Fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur er skattur sem lagður er á eignatekjur einstaklinga utan atvinnurekstrar, þ.e. vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur. Ef einstaklingur hefur með höndum atvinnurekstur greiðir hann ekki sérstakan fjármagnstekjuskatt vegna fjármagnstekna sem tilheyra atvinnurekstrinum, heldur eru þær skattlagðar eftir sömu reglum og gilda um aðrar tekjur í rekstrinum.

Á fjármagnstekjur er ekki lagt útsvar og þær hafa engin áhrif á þrepaskiptingu tekjuskatts. Hins vegar teljast þær með öðrum tekjum til stofns við útreikning vaxtabóta og barnabóta.

Um skattlagningu einstakra fjármagnstekna

 

Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

Af vaxtatekjum og arði er dregin staðgreiðsla en skattur af söluhagnaði og leigutekjum er greiddur eftirá.

Arður

Félagi sem greiðir út arð ber að halda eftir staðgreiðslu skatta. Afdráttur skal fara fram þegar hlutafélag greiðir arðinn eða eigi síðar en í lok þess árs þegar ákvörðun um úthlutun er tekin. Með greiðslu er átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur í peningum, kröfu eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga.

Í janúar ár hvert eiga hlutafélög að skila hlutafjármiðum til ríkisskattstjóra þar sem fram kemur hlutafjáreign hvers hluthafa, arður sem greiddur var á árinu og staðgreiðsla af honum.

Vextir

Af öllum vaxtatekjum sem maður fær af inneignum, bréfum eða kröfum, og greiddar eru af bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum eða öðrum staðgreiðsluskyldum aðilum, ber að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts þegar vextirnir eru greiddir eða eru greiðslukræfir. Ekki er tekið tillit til frítekjumarks í staðgreiðslu. Endanleg skattlagning vaxtatekna, m.t.t. frítekjumarks, fer fram í álagningu opinberra gjalda ár hvert.

Af vaxtatekjum sem maður fær með öðrum hætti, t.d. af kröfum í eigin innheimtu, er ekki greidd staðgreiðsla, heldur er skattur af þeim greiddur eftirá samkvæmt upplýsingum í skattframtali.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Fjármagnstekjur – C-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Fjármagnstekjur er féllu til á árinu 2009 – 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattprósenta og frítekjumark – 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla – lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Tímamark tekjufærslu fjármagnstekna – 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Eyðublöð

Kaup og sala eigna - RSK 3.02

Mótreikningur, vegna tapaðra fjármagnstekna - RSK 3.16

Einu sinni var...

Fjármagnstekjuskattur var tekinn upp á árinu 1997 og var skattprósenta lengst af 10%. Frá árinu 2009 hefur skattprósentan hins vegar tekið breytingum.

 Þróun fjármagnstekjuskatts:

  • 10% frá 1. janúar 1997 til 30. júní 2009
  • 15% frá 1. júlí til 31. desember 2009
  • 18% frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2010
  • 20% frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2017
  • 22% frá 1. janúar 2018

Ítarefni

Fjármagnstekjur er féllu til á árinu 2009 - 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Hækkun í 18% - b-liður 13. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins

Hækkun í 20% - 1. gr. laga nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Skattlagning vaxtatekna hjá einstaklingum utan rekstrar - ákvarðandi bréf nr. 2/2013

Annað

Fjármagnstekjur

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum