Gagnaskil

Gögnum frá launagreiðendum, hlutafélögum og öðrum sem skyldir eru að skila ríkisskattstjóra upplýsingum um þriðja aðila, eru nær öll send rafrænt. Ríkisskattstjóri rekur kerfið Gagnaskil til móttöku á þessum gögnum og þjónar það bæði skattkerfinu og skilaskyldum aðilum. Þrjár skilaleiðir eru í boði:

  • Með vefþjónustu, þar sem skilað er beint frá tölvukerfum. Gögnin eru send sem XML skjöl með SOAP staðlinum. Sérstakt XML snið (schema) er til staðar fyrir hverja gagnategund.  
  • Notendaviðmót á þjónustusíðunni skattur.is þar sem hægt er að skrá þessar upplýsingar, villuprófa og senda.
  • Textaskrár (sem voru notaðar á upphafsárum rafrænna skila) eru enn nokkuð notaðar. Reynt verður að halda þessari leið opinni eitthvað áfram en vegna ýmissa takmarkana og af tæknilegum ástæðum má búast við að lokað þurfi fyrir skil á textaskrám fljótlega.

Þeir sem enn skila textaskrám eru hvattir til að færa skilin yfir á XML form sem fyrst.

Öll gögn sem tekið er á móti í Gagnaskilum eru villuprófuð við móttöku, hvaða skilaleið sem notuð er. Þessum gögnum má skipta í tvo flokka:

  • Almennir miðar, sem eru launamiði, verktakamiði, fjármagnstekjumiði, hlutafjármiði, stofnfjármiði, stofnsjóðsmiði og miði fyrir bifreiðahlunnindi.
  • Sérmiðar fyrir tilteknar stofnanir, sem eru Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðir, sveitarfélög, Atvinnuleysistryggingasjóður og tryggingafélög. 

Undir liðnum Fagaðilar er sér kafli um kerfið Gagnaskil. Auk skýringa á öllum tegundum gagna sem talin voru upp hér að framan er þar fjallað um þær vefþjónustur sem settar hafa verið upp til prófana fyrir þá framleiðendur hugbúnaðar, sem vilja útfæra bein rafræn skil úr kerfum sínum.

Sjá tæknilegar upplýsingar: Fagaðilar > Hugbúnaðarhús > Gagnaskil  


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum