IFRS Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar
Félög sem hafa skráð verðbréf á skipulögðum verðbréfamarkaði ber skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) við gerð ársreiknings eða samstæðureiknings síns. Framangreindum félögum er einnig heimilt að beita þeim við samningu ársreikninga dótturfélaga sinna og félaga sem eru í meirihlutaeigu félaga innan samstæðunnar. Er þetta í samræmi við VIII. kafla ársreikningalaga.
Félög sem eru yfir stærðarmörkum sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. gr. ársreikningalaga geta sótt um heimild til ársreikningaskrár til að beita stöðlunum við gerð ársreiknings eða samstæðureiknings síns.
Einnig ber vátryggingafélögum að beita alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum við samningu ársreikninga og samstæðureikninga sinna samanber ákvæði í 56. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingafélög.
Ársreikningaskrá hefur eftirlit með öllum félögum sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild til beitingu þeirra og getur í því skyni krafist allra þeirra upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru til að framkvæma eftirlitið.
Skilafrestur á ársreikningum sem gerðir eru samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er þegar í stað við samþykkt þeirra og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs.
Eftirlit með IFRS reikningsskilum
Ársreikningaskrá er falið að hafa eftirlit með reikningsskilum þeirra félaga sem annað hvort er skylt, eða nýta sér heimild til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eins og þeir hafa verið samþykktir af framkvæmdastjórn ESB (IFRS). Felst eftirlitið í því hvort viðkomandi reikningsskil þeirra félaga sem falla undir eftirlitið sé í samræmi við IFRS og önnur ákvæði í lögum og reglum sem um þau gilda
Þau félög sem falla undir eftirlit ársreikningaskrár með IFRS reikningsskilum greiða árlegt umsýslu- og eftirlitsgjald og rennur það í ríkissjóð. Er gjaldið 100.000 kr. á hvert móðurfélag og 50.000 kr. á hvert dótturfélag innan samstæðu.
Við framkvæmd eftirlitsins getur ársreikningaskrá krafist allra þeirra upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins. Þar með talið vinnuskjöl sem varða reikningsskil frá stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda eftirlitsskylds félags. Er félögum skylt að veita ársreikningaskrá umbeðnar upplýsingar innan hæfilegs frests. Ef félag veitir ekki umbeðnar upplýsingar getur ársreikningaskrá lagt á dagsektir sem geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Áfallnar dagsektir falla ekki niður þó svo að eftirlitsskylt félag verði síðar við kröfu ársreikningaskrár.
Komist ársreikningaskrá að þeirri niðurstöðu að reikningsskil eftirlitsskylds félags séu ekki i samræmi við IFRS og ákvæði í öðrum lögum og reglugerðum sem við eiga, getur ársreikningaskrá krafist þess að þau séu leiðrétt og að félagið birti opinberlega breytingar og/eða viðbótarupplýsingar. Ársreikningaskrá getur birt opinberlega upplýsingar um nauðsynlegar breytingar að hennar mati, verði félag ekki við kröfum hennar. Einnig getur ársreikningaskrá óskað eftir því við viðkomandi kauphöll að viðskiptum með verðbréf eftirlitsskylda félags verði tímabundið hætt.
Ársreikningaskrá tekur þátt í störfum eftirlitsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu sem eftirlit hafa með félögum sem beita IFRS við gerð og framsetningu reikningsskila sinna. Markmiðið með þessu samstarfi er að tryggja að eftirlit sé árangursríkt og skilvirkt og að ákvarðanir eftirlitsaðila séu sem líkastar á milli aðildarríkja. Því hefur European Market and Securities Authority (ESMA) komið á samráðsvettvangi eftirlitsaðila. Í dag taka 29 ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þátt í þessum samráðsvettvangi sem er á vegum European Enforcers Coordination Sessions (EECS).
Lykilþáttur í starfsemi EECS eru fundir þar sem farið er yfir ákvarðanir einstakra eftirlitsaðila og þær greindar út frá ákvæðum í IFRS. ESMA hefur sett upp gagnabanka þar sem safnað er saman ákvörðunum eftirlitsaðila og sem aðildarríki hafa aðgang að. Gefnir hafa verið nokkrir úrdrættir úr þessum gagnabanka sem nýst geta þeim félögum sem beita IFRS. Ársreikningaskrá hvetur þá sem beita IFRS við gerð og framsetningu reikningsskila að kynna sér efni þessar úrdrátta en þá er að finna hér.