Sektir vegna vanskila
Skila skal ársreikningi, til opinberrar birtingar, til ársreikningaskrár í seinasta lagi 31. ágúst ár hvert fyrir árið á undan óháð því hvort félag teljist hafa verið í starfsemi eða ekki. Sé ársreikningi ekki skilað eru félög sektuð vegna vanskila á ársreikningi til ársreikningaskrár.
Sektarheimild ársreikningaskrár
Í XII. kafli laga nr. 3/2006 (120. - 125. gr.) um ársreikninga eru fyrirmæli um viðurlög og málsmeðferð vegna brota á ákvæðum laganna. Samkvæmt 124. gr. má gera lögaðila fésekt fyrir brot gegn lögunum, óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.
Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. skal ársreikningaskrá leggja sektir á þau félög sem vanrækja skyldu til að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. Þegar frestur skv. 109. gr. til að skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn skal ársreikningaskrá leggja á viðkomandi félag stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. og jafnframt krefjast úrbóta.
Lækkun sekta vegna vanskila
Skili félag ekki ársreikningi til ársreikningaskrár innan tímafrests leggst 600.000 kr. sekt á félagið sbr. 1. mgr. 120 gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Skv. 2. mgr. 120 gr. lækkar sektarfjárhæðin um 90% sé skilað innan 30 daga frá dagsetningu sektarákvörðunar, 60% lækkun ef ársreikningi er skilað innan tveggja mánaða og 40% lækkun er á sektarfjárhæð ef skilað er innan þriggja mánaða frá dagsetningu sektarákvörðunar en ef skilað er eftir að þrír mánuðir eru liðnir stendur sektarfjárhæðin óbreytt í 600.000 kr.
Sektir vegna eldri reikningsára
Sektir ársreikningaskrár vegna reikningsáranna 2009-2015 voru kæranlegar til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða frá sektarákvörðun. Vegna reikningsáranna 2012-2015 var ársreikningaskrá heimilt að lækka sektarfjárhæð um 60% ef ársreikningi var skilað innan 60 daga frá dagsetningu sektarákvörðunar. Tímafrestir til breytinga eru því allir liðnir.
Sektir vegna ófullnægjandi skila
Skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi sem uppfyllir ekki skilyrði laga um ársreikninga að mati ársreikningaskrár tilkynnir skráin félaginu um þá afstöðu og gefur því kost á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum. Ef ekki berast fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skal lögð á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr.
Lækkun sekta vegna ófullnægjandi skila
Skili félag ófullnægjandi ársreikningi eða samstæðureikningi og skilar ekki inn fullnægjandi ársreikningi þrátt fyrir ósk ársreikningaskrár er félagið sektað um 600.000 kr. sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Skv. 4. mgr. 120 gr. lækkar sektarfjárhæðin um 90% sé skilað fullnægjandi ársreikningi innan 30 daga frá dagsetningu sektarákvörðunar, 60% lækkun ef ársreikningi er skilað innan tveggja mánaða og 40% lækkun er á sektarfjárhæð ef skilað er innan þriggja mánaða frá dagsetningu sektarákvörðunar en ef skilað er eftir að þrír mánuðir eru liðnir stendur sektarfjárhæðin óbreytt í 600.000 kr.
Lækkun kemur til framkvæmdar í lok hvers tímabils. Þau sem skila ársreikningi snemma innan hvers tímabils geta greitt lægri sektarfjárhæð strax en bíða þarf til loka tímabils til að sjá sekt lækka og kröfu hverfa úr netbanka.
Kæruleiðir
Fésektir ársreikningaskrár vegna ófullnægjandi skila eru kæranlegar til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða frá dagsetningu sektarákvörðunar sbr. 5. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Um aðrar sektarákvarðanir ársreikningaskrár vegna vanskila á ársreikningum gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um stjórnsýslukærur.