Jafnréttisstefna Skattsins
1 Meginstefna
Skatturinn hefur þá meginstefnu að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum alls starfsfólks innan embættisins óháð kyni í samræmi við 6.-7. gr. og 12.-14. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Jafnréttisstefnan nær til allrar starfsemi og allra starfsmanna embættisins og er birt á heimasíðu Skattsins.
1.1 Nýráðningar
Markmið 1 - Sem jafnast hlutfall kynja í sambærilegum störfum
Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við aðrar ráðandi forsendur við ráðningar. Stefnt skal að því að ná sem jöfnustu hlutfalli kynja í sambærilegum störfum innan embættisins og þess sé sérstaklega gætt við nýráðningar. Þjónusta embættisins kallar á fjölbreyttar lausnir sem best verður mætt með því að hlutfall kynja sé sem jafnast og starfsmenn á öllum aldri með mismunandi bakgrunn, reynslu og menntun taki þátt í starfseminni.
Ávallt skal gæta þess að sýna öllum umsækjendum virðingu þegar störf eru auglýst hjá Skattinum, óháð kyni. Embættið mun við ráðningar og eftir því sem við á, leitast við að jafna hlut kynjanna innan ákveðinna starfahópa.
1.2 Launajafnrétti
Markmið 2 - Sömu laun greidd fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf
Laun og önnur starfskjör, starfsaðstæður eða hlunnindi skulu vera jöfn fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin út frá málefnalegum forsendum á sama hátt fyrir allt starfsfólk í samræmi við starf og starfshæfni hvers fyrir sig. Ákvarðanir sem hafa áhrif á launakjör skulu byggðar á málefnalegum forsendum og viðmið sem sett eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Unnið er eftir staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi sem felur í sér skuldbindingu æðstu stjórnenda til þess að rýna launasetningu reglulega með það að markmiði að uppræta kynbundinn launamun ef hann er til staðar og að vinna stöðugt að umbótum sem miða að því að tryggja jöfn kjör allra kynja í sambærilegum störfum.
1.3 Framgangur í starfi
Markmið 3 - Gæta jafnréttis við framgang í starfi
Við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í starfi skal þess gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Sérstök áhersla er lögð á að staða kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum sé sem jöfnust.
Leitast er við að deila verkefnum þannig að kynjahlutfall verði sem jafnast þegar kemur að þátttöku í vinnuhópum, ráðum, stjórnum og í innlendum og erlendum nefndum. Þá hefur ríkisskattstjóri skrifað undir viljayfirlýsingu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) þess efnis að reyna eftir fremsta megni að stuðla að því að jafnt kynjahlutfall sé í pallborðsumræðum og á frummælendaskrám ráðstefna og funda.
1.4 Starfsþróun
Markmið 4 - Starfsfólk hafi jafnan aðgang að endurmenntun og starfsþjálfun
Allir starfsmenn skulu setja sér starfsþróunaráætlun sem útfærð er í starfsmannasamtali og samþykkt af mannauðsstjóra, þannig að starfsfólk af öllum kynjum í sambærilegum störfum njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Starfsfólk skal, óháð kyni, njóta sömu möguleika til símenntunar og starfsþjálfunar hjá embættinu. Leitast skal við að höfða til allra kynja í tilboðum er lúta að starfsþjálfun og símenntun.
1.5 Samræming vinnu og einkalífs
Markmið 5 - Gera starfsfólki kleift að samræma vinnu og einkalíf
Velferð einstaklinga í einkalífi fer saman við líðan þeirra og árangur í starfi. Leitast skal við að skapa öllum starfsmönnum óháð kyni aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar. Í þessu felst að taka skal tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna eftir því sem unnt er.
1.6 Einelti og áreitni
Markmið 6 - Auka meðvitund um skaðleg áhrif eineltis og áreitni á vinnustað
Leitast er við að koma í veg fyrir einelti og hvers kyns ofbeldi og áreitni þ.m.t. kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni enda slíkt ekki liðið hjá Skattinum. Starfsmaður sem telur sig verða fyrir einelti, ofbeldi eða áreitni á vinnustaðnum skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns eða mannauðsstjóra og tilkynna um atvikið. Jafnframt er unnt að snúa sér til einhvers af sviðsstjórum embættisins eða til ríkisskattstjóra, sjá nánar í verkferli á innra neti.
2 Jafnréttisfulltrúi
Framkvæmdastjórn skipar í stöðu jafnréttisfulltrúa en hlutverk jafnréttisfulltrúa er að:
· Óska eftir því að framkvæmdastjórn ræði reglulega um jafnréttismál.
· Afla tölfræðilegra upplýsinga um þætti sem varða áætlunina og birta árlega skýrslu um það.
· Gera árlega tillögur að nánari skilgreiningu markmiða úr jafnréttisáætlun (mælanleg viðmið og tímamörk).
· Taka við ábendingum frá starfsfólki um úrbætur vegna jafnréttismála.
· Leggja úrbótatillögur um jafnréttismál fyrir framkvæmdastjórn.
· Hafa yfirumsjón með að jafnréttisfræðsla fari fram.
· Gera tillögur að endurskoðun jafnréttisstefnu a.m.k. á þriggja ára fresti.
3 Ábyrgð og aðgerðir
Ríkisskattstjóri ber ábyrgð á jafnréttisstefnunni en mannauðsstjóri sér um að stefnunni sé framfylgt.
Jafnréttisstefnan er endurskoðuð a.m.k. á þriggja ára fresti og virknin metin á árlegum rýnifundum stjórnenda um jafnlaunakerfið.
Útgefin 20.9.2021