Söluhagnaður

Söluhagnaður af eignum einstaklinga sem ekki eru nýttar í atvinnurekstri getur bæði myndað skattskyldar tekjur og verið skattfrjáls. Fer það eftir tegundum eigna og eignarhaldstíma auk annarra skilyrða.

Undantekningar frá skattskyldu eru:

  • Hagnaður manns af sölu lausafjár sem ekki er notað í atvinnurekstri nema eignanna hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja með hagnaði.
  • Hagnaður manns af sölu íbúðarhúsnæðis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  • Hagnaður manns af sölu frístundarhúsnæðis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  • Hagnaður manns af sölu tiltekinna hlutabréfa sem keypt voru á árunum 1990-1996 að vissu hámarki og uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Skattskyldur hagnaður af sölu eigna sem ekki tengjast atvinnurekstri myndar stofn til fjármagnstekjuskatts. Gera þarf grein fyrir sölu eigna og útreikningi söluhagnaðar/sölutaps á eyðublaði RSK 3.02. 

Eyðublöð (RSK 3.02) 

Almenna reglan er að söluhagnaður eigna telst mismunur söluverðs og stofnverðs eignarinnar, eftir atvikum að teknu tilliti til áður fenginna fyrninga og áður fengins söluhagnaðar og að frádregnum sölukostnaði. Auk þess sem söluhagnaður hjá einstaklingum getur verið skattfrjáls þá getur verið heimilt að dreifa eða fresta tekjufærslu hans.

Dreifing söluhagnaðar

Ef hluti af söluverði seldrar eignar er greiddur með skuldabréfi til minnst þriggja ára er heimilt að dreifa þeim hluta söluhagnaðarins sem svarar til hlutdeildar skuldabréfanna í heildarsöluverði til skattlagningar á afborgunartíma bréfanna, þó að hámarki sjö ár. Þó er heimilt að dreifa söluhagnaði á 20 ár þegar um er að ræða hagnað af sölu bújarða þar sem stundaður er landbúnaður, en hafa ber þó í huga að í þeim tilfellum er um atvinnurekstrartekjur að ræða, sem ekki skal gera grein fyrir á eyðublaðinu RSK 3.02. Til skuldaviðurkenningar í þessu sambandi teljast ekki þær skuldir sem hvíla á hinni seldu eign og kaupandi tekur að sér að greiða. Heimild til dreifingar fellur niður ef skuldaviðurkenning er seld.

Söluhagnaður/tap af hlutabréfum

Hagnaður af sölu hlutabréfa myndar stofn til fjármagnstekjuskatts og er skattlagður samkvæmt skattframtali. Heimilt er að draga tap af sölu hlutabréfa frá hagnaði af sölu annarra hlutabréfa á sama ári. Tap á hlutabréfum vegna gjaldþrots má ekki draga frá söluhagnaði af öðrum hlutabréfum.

Almenna reglan er að hagnaður af sölu hlutabréfa er mismunur á kaupverði og söluverði án framreiknings. Hafi bréfin verið keypt fyrir árslok 1996 má á hinn bóginn velja milli tveggja leiða við að ákvarða kaupverð hlutabréfa við útreikning á söluhagnaði/sölutapi. Annars vegar kaupverðið framreiknað til ársloka 1996 og hins vegar jöfnunarverðmæti, sem fram kemur á hlutafjármiðum sem eigendur hlutabréfa fá eftir hver áramót.

Ef seljandi hlutabréfa hefur eignast þau á árunum 1990-1996 getur hluti söluhagnaðar verið skattfrjáls. Þetta á við um hlutabréf í félögum sem hlotið höfðu staðfestingu ríkisskattstjóra til skattafsláttar og að bréfin hafi verið í eigu seljanda í full fjögur ár. Hámark skattfrjáls söluhagnaðar samkvæmt þessum reglum er 367.625 kr. fyrir hvern mann eða 735.250 kr. hjá hjónum.

Frá og með álagningu 2021, vegna tekna á árinu 2020, skal ekki reikna fjármagnstekjuskatt af annars vegar vaxtatekjum og hins vegar tekjum af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga, samtals allt að 300.000 kr. á ári hjá manni. Frádráttur skal nýttur þannig að fyrst skal jafna út vaxtatekjur, næst arðstekjur og loks söluhagnað af hlutabréfum þar til hámarki frádráttar hefur verið náð.

Kaupverð hlutabréfa - jöfnunarverðmæti/jöfnunarstuðull

Útreikningur á söluhagnaði eða sölutapi hlutabréfa

Hagnaður eða tap af sölu hlutabréfa hjá mönnum utan atvinnurekstrar telst mismunur á söluverði og kaupverði. Kaupverð hlutabréfa sem keypt voru eftir 1996 er upphaflegt kaupverð þeirra óframreiknað. Kaupverð hlutabréfa sem keypt voru fyrir 1997 er upphaflegt kaupverð þeirra framreiknað til ársloka 1996 eða jöfnunarverðmæti þeirra ef það er hærra.

Framreiknað kaupverð

Kaupverð er framreiknað með verðbreytingarstuðli sem gildir fyrir kaupár bréfanna.

Við útreikning á söluhagnaði er heimilt að framreikna kaupverð hlutabréfa til ársloka 1996.

Verðbreytingarstuðlar hlutabréfa

Jöfnunarverðmæti

Jöfnunarverðmæti er nafnverð hlutabréfa, eins og það var í árslok 1996, margfaldað með jöfnunarstuðli félagsins. Heimilt er að nota jöfnunarverðmæti í staðinn fyrir framreiknað kaupverð þegar reiknaður er söluhagnaður af hlutabréfum sem seljandi hafði keypt 1996 og fyrr.

Ef ekki er til reiknað jöfnunarverðmæti fyrir félagið er stuðullinn 1,0000, sbr. 3. mgr. 18. gr. skattalaga.

Jöfnunarstuðlar hlutafélaga

Meðalkaupverð hlutabréfa

Þegar ákveða skal hagnað af sölu hlutabréfa skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar á hendi sama eiganda. Þetta getur þó einungis átt við ef sams konar skattlagningarreglur gilda um söluhagnað af hlutabréfunum. Reikna þarf því sérstaklega meðalkaupverð á sérstökum hlutabréfum og öðrum hlutabréfum. Með sérstökum hlutabréfum er átt við bréf sem keypt voru á árunum 1990 til 1996 í félögum sem fengu staðfestingu ríkisskattstjóra á frádráttarbærni á kaupári bréfanna. Hagnaður af sölu þessara bréfa er skattfrjáls að hámarki 367.625 kr. hjá einstaklingi og 735.250 kr. hjá hjónum.

 

Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis

Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis, þ.m.t. búseturéttar, í eigu manns er mismunur söluverðs að frádregnum sölukostnaði og stofnverðs, þ.e. kostnaðar- eða kaupverðs. Tvennt getur haft áhrif til lækkunar á stofnverði. Annars vegar áður fenginn söluhagnaður og hins vegar skattfrjáls eigin vinna.

Eignarhaldstími styttri en tvö ár

Ef íbúðarhúsnæði eða búseturéttur er seldur og seljandi hefur ekki átt eignina í full tvö ár er söluhagnaðurinn að fullu skattskyldur.

Frestun á tekjufærslu

Ef seljandi hefur ekki keypt eða hafið byggingu á öðru íbúðarhúsnæði í staðinn fyrir það selda er hægt að óska eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Ef hann kaupir eða hefur síðan byggingu á nýju íbúðarhúsnæði, í síðasta lagi á öðru ári eftir söluár, er söluhagnaðurinn ekki skattlagður en færist til lækkunar á stofnverði nýju íbúðarinnar. Sé stofnverð nýju eignarinnar lægra en sem nemur fjárhæð söluhagnaðar færist mismunur sem fjármagnstekjur á kaupári nýju eignarinnar. Ef ekkert er keypt eða byggt innan tilskilins tíma færist söluhagnaðurinn með skattskyldum fjármagnstekjum á öðru ári eftir að hann myndaðist.

Eignarhaldstími lengri en tvö ár

Ef seljandi hefur átt íbúðarhúsnæðið í full tvö ár er söluhagnaður af því skattfrjáls, svo fremi sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis í eigu seljanda á söludegi sé ekki meira en 600 rúmmetrar hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetrar hjá hjónum. Stærðarmörk sem gilda fyrir hjón gilda jafnframt um sölu eftirlifandi maka á íbúðarhúsnæði sem var í eigu þeirra beggja fyrir andlát hins. Ef íbúðarhúsnæði fer umfram þessi stærðarmörk er söluhagnaður af þeim hluta sem umfram er alltaf skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma, þó ekki þegar um er að ræða sölu á íbúðarhúsnæði sem var til eigin nota. Svo fremi að íbúðarhúsnæði sé til eigin nota eigenda þess skiptir rúmmál þess ekki máli að því er varðar skattskyldu á söluhagnaði. Síðastgreind regla gildir um sölu á íbúðarhúsnæði frá og með 1. janúar 2016.

Lækkun á stofnverði nýs íbúðarhúsnæðis/búseturéttar

Ef um er að ræða skattskyldan söluhagnað af íbúðarhúsnæði/búseturétti í eigu manns er hægt að óska eftir að söluhagnaðurinn verði færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis eða búseturéttar sem keyptur hefur verið á sama ári og eldri eignin var seld. Sama á við um íbúðarhúsnæði sem hafin er bygging á. Þessi regla á við um íbúðarhúsnæði hér á landi, á EES svæðinu, í aðildarríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Hagnaður af sölu annarra fasteigna

Söluhagnaður af sölu annarra fasteigna en íbúðarhúsnæðis er skattskyldur. Er hér m.a. átt við sölu á sumarbústað, hesthúsi, bátaskýli, landi eða lóð.

Frá og með tekjuárinu 2020 (álagning 2021) er sala á frístundahúsnæði í eigu manna skattfrjáls ef heildarrúmmál eignarinnar og íbúðarhúsnæðis viðkomandi fer ekki fram úr 600 rúmmetrum hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetrum hjá hjónum. Skilyrði er að húsnæðið hafi verið nýtt af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi og eignarhald varað að lágmarki í 7 ár.

Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði. Í stað stofnverðs má nota annað tveggja, 1) fasteignamat í árslok 1979, framreiknað samkvæmt verðbreytingarstuðli, enda hafi seljandi átt eignina í árslok 1978 eða 2) helming söluverðs. Sama regla gildir um íbúðarhúsnæði sem er umfram 600 rúmmetra hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetra hjá hjónum, á söludegi, þó ekki ef húsnæðið var til eigin nota (gildir frá 1. janúar 2016), og um frístundahúsnæði sem ekki fellur undir undanþágu frá skattskyldu (gildir frá og með álagningu 2021).

Hagnaður af sölu lausafjár

Hagnaður manna af sölu lausafjár, s.s. bifreiða, er ekki skattskyldur nema eignanna hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja með hagnaði.


Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Dreifing söluhagnaðar – 27. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattskyldar fjármagnstekjur – C-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattskyldir vextir, afföll og gengishagnaður - 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla fjármagnstekna - lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Söluhagnaður af hlutabréfum - 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði - 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Söluhagnaður af landi, lóð eða t.d. sumarbústöðum - 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Söluhagnaður af lausafé - 16. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattmat

Eyðublöð

Kaup og sala eigna - RSK 3.02

Einu sinni var...

Skattprósenta fjármagnstekjuskatts var lengst af 10%. Frá árinu 2009 hefur skattprósentan hins vegar tekið breytingum og er 22% frá 1. janúar 2018.

Annað

Fjármagnstekjuskattur


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum