Um vánúmer

Vánúmer er virðisaukaskattsnúmer sem ríkisskattstjóri hefur úrskurðað af virðisaukaskattsskrá af eftirfarandi ástæðum:

  • Hafi skattaðili ekki orðið við ítrekaðri beiðni ríkisskattstjóra um að leggja fram gögn og upplýsinga um rekstur sinn.
  • Skattaðili hafi sætt áætlun virðisaukaskatts í tvö uppgjörstímabil eða fleiri eða er í vanskilum með álagðan virðisaukaskatt.
  • Skattaðili hafi sætt áætlun opinberra gjalda eða er í vanskilum með þau enda sé hann ekki með gilda greiðsluáætlun við innheimtumann ríkisjóðs vegna vanskila.

Seljandi vöru/þjónustu

Ríkisskattstjóra er heimilt að synja aðila sem hefur verið úrskurðaður af virðisaukaskattsskrá um skráningu að nýju ef:

  • Fyrir liggur að opinber gjöld hans séu áætluð eða í vanskilum á einhverju af síðustu þremur tekjuárum á undan því ári sem sótt er um skráningu á virðisaukaskattskrá, enda sé aðili ekki með gilda greiðsluáætlun við innheimtumann ríkissjóð vegna vanskila.
  • Hafi aðili ekki gert fullnægjandi skil á á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti.

Þó getur ríkisskattstjóri heimilað skráningu leggi skattaðili fram tryggingu fyrir endurákvörðuðum virðisaukaskatti, álagi, vöxtum og Innheimtukostnaði. Skal hún vera í formi skilyrðislausrar sjálfsskuldarábyrgðar banka.

Hafi skattaðili sem úrskurðaður var af virðisaukaskattsskrá verið skráður að nýju skal hann fara í sérstök mánaðarskil, þar sem hver almanaksmánuður er uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár. Gjalddagi þess skal vera 15 dögum eftir að uppgjörstímabili lýkur.

Geri hann fullnægjandi skil á þessu tímabili skal hann að því loknu standa skil á virðisaukaskatti samkvæmt almennum reglum.

Hvað þýðir afskráning fyrir kaupandann?

Innskattur

Skilyrði fyrir því að færa greiddan virðisaukaskatt sem innskatt er að seljandi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af reikningum sem gefnir eru út eftir að virðisaukaskattsnúmer seljanda er afskráð. Gildir það hvort heldur sem seljandi afskráði sig sjálfur eða ríkisskattstjóri úrskurðaði hann af skrá.

Endurgreiðslur

Skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts er að seljandi sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Óheimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt samkvæmt reikningum sem gefnir eru út eftir að virðisaukaskattsnúmer seljanda er afskráð. Gildir það hvort heldur sem seljandi afskráði sig sjálfur eða ríkisskattstjóri úrskurðaði hann af skrá.

Leiðrétting

Greiðandi, sem ekki hefur getað fært innskatt eða fengið endurgreiddan virðisaukaskatt samkvæmt reikningi frá seljanda með afskráð virðisaukaskattsnúmer, getur sótt um leiðréttingu eftir að vánúmer hefur verið endurskráð, enda sé seljandi skráður með afturvirkum hætti á því tímabili sem reikningur var gefinn út.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Úrskurðað af virðisaukaskattsskrá – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skráning að nýju - 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Áætlanir í virðisaukaskatti – 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Innskattur, skilyrði – 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Endurgreiðslur, skilyrði – 12. mgr. 42. gr. og 4. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum