Viðurkenndir rekstraraðilar AEO
AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operator" og hefur verið nefnt „viðurkenndir rekstraraðilar“ á íslensku. AEO er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum, sem gegna hlutverki í alþjóðlegu vörukeðjunni.
AEO er fyrst og fremst ætlað að greiða fyrir milliríkjaviðskiptum og auka öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar.
Hvaða þýðingu hefur það að vera vottaður viðurkenndur rekstraraðili (AEO)?
Viðurkenndur rekstraraðili er vottunarferli sem byggir á SAFE regluverki Alþjóðatollastofnunarinnar. Markmið AEO-vottunar er fyrst og fremst að auka öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar og greiða fyrir lögmætum viðskiptum og vörusendingum á milli landa.
Með AEO vottun hlýst viðurkenning á því að fyrirtækið njóti trausts innlendra og erlendra tollyfirvalda. Áhættugreining í tengslum við viðurkenningu fyrirtækis sem AEO-aðila á að stuðla að því að tollyfirvöld og viðskiptavinir geti frekar treyst því að fyrirtækið sé traustur hlekkur í vörukeðjunni. Vottunin er staðfesting á að fyrirtækið fylgi lögum og reglum og sé til fyrirmyndar í allri tollframkvæmd.
Hugmyndafræði AEO gerir ráð fyrir ákveðnum og vel skilgreindum ávinningi fyrir fyrirtæki sem hlotið hafa AEO viðurkenningu. Fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvort þau sækja um AEO-vottun hjá Skattinum.
Hvaða fyrirtæki geta sótt um AEO-vottun?
Íslensk fyrirtæki sem gegna hlutverki í alþjóðlegu vörukeðjunni og fullnægja settum skilyrðum og öryggisviðmiðum geta sótt um að hljóta AEO-vottun frá Skattinum. Vinsamlega hafið samband við embættið ef fyrirtækið hyggst sækja um AEO-vottun eða ef óskað er frekari upplýsinga.
Skilyrði AEO-vottunar
Þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að hljóta AEO-vottun eru útlistuð í reglugerð sem fylgir með tollalögunum. Í henni koma fram þau skilyrði sem skatturinn hefur til hliðsjónar við veitingu AEO-viðurkenningar. Þessi viðmið liggja til grundvallar þegar skatturinn ákveður hvort AEO umsókn sé samþykkt eða henni synjað.
Skilyrðum má skipta upp í fimm megin flokka. Þessir flokkar eru:
- Almenn skilyrði
- Fullnægjandi gjaldþol
- Fullnægjandi reglufylgni
- Fullnægjandi reikningshalds- og aðfangakerfi
- Fullnægjandi öryggiskröfur og vinnuferlar
Ávinningur af AEO
Fyrirtæki sem hlotið hafa AEO-vottun hjá skattinum njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. AEO fyrirtæki eru talin vera traustur og góður viðskiptavinur bæði innanlands og erlendis.
Ávinningur AEO vottaðra rekstraraðila felst einkum í auknu trausti tollyfirvalda á innra starfi þeirra og betri ímynd út á við. Beinn ávinningur birtist í breyttum áherslum við eftirlit sem leiða til þess að viðurkenndir rekstraraðilar munu sjaldnar falla undir reglubundið eftirlit. Gagnkvæmir viðurkenningarsamningar sem stefnt er að því að gera við helstu viðskiptalönd Íslands, munu þar að auki stuðla að vægari kröfum um upplýsingagjöf við útflutning.
Beinn ávinningur:
- Vægari kröfur um upplýsingagjöf
- Tilkynning um skoðun farms
- Færri endur- og tollskoðanir
- Forgangur ef um er að ræða skoðun
- Mögulegt val á skoðunarstað
AEO-vottun hefur einnig í för með sér óbeinan ávinning:
- Gæðamerki – traustur og góður viðskiptafélagi
- Fyrirtækið innleiðir bestu starfsvenjur á sviði öryggismála
- Aukin vitund um öryggismál og ferla
- Betri yfirsýn yfir reksturinn
- Aukið samstarf við skattinn og viðurkenning tollyfirvalda í öðrum ríkjum
Umsókn um AEO-vottun
Sjálfsmatsspurningalisti þarf að fylgja umsóknareyðublaðinu um AEO vottun. Umsóknin og spurningalistinn skulu berast til Skattsins, Katrínartúni 6.
Umsóknareyðublaðið
Á umsóknareyðublaðinu þurfa að koma fram helstu upplýsingar um fyrirtækið, rekstrarform, hlutverk í aðfangakeðjunni og almenn lýsing á starfseminni.
Umsækjandi um AEO-vottun hefur með umsókn sinni staðfest að allar upplýsingar sem gefnar eru í umsóknargögnum séu réttar.
Sækja umsóknareyðublað (pdf, Hægrismellið á tengilinn til að vista skjalið á disk og fyllið út með Adobe Reader)
Sjálfsmat fyrirtækja við umsókn
Útbúinn hefur verið sérstakur sjálfsmatslisti til að auðvelda fyrirtækjum sem sækja um AEO-vottun að ganga úr skugga um hvort þau uppfylli öll sett skilyrði. Nauðsynlegt er að umsækjendur fylli út sjálfsmatslistann sem skilað er inn með umsókninni. Sjálfsmatið leiðir í ljós hvort umsækjandi standist þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til viðurkenndra rekstraraðila eða hvort hann geti gert viðeigandi ráðstafanir til að uppfylla nauðsynleg skilyrði.
Sækja sjálfsmatslista (word skjal)
Sækja leiðbeiningar (word skjal)
Umsóknarferlið
Umsóknarferlið hefst þegar umsóknin, sjálfsmatslistinn og öll nauðsynleg fylgigögn hafa verið móttekin.
Listi yfir fyrirtæki sem hlotið hafa AEO vottun
Fyrirtæki | Kennitala | Ríki | Tegund | Útgáfudagur | Vottun númer | Staður |
---|---|---|---|---|---|---|
Miklatorg hf. | 541293-2809 | Ísland | AEOS | 2019-10-11 0:0 | ISAEOS5412932809 | Garðabær |
Eimskip Ísland ehf. | 421104-3520 | Ísland | AEOS | 26.9.2024 | ISAEOS4211043520 | Reykjavík |