Dánarbú
Við andlát manns lýkur skattskyldu einstaklings og til verður dánarbú sem tekur við öllum eignum og skuldum hins látna. Skattskyldu dánarbús lýkur við skiptalok hjá sýslumanni.
Dánarbú er lögaðili og ber sjálfstæða skattskyldu og fer álagning á dánarbú eftir álagningarreglum sem gilda um lögaðila, m.a. hvað skattprósentu varðar. Það á við um allar tekjur dánarbús sem hafa orðið til eftir andlát en fyrir lok búskipta, þ.á m. vaxtatekjur af bankainnstæðum, innlausnarvexti af verðbréfum og söluhagnað af hlutabréfum og öðrum eignum, en þó með þeirri undantekningu að fenginn arður er skattlagður sem fjármagnstekjur.
Sala íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbús
Um sölu dánarbús á íbúðarhúsnæði gilda sömu reglur og um sölu einstaklinga á íbúðarhúsnæði, þannig að hafi hinn látni átt íbúðarhúsnæði í full tvö ár og heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbúsins sé ekki meira en 600 rúmmetrar eða 1200 rúmmetrar hjá hjónum er ekki um skattskyldan söluhagnað að ræða. Stærðarmörk þau sem gilda fyrir hjón gilda einnig um sölu eftirlifandi maka (eða dánarbús) á íbúðarhúsnæði sem var í eigu hjónanna.
Ef dánarbú selur íbúðarhúsnæði sem hinn látni átti skemur en tvö ár, telst hagnaðurinn til skattskyldra tekna dánarbúsins og er skattlagt með þeirri skattprósentu sem um þau gilda hverju sinni. Ef dánarbú afhendir íbúðarhúsnæði til erfingja er litið til samanlagðs eignarhaldstíma arfláta og erfingja við ákvörðun á því hvort söluhagnaðurinn telst til skattskyldra tekna.
Söluhagnaður telst vera mismunur á söluverði eignar og stofnverði. Stofnverð eigna er að öllu jöfnu upphaflegt kaupverðið auk kostnaðar við viðbætur. Stofnverð fasteigna á að koma fram í fylgigögnum skattframtals árið eftir kaupin. Upplýsingar um framkvæmdakostnað eiga að koma fram á húsbyggingarskýrslu með framtali ársins eftir byggingu. Manni er jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað söluhagnaðar. Sjá nánar umfjöllun um fjármagnstekjur og fjármagnstekjuskatt.
Við ákvörðun á stofnverði skal þá hafa í huga að stofnverð eigna sem arfláti átti fyrir 2001 má framreikna til þess árs skv. verðbreytingarstuðli sem finna má á bakhlið RSK 3.02. Ef arfláti átti fasteignina í árslok 1978 má nota gildandi fasteignamat í lok árs 1979 í stað stofnverðs framreiknað til ársloka 2001.
Skattframtal dánarbús
Eftirlifandi maki
Ef skattskil hins látna voru sameiginleg með eftirlifandi maka skal gera grein fyrir tekjum eftir andlát á skattframtali eftirlifandi maka vegna tekna og eigna á andlátsárinu.
Ekki eftirlifandi maki
Ef hinn látni lét ekki eftir sig maka þarf að skila skattframtali fyrir dánarbúið.
- Erfingjar telja fram til skatts fyrir bú sem eru undir einkaskiptum. Skiptastjórar telja fram fyrir dánarbú í opinberum skiptum.
- Telja ber fram til skatts fyrir öll ár fram að skiptalokum.
- Skilafrestur skattframtals dánarbús er til 31. maí ár hvert. Á fyrsta ári eftir andlát skal þó skila í framtalsfresti einstaklinga.
Dæmi
Arfláti lést 2024 og dánarbúinu var skipt á árinu 2024. Skila þarf:
- framtali 2025 með hefðbundnum hætti í gegnum þjónustuvef Skattsins.
Arfláti lést 2023 og dánarbúinu skipt á árinu 2024. Skila þarf:
- framtali 2024 með hefðbundnum hætti í gegnum þjónustuvef Skattsins.
- framtali 2025 á eyðublaðinu Skattframtal dánarbús RSK 1.03
Veflykill dánarbús
Forráðamaður dánarbús getur óskað eftir að fá veflykil dánarbús sendan til að fá aðgang að þjónustuvef.
Umsókn er að finna á þjónustuvef Skattsins, þar er smellt á „sækja veflykil“. Fyrst þarf að skrá kennitölu dánarbúsins, í þrepi tvö að skrá kennitölu forráðamanns dánarbús og hengja við umsóknina gögn frá sýslumanni. Umsóknir eru afgreiddar inna fjögurra virkra daga frá móttöku.
Opna umsókn um veflykil dánarbús
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Sala dánarbúa á íbúðarhúsnæði – 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skattprósenta dánarbúa – 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Skattskylda dánarbúa – 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt
Eyðublöð
Skattframtal dánarbús 2024 - RSK 1.03
Kaup og sala eigna 2024 - RSK 3.02