Skattskylda og skattprósentur

Skattskylda

Aðili sem í sjálfstæðri starfsemi sinni selur skattskyldar vörur eða þjónustu í atvinnuskyni hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

Aðilar sem eru með óverulegan rekstur, þ.e. sölu á vörum eða þjónustu undir 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili frá því rekstur hefst (fjárhæðin var 1.000.000 kr. til 1. janúar 2017), eru þó undanþegnir skráningarskyldu á virðisaukaskattskrá en mega þá jafnframt ekki gefa út reikninga með virðisaukaskatti.  Þeir sem tilgreina á einhvern hátt á reikningum sínum að virðisaukaskattur sé innifalinn þrátt fyrir að vera undanþegnir skulu skila skattinum í ríkissjóð.

Sala vöru og þjónustu í atvinnuskyni

Með orðalaginu „í atvinnuskyni“ er t.d. átt við aðila sem gerir það að atvinnu sinni að kaupa og selja notuð húsgögn, en aftur á móti telst það ekki vera skattskyld sala í atvinnuskyni ef maður selur öðrum gamla sófasettið sitt.

Með orðalaginu „í atvinnuskyni“ er fyrst og fremst átt við að starfsemi sé rekin í hagnaðarskyni og í nokkru umfangi. Þess er sem sagt krafist að tekjur af sölu á skattskyldum vörum eða þjónustu séu að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng til þeirrar starfsemi. Þessi skylda hvílir meðal annars einnig á samvinnufélögum og öðrum félögum, svo og á opinberum aðilum í ýmsum tilvikum.

Með skilyrðinu um sjálfstæði starfseminnar er átt við að viðkomandi sé atvinnurekandi, ekki launþegi.

Skattskyldir aðilar

 • Aðilar sem stunda viðskipti með skattskyldar vörur eða þjónustu í atvinnuskyni, þ.e.a.s. einstaklingar með sjálfstæðan rekstur og lögaðilar. Ekki skiptir máli í hvaða formi reksturinn er, þ.e. hvort um er að ræða hlutafélag, einkahlutafélag, samvinnufélag, einstaklingsfyrirtæki eða opinbert atvinnufyrirtæki.
 • Félög og stofnanir, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt eða öðrum sérstökum lögum, að því leyti sem þau selja skattskyldar vörur eða þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Um skattskyldu er að ræða jafnvel þótt þau selji aðeins félagsmönnum sínum eða selji eingöngu skattskyldar vörur eða þjónustu félagsmanna sinna.
 • Opinber orku- og veitufyrirtæki að því leyti sem þau selja skattskyldar vörur eða þjónustu. Sama á við um hafnir í eigu sveitarfélags sem hafa sérstaka hafnarstjórn. Einnig ríki, bæjar- og sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki, að því leyti sem þessir aðilar selja skattskyldar vörur eða þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
 • Uppboðshaldarar.
 • Umboðsmenn og aðrir sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi skattskyld viðskipti en hafa hvorki búsetu né skráða starfsstöð hér á landi. Í þessum tilvikum er fyrirsvarsmaðurinn skattskyldur, og þar með skráningarskyldur, fyrir hönd hins erlenda aðila og báðir ábyrgir fyrir greiðslu skattsins í ríkissjóð.
 • Aðilar sem undanþegnir eru virðisaukaskatti ef þeir framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila og aðrir þeir aðilar sem falla undir reglur um eigin not.

Vörur og verðmæti

Vöruhugtakið er mjög víðtækt og nær til allra vara og verðmæta nýrra eða notaðra. Nefna má eftirfarandi dæmi um vöru og verðmæti í skilningi laganna:

 • Rafmagn, varmi og önnur orka.
 • Peningaseðlar, mynt og frímerki þegar þeir hlutir eru seldir sem söfnunargripir.
 • Hlutabréf, skuldabréf, eyðublöð og aðrir slíkir hlutir þegar þeir eru látnir í té sem prentvarningur.
 • Jurtir og lifandi dýr.

Það sem ekki telst til vöru

Eftirfarandi telst ekki vara í skilningi laganna:

 • Fasteignir. Með fasteign er átt við afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum sem ólífrænum, og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Þar sem fasteign er ekki vara í skilningi virðisaukaskattslaga ber sala hennar ekki virðisaukaskatt. Á hinn bóginn er ýmis þjónusta tengd fasteign virðisaukaskattsskyld, s.s. þjónusta fasteignasala og byggingarstarfsemi.
 • Hlutabréf, skuldabréf og önnur slík viðskiptabréf, svo og mynt og frímerki, þegar um er að ræða greiðslumiðil en ekki söfnunargripi eða prentvarning. Fyrsta sala Seðlabanka Íslands á sérsleginni minningar- eða hátíðarmynt er þó undanþegin virðisaukaskatti.

Vinna og þjónusta

Skattskyldan nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er beinlínis undanþegin skattskyldu. Virðisaukaskattsskyld þjónusta tekur því yfir mjög vítt svið. Engin leið er að gera tæmandi grein fyrir skattskyldri þjónustu, en nefna má nokkur dæmi:

 • Vinna sem beint eða óbeint er innt af hendi við vörur, t.d. framleiðsla, úrvinnsla, útleiga, geymsla eða flutningur.
 • Vinna við hönnun, byggingu, lagnir, endurbætur o.s.frv. á byggingum og öðrum mannvirkjum.
 • Sérfræðiþjónusta, svo sem auglýsingaþjónusta (gerð, miðlun og ráðgjöf varðandi auglýsingar), arkitektaþjónusta, bókhaldsþjónusta, framtalsaðstoð og þjónusta löggiltra endurskoðenda, lögfræðiþjónusta, verk- og tæknifræðiþjónusta, viðskipta- og hagfræðiþjónusta og útgáfuþjónusta og ráðgjöf hvers konar.
 • Þjónusta fasteignasala og bílasala.
 • Vélaleiga og önnur lausafjárleiga.
 • Skemmtistarfsemi, svo sem dansleikjahald.
 • Ýmis almenn þjónusta, svo sem þjónusta hárskera og snyrtistofa og þjónusta veitinga- og matsöluhúsa.
 • Vöruflutningar.
 • Gistiþjónusta.
 • Óefnisleg verðmæti, s.s. höfundarréttur og einkaleyfi.

Undanþegin vinna og þjónusta

Eftirtalin þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti:

 • Heilbrigðisþjónusta
 • Félagsleg þjónusta
 • Þjónusta skóla og menntastofnana
 • Menningarstarfsemi
 • Íþróttastarfsemi
 • Almenningssamgöngur og sjúkraflutningar
 • Póstþjónusta
 • Fasteignaleiga
 • Vátryggingarstarfsemi
 • Banka- og lánastarfsemi
 • Happdrætti og getraunastarfsemi
 • Liststarfsemi
 • Útfararþjónusta og prestsþjónusta

Skattverð

Skattverð er það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af við sölu á skattskyldri vöru og þjónustu og miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Virðisaukaskattur er því viðbót við það verð (skattverð) sem seljandi setur upp fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu. Til skattverðs telst m.a. allur kostnaður sem innifalinn er í verði hins selda eða seljandi krefur kaupanda sérstaklega um, svo sem umbúðakostnaður og sendingarkostnaður, sölulaun, skilyrtur afsláttur og verðbætur sem til falla fram að afhendingu.

Skattskyld velta

Til skattskyldrar veltu á hverju uppgjörstímabili telst heildarskattverð allra vara og skattskyldrar þjónustu sem afhent hefur verið á tímabilinu. Til skattskyldrar veltu telst m.a.:

 • Öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta.
 • Sala vöru sem seljandi hefur látið í umsýslu- eða umboðssölu telst til skattskyldrar veltu seljandans.
 • Sala vöru frá umsýslu- eða umboðsmanni telst einnig til skattskyldrar veltu umsýslu- eða umboðsmannsins.
 • Skipti á vörum eða þjónustu.
 • Andvirði vöru sem fyrirtæki selur eða framleiðir og eigandi tekur út úr því til eigin nota. Það sama gildir ef fyrirtæki innir af hendi skattskylda þjónustu fyrir eiganda.
 • Andvirði vöru og þjónustu sem fyrirtækið notar fyrir starfsmenn (hlunnindi) eða til risnu, gjafa o.fl.

Skattprósentur

Skattþrepin í virðisaukaskatti eru tvö, þ.e. 24% og 11%. Í 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er kveðið á um að velta geti verið undanþegin virðisaukaskatti og beri því í raun 0% virðisaukaskatt.  Virðisaukaskatturinn reiknast ofan á skattverð þ.e. er síðastur lagður á, eftir að búið er leggja á álagningu og reikna með öllum öðrum kostnaði.  Sá skattur sem lagður er ofan á skattverð kallast útskattur.

Afreikningur virðisaukaskatts af heildarverði er 19,35% þegar um er að ræða sölu í 24% þrepi og  9,91% þegar um er að ræða sölu í 11% þrepi.

Vara og þjónusta sem ber 24% virðisaukaskatt

Almennt þrep í virðisaukaskatti er 24%. Það þýðir að öll sú vara og þjónusta sem skattskyld er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ber 24% virðisaukaskatt nema annað komi fram í lögunum.

Vara og þjónusta sem ber 11% virðisaukaskatt

Af eftirtalinni vöru og þjónustu skal innheimta 11% virðisaukaskatt:

 • Fólksflutningum sem ekki falla undir almenningssamgöngur.
 • Útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu.
 • Þjónustu ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga við milligöngu um sölu eða afhendingu á þjónustu sem ber 11% virðisaukaskatt.
 • Afnotagjöldum hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva.
 • Sölu tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
 • Sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka. Sama gildir um sölu á geisladiskum og öðrum sambærilegum miðlum með bókartexta sem og sölu á rafrænum útgáfum slíkra bóka.
 • Sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
 • Sölu á matvælum og öðrum vörum til manneldis sem skilgreindar eru í viðauka við lög um virðisaukaskatt, þ.m.t. sölu á áfengi.
 • Aðgangi að vegamannvirkjum, s.s. gjaldtöku vegna aðgangs að Hvalfjarðargöngum.
 • Sölu á geisladiskum, hljómplötum, segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum með tónlist en ekki mynd. Sama gildir um sölu á rafrænni útgáfu á tónlist án myndar.
 • Sölu á smokkum, margnota bleium og bleiufóðri.
 • Aðgangseyri að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum sem ekki falla undir undanþágu vegna íþróttastarfsemi.
 • Ferðaleiðsögn.

Vara og þjónusta sem telst undanþegin velta (0%)

Sala á ákveðinni vöru og þjónustu telst ekki til skattskyldrar veltu. Þannig reiknast ekki útskattur á alla sölu skattskyldra aðila. Til skattskyldrar veltu telst ekki:

 • Útflutningur vöru og þjónustu.
 • Vöruflutningar og fólksflutningar milli landa. Sama gildir um vöruflutninga innanlands sem eru hluti af samningi sem farmflytjandi hefur gert um flutning til eða frá útlöndum.
 • Þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa og vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands
 • Vinna við vöru á kostnað erlends aðila þegar fyrirtækið, sem annast vinnuna, flytur vöruna út að vinnu lokinni, svo og gerð og mótun vöru á kostnað erlends aðila þegar framleiða á vöruna erlendis.
 • Hönnun, skipulagning, áætlanagerð og önnur sambærileg vinna er varðar byggingar og aðrar fasteignir á erlendri grund.
 • Vistir, eldsneyti, tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum og þjónusta sem veitt er slíkum förum. Þessi undanþága á hvorki við um fiskiskip, t.d. þegar þau sigla með eigin afla, né skemmtibáta og einkaloftför, heldur aðeins för sem notuð eru í eiginlegri flutningastarfsemi.
 • Sala og útleiga loftfara og skipa. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta og einkaloftfara.
 • Skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta og einkaloftfara.
 • Samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu.
 • Þjónusta sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi.
 • Þjónusta sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.
 • Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Skattskyld þjónusta, sem veitt er í tengslum við menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi sem fram fer hér á landi og er undanþegin skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr. laganna, telst ávallt nýtt hér. Jafnframt er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. vskl. Eftirtalin þjónusta fellur hér undir:
 1. Framsal á höfundarrétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda.
 2. Auglýsingaþjónusta.
 3. Ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi.
 4. Tölvuþjónusta, önnur gagnavinnsla og upplýsingamiðlun.
 5. Kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í 10. tölulið 1. mgr. 12. gr. vskl.
 6. Atvinnumiðlun.
 7. Leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja.
 8. Þjónusta milligöngumanna sem fram koma í nafni annars og fyrir reikning annars að því er varðar sölu eða afhendingu þjónustu sem um ræðir í þessum tölulið.
 9. Fjarskiptaþjónusta.

Munurinn á undanþeginni starfsemi og undanþeginni veltu

Aðili sem stundar starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt  2.  gr. virðisaukaskattslaga er ekki skráður á virðisaukaskattsskrá nema hann sé þá einnig í virðisaukaskattsskyldri starfsemi.  Hann á því ekki rétt á að fá  endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem er á aðkeyptum aðföngum sem hann þarf til starfseminnar.  

Aðili sem selur vörur eða þjónustu sem telst til undanþeginnar veltu samkvæmt 12.  gr. virðisaukaskattslaga er aftur á móti skráður á virðisaukaskattsskrá og hefur því heimild til að telja til innskatts þann virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum vinnu og þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða starfsemi hans.

Til sönnunar því að sala sé undanþegin skattskyldri veltu skal seljandi varðveita útflutningsskýrslu eða önnur sambærileg gögn með viðkomandi sölureikningum. Sambærileg gögn eru t.d. kvittun ábyrgs starfsmanns skipafélags eða flugfélags fyrir afhendingu um borð í millilandafar eða kvittun fyrir móttöku póstsendingar til flutnings úr landi.

Dæmi um hvernig virðisaukaskattur reiknast á vöruverð

Ef verð vöru eða þjónustu, sem fellur undir 24% skattþrepið, er gefið upp með virðisaukaskatti er skatturinn 19,35% af því verði sem kaupandi greiðir. Hins vegar ef um er að ræða vöru eða þjónustu sem fellur undir 11% skattþrepið er skatturinn 9,91% af því verði sem kaupandi greiðir.

Dæmi 1 - Vara eða þjónusta í 24% skattþrepi
Verð án VSK. 1.000 kr. Verð með VSK. 1.240 kr.
Virðisaukaskattur 24% 240 kr. Virðisaukaskattur 19,35% 240 kr.
Verð með VSK. 1.240 kr. Verð án VSK. 1.000 kr.

 

Dæmi 2 - Vara eða þjónusta í 11% skattþrepi
Verð án VSK. 1.000 kr. Verð með VSK. 1.110 kr.
Virðisaukaskattur 11% 110 kr. Virðisaukaskattur 9,91% 110 kr.
Verð með VSK. 1.110 kr. Verð án VSK. 1.000 kr.

 

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skatthlutföll  – 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skattskyld eigin not – 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt  

Skattskyld eigin not – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skattskyld eigin not – reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana

Skattskyld velta  – IV. kafli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skattskyldir aðilar – 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skattverð  – III. kafli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþegin velta  – 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþegin vinna og þjónusta – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

 

Annað

Skattskyld velta - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 5

Skattskyld velta - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 23-25

Skattskyldir aðilar - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 8-9

Skattverð - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 20-22

Undanþegin vinna og þjónusta - Leiðbeiningar um virðisaukaskatt RSK, 11.19, bls. 6-7


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum