fengið lán eða aðra fyrirgreiðslu og hvort félagið hafi keypt, selt eða eigi eigin hluti.
Skatturinn útbýr svo ársreikning byggðan að framangreindum upplýsingum og sér um að skila reikningnum til ársreikningaskrár til birtingar.
Ítarefni
Hvar eru reglurnar?
Lög nr. 3/2006, um ársreikninga
Spurt og svarað
Hvað er örfélag?
Örfélag er félag sem við uppgjörsdag fer ekki fram úr tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum:
- heildareignir: 20 millj. kr.,
- hrein velta: 40 millj. kr. og
- meðalfjöldi árs-verka á reikningsári: 3 starfsmenn.
Flokkun félaga skal ekki breytast nema félag annað hvort fari yfir eða undir viðmiðunarmörk viðkomandi árs og síðastliðins reikningsárs.
Geta öll örfélög notað Hnappinn?
Nei, í 8. mgr. 3. gr. laganna eru talin upp þau örfélög, sem ekki mega nýta sér Hnappinn, en það eru félög sem falla undir skilgreiningu á (a) einingum tengdum almannahagsmunum, (b) önnur félög sem falla undir opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, (c) félög sem falla undir skilgreiningu laganna um fjárfestingarfélög, (d) félög sem falla undir skilgreiningu laganna um eignarhaldsfélög og (e) félög sem víkja frá beitingu kostnaðarverðsreikningsskila.
Hvað er átt við með rafrænum skilum?
Rafræn skil eru skil á framtali í gegnum þjónustusíðu RSK, þ.e. www.skattur.is.
Er ársreikningur gerður með Hnappnum alvöru ársreikningur?
Já, samkvæmt 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga telst ársreikningur gerður með Hnappnum gefa glögga mynd í skilningi laganna og er því fullgildur ársreikningur. Reikningurinn byggir á skattframtali félagsins og inniheldur yfirlit yfir rekstur, efnahag og skýringar og telst undir-ritaður vegna þess að reikningnum var skilað rafrænt.
Verða örfélög að skila ársreikningi með Hnappnum?
Nei, þetta er heimild en ekki skylda. Stjórnendur hvers félags fyrir sig taka ákvörðun um hvort þeir vilja nýta sér þess lausn eða ekki.
Er nóg fyrir félög að skila skattframtali til RSK og sleppa að semja ársreikning?
Nei, um skil á skattframtali og ársreikningi gilda sjálfstæðar reglur. Því þarf að fara inn á þjónustusíðu RSK eftir að skattframtali hefur verið skilað og velja þar að útbúa ársreikning með Hnappnum. Upplýsa þarf um eftirfarandi atriði við skil á slíkum reikningi:
Veita þarf upplýsingar um eignarhald og hverjir eru stjórnendur félagsins. Einnig þarf að stað-festa að félagið falli ekki undir 8. mgr. 3. gr. laganna, sbr. hér að framan. Auk þess þarf að veita upplýsingar um eftirfarandi atriði:
- Upplýsa um allar skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar sem ekki koma fram í reikningnum. Dæmi um slíkt væri veðsetning fasteigna eða ef á tilteknum eignum hvíli veð vegna skuldbindinga félagsins.
- Upplýsa um allar fyrirframgreiðslur og lánveitingar til eigenda og stjórnenda í félaginu ásamt vaxtakjörum, skilmálum og endurgreiðslum þessara aðila og niðurfellingu skulda í heild eða hluta.
- Upplýsa um hvort félagið eigi eigin hluti í árslok, hafi keypt eða selt eigin hluti á árinu ásamt upplýsingum um ástæður kaupanna, nafnverð, kaupverð og söluverð hafi félagið selt eigin hluti á árinu.
Er skylt að leggja fram ársreikning, sem gerður hefur verið með Hnappnum, á aðalfundi félags?
Hafi verið valið að útbúa ársreikning með Hnappnum, þá er það sá ársreikningur sem leggja skal fyrir aðalfund félagsins.
Ársreikningur sem gerður var með Hnappnum er fullgildur reikningur, sbr. ákvæði 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga. Prenta þarf ársreikninginn út og samþykkja hann á aðalfundi, alveg eins og samþykkja þarf „hefðbundinn“ ársreikning. Að því loknu geta félög skilað árs-reikningnum til RSK. Það yrði gert með því að nota Hnappinn, en undirritaðan ársreikning sem fór fyrir stjórn og hluthafafund, þarf félagið að geyma eins og um „hefðbundinn“ árs-reikning væri að ræða.
Hvað gera félög sem ekki vilja nýta sér Hnappinn til skila á ársreikningi?
Þau semja „hefðbundinn“ ársreikning, þ.e. rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi ef við á, skýringar og skýrslu stjórnar og skoðunarmaður eða endurskoðandi verða að yfirfara reikninginn og staðfesta hann. Skila þarf reikningnum annars vegar til ársreikningaskrár og hins vegar til ríkisskattstjóra með skattframtali félagsins.
Nú er félagið endurskoðunarskylt. Getur það samt skilað inn ársreikningi sem útbúinn var með Hnappnum?
Nei, eðli máls samkvæmt er þá ekki heimilt að láta RSK útbúa ársreikning. Í slíkum tilvikum enda þarf að endurskoða reikninginn. Ef svo háttar til ber að semja „hefðbundinn“ ársreikning í samræmi við lög um ársreikninga.
Hvers vegna birtast ekki tölur úr efnahagsreikningi ársreiknings 2015 í ársreikningum 2016, sem gerðir eru með Hnappnum?
Heimilt er að víkja frá samanburðarári fyrir ársreikninga sem gerðir eru fyrir reikningsárið 2016, sbr. ákvæði til bráðabirgða með reglugerð nr. 974/2016 um framsetningu og innihald ársreikninga örfélaga byggt á skattframtölum („Hnappurinn“).
Ef skattframtal hefur þegar verið sent inn, er þá hægt að útbúa ársreikning með því að nota Hnappinn?
Já, með því að fara inn á þjónustusíðu RSK.