Slit sameignarfélags

Þegar félagsmenn hafa samþykkt félagsslit á félagsfundi skal taka ákvörðun um skiptimeðferð. Hægt er að:

  1. Kjósa skilanefnd sem sér um skipti og getur félagsstjórn verið skilanefnd
  2. Félagsmenn sjá sjálfir um skipti

Framkvæmd skipta

Skref eitt: Skilanefnd eða sá sem annast skipti skal tilkynna fyrirtækjaskrá að ákveðið hafi verið að slíta félaginu. Tilkynningareyðublað má nálgast hér. RSK 17.54

Skref tvö: Næst skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði auglýsingu um félagsslitin ásamt áskorun til lánardrottna um að þeir lýsi kröfum sínum á hendur félaginu innan tveggja mánaða frá því að auglýsingin birtist í fyrra sinni. Sýnishorn af auglýsingu má nálgast hér og senda skal auglýsinguna til Lögbirtingablaðsins á logbirtingabladid@syslumenn.is.

Skilanefnd eða sá sem annast skipti félagsins skal halda skrá yfir eignir og skuldir félagsins og gera sjálfstætt slitauppgjör frá síðasta ársreikningi.

Þegar allar skuldir félagsins hafa verið greiddar eða settar tryggingar  fyrir greiðslu þeirra og hagnaður og tap hefur verið gert upp skal sá sem annast skiptin leggja fram á félagsfundi til staðfestingar skriflega úthlutunargerð og lokareikning félagsins. Athygli er vakin á því að félagsfundurinn verður að vera haldinn eftir að tveir mánuðir eru liðnir frá fyrri auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Skref þrjú: Þegar úthlutunargerðin hefur verið staðfest á félagsfundi skal sá sem annast skiptin tilkynna firmaskrá að skiptum sé lokið og félaginu hafi verið slitið. Verður þá félagið afskrá. Tilkynning um lok slita má nálgast hér. RSK 17.55


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum