Lokunarstyrkur - viðbótarlokunarstyrkur

Um lokunarstyrki og viðbótarlokunarstyrki gilda lög nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, og lög nr. 55/2020, um breytingu á fyrrnefndu lögunum.

Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. febrúar 2020 og var gert að stöðva starfsemina í sóttvarnarskyni gátu átt rétt á lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga gátu ekki sótt um lokunarstyrk.

Lokunarstyrkur/viðbótarlokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna rekstraraðila samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Lokunarstyrkir 1 og 2 - lokanir frá 24. mars 2020

Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020.

Framlengdur umsóknarfrestur

Skattinum var nýlega heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. júní 2021. Hafi rekstraraðili ekki sótt um innan almenns frests en telur sig geta átt rétt á lokunarstyrk vegna lokana í mars til maí 2020 er hægt að senda erindi til Skattsins þar um en slíkar umsóknir er ekki unnt að senda rafrænt. 

Viðbótarlokunarstyrkir áttu við um þá rekstraraðila sem gert var að stöðva starfsemi sína í sóttvarnarskyni lengur en til 4. maí 2020, þ.e. annars vegar sundlaugar sem máttu hefja starfsemi að nýju 18. maí 2020 og hins vegar skemmtistaði, krár, spilasali og líkamsræktarstöðvar sem máttu hefja starfsemi að nýju 25. maí 2020. Aðrir rekstraraðilar gátu ekki sótt um viðbótarlokunarstyrki.

Lokunarstyrkir frá og með 18. september 2020

Um þá lokunarstyrki sem samþykktir voru á Alþingi fimmtudaginn 5. nóvember með lögum 119/2020, gilda að mörgu leyti sömu skilyrði og um eldri lokunarstyrki en þó með töluverðum breytingum.

Breyting hefur verið gerð á reglum um upphaf styrkhæfrar starfsemi, lögin gilda nú um lokunartímabil eins og þau eru ákveðin frá og með 18. september en ekki fyrirfram tiltekin lokunartímabil og fleiri möguleikar eru nú á því hvernig tekjufall er reiknað.

Fjárhæð þessa lokunarstyrks miðast við rekstrarkostnað á hverju lokunartímabili en þó ekki hærri en 600.000 kr. á hvern launamann sem starfaði hjá launagreiðanda í upphafi sama tímabils fyrir hverja 30 daga lokun. Jafnframt eru settar skorður við heildarfjárhæð styrkja.

Nánari leiðbeiningar


Frumskilyrði

1. Umsækjandi þarf að bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi

Með ótakmarkaðri skattskyldu er átt við að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili sé skyldugur að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hér á landi, hvar sem þeirra er aflað. Nánari upplýsingar um ótakmarkaða skattskyldu er hægt að finna á vefsíðu Skattsins, vegna einstaklinga og vegna lögaðila.

Þetta skilyrði þýðir að óskattskyldir aðilar, eins og t.d. íþróttafélög, líknarfélög o.fl. eiga ekki rétt á lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk.

2. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi

Þeir einir geta sótt um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Með því er átt við starfsemi aðila sem greiðir laun samkvæmt staðgreiðslulögum, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Nánari upplýsingar um launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsskrá er hægt að nálgast á vef Skattsins.

Nánari skilyrði fyrir lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk

Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk úr ríkissjóði samkvæmt umsókn þar um.

Skilyrði nr. 1 – Skylt að stöðva starfsemi

Skilyrði er að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað skv. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, eða láta af starfsemi eða þjónustu skv. 2. mgr. sömu greinar á grundvelli sóttvarnalaga. Auglýsing þessi var birt í Stjórnartíðindum 23. mars 2020.

Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum var gert að loka á gildistíma auglýsingarinnar.

Þá var óheimilt að stunda starfsemi og þjónustu sem krafðist/hætt var við snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta átti einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði gat haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.

Sundlaugum, skemmtistöðum, krám, spilasölum og líkamsræktarstöðvum var gert að hafa lokað lengur en öðrum rekstraraðilum, þ.e. annars vegar til 18. maí og hins vegar 25. maí, sbr.  auglýsingu nr. 360/2020, auglýsingu nr. 445/2020 og auglýsingu nr. 470/2020 sem birtar voru í Stjórnartíðindum. Þeir rekstaraðilar sem hafa með höndum þessa greindu starfsemi geta sótt um viðbótarlokunarstyrki en aðrir ekki.

Skilyrði nr. 2 – Tekjufall

Skilyrði er að tekjur rekstraraðila hafi verið a.m.k. 75% lægri í apríl 2020 en í apríl 2019. Ef um er að ræða rekstraraðila sem hóf starfsemi eftir 1. apríl 2019 verða tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020, þ.e. heildartekjur á tímabilinu/dagafjöldi á tímabilinu x 30.

Með tekjum í þessu sambandi er átt við allar skattskyldar tekjur í rekstrinum að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.

Dæmi:

Rekstraraðili hóf starfsemi 1. júní 2019. Í þessu dæmi er rekstrartímabilið því samtals 274 dagar. Heildartekjur frá upphafi rekstrar til loka febrúar 2020 voru 10.000.000 kr.

(Heildartekjur/dagafjölda)x30 er þá jafnt og (10.000.000 kr./274)x30 = 1.094.891 kr.

Til þess að uppfylla skilyrði um tekjufall mætti þessi rekstraraðili ekki hafa haft hærri tekjur í apríl 2020 en 273.723 kr. (25% af 1.094.891 kr.). Tekjufall er þá a.m.k. 75%.

Skilyrði nr. 3 – Tekjur á rekstrarárinu 2019

Skilyrði er að tekjur rekstraraðila á rekstrarárinu 2019 hafi numið a.m.k. 4,2 millj. kr. Með tekjum í þessu sambandi er átt við allar skattskyldar tekjur í rekstrinum að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.

Ef rekstraraðili hóf starfsemi sína eftir 1. janúar 2019 eru tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 umreiknaðar miðað við ársgrundvöll.

Dæmi:

Rekstraraðili hóf starfsemi 1. maí 2019 og tekjur hans á tímabilinu þar frá til loka febrúar 2020 námu 10.000.000 kr., eða sem nemur 1.000.000 kr. á mánuði. Umreiknað miðað við ársgrundvöll námu tekjurnar því 12.000.000 kr.

Nánari upplýsingar um tekjur rekstraraðila er hægt að sjá í leiðbeiningum með rekstrarframtali á vef Skattsins (bls. 14-15 og 23-24).

Rekstraraðili sem hefur meira en eina tegund starfsemi með höndum og þurfti að loka eða stöðva hluta starfsemi sinnar en ekki allri getur átt rétt á lokunarstyrk, og eftir atvikum viðbótarlokunarstyrk, enda sé öðrum skilyrðum laganna fullnægt.

Skilyrði nr. 4 – Ekki í vanskilum með opinber gjöld og gögnum skilað

Skilyrði er að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019. Það telst til vanskila í þessu sambandi ef gjöld og skattar sem greiða átti á árinu 2019 voru ógreidd í lok árs þótt gerð hafi verið greiðsluáætlun eða samningur um greiðslu eftir þann tíma.

Þá verður rekstraraðili að hafa staðið skil á skattframtali og öðrum skýrslum og gögnum á tilskildum tíma síðastliðin þrjú ár áður en umsókn um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk barst eða síðan starfsemi hófst, sem og ársreikningum eftir því sem við á og upplýst um raunverulega eigendur félags. Álagðir skattar og gjöld mega því ekki hafa byggt á áætlunum, þ.m.t. staðgreiðsla og virðisaukaskattur á árinu 2020.

Þessi skilyrði þýða að umsækjandi skuli hafa skilað öllu sem bar að skila lögum samkvæmt síðustu þrjú ár fyrir umsóknardag. Það þýðir m.a. að einstaklingar í rekstri skuli hafa skilað skattframtali 2018, 2019 og 2020, nema reksturinn hafi staðið skemur, en lögaðilar eftir atvikum 2017, 2018 og 2019 því lokafrestur þeirra til að skila rennur ekki út fyrr en í byrjun október.

Umsækjandi getur bætt úr þeim annmörkum sem fyrir eru með því að greiða upp umrædd vanskil í árslok 2019 og/eða skila inn gögnum og sækja síðan um.

Skilyrði nr. 5 – Ekki gjaldþrotaskipti eða slit

Skilyrði er að rekstraraðili hafi ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Fjárhæð lokunarstyrks - viðbótarlokunarstyrks

Fjárhæð lokunarstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 24. mars til og með 3. maí 2020, þó aldrei hærri en 800.000 kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, og að hámarki 2,4 milljónir kr. á hvern rekstraraðila.

Fjárhæð viðbótarlokunarstyrks hjá sundlaugum skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 4. maí til og með 17. maí 2020, þó aldrei hærri en 270 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 810 þús. kr. á hvern rekstraraðila.

Fjárhæð viðbótarlokunarstyrks hjá skemmtistöðum, krám, spilasölum og líkamsræktarstöðvum skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 4. maí til og með 24. maí 2020, þó aldrei hærri en 400 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 1,2 millj. kr. á hvern rekstraraðila.

1. Launamaður

Launamaður er sá sem fær laun fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda eða maður sem skal reikna sér endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.m.t. starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum eða á vegum lögaðila eins og t.d. einkahlutafélaga. Maki rekstraraðila eða barn hans teljast einnig launamenn í þessu sambandi ef þau inna af hendi starf við atvinnureksturinn eða starfsemina.

Við ákvörðun á lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk verður miðað við fjölda launamanna hjá viðkomandi rekstraraðila í febrúar 2020 samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum.

2. Rekstrarkostnaður

Við ákvörðun á lokunarstyrk er tekið mið af rekstrarkostnaði hvers umsækjanda fyrir sig á tímabilinu 24. mars til og með 3. maí 2020 að teknu tilliti til fjölda launamanna og miðað við ákveðið hámark. Við ákvörðun á viðbótarlokunarstyrk er tekið mið af tímabilinu 4. maí til og með 17. maí 2020, eða 4. maí til og með 24. maí 2020.

Rekstrarkostnaður í þessu sambandi eru samkvæmt almennri skilgreiningu um hvað telst til slíks kostnaðar en þó ekki fyrningar eða niðurfærsla eigna.

Samkvæmt tekjuskattslögum er rekstrarkostnaður: þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við, þar á meðal iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna í lífeyrissjóði sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vexti af skuldum, afföll, gengistöp, niðurfærslu og fyrningu eigna, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum, og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum.

Til rekstrarkostnaðar telst enn fremur það endurgjald sem manni ber að reikna sér fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem telja ber til tekna skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. Eigi skiptir máli hvort endurgjaldið hefur verið greitt. Hafi það verið greitt skiptir heldur ekki máli hvort það hefur verið greitt í reiðufé, fært á einkareikning, greitt í fríðu eða í hlunnindum eða með vinnuskiptum.

Nánari upplýsingar um rekstrarkostnað (gjöld) rekstraraðila er hægt að sjá í leiðbeiningum með rekstrarframtali á vef Skattsins (bls. 16-21).

Vakin er athygli á því að ef umsækjandi hefur fengið/fær opinbera aðstoð sem telst til minniháttaraðstoðar (de minimis regla) í skilningi EES-reglugerðar nr. 1407/2013 getur það haft áhrif á styrkfjárhæð. Fjárhæð ríkisaðstoðar má ekki fara yfir 200 þúsund evrur á þriggja ára tímabili. Sem dæmi um slíka opinbera aðstoð má nefna fyrirtækja- eða frumherjastyrki frá Rannís, sýningarstyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, flutningsjöfnunarstyrki frá Byggðastofnun, styrki í tengslum við sóknaráætlanir landshluta og styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Umsókn

Umsókn um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk er rafræn í gegnum skattur.is. Ef umsækjandi um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. 

Sjá nánari leiðbeiningar

Framlengdur umsóknarfrestur

Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020. 
Skattinum var nýlega heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. júní 2021. Hafi rekstraraðili ekki sótt um innan almenns frests en telur sig geta átt rétt á lokunarstyrk vegna lokana í mars til maí 2020 er hægt að senda erindi til Skattsins þar um en slíkar umsóknir er ekki unnt að senda rafrænt. 

Ferli umsóknar

Samkvæmt lögunum hefur Skatturinn tvo mánuði til að afgreiða umsókn eftir að hún berst þannig að afgreiðsla getur tafist, m.a. ef umsókn er ekki fullnægjandi.

Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði fyrir lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar, þ.e. um rekstrarkostnað, tekjur og fjölda launamanna, séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til lokunarstyrks/viðbótarlokunarstyrks.

Endurákvörðun lokunarstyrks/viðbótarlokunarstyrks

Gert er ráð fyrir því að Skatturinn endurákvarði lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk komi í ljósi að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en hann fékk greiddan. Um þetta gilda, auk þess sem fram kemur í lögunum um lokunarstyrki, ákvæði tekjuskattslaga eftir því sem við á.

Ofgreiðsla

Komi í ljós að aðili hafi fengið lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum frá greiðsludegi. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.

Álag og refsingar

Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn.

Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.

Kæruréttur

Unnt er að kæra niðurstöðu Skattsins um lokunarstyrk/viðbótarlokunarstyrk til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Lög um breytingu á lögum um fjárstuðning minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Stjórnartíðindi - Auglýsing 243 um takmörkum á samkomum vegna farsóttar

Lög 30/1992 um yfirskattanefnd

Ótakmörkuð skattskylda einstaklinga

Ótakmörkuð skattskylda lögaðila

Upplýsingar um launagreiðendaskrá

Upplýsingar um virðisaukaskattsskrá

Leiðbeiningar

Leiðbeiningar með rekstrarframtali rekstraraðila

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum