Áætlun aðflutningsgjalda
Aðflutningsgjöld eru áætluð þegar aðflutningsskýrslu er ekki skilað innan tilskilins frests eða þegar einstakir liðir hennar eru ófullnægjandi.
Ef aðflutningsskýrslu er ekki skilað innan tilskilins frests
Í slíkum tilvikum getur Tollstjóri áætlað aðflutningsgjöld eða knúið innflytjanda til að skila aðflutningsskýrslu með stöðvun tollafgreiðslu.
Innflytjanda ber að senda rammaskeyti vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu eða afhenda aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl um aðflutta vöru áður en hún er tekin úr vörslu farmflytjanda, sett í tollvörugeymslu eða tekin úr tollvörugeymslu eða af frísvæði til ráðstöfunar innanlands.
Aðflutningsskjöl eða rammaskeyti vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu þarf þó að senda eigi síðar en 3 mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins.
Komi eftirfarandi í ljós, eftir að aðflutningsskýrslu hefur verið skilað hjá embættinu eða rammaskeyti sent vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu:
- Aðflutningsskýrsla eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru ófullnægjandi,
- Aðflutningsskýrsla eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru óglögg eða tortryggileg,
- Aðflutningsskýrsla eða einstakir liðir hennar eru skráð á ólögmætan hátt,
- Aðflutningsskýrsla er undirrituð á ófullnægjandi hátt eða
- Skatturinn telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði
Áður en til áætlunar kemur mun hann senda viðkomandi aðila bréf þar sem skorað er á hann að bæta úr því sem aflaga hefur farið, innan ákveðins tíma og láta í té skýringar og þau gögn sem embættið telur þörf á.
Fái Skatturinn fullnægjandi skýringar og gögn innan frests leggur hann toll og önnur gjöld á samkvæmt framlögðum aðflutningsskjölum og fengnum skýringum og gögnum.
Áætlun
Ef eitthvað af eftirtöldu á við, eftir að óskað hefur verið skýringa innflytjanda, mun Skatturinn áætla aðflutningsgjöld:
- eigi er bætt úr annmörkum á aðflutningsskýrslu,
- svar frá viðkomandi berst ekki innan tiltekins tíma,
- skýringar viðkomandi eru ófullnægjandi,
- eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir,
- send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg
Kæruheimild
Innflytjandi getur kært ákvörðun Skattsins um áætlun aðflutningsgjalda.